Monthly Archives: ágúst 2006

Fréttablaðið fjallar um okkur

Fréttablaðið leitaði til okkar fyrir skömmu til að forvitnast um vínsmakkanir sem við stöndum fyrir. Úr varð þetta viðtal, myndasería og fróðleikskorn um það hvernig slíkar smakkanir fara fram. Greinin var birt gær, föstudaginn 25.8.2006.

Hægt er að smella hér til að skoða Fréttablaðið þennan föstudag, greinin okkar er á bls. 26.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttablaðið, vínsmökkun

Smakkarinn fjallar um d’Arenberg

Stefán er vínþjónn með meiru og hefur undanfarin ár haldið uppi vefsíðunni www.smakkarinn.is þar sem hann fjallar um vín og tilheyrandi. Þar er hægt að skrá sig á póstlista til að fá tilkynningar þegar nýju efni er bætt á vefsíðuna.

Í dag fjallar hann um vínin okkar frá d’Arenberg.

Umfjöllunin er virkilega góð, bæði um vínin frá d’Arenberg og um fyrirtækið okkar Vín og mat.

Hér fyrir neðan birti ég útdrátt úr umfjöllun Stefáns, hana er að sjálfsögðu að finna í heild sinni á vefsíðunna hans.

…Þegar ég smakkaði vín frá d ´Arenberg í fyrsta skipti á vínsýningunni í Smáralindinni í Nóvember 2005, var ég svo heillaður af línunni að ég gat ekki hætta að hugsa um hana… Það fer ekki á milli mála að þetta er fólk sem er í víninnflutnings bransanum fyrst og fremst vegna ástríðu þeirra á víni og það vill frekar vanda sig í valinu heldur en að selja eitthvað sem skilur ekkert eftir, hvorki fyrir viðskiptavininn né sjálfan sig. Ansi margir “stórir” umboðsaðilar geta lært svolítið af þeim.
THE HERMIT CRAB 2005…Mér aftur á móti fannst það mjög sérstakt og með réttum mat er þetta örugglega frábært vín…
THE CADENZIA 2003 …Skemmtilegt hvað Grenache var áberandi í nefinu og Shiraz mest áberandi í bragðinu. Mjög gott vín…
THE LAUGHING MAGPIE 2004 …Þó að þetta vín sé mjög gott núna, þá verður þetta vín stórkostlegt eftir 3 ár…
THE CUSTODIAN 2004 …Enn og aftur mjög vandað vín og sýnir að hægt er að búa til gott Grenache í Ástralíu.
THE FOOTBOLT 2003 …Vel gert hágæða shiraz…

www.smakkarinn.is

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, d'arenberg, dómar, smakkarinn

Granny Smith, niðursoðnar apríkósur, fjólur og hjólbarðagúmmi

Það kennir ýmissa hjólbarða í gagnrýni Steingríms í Tímariti Morgunblaðsins síðasta sunnudag.

     „LA SPINETTA BRICCO QUAGLIA MOSCATO d’ASTI 2005 léttfreyðandi vín frá Norður-Ítalíu með sætum eplum, allt frá fölgrænum út í Granny Smith í nefi ásamt dísætum og þroskuðum perum. Parfúmerað með nokkurri sætu, svolítið „dekadent“ vín. Einungis 4,5% í áfengi. 1.290 krónur. 17/20 
     D’ARENBERG THE HERMITAGE CRAB McLaren Vale Viognier Marsanne 2004 er hvítvín frá McLaren Vale í Ástralíu, flaskan með skrúfutappa. Rauðvínin frá D’Arenberg hafa verið í sölu um nokkurt skeið og hef ég fjallað um þau áður enda frábær vín þar sem hinar rauðu þrúgur Rónardalsins í Frakklandi sýna á sér skemmtilega hlið. Hér eru það hins vegar hinar hvítu þrúgur Rónardalsins, marsanne og viognier, sem eru í aðalhlutverki. 
     Niðursoðnar apríkósur, ferskjur perur með örlitlum mangó-ávexti í nefi. Kröftugt og ávaxtamikið í munni, feitt með vott af hnetukeim. Fínn fordrykkur og mætti jafnvel reyna með ostum. 1.600 krónur. 18/20 
     ARTADI OROBIO 2004 er ungt og þægilegt vín frá Rioja á Spáni. Það er gert í nútímalegum stíl, þar sem eik og þroski eru ekki í aðalhlutverki heldur kröftugur og ferskur ávöxtur Tempranillo-þrúgunnar þótt vissulega gæti einnig sætra eikaráhrifa í hófi. Rauð ber, kirsuber og hindber ásamt fjólum, kjötmikið og ungt. Nútímalegt og vel gert Rioja-vín. 1.600 krónur. 17/20 
     MAS NICOT COTEAUX DE LANGUEDOC 2003 er sólríkt vín frá Suður-Frakklandi, mjög þroskuð sólber, sviti, hjólbarðagúmmí og Fisherman´s Friends brjóstykur í nefi. Sem sagt hinn ágætasti kokkteill. Öflugt og langt í munni. 1.450 krónur. 18/20“ (Morgunblaðið 20.8.2006, Steingrímur Sigurgeirsson)

