Monthly Archives: júní 2006

Spilagaldrar á Llar de Foc

Jæja, þá erum við komin úr fríi. Skruppum til Salou sem er strandbær 100 km. suður af Barcelona. Stórfjölskyldan fór öll sömul; mamma, systur mínar tvær, menn og börn og nokkrir góðir meðlimir til viðbótar.

Salou er dæmigerður ferðamannastrandbær og almennt lítið spennandi hvað varðar matargerð en þó fundum við marga fína staði. Sérstaklega mæli ég með fiskistöðunum við ströndina þar sem hægt er að fá skelfisk af ýmsu tagi, smokkfisk, sardínur og fleira. Svo var einn all góður á hótelinu okkar Occidental Blau Mar sem var ekki í boði hjá Terranova heldur leigðum við það sjálf og reyndist það prýðisgott, eina hótelið á aðalsvæðinu sem er alveg við ströndina.

Besti veitingastaðurinn var La Llar de Foc á Via Roma (hliðargata af „Laugaveginum“) sem var sá eini með góðan vínlista. Vínlistinn var reyndar frábær. Fyrst röltum við þarna við án þess að borða en keyptum flösku af Mauro 1998 og drukkum úti á svölum uppi á herbergi. Mjög gott vín úr Tempranillo þrúgunni að mestu.

Nokkrum dögum síðar fórum við þangað til að borða og drekka.  Þá kíktum við niður í vínkjallarann þar sem stoltur eigandinn sýndi okkur einhver fágætustu vín Spánar. Þarna voru 100 ára gamlar gersemar m.a. í bland við fjölda árganga af rómaðasta víni landsins, Vega Sicilia. Hégómi undirritaðs fékk svo sitt nauðsynlega kitl þegar hann benti á vínin okkar frá Artadi og kallaði þau bestu vínin í Rioja. Ég stillti mig samt og lét vera að lýsa því yfir að ég flytti þau til Íslands enda eiginkonurnar farnar að senda okkur sms um að forréttirnir væru farnir að kólna. Ég bað um að fá flösku af Numanthia frá Toro vínhéraðinu (uppáhaldsvín Roberts Parker og fleiri) en hann vildi ekki láta okkur hafa hana því honum fannst vínið of ungt. Við völdum þá magnum flösku af Clos Mogador 1995 sem kemur frá Priorat vínhéraðinu u.þ.b. 30 kílómetra vestur af Salou. Ilmurinn af víninu var eftirminnilegur með áberandi steinefnum og vínið allt hið besta.

Matur var góður, steikurnar í sérflokki. Ég fékk mér entrecote af uxa (þ.e.a.s ekki ungnauti) „rare“ sem var dekksta og bragðmesta nautakjöt sem ég hef smakkað. Það var ofsalega mjúkt og gott þótt ég verði að viðurkenna að svona þroskað nautakjöti er svona alveg um það bil við það að fara út af sporinu. Almenn ánægja ríkti við borðið um gæði matarins og feykilega góðir spilagaldrar eigandans vöktu mikla lukku. Í lokin var drukkið styrkt vín Pedro Ximénez frá Malaga sem er ólíkt sérrí (jerez) fyrir það hversu sætt það er. Það var feitt og sætt með áberandi sveskju. Ég keypti flösku til að taka með til landsins. Við tókum hana upp í gær og fengum vægt sykursjokk, stakk henni inn í ísskáp og ætla að prófa hana kælda næst.

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, ferðalög, hótel, rioja, spánn, veitingastaðir

Please, please, please…

Jancis Robinson kvartar yfir plastöppum í þessari grein á vefsíðu sinni.

Hún skilur ekki af hverju framleiðendur nota þessa tappa því þeir varðveita vínið ekki vel og það er erfitt að ná þeim úr flöskunni. Skrúftappinn er lógískari finnst henni en hann er víða ekki orðinn nógu vel meðtekinn fyrir utan á Nýja Sjálandi og Ástralíu. Bretar eru fljótastir Evrópuþjóða að taka við honum.

