Ítalíuheimsókn – Dagur V

Toskana – Castello Di Querceto

Við höfðum komið fyrir nokkrum árum til Castello di Querceto og mundi ég því nokkurn veginn hvar hann var staðsettur, efst í hlíðunum austur af bænum Greve, umkringdur vínekrum og skóglendi. Nokkrum kílómetrum sunnar er Monte del Chianti, hæsti tindur Chianti Classico svæðisins í 950m hæð.

Í kastalanum búa eigendurnir Alessandro og Antonietta. Þau bera með sér öryggi og yfirvegun þeirra sem eiga ættir sínar að rekja meðal heldra fólks aftur í aldir en umfram allt óþvinguð, gestrisin og hlýleg. Þau voru eins og gamlir vinir þegar við kvöddum daginn eftir.

Þegar við komum ríkti sorg á bænum – refur hafði étið tvo kvenkyns páfugla og karlarnir tveir reikuðu vælandi kringum kastalann. Þessir tignarlegu fuglar pössuðu vel við umhverfið.

Hápunktur heimsóknarinnar, hugsanlega allrar ferðarinnar, var hádegisverður í kastalanum með hjónunum, uppkomnum börnum og mökum og tvennum öðrum hjónum sem eru góðvinir fjölskyldunar. Innan í litlum en heillandi kastalanum fengum við antipasti (crostini ýmis konar og ólífur) ásamt freyðivíni hússins áður en okkur var vísað til borðs. Félagsskapurinn var svo góður og notalegur að manni leið vel þrátt fyrir að hafa engan þeirra hitt áður. Maturinn var síðan framreiddur; aspasmús í forrétt, lasagna, villisvín, tiramisú og heimalagað konfekt með kaffinu. Tvær stúlkur starfa í eldhúsinu og maturinn var frábær. Með þessu voru drukkin einnarekrustórvínin Il Picchio Riserva, Il Querciolaia og Il Sole di Alessandro. Þau heilluðu mig upp úr skónum og get ég ekki beðið eftir að flytja þau inn. Í lokin komu Vin Santo, Brandy og tvær tegundir af grappa. Mér hefur sjaldan liðið eins vel í eins góðum félagsskap í eins fallegu umhverfi.

Síðan var rölt um kastalanna, vínekrur og víngerð – rætt og rabbað.

En veislan var ekki á enda. Skundað var á veitingastað í nágrenninu um kvöldið, borðað pasta og kjöt og eftirréttur. Ég náði ekki að klára neinn réttanna þrátt fyrir góðan vilja enda maginn ennþá að vinna á hádegisverðinum. Þar voru drukkin m.a. stórvínin La Corte og Cignale. Alessandro sagði okkur yfir matnum hvernig hann var uppgötvaður á veitingastað í Mílanó af amerískum heildsala sem keypti síðan upp alla framleiðslu kastalans.

Grái Benzinn hans Alessandro held ég að hafi ratað sjálfur til baka þessa 5km aftur til kastalans þar sem eftirminnilegum degi var lokið í eldhúsinu með tári af grappa og Brandy. Síðan var það beint í bólið í einu af fjölmörgum húsakynnum kastalans sem leigð eru til ferðamanna (agriturismo).

Mér fannst merkilegt hvernig karakter hjónanna endurspeglaðist í eftirminnilegum vínunum; aðgengileg en flókin, bragðmikil en silkimjúk, fáguð og í einstaklega góðu jafnvægi – framleidd af metnaði, virðingu og ástríðu.

Daginn eftir var svo ríkulegur hádegisverður í eldhúsi kastalans og sterkur espresso áður en við skunduðum af stað til að hitta Luciano Sandrone í Piemonte með viðkomu í súkkulaðiparadís Amedei.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, ferðalög, veitingastaðir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s