Monthly Archives: júlí 2006

Spagetti islandese

Spagettí á heimili foreldra minna þegar ég ólst upp var í mínum huga bara til í einni útgáfu, með nautahakki. Ef ég stóð móðir mína að því að setja eitthvað annað í sósuna (t.d. kúrbít!) eða reyndi að sjóða spagettíið „al dente“ fór ég allt að því í hungurverkfall. Málamiðlunin mín var tómatsósan sem ég notaði ósparlega.

Þetta hefur breyst.

Pasta kemur í öllum útgáfum á heimili okkar Rakelar með öllu mögulegu grænmeti, fiski og kjöti. Eiginlega er kjötið í minnihluta. Tómatsósunni er ég sem betur far vaxinn upp úr en vitni segjast hafa séð til mín brúka hana með köldu, dagsgömlu lasagna.

Hakkspagettíð er annars efni þessa bloggs því þann rétt eldum við oft en í mismunandi útgáfum. Uppskriftir sjást sjaldan og er þessi hér fyrir neðan dálítið ónákvæm eftir því:

Smátt skorinn laukur (1stk) er steiktur varlega á pönnu og síðan bætt fljótlega út í smátt skornum gulrótum (2-3 stykki)og sellerí (1-2 stykki). Mallað þar til orðið nokkuð mjúkt án þess að brúnast. Oft notum við bæði ólífuolíu og smjör til að steikja upp úr í einu en passa að setja bara lítið. Rauðvín eða hvítvín (svona eitt glas), eða bæði, er bætt við á þessu stigi en gott að setja smávegis á meðan kjötið er að brúnast. Nautahakkið (1 pakki) er sett út í og þegar það er brúnað bætast við tómatar úr dós (1 dós). Maldon salt og svartur pipar. Blandað saman við 500gr af spagettíi, vænum slurki af ólífuolíu hellt yfir og ferskum parmeggiano þegar pastað er komið á diskana. Gott að hafa smá Maldon salt og pipar við höndina eftirá til að bæta við ef þarf.

Mikið flóknara er það ekki.

Önnur útgáfa af þessu er dálítið góð. Þá sleppum við tómötunum í dósinni og notum svínahakk í stað nautahakksins. Grænmetið má halda sér, í aðeins minna magni samt, og bætt við heilum fennel-lauk. Ef fennel laukur fæst ekki er gott að setja fennelfræ út í, við setjum þau reyndar alltaf þótt við notum laukinn líka. Svínahakkið og fennelið gefur sósunni blæ af því sem Ítalir kalla salsiccia, sem er léttkrydduð pylsa seld hrá. Út á pönnuna blandast svo hálfur til heill peli af rjóma. Það er gott að setja örlítið tómatpaste til að gefa lit og kraft. EKKI sleppa léttvíninu, það er alltaf betra.

Á vef BBC getur þú síðan séð hvernig á að elda hið eina sanna kjötpasta, Spagetti bolognese

Færðu inn athugasemd

Filed under uppskrift

Laureus World Sports Award goes to…

Castell del Remei 1780, 2001 árg.

Laureus World Sports Award eru óskarsverðlaun íþróttahreyfingarinnar skv. því sem Josep hjá Castell del Remei segir mér. Hann var ánægður með það að 1780 vínið þeirra var eina rauðvínið sem var drukkið með hátíðarkvöldverðinum framreiddum af Sergio Arola en veitingastaður hans La Broche í Madrid hefur tvær Michelinstjörnur. Þarna voru samankomnir nokkrir helstu íþróttamenn heims, skemmtikraftar eins og Jameraqui, leikarar eins og Morgan Freemann og Terri Hatcher og sjálfur konungurinn af Spáni, Juan Carlos. Og svona 800 aðrir.

Öll drukku þau 1780 (eða a.m.k. þeir sem fengu sér rauðvín).

Skál fyrir því!

Hver vill ekki vera í þessum góða hópi?

Færðu inn athugasemd

Filed under castell del remei, fréttir, spánn

Hótel í Helsinki: Klaus K

Rakel var á fundi og ráðstefnu í Helsinki og ég fékk að koma með.