Færðu inn athugasemd

Filed under jancis robinson, vangaveltur, víngerð

Bordeaux en primeur

Ekki gengur nógu vel að finna 2005 Bordeaux en primeur, eða futures eins og það kallast á ensku. 2005 árgangur er einhver mest „hæpaði“ árgangur í sögunni og nú eru verið að selja vínin fyrirfram. Ég hef ekki fundið ásættanleg verð.

Stóru slotin eru að skríða á markaðinn núna, t.d. bauðst mér Chateau Palmer 2005 á 150E og á vínið þá eftir að fara í gegnum íslenska skattaorgíu við komuna til landins sem yrði eftir tvö og hálft ár u.þ.b. Ég ætla að halda áfram að leita, best að hringja í einhverja tengiliði í Bordeaux.

Það er nefnilega ekki hægt að kaupa beint af Bordeaux framleiðendum heldur láta þeir vín sín í hendur umboðsmanna (sem leggja á) sem selja til negocianta (sem leggja á) sem loks geta selt mér (sem leggur á) sem þarf að lokum að selja í gegnum átvr (sem leggur á 19%) með vsk (24.5%).

Parker gagnrýnir frægu slotin, eins og fram kemur í þessari grein hjá Decanter, að draga lappirnar í því að koma þessum future-um á markað (vaninn er að gera það nokkuð fyrr) því með þeim hætti eru þau að hámarka verðin fyrir vínin sín sem voru á okurverði fyrir og misnota þá miklu eftirspurn sem hvílir á þessum 2005 árgangi. Hugsanlega verða þá 2005 future-in ekkert svo góð kaup eftir allt og alveg eins gott að kaupa vínin þegar þau koma sjálf á markaðinn eftir rúm tvö ár.

Það verður tíminn líklega að leiða í ljós.

Færðu inn athugasemd

Filed under bordeaux, decanter, vangaveltur

Sagði Cliff Richard f-orðið við Ramsay?

Þessi fannst mér dálítið fyndin, en kvikindisleg. Ofurkokkurinn og fyrrverandi fótboltamarkvörðurinn Gordon Ramsay plataði Cliff Richard í sjónvarpsþætti til að lýsa hans eigin víni sem nánast ódrekkandi eftir blindsmakk.

Færðu inn athugasemd

Filed under furðufrétt, gordon ramsay

Vitiano 2004 — Polkagott rauðvín

Smelltu á þennan hlekk til að þessa að hlusta á, já hlusta, hvað þeir hjá Winexperience segja um Vitiano 2004 sem þeir völdu WOW – Wine Of the Week – í síðustu viku – dálítið fyndið.

Ég heiti Arnar Bjarnason, ég er hrifnæmur maður. 

Stundum finnst mér eitthvað vín svo gott að ég verð æstur og finnst eins og það sé ekki til nógu magnað lýsingarorð til að ná yfir upplifunina. Næst væri að bresta í söng en ég get aldrei lært neina texta utanað. Kannski næ ég í harmónikkuna sem Rakel gaf mér í jólagjöf næst þegar mér verður orðavant yfir ágæti víns, og spila polka.

Vitiano rauðvínið frá Falesco er eitt af þessum vínum sem mér finnst svona polkagott. Verðið er líka bara grín, 1.390 kr. Þetta var eitt af kjarnavínum okkar en féll þaðan út fyrir jól. Restarnar fást reyndar ennþá í hinum og þessum vínbúðum en þegar þær klárast sæki ég aftur formlega um fyrir vínið á reynslu og verður það þá bara fáanlegt í Heiðrúnu og Kringlunni nema það komist aftur í kjarna.

Ég er ekki sá eini sem finnst vínið svona gott. Vitiano er eitthvert mest viðurkennda vín sem við flytjum inn. Ekki furða þar sem Cotarella bræðurnir framleiða það, annar yfirmaður hjá Antinori en hinn frægasti vínráðgjafi Ítalíu. Robert Parker hefur kallað það „one of the greatest dry red wine bargains in the world“. Það eru kannski milljón ólík vín framleidd í heiminum og því er það nú bara dágott að vera talið ein bestu rauðvínskaupin af áhrifamesta vínspekúlanti veraldar – finnst mér. Ítalska vínbiblían, Gambero Rosso, valdi 2001 árganginn bestu rauðvínskaup Ítalíu. Síðan gaf Steingrímur í Morgunblaðinu því 18/20 og Þorri valdi það vín mánaðarins í Gestgjafanum. Eiginlega er ekki hægt að slá þetta. Og þó, bandaríska víntímaritið Wine Spectator sem kallaði 2003 árganginn bestu rauðvínskaup Ítalíu og gaf honum 88 stig var nú nýlega að gefa 2004 árganginum 90 stig sem hlýtur að tryggja þessu víni enn frekar sess sem ein bestu rauðvínskaup Ítalíu, eða heimsins alls eins og Parker segir á sinn hógværa hátt.

