Monthly Archives: ágúst 2006

Fréttablaðið fjallar um okkur

Fréttablaðið leitaði til okkar fyrir skömmu til að forvitnast um vínsmakkanir sem við stöndum fyrir. Úr varð þetta viðtal, myndasería og fróðleikskorn um það hvernig slíkar smakkanir fara fram. Greinin var birt gær, föstudaginn 25.8.2006.

Hægt er að smella hér til að skoða Fréttablaðið þennan föstudag, greinin okkar er á bls. 26.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttablaðið, vínsmökkun

Smakkarinn fjallar um d’Arenberg

Stefán er vínþjónn með meiru og hefur undanfarin ár haldið uppi vefsíðunni www.smakkarinn.is þar sem hann fjallar um vín og tilheyrandi. Þar er hægt að skrá sig á póstlista til að fá tilkynningar þegar nýju efni er bætt á vefsíðuna.

Í dag fjallar hann um vínin okkar frá d’Arenberg.

Umfjöllunin er virkilega góð, bæði um vínin frá d’Arenberg og um fyrirtækið okkar Vín og mat.

Hér fyrir neðan birti ég útdrátt úr umfjöllun Stefáns, hana er að sjálfsögðu að finna í heild sinni á vefsíðunna hans.

…Þegar ég smakkaði vín frá d ´Arenberg í fyrsta skipti á vínsýningunni í Smáralindinni í Nóvember 2005, var ég svo heillaður af línunni að ég gat ekki hætta að hugsa um hana… Það fer ekki á milli mála að þetta er fólk sem er í víninnflutnings bransanum fyrst og fremst vegna ástríðu þeirra á víni og það vill frekar vanda sig í valinu heldur en að selja eitthvað sem skilur ekkert eftir, hvorki fyrir viðskiptavininn né sjálfan sig. Ansi margir “stórir” umboðsaðilar geta lært svolítið af þeim.
THE HERMIT CRAB 2005…Mér aftur á móti fannst það mjög sérstakt og með réttum mat er þetta örugglega frábært vín…
THE CADENZIA 2003 …Skemmtilegt hvað Grenache var áberandi í nefinu og Shiraz mest áberandi í bragðinu. Mjög gott vín…
THE LAUGHING MAGPIE 2004 …Þó að þetta vín sé mjög gott núna, þá verður þetta vín stórkostlegt eftir 3 ár…
THE CUSTODIAN 2004 …Enn og aftur mjög vandað vín og sýnir að hægt er að búa til gott Grenache í Ástralíu.
THE FOOTBOLT 2003 …Vel gert hágæða shiraz…

www.smakkarinn.is

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, d'arenberg, dómar, smakkarinn

Granny Smith, niðursoðnar apríkósur, fjólur og hjólbarðagúmmi

Það kennir ýmissa hjólbarða í gagnrýni Steingríms í Tímariti Morgunblaðsins síðasta sunnudag.

     „LA SPINETTA BRICCO QUAGLIA MOSCATO d’ASTI 2005 léttfreyðandi vín frá Norður-Ítalíu með sætum eplum, allt frá fölgrænum út í Granny Smith í nefi ásamt dísætum og þroskuðum perum. Parfúmerað með nokkurri sætu, svolítið „dekadent“ vín. Einungis 4,5% í áfengi. 1.290 krónur. 17/20 
     D’ARENBERG THE HERMITAGE CRAB McLaren Vale Viognier Marsanne 2004 er hvítvín frá McLaren Vale í Ástralíu, flaskan með skrúfutappa. Rauðvínin frá D’Arenberg hafa verið í sölu um nokkurt skeið og hef ég fjallað um þau áður enda frábær vín þar sem hinar rauðu þrúgur Rónardalsins í Frakklandi sýna á sér skemmtilega hlið. Hér eru það hins vegar hinar hvítu þrúgur Rónardalsins, marsanne og viognier, sem eru í aðalhlutverki. 
     Niðursoðnar apríkósur, ferskjur perur með örlitlum mangó-ávexti í nefi. Kröftugt og ávaxtamikið í munni, feitt með vott af hnetukeim. Fínn fordrykkur og mætti jafnvel reyna með ostum. 1.600 krónur. 18/20 
     ARTADI OROBIO 2004 er ungt og þægilegt vín frá Rioja á Spáni. Það er gert í nútímalegum stíl, þar sem eik og þroski eru ekki í aðalhlutverki heldur kröftugur og ferskur ávöxtur Tempranillo-þrúgunnar þótt vissulega gæti einnig sætra eikaráhrifa í hófi. Rauð ber, kirsuber og hindber ásamt fjólum, kjötmikið og ungt. Nútímalegt og vel gert Rioja-vín. 1.600 krónur. 17/20 
     MAS NICOT COTEAUX DE LANGUEDOC 2003 er sólríkt vín frá Suður-Frakklandi, mjög þroskuð sólber, sviti, hjólbarðagúmmí og Fisherman´s Friends brjóstykur í nefi. Sem sagt hinn ágætasti kokkteill. Öflugt og langt í munni. 1.450 krónur. 18/20“ (Morgunblaðið 20.8.2006, Steingrímur Sigurgeirsson)