Og síðan ein „Mjög góð kaup“ úr Gestgjafanum að lokum. Því miður er vínið góða sem um ræðir hætt í sölu en fæst áfram með sérpöntun (ath. útsöluverð).

CHIARAMONTE NERO D’AVOLA 20034 GLÖS
Af einhverri ástæðu hafa Íslendingar ekki verið nógu duglegir við að tileinka sér vín úr þrúgunni nero d’avola og það þrátt fyrir að vín úr þessari þrúgu séu ákaflega matarvæn og í flestum tilfellum á hagstæðu verði. Þetta vín kemur frá Sikiley (eins og önnur vín úr þessari þrúgu) og frá víngerðinni Firriato sem flestir áhugamenn ættu að þekkja að góðu. Það hefur meðaldjúpan, fjólurauðan lit og meðalopinn ilm af sultuðum kirsuberjum, lakkrís, dökku súkkulaði, þurrkuðum ávöxtum, málmi og spritti. Þetta er kannski ekki flóknasti ilmur sem hægt er að komast í tæri við en hann er sérlega áhugaverður og ávaxtaríkur. Í munni er vínið þétt, langt og vel byggt með góða sýru og mjúk tannín. Það býr yfir glefsum af svörtum, sultuðum kirsuberjum, dökkum berjum, eik, súkkulaði og lakkrís. Verulega ánægjulegt vín sem er gott með flestum dekkri Miðjarðarhafsmat, rauðu kjöti og margvíslegu sjávarfangi líka (merkilegt nokk).
Í reynslusölu vínbúðanna 1490 kr. Mög góð kaup.
Hiti: 16-18°C. Geymsla: Drekkið núna og til 2009. “ (Gestgjafinn 8. tbl. 2006, Þorri Hringsson)

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, ástralía, ítalía, d'arenberg, dómar, firriato, frakkland, Gestgjafinn, la spinetta, mas nicot, morgunblaðið, spánn

Fleiri plöntur, betra vín

Það kann að hljóma sem þverstæða en því fleiri plöntum sem plantað er per hektara þeim mun betri verða þrúgurnar.

Lestu tölvupóstinn hans David hjá Gordon´s í Boston þar sem hann fjallar um þetta.

David er góður penni. Hann er líka afkastamikill penni því skeytin hans berast næstum daglega. Ég var hjálpari í búðinni hans þegar ég lærði í Boston á sínum tíma og fékk þá tækifæri til að fylgjast með og læra af þessum metnaðarfulla vínsala.

Færðu inn athugasemd

Filed under þrúgur, fræðsla, víngerð

ÚTSALA — þrjú rauð og eitt hvítt

Eftirtalin fjögur vín eru á útsölu.

Chiaramonte Rosso 2003 (rauðvín), 1.380 kr. í stað 1.590
Poggio Belvedere 2003 (rauðvín), 1.460 kr. í stað 1.690
Artazuri 2004 (rauðvín), 1.150 kr. í stað 1.300
Woodcutter´s Semillon 2004 (hvítvín), 1.800 kr. í stað 2.100

Chiaramonte Rosso 2003 fékk 4 glös í Gestgjafanum, Woodcutter´s Semillon sömuleiðis og Artazuri var valið „kaup mánaðarins“.

Sendu okkur póst á vinogmatur@internet.is til að leggja inn pöntun, lágmark sex flöskur. Þú sækir hana síðan í Heiðrúnu.

Færðu inn athugasemd

Filed under útsala

Á veröndinni hjá d’Arenberg er gott að vera

Verandah Restaurant er veitingastaðurinn hjá d’Arenberg vínframleiðandanum okkar í S-Ástralíu. Þar má smakka öll vínin, borða góðan mat og njóta umhverfisins. d’Arenberg er í hjarta S-Ástralíu, nánast í úthverfi Adaleide borgarinnar, og því stutt að fara — ef maður er á annað borð að fara til þessarar miðstöðvar S-Ástralíu.