Helsinki er vinaleg borg. Manni líður eins og heima hjá sér. Helsinki er dálítið eins og stór Reykjavík undir smávegis Eystrasaltsáhrifum — fyrir utan tungumálið.

Við fundum hótel á netinu sem lofaði góðu. Klaus K er nýuppgert hótel, hefur verið opið aðeins síðan í nóvember á síðasta ári. Hótelið er í Design Hotels hópnum sem er safn hótela er leggja mikið upp úr nútímalegri og flottri hönnun og þægindum. 101 Hótel er eina íslenska hótelið í hópnum. Klaus K var á þessu ári valið á Hot List hjá ferðatímaritinu Conde Nast sem inniheldur 60 topp hótel og kom það okkur því á óvart hversu ódýr herbergin voru miðað við það. 130E fyrir Envy Plus sem er eitt af stærri herbergjum hótelsins — með morgunverði og útsýni út á götu. Á hótelinu eru þrír girnilegir veitingastaðir hver með sínu nefinu; lifandi ítalskur staður í andyrinu, dimmur hamborgara- og pizzustaður með finnsku kvikmyndaþema og finnskur gæðaveitingastaður með besta vínlistann. Hvíti barinn var hins vegar flottastur og er hann andlitið af næturklúbbi í kjallara hótelsins. Kokteilarnir voru girnilegir. Þjónustan á veitingastöðunum sem og öllu hótelinu var vinaleg og fyrsta flokks án nokkurs yfirlætis. Geysilega vel heppnað hótel að okkar mati.

Mikið af góðum veitingastöðum í Helsinki voru í sumarfríi í júlí en við fundum góðan ítalskan stað, Sasso, við hafnarmarkaðinn. Sasso er nútímalegur staður, vínlistinn var nokkuð góður og maturinn sömuleiðis. Þótt hann fari ekki rakleiðis í eftirminnilega flokkinn mælum við með þessum stað. Af veitingastöðunum á Klaus K prófuðum við aðeins Filmitahti sem er svona finnsk útgáfa af Planet Hollywood. Hamborgari, salat og sjeik var allt gott fyrir skyndibitastað. Staðurinn var mjög ólíkur hönnun hótelsins og það sama má segja um ítalska staðinn sem var ekki nútímalegur eins og hótelið (eða Sasso) heldur eftirmynd lítils Ristorante eða Trattoria á ítalíu.

Nýlistasafnið verð ég að minnast á. Þetta er í annað sinn sem ég kem þangað inn og var sýningin nú sérstaklega flott (skoðaðu líka þessa auglýsingu). Hvert verkið af öðru (mörg verk tóku mikið pláss, jafnvel heilan sal) heillaði okkur upp úr skónum, hvert á sinn hátt. Enginn sem fer til Helsinki má missa af þessu safni en húsið er eitt og sér þess virði að skoða.

Ekki voru gerðir merkir vínfundir í þessari ferð en þó fórum við í Alko sem er finnska vínmónópólían. Ætli Alko þýði „Alkinn“? Það kæmi mér a.m.k. ekki á óvart miðað við staflana af forvarnarlesefni í anddyri vínbúðanna finnsku. Í Alkanum keypti ég hvítvínið Greco frá framleiðanda sem ég skoðaði fyrir löngu og heitir Di Majo Norante. Hann gerir góð kaup í Molise héraðinu syðst á Ítalíu og var þetta hvítvín all skemmtilegt verð ég segja. Keypti líka freyðivín frá Ferrari í Trentino héraði sem er einn fremsti freyðivínsframleiðandi Ítalíu. Freyðivínið var sömuleiðis skemmtilegt.

Smelltu hér til að sjá myndir af Klaus K, Sasso og nokkrar aðrar velvaldar frá Helsinki á flickr.com

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, helsinki, veitingastaðir

Chateau de Flaugergues fær 19/20 í Mbl. + fleiri vín frá Languedoc

Ég var ekki fyrr búinn að tilkynna þá glæsilegu einkunn sem CFCLCS (Chateau de Flaugergues Coteaux du Languedoc Cuvée Sommeliere) fékk í Wine Spectator, 92 stig, þegar Mogginn góði datt inn um lúguna með volgum einkunnum frá Steingrími. Þar fjallar hann í Tímariti Morgunblaðsins um sex vín undir fyrirsögninni „Suður-frönsk fyrir sólríka daga (ef og þegar)“ og eru fjögur þeirra frá okkur.

