Monthly Archives: janúar 2006

Þrjár þrúgur úr þokunni — Nebbiolo

Hvert land hefur sitt Bordeaux eða Búrgúnd. Á Ítalíu eru það Toscana og Piemonte. Í Toscana er Sangiovese konungur en í Piemonte eru þrjár rauðvínsþrúgur sem deila með sér yfirráðum; Nebbiolo, Barbera og Dolcetto.

Nebbiolo heitir í höfuðið á „nebbia“ (ísl. þoka), þokunni sem umlykur vínekrurnar á uppskerutímanum. Þrúgan hefur þykk skinn og gerir tannísk vín. Hún er óumdeilanlega mikilvægasta þrúga Piemonte héraðsins og sú er hefur borið hróður þess víðast. Frægustu Nebbiolovínin eru kennd við tvö þorp, Barolo og Barbaresco. 

Barolo er kröftugra vínið þótt erfitt sé að alhæfa. Það þarf að þroskast í þrjú ár, þar af  24 mánuði í viðartunnum og hafa a.m.k. 13% alkóhól en Barbaresco í tvö ár, þar af 12 mánuði í viðartunnum og hafa a.m.k. 12.5% alkóhól. Um 1100 framleiðendur framleiða um 11 milljónir flaska samanlagt af Barolo og Barbaresco ( rúmlega 2/3 Barolo) af 1750 hekturum vínviðar. Bæði í Barolo og Barbaresco togast nýji og gamli tíminn á.  Einn munurinn er sá að gamaldagsvínin eru þroskuð í stórum slóvenskum eikartunnum en þau af nýja skólanum í frönskum eikartunnum, jafnvel amerískum. Flestir framleiðendur eru staðsettir einhvers staðar þarna og milli en hvort sem þeir eru, framsæknir eða íhaldssamir, er almennt fullyrt að vínin eru betri í dag en áður en jafnframt aðgengilegri. Það sem er einstakt við Barolo og Barbaresco er að þau er almennt nefnd eftir þeim vínekrum sem þau koma frá, þannig getur Barolo vín heitið Barolo Cannubi, Barolo Cannubi Boschis, Barolo Brunate, Barolo Cerequio o.s.frv. eftir því hver vínekran er. Það er ekki algilt þó því sum vínin eru blönduð af ýmsum vínekrum. Vínekrunafngiftin gerir vínunnandanum hins vegar kleyft að staðsetja vínið af mikilli nákvæmni. Hver vínekra hefur sína eiginleika. Barolo og Barbaresco eru þau rauðvín Ítalíu sem geta borið lengstan aldur. Þau eru ilmrík og minna m.a. á trufflur eða aðra villta sveppi, rósir, tjöru og lakkrís. Þau dekkstu hafa oft svarbláan lit en annars eru Barolo vín fremur ljós, dálítið eins og Búrgúndarvín, og verða fljótt rauðbrún. Það er mikilvægt að mínu mati að þessi vín fái aldrei of mikla eikarmeðferð (t.d. í nýrri amerískri eik) því hún truflar einstakan ilm þrúgunnar — nóg er til af öðrum eikarboltum. Við flytjum inn þrjú vín úr Nebbiolo þrúgunni, öll frá Luciano Sandrone. Barolo Cannubi Boschis kemur frá Cannubi Boschis vínekrunni og er eitt eftirsóttasta og virtasta Barolo sem til er. Barolo Le Vigne er blanda af ólíkum vínekrum. Nebbiolo d’Alba er kennt við bæinn Alba og ólíkt þeim Barolo og Barbaresco heitir jafnframt í höfuðið á sjálfri þrúgunni. Innan skammst flytjum við svo inn annan framleiðanda af svæðinu, La Spinetta, og hefur sá sérhæft sig í framleiðslu Barbarescovína þótt hann geri líka eitt Barolo.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, þrúgur, fræðsla