Og síðan ein „Mjög góð kaup“ úr Gestgjafanum að lokum. Því miður er vínið góða sem um ræðir hætt í sölu en fæst áfram með sérpöntun (ath. útsöluverð).

CHIARAMONTE NERO D’AVOLA 20034 GLÖS
Af einhverri ástæðu hafa Íslendingar ekki verið nógu duglegir við að tileinka sér vín úr þrúgunni nero d’avola og það þrátt fyrir að vín úr þessari þrúgu séu ákaflega matarvæn og í flestum tilfellum á hagstæðu verði. Þetta vín kemur frá Sikiley (eins og önnur vín úr þessari þrúgu) og frá víngerðinni Firriato sem flestir áhugamenn ættu að þekkja að góðu. Það hefur meðaldjúpan, fjólurauðan lit og meðalopinn ilm af sultuðum kirsuberjum, lakkrís, dökku súkkulaði, þurrkuðum ávöxtum, málmi og spritti. Þetta er kannski ekki flóknasti ilmur sem hægt er að komast í tæri við en hann er sérlega áhugaverður og ávaxtaríkur. Í munni er vínið þétt, langt og vel byggt með góða sýru og mjúk tannín. Það býr yfir glefsum af svörtum, sultuðum kirsuberjum, dökkum berjum, eik, súkkulaði og lakkrís. Verulega ánægjulegt vín sem er gott með flestum dekkri Miðjarðarhafsmat, rauðu kjöti og margvíslegu sjávarfangi líka (merkilegt nokk).
Í reynslusölu vínbúðanna 1490 kr. Mög góð kaup.
Hiti: 16-18°C. Geymsla: Drekkið núna og til 2009. “ (Gestgjafinn 8. tbl. 2006, Þorri Hringsson)

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, ástralía, ítalía, d'arenberg, dómar, firriato, frakkland, Gestgjafinn, la spinetta, mas nicot, morgunblaðið, spánn

Fleiri plöntur, betra vín

Það kann að hljóma sem þverstæða en því fleiri plöntum sem plantað er per hektara þeim mun betri verða þrúgurnar.

Lestu tölvupóstinn hans David hjá Gordon´s í Boston þar sem hann fjallar um þetta.

David er góður penni. Hann er líka afkastamikill penni því skeytin hans berast næstum daglega. Ég var hjálpari í búðinni hans þegar ég lærði í Boston á sínum tíma og fékk þá tækifæri til að fylgjast með og læra af þessum metnaðarfulla vínsala.

Færðu inn athugasemd

Filed under þrúgur, fræðsla, víngerð

ÚTSALA — þrjú rauð og eitt hvítt

Eftirtalin fjögur vín eru á útsölu.

Chiaramonte Rosso 2003 (rauðvín), 1.380 kr. í stað 1.590
Poggio Belvedere 2003 (rauðvín), 1.460 kr. í stað 1.690
Artazuri 2004 (rauðvín), 1.150 kr. í stað 1.300
Woodcutter´s Semillon 2004 (hvítvín), 1.800 kr. í stað 2.100

Chiaramonte Rosso 2003 fékk 4 glös í Gestgjafanum, Woodcutter´s Semillon sömuleiðis og Artazuri var valið „kaup mánaðarins“.

Sendu okkur póst á vinogmatur@internet.is til að leggja inn pöntun, lágmark sex flöskur. Þú sækir hana síðan í Heiðrúnu.

Færðu inn athugasemd

Filed under útsala

Á veröndinni hjá d’Arenberg er gott að vera

Verandah Restaurant er veitingastaðurinn hjá d’Arenberg vínframleiðandanum okkar í S-Ástralíu. Þar má smakka öll vínin, borða góðan mat og njóta umhverfisins. d’Arenberg er í hjarta S-Ástralíu, nánast í úthverfi Adaleide borgarinnar, og því stutt að fara — ef maður er á annað borð að fara til þessarar miðstöðvar S-Ástralíu.