Ég er ánægður með lýsingar Steingríms, þær fanga vel andann í vínunum og einkunnirnar góðar, ekki síst fyrir Chateau de Flaugergues sem fær 19 stig af 20 mögulegum.

Mér finnst gaman að Steingrímur skildi benda á, í gamansömum tóni, að L’Oncle Charles væri sérsniðið fyrir íslenska sólpalla þar sem vínið bæri eftirnafnið „Sur la Terrace“. Ef það verður fólki hvatning til að kaupa vínið, þótt ekki nema 10% pallaeigenda (sem er u.þ.b. 10% þjóðarinnar allrar) þá verð ég ríkur maður! Einkunnin fyrir vínið var reyndar ekki svo há þótt hún væri að mínu mati passleg fyrir þetta vín, 15/20, en lýsingin var svo skemmtileg að hver veit nema að fólk fylkist til að kaupa vínið enda er það „létt og ljúft“… pallavín! — í jákvæðri merkingu þess orðs.

Steingrímur bendir á að þessi suður-frönsku vín séu kjörin sumarvín nema það vanti bara sumarið á Íslandi, en við hjá Vín og mat viljum benda fólki á að hitinn og sólin í vínunum sé ekki síður kjörin til þess að hita kalda kroppa og naprar sálir en skjólveggir og gashitarar.

Nú er komið hér í búðirnar vín sem virðist sérsniðið að íslenskum þörfum, því það ber heitið Sur la Terrace eða „Á pallinum“. Sur la Terrace mætti raunar einnig útleggja sem „Á veröndinni“, sem borgaralega sinnuðum Frökkum þætti eflaust henta betur. L’ONCLE CHARLES SUR LA TERRACE [2005] Cabernet Sauvignon-Merlot er létt og ljúft suður-franskt vín með mildum sólberja- og kirsuberjaávexti í nefi, sæmilegri lengd í munni og þurrt. 1.350 krónur. 15/20.CHATEAU MOURGUES DU GRES LES GALETTES ROUGE 2004 er vín frá franska Miðjarðarhafssvæðinu Costieres de Nimes á milli borganna Nimes og Arles. Mourgues du Gres er talið vera eitt besta — ef ekki hið besta — vínhús svæðisins og í þessu víni má finna flestar helstu þrúgur Suður-Frakklands, Syrah og Grenache ásamt Carignan og Mourvèdre. Kryddað og heitt í nefi með lakkrís, smjördeigi, vanillu, bleki, rabarbarasultu og svörtum berjum. Skarpt og kryddað í munni, langt, þurrt og þykkt. 1.600 krónur. 17/20
Annað vín frá sama framleiðanda er CHATEAU MOURGUES DU GRES TERRE D’ARGENCE 2004 og kemur það einnig frá Costieres de Nimes-svæðinu. Dæmigert suður-franskt vín með ríkjandi Syrah í þrúgublöndunni. Dökkur og heitur rauður berjaávöxtur ásamt þroskuðum plómum, ólívum og ferskum kryddjurtum. Þykkt og feitt í munni með góðri lengd. 1.900 krónur. 18/20

CHATEAU DE FLAUGERGUES COTEAUX DE LANGUEDOC [CUVEE SOMMELIERE 2003] er suður-franskt vín í hæsta gæðaflokki. Þetta vínhús er staðsett skammt frá Montpellier — einungis þremur kílómetrum frá miðbænum — og þrúgublandan er dæmigerð fyrir Miðjarðarhafssvæðið, Mourvèdre og Syrah með 40% hvor og Grenache loks 20%. Dökk sæt ber, ilmolíur/reykelsi, lavender. Vín til að smjatta á, yndislegt frá fyrsta sopa, þykkt, mjúkt og djúpt með sætum og óneitanlega nokkuð áfengum ávexti. Vín til að bera fram með grilluðu nautakjöti, krydduðu með engu öðru en sjávarsalti og nýmuldum pipar, eða grilluðu lambalæri. 1.750 krónur. 19/20

