Monthly Archives: febrúar 2006

Bíódýnamísk víngerð

Þótt bíódýnamísk víngerð sé það nýjasta og heitasta í náttúrulegasta geiranum þá á hugtakið sér í raun mun lengri sögu, lengri en t.d. hugtakið „lífrænt“. Hægt er að fá útskýringar á fyrirbærinu á vefsíðum Wineanorak, Wikipedia og Biodynamics eða í þessari grein úr N.Y. Times.

Færðu inn athugasemd

Filed under bíódínamík, fræðsla, lífrænt, víngerð

Valgeir segir: Við sem fljúgum

Valgeir er sérstakur vinur og, að því er sumir segja, velgjörðarmaður Víns og matar. Hér hefur hann orðið.

Heiðraði lesandi! Á tíðum ferðum mínum um heiminn í seinni tíð virðist ég hafa haft tilhneigingu til að reka nefið inn á ýmiss konar heimsborgaralegum stöðum. Þar sem við sátum, nýbúin að skola niður humri með flösku af Grande Dame 1995 á A la Duchesse Anne í St. Malo síðasta haust fóru Arnar og Rakel þess á leit við mig að ég myndi náðarsamlegast deila víðtækri reynslu minni með ykkur, hinum hundtryggu lesendum Víns og matar.

Segir þá af nýlegri ferð minni á Locanda Locatelli, veitingahús hins geðþekka glæsimennis Giorgios Locatelli í London, sem breskir gagnrýnendur hafa ekki haldið vatni yfir, hvað þá öðru, frá því hann opnaði fyrir nokkrum mánuðum á jarðhæðinni við Churchill hótelið þar sem vinur minn Ingólfur Guðbrandsson gistir yfirleitt þegar hann á leið um London. Geisp.

Hvar var ég? Já, alveg rétt. Við Sólmundur appelsínugreifi lentum tiltölulega seint í London og fengum borð ennþá seinna, enda einungis pantað með fjögurra daga fyrirvara. Borðið var það seint að ég neyddist til að drekka tvo mjög stóra, mjög kalda og mjög þurra martini á Churchill vindlabarnum við hliðina á meðan við biðum. Bragðlaukarnir voru því dauðhreinsaðir og í miklu stuði þegar hin stimamjúka þjónustustúlka vísaði okkur loks til borðs við hliðina á mæðginum sem voru greinilega að halda upp á vel heppnaða botoxmeðferð móðurinnar. Sonurinn sem var í mesta lagi um tvítugt var orðinn verulega slompaður og virtist hafa tiltölulega lítinn áhuga á að hlusta það sem móðir hans hafði til málanna að leggja.

Ég get sagt ykkur í trúnaði að ég hafði nokkra samúð með hans málstað.

Af matnum er það hins vegar að segja að í forrétt fékk ég carpaccio di manzo e parmigiano. Það var ágætt en ég verð að segja að carpaccioið á Primavera er betra. Kannski er það sveitamennska af minni hálfu, eða í mesta lagi hundtryggð við það veitingahús Reykjavíkur þar sem ég eyddi bestu árum ævi minnar. En þetta fannst mér nú samt. Í aðalrétt fékk ég svo lambshnakka með polentu í chiantisósu. Með þessu drukkum við flösku af “25 anni” frá Arnaldo Caprai sem kostaði 115 pund, talsvert meira en á Primavera.

Það var mikið skúespil á vínþjóninum þegar flaskan sú kom, það skal ég segja ykkur, kæru lesendur.

Seinni flaskan var valin af Heiðari. Hann er heimamaður í Lundúnum og víðförull heimsmaður af Guðs náð. Hvað það var þá, veit – eða að minnsta kosti man – nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Hins vegar man ég að hann sagðist hafa drukkið þetta á gullnu ströndinni síðasta sumar í góðum félagsskap markgreifa, vísigreifa og ráðherrafrúa, rétt áður en hann fór á Feneyjarbíennalinn til að fylla upp í síðustu holurnar í nútímalistasafni sínu.

Kæru lesendur, ég veit þið trúið mér ekki þegar ég segi ykkur: ég neitaði mér um eftirrétt. Hins vegar vildi svo til að ég hafði af eðlisávísun birgt mig upp af kúbuvindlum meðan á biðinni á Churchill stóð, en stimamjúk þjónustustúlkan kom askvaðandi og bannaði allar íkveikjur á staðnum og fyrirgerði þannig öllum þjónustugjaldsréttindum.

Við firrtumst nokkuð við og fórum út þar sem Moazzam beið með bílinn. Eftir þetta var kvöldið frekar í móðu.

Færðu inn athugasemd

Filed under london, veitingastaðir