Verandah er ekki bara góður kostur vegna staðsetningarinnar heldur þykir veitingastaðurinn afar góður. Ég hef ekki borðað þar ennþá en Valdi mágur og Sigrún konan hans gerðu einmitt það fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Verandah hefur hlotið athygli skríbenta undanfarið en þessi standa upp úr:

„Best winery restaurant in S-Australia“ – South Australian Restaurant and Catering Awards (2006)

„Best in the world of wine – Best winery restaurants“ – Wine and Spirits Magazine (haust 2006)

Hér er líka umfjöllun um staðinn á bestrestaurants.com.au

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, d'arenberg, veitingastaðir

Ný gagnrýni í Morgunblaðinu: 17 18 18 17

Ný gagnrýni í Morgunblaðinu.

Um Santagostino vínin tvö, rauða og hvíta, hefur Steingrímur fjallað áður, fyrir næstum þremur árum síðan. Hann gaf rauða 18 stig og hvíta heil 19 auk þess að velja það á sérstakan lista það árið, svokallaðan top 10 lista. Þar sem þessi langi tími var liðinn fannst mér ástæða að láta hann hafa nýja árganga af þessum vínum og í tilefni þess að þau voru að byrja aftur í sölu eftir stutta útlegð.

Í nýju greininni fjallar Steingrímur líka um Montepulciano d’Abruzzo frá Umani Ronchi sem er mjög ánægjulegt matarvín með ítalskan sveitasjarma. Steingrímur talar um hráan ávöxt og fjóshaug á jákvæðum nótum sem er miklu meira heillandi kokteill heldur en það gæti hljómað. Þau karaktereinkenni minntu okkur á rauðvín frá Bordeaux.

Einnig ferskt og mjúkt rauðvín frá Alicante á Spáni, Laderas de El Sequé. Artadi víngerðin er á bak við þetta vín sem hlotið hefur víða góð viðbrögð fyrir að vera mikið fyrir lítið

      „UMANI RONCHI MONTEPULCIANO D’ABRUZZO 2004 er rauðvín frá sama framleiðanda og hið vinsæla hvítvín Casal di Serra, sem er ekki bara vinsælt hér á landi heldur einnig eitt besta Verdicchio-vínið frá Castelli di Jesi-svæðinu. 
     Þetta rauðvín er einfalt en gott matarvín (90% Montepulciano og 10% Sangiovese) með nokkuð kröftugum og hráum ávexti, kryddað og með smá fjóshaug í nefi. Vín fyrir góða pastarétti. 1.300 krónur. Góð kaup. 17/20 
     En þá til Sikileyjar og vínframleiðandans Firriato og nýrra árganga af Santagostino-vínum þess, sem áður hafa verið gestir hér á síðunni, enda einstaklega frambærileg vín. 
     FIRRIATO SANTAGOSTINO ROSSO 2002 er rauðvínið í seríunni. Þroskaðar plómur, kókos, vanilla og leður. Í munni heitur ávöxtur en hreinn og þéttur, rúsínur og lakkrís ásamt góðri lengd. 1.690 krónur. 18/20 
     FIRRIATO SANTAGOSTINO BIANCO 2005 er hvítvín í sömu línu, blanda úr þrúgunum Cataratto og Chardonnay. Ferskjur, sítrus, ferskar jafnt sem þurrkaðar og sykurhúðaðar sítrónur. Rjómamjúkt í nefi sem munni en þó með ferskri og þægilegri sýru. 1.690 krónur. 18/20 
     
LADERAS DE EL SEQUÉ MONASTRELL-SYRAH-CABERNET 2005 er rauðvín frá Alicante á Spáni. Það er svolítið Valpolicella-legt í stílnum og þá í jákvæðum skilningi. Mikill og bjartur og heillandi ávöxtur, kirsuber og sólber, sæt og seiðandi, þétt og mjúkt í munni, þykkur áfengur og ljúfur ávaxtasafi, laus við tannín, eik og annað sem truflar stundum. 1.450 krónur. 17/20“ (Tímarit Morgunblaðsins13.8.2006, Steingrímur Sigurgeirsson)

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, ástralía, ítalía, dómar, El Seque, firriato, morgunblaðið, spánn, umani ronchi