Morgunblaðið 16.7.2006 — Tímarit Morgunblaðsins bls. 20, höf: Steingrímur Sigurgeirsson

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, flaugergues, morgunblaðið, mourgues du gres

Appiano Pinot Bianco 2004 fær 4 glös í Gestgjafanum

Hvítvínin frá Appiano eru tær og stílhrein. Þau minna mig á dólómíta, ferskar fjallalindir og dökkgræna dali þar sem heyra má í stöku kúabjöllu. Í Alto Adige eru vínekrur einhverjar þær dýrustu á Ítalíu enda skortur á landi til ræktunar þar sem Alparnir taka svo mikið pláss. Innan um eplaekrur og mjólkurkýr rækta þeir einhver mest spennandi vín landsins.

Í nýjasta Gestgjafanum fjallar Þorri um hvítvínið Pinot Bianco frá San Michele Appiano og gefur því fjögur glös. Reyndar er þýska áletrunin, St. Michael Eppan Weissburgunder – Sud Tyrol, eiginlega meira áberandi á miðanum. Alto Adige búar (Sud Tyrol á þýsku) eru nefnilega jafnvígir á þýsku og ítölsku og þegar maður keyrir þar um sveitir eru öll umferðarskilti t.d. á báðum tungumálunum.

Þorri fer málamiðlunarleið og kallar framleiðandann skv. þýskunni en þrúguna skv. ítölskunni.

ST. MICHAEL-EPPAN PINOT BIANCO 2004  (Ítalía) 4 glös
Hvítvínin frá Alto Adige eru heillandi. Að jafnaði eru þau einhver tærustu og ómenguðustu vín sem finna má á Ítalíu, ávaxtarík og blátt áfram. Þetta vín er úr þrúgunni pinot bianco sem kallast pinot blanc á frönsku og weissburgunder á þýsku og þar sem Alto Adige er undir miklum þýskum áhrifum er hið þýska heiti einnig nefnt á flöskumiðanum. Vínið er strágult að lit með grænum tónum og meðalopinn ilm af þrúgum, peru, kamillu og sítrusávöxtum. Í munni er það nokkuð bragðmikið með fína sýru og meðallengd. Það er vel byggt og matarvænt vín með glefsur af peru, rauðu greipaldini, þrúgum, appelsínu og jafnvel lakkrís. Hafið það með betri fiskréttum, skelfiski, ljósu fuglakjöti og eggjabökum. Gott eitt og sér.
Í reynslusölu vínbúðanna 1790 kr. Góð kaup.
Hiti: 7-9°C. Geymsla: Ekki geyma. “ (Gestgjafinn 7 tbl. 2006, Þorri Hringsson)

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, dómar, Gestgjafinn

Chateau de Flaugergues 2003 — 92 stig Wine Spectator

Jamm.

Pierre hjá Chateau de Flaugergues var að senda mér tölvupóst rétt í þessu til að segja mér frá því að vínið þeirra Chateau de Flaugergues Cuveé Sommeliere hefði verið að fá 92 stig hjá bandaríska ofurvíntímaritinu Wine Spectator. Við Pierre erum glaðir með þetta.

Ég héld að þú ættir að tékka á þessu víni.

Já ég held það.

„Gorgeous aroma of rose hips, currant and spice, with luscious flavors of dark plum, smoke and mocha. Plenty of baby fat in this, but powerful as well, with a long, structured finish of pepper, brick, and mineral. Drink now through 2012. 4,000 cases made. Score: 92.“-Wine Spectator 31. júlí 2006, Kim Marcus

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, flaugergues, frakkland, wine spectator

Þrúgur gleðinnar – Umfjöllun um okkur í fréttablaðinu

Við Einar Logi Vignisson hjá Fréttablaðinu eigum tvö sameiginleg áhugamál, a.m.k., vín og ítalskan fótbolta. Einar Logi skrifar dálk á fimmtudögum í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni „Þrúgur gleðinnar“ þar sem hann fjallar um þau vín er fást í Vínbúðunum. Nú síðast fjallaði hann um þemadagana í Vínbúðunum og er ég sammála skoðun hans um það 1) að það sé fúlt að birgjar skuli alltaf tefla fram sömu vínunum á þemadögum til að halda þeim í kjarna frekar en bjóða upp á nýbreytni, 2) að þemadagar ættu alltaf að hafa fókuserað „þema“ og láta afslátt á sumar- og jólavínum eiga sig og 3) að ÁTVR ætti að koma til móts við birgja með því að lækka álagningu sína á þemadagsvínum (birgjar sjá nefnilega alfarið um afslátt þemadagsvína). 

