Spilagaldrar á Llar de Foc

Jæja, þá erum við komin úr fríi. Skruppum til Salou sem er strandbær 100 km. suður af Barcelona. Stórfjölskyldan fór öll sömul; mamma, systur mínar tvær, menn og börn og nokkrir góðir meðlimir til viðbótar.

Salou er dæmigerður ferðamannastrandbær og almennt lítið spennandi hvað varðar matargerð en þó fundum við marga fína staði. Sérstaklega mæli ég með fiskistöðunum við ströndina þar sem hægt er að fá skelfisk af ýmsu tagi, smokkfisk, sardínur og fleira. Svo var einn all góður á hótelinu okkar Occidental Blau Mar sem var ekki í boði hjá Terranova heldur leigðum við það sjálf og reyndist það prýðisgott, eina hótelið á aðalsvæðinu sem er alveg við ströndina.

Besti veitingastaðurinn var La Llar de Foc á Via Roma (hliðargata af „Laugaveginum“) sem var sá eini með góðan vínlista. Vínlistinn var reyndar frábær. Fyrst röltum við þarna við án þess að borða en keyptum flösku af Mauro 1998 og drukkum úti á svölum uppi á herbergi. Mjög gott vín úr Tempranillo þrúgunni að mestu.

Nokkrum dögum síðar fórum við þangað til að borða og drekka.  Þá kíktum við niður í vínkjallarann þar sem stoltur eigandinn sýndi okkur einhver fágætustu vín Spánar. Þarna voru 100 ára gamlar gersemar m.a. í bland við fjölda árganga af rómaðasta víni landsins, Vega Sicilia. Hégómi undirritaðs fékk svo sitt nauðsynlega kitl þegar hann benti á vínin okkar frá Artadi og kallaði þau bestu vínin í Rioja. Ég stillti mig samt og lét vera að lýsa því yfir að ég flytti þau til Íslands enda eiginkonurnar farnar að senda okkur sms um að forréttirnir væru farnir að kólna. Ég bað um að fá flösku af Numanthia frá Toro vínhéraðinu (uppáhaldsvín Roberts Parker og fleiri) en hann vildi ekki láta okkur hafa hana því honum fannst vínið of ungt. Við völdum þá magnum flösku af Clos Mogador 1995 sem kemur frá Priorat vínhéraðinu u.þ.b. 30 kílómetra vestur af Salou. Ilmurinn af víninu var eftirminnilegur með áberandi steinefnum og vínið allt hið besta.

Matur var góður, steikurnar í sérflokki. Ég fékk mér entrecote af uxa (þ.e.a.s ekki ungnauti) „rare“ sem var dekksta og bragðmesta nautakjöt sem ég hef smakkað. Það var ofsalega mjúkt og gott þótt ég verði að viðurkenna að svona þroskað nautakjöti er svona alveg um það bil við það að fara út af sporinu. Almenn ánægja ríkti við borðið um gæði matarins og feykilega góðir spilagaldrar eigandans vöktu mikla lukku. Í lokin var drukkið styrkt vín Pedro Ximénez frá Malaga sem er ólíkt sérrí (jerez) fyrir það hversu sætt það er. Það var feitt og sætt með áberandi sveskju. Ég keypti flösku til að taka með til landsins. Við tókum hana upp í gær og fengum vægt sykursjokk, stakk henni inn í ísskáp og ætla að prófa hana kælda næst.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, ferðalög, hótel, rioja, spánn, veitingastaðir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s