A wine with lovely balance and clean plum, berry and chocolate character, medium body and polished tannins. The perfect house wine—a great value. Sangiovese, Merlot and Cabernet Sauvignon. Drink now through 2010. 200,000 cases made. From Italy.  90/100 – Wine Spectator.

Einkunnir segja ekki allt. Lestu um vínið á vefsíðu okkar til að verða einhverju nær hvernig  það bragðast.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, falesco, gambero rosso, Gestgjafinn, morgunblaðið, robert parker, vangaveltur, wine spectator

Vín og matur vikunnar

Vitiano Bianco og túnfiskhnetupastað hennar Rakelar

Snerpa og ferskleiki Vitiano hvítvínsins smellpassar við svona einfalt pasta. Þau komplementera hvort annað og upphefja kosti hvors annars. Hvítvínið er brakandi og hjónabandið í einfaldleika sínum sumarlegt á sinn hátt. Seltan í pastanu, túnfiskurinn og hneturnar stemma sérstaklega vel við hvítvínið. Annað pasta sem mér dettur í hug sem myndi passa vel með hvítvíninu væri hið ofureinfalda spagettí með hvítlauk og steinselju, skvettu af olífuolíu og kannski sterkum, rauðum piparflögum.

Máltíðin er holl, létt og snörp, manni líður eins og nýbrýndum hnífi á eftir.

Túnfiskhneturpasta:
500 gr. spagettí
3/4 dl valhnetur
3/4 dl furuhnetur
1/2 dl ólífuolía (t.d. Fontodi eða Rietine)
2 dl grænar ólífur (ef sítrónufylltar ólífur finnast þá sleppa safanum hér neðar)
Safi úr hálfri sítrónu (ekki of mikið ef hún er stór)
2 góðir sellerístönglar
4-5 hvítlauksrif
1 dós túnfiskur í vatni (hella vatninu af)
Allt saman sett í mixer og hakkað niður í grófa kremáferð og síðan saltað og piprað eftir smekk. Blandað saman við pastað þegar það er tilbúið. Borið fram með rifnum parmeggiano osti.

Buon appetito!

Færðu inn athugasemd

Filed under falesco, matur, uppskrift

94 stig handa Tiziano í Wine Spectator

Ekki bara einu sinni heldur tvisvar.

Tiziano frá Rietine í Chianti Classico er eitt best geymda leyndarmálið í Toscana ef marka má víndóma bandaríska tímaritsins Wine Spectator. Síðustu tveir árgangar, 1997 og 1999, fá báðir 94 stig hjá blaðinu. 1998 var ekki framleiddur því vínið er aðeins framleitt við bestu aðstæður.

Örfáar flöskur eigum við ennþá af 1997 sem er líklegast hæst skrifaði árgangur í Toscana í manna minnum. Mér finnst 1999 ekkert síðri, vínin sem ég hef drukkið frá þeim árgangi hafa einhverja ómótstæðilega mýkt og safaríkan kjarna.

Rietine Tiziano 1999 fæst í vínbúðunum frá og með 1. júní og kostar 2.900 kr.

1997 árg, 94 stig.
„Solid, muscular wine. Fantastic aromas of crushed berries, minerals, cigar tobacco and wood. Full-bodied and chewy, with big, juicy tannins and a long, ripe, smoky aftertaste. One of Tuscany’s sleepers, maybe one of Italy’s. „1999 árg, 94 stig.
„Wonderfully complex aromas of currants, berries and cigar box follow through to a full-bodied palate, with soft, velvety tannins and a long, caressing finish. This is a big, rich wine. Always excellent. “

– Wine Spectator

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, dómar, rietine, wine spectator