Heyr, heyr.

Varðandi lið 1 — þá kýs ég alltaf að tefla fram reynsluvínum á þemadögum því ættu slíkir dagar ekki einmitt að kynna fyrir og hvetja fólk til þess að kaupa eitthvað annað en þau eru alltaf vön að kaupa? Andstætt þessu gerir ÁTVR tilkall til að sem flest kjarnavín séu tilnefnd á þemadögum því þá er öruggt framboð af þemadagsvínum um allt land. COME ON GUYS!…öryggi er BORING. notið þemadaga frekar til þess að hvetja til aukinnar dreifingu reynsluvína og skapa reglulega, tímabundna fjölbreytni í þeim búðum sem annars hafa mjög fábrotið úrval. Er ekki einhver úti á landi, t.d., sem þætti ágætt að fá þessa nýbreytni í Vínbúðina öðru hverju? Ég hef bent ÁTVR mönnum á þetta en svarið er dæmigert fyrir opinbera stofnun — lögin leyfa það ekki. Annað svar sem ég hef fengið er að ef sumum reynsluvínum væri gert hærra undir höfði en öðrum með því að dreifa í hinar og þessar Vínbúðir væri verið að mismuna. Ég hef bent á tvo galla í þessu svari: i) „mismununin“ er þegar til staðar því tilnefnd kjarnavín á þemadögum fá sum aukna dreifingu umfram önnu kjarnavín; ii) Takið öryggið af oddinum… og leyfið birgjum að „mismuna“ sumum reynsluvínum á kostnað annarra með því að tilnefna þau umfram önnur á þemadögum og leyfið verslunarstjórum ykkar að „mismuna“ þeim enn frekar með því að velja þau umfram önnur í verslanir sínar. Hvenær er frjálst val mismunun?

Eitthvað virðast hlutirnir vera að þokast í rétta átt því að á núverandi sumardögum í Vínbúðunum var reynsluvínum gert kleyft að fá aukna dreifingu en aðeins í stærstu Vínbúðirnar. Hnífurinn stendur þó enn í kúnni þar sem af 9 mögulegum tilnefningum hvers birgja máttu reynsluvín vera að hámarki 3 (í fyrri þemadögum voru heildartilnefningar að hámarki 6 og var óskað sterklega eftir því að hálfu ÁTVR að þau væru sem flest kjarnavín þótt reynsluvín væru ekki bönnuð).

Annars ætlaði ég ekki að þusa í þessu bloggi heldur benda á þá góðu umfjöllun sem Vín og matur fékk hjá Einar Loga í greininni Einar fjallar um núverandi þemadaga í Vínbúðunum, „sumarvín“, og bendir sérstaklega á ítölsku vínin í tilefni glæsilegs sigurs Ítala á HM. ÁFRAM ÍTALÍA!

… ansi mörg af vínum [sem í boði eru á sumardögunum] sem vekja sérstakan áhuga eru ítölsk. Mörg eru frá eldhuganum Arnari Bjarnasyni sem rekur innflutningsfyrirtækið Vín og matur. Arnar bjó um nokkurt skeið á Ítalíu og breiðir fagnaðarboðskap ítalskrar matar- og víngerðar út af miklum móð eins og lesa má á síðu hans, vinogmatur.is. Frá honum er t.d. hið prýðilega hvítvín Casal di Serra (1.390 kr.) úr verdicchio þrúgunni skemmtilegu. Einnig tvö fyrirtaks chianti-vín, Fontodi (1.690 kr.) og Castello di Querceto (1.590 kr.).

– Fréttablaðið 13.júlí 2006, Einar Logi Vignisson

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, fontodi, fréttablaðið, röfl, umani ronchi