Monthly Archives: maí 2005

Uppskrift: Pizza margarita

(si, alla casa)

Undanfarið hef ég verið að reyna að mastera pizzugerðarlistina. Við höfum reyndar gert góðar pizzur, t.d. pestópizzurna hennar Rakelar, rucolapizzu etc. Mesta áskorunin er þó að geta búið til góða ostapizzu að ítölskum sið.

Ég held það sé að koma.

Í fyrsta lagi: grilla pizzuna ! þannig fæst rétt mátulegur brunakeimur eins og um eldbakaðan ofn væri að ræða og einhvern vegin heldur ferskleikinn sér betur ef bökunin á sér stað undir berum himni en í venjulegum ofni.

Í öðru lagi: búa til eigin tómatsósu ! Þá er að kaupa þroskaða tómata, skera í fernt og sjóða í 15 mínútur á pönnu ásamt lauk sem líka hefur verið skorinn í tvennt (laukurinn gefur tón en er ekki notaður sjálfur). Síðan eru tómatarnir settir í svona tómatavindu sem ég keypti á Ítalíu og safinn kreystur úr þeim á meðan að hýði og fræ sitja eftir (hér verður að finna alternatífa aðferð sé græjan ekki til staðar)

Í þriðja lagi: ferskur mozzarella !

Það er best að fletja deigið vel út svo að grilltíminn verði ekki of langur því þá er hætta á að botninn verði svartur. Setja svo deigið á grillið, sósunni ausið á (ef hún er sett á fyrst er hætta á sulli þegar pizzan er sett á grillið nema viðkomandi eigi pizzuspaða…), osturinn lagður yfir og saltað hressilega með góðu sjávarsalti, jafnvel piprað. Þegar pizzan er að vera tilbúin er fersk basílika rifin yfir (jafnvel sett alveg eftirá). Það er gott að hafa kanta á pizzunni svo sósan leki ekki út fyrir, annars getur allt farið í bál og brand. Svo er það ólífuolía yfir allt saman eins og Rietine sem fæst í Kokku, já já.

… er í þróun en færist nær…

Færðu inn athugasemd

Filed under matur, uppskrift