Verandah er ekki bara góður kostur vegna staðsetningarinnar heldur þykir veitingastaðurinn afar góður. Ég hef ekki borðað þar ennþá en Valdi mágur og Sigrún konan hans gerðu einmitt það fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Verandah hefur hlotið athygli skríbenta undanfarið en þessi standa upp úr:

„Best winery restaurant in S-Australia“ – South Australian Restaurant and Catering Awards (2006)

„Best in the world of wine – Best winery restaurants“ – Wine and Spirits Magazine (haust 2006)

Hér er líka umfjöllun um staðinn á bestrestaurants.com.au

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, d'arenberg, veitingastaðir

Ný gagnrýni í Morgunblaðinu: 17 18 18 17

Ný gagnrýni í Morgunblaðinu.

Um Santagostino vínin tvö, rauða og hvíta, hefur Steingrímur fjallað áður, fyrir næstum þremur árum síðan. Hann gaf rauða 18 stig og hvíta heil 19 auk þess að velja það á sérstakan lista það árið, svokallaðan top 10 lista. Þar sem þessi langi tími var liðinn fannst mér ástæða að láta hann hafa nýja árganga af þessum vínum og í tilefni þess að þau voru að byrja aftur í sölu eftir stutta útlegð.

Í nýju greininni fjallar Steingrímur líka um Montepulciano d’Abruzzo frá Umani Ronchi sem er mjög ánægjulegt matarvín með ítalskan sveitasjarma. Steingrímur talar um hráan ávöxt og fjóshaug á jákvæðum nótum sem er miklu meira heillandi kokteill heldur en það gæti hljómað. Þau karaktereinkenni minntu okkur á rauðvín frá Bordeaux.

Einnig ferskt og mjúkt rauðvín frá Alicante á Spáni, Laderas de El Sequé. Artadi víngerðin er á bak við þetta vín sem hlotið hefur víða góð viðbrögð fyrir að vera mikið fyrir lítið

      „UMANI RONCHI MONTEPULCIANO D’ABRUZZO 2004 er rauðvín frá sama framleiðanda og hið vinsæla hvítvín Casal di Serra, sem er ekki bara vinsælt hér á landi heldur einnig eitt besta Verdicchio-vínið frá Castelli di Jesi-svæðinu. 
     Þetta rauðvín er einfalt en gott matarvín (90% Montepulciano og 10% Sangiovese) með nokkuð kröftugum og hráum ávexti, kryddað og með smá fjóshaug í nefi. Vín fyrir góða pastarétti. 1.300 krónur. Góð kaup. 17/20 
     En þá til Sikileyjar og vínframleiðandans Firriato og nýrra árganga af Santagostino-vínum þess, sem áður hafa verið gestir hér á síðunni, enda einstaklega frambærileg vín. 
     FIRRIATO SANTAGOSTINO ROSSO 2002 er rauðvínið í seríunni. Þroskaðar plómur, kókos, vanilla og leður. Í munni heitur ávöxtur en hreinn og þéttur, rúsínur og lakkrís ásamt góðri lengd. 1.690 krónur. 18/20 
     FIRRIATO SANTAGOSTINO BIANCO 2005 er hvítvín í sömu línu, blanda úr þrúgunum Cataratto og Chardonnay. Ferskjur, sítrus, ferskar jafnt sem þurrkaðar og sykurhúðaðar sítrónur. Rjómamjúkt í nefi sem munni en þó með ferskri og þægilegri sýru. 1.690 krónur. 18/20 
     
LADERAS DE EL SEQUÉ MONASTRELL-SYRAH-CABERNET 2005 er rauðvín frá Alicante á Spáni. Það er svolítið Valpolicella-legt í stílnum og þá í jákvæðum skilningi. Mikill og bjartur og heillandi ávöxtur, kirsuber og sólber, sæt og seiðandi, þétt og mjúkt í munni, þykkur áfengur og ljúfur ávaxtasafi, laus við tannín, eik og annað sem truflar stundum. 1.450 krónur. 17/20“ (Tímarit Morgunblaðsins13.8.2006, Steingrímur Sigurgeirsson)

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, ástralía, ítalía, dómar, El Seque, firriato, morgunblaðið, spánn, umani ronchi

Láttu sjá þig með rósavín

Það er þetta með rósavínin. Ímynd þeirra hefur verið svo lituð af slæmum fulltrúum að það hefur næstum gleymst að til eru þau sem eru virkileg góð – kannski ekki flókin, en ánægjuleg og frískleg. Þessi fáu, góðu rósavín hafa aðallega verið drukkin í föðurhúsunum fyrir utan nokkra nörda sem hafa næstum þurft að drekka þau í laumi af ótta við að vera staðnir af verki af vínþekkjurum.

Það getur verið stutt á milli nördisma og tísku. Þá vill sá síðari tímabundið verða það sem sá fyrri einfaldlega er.

Rósavín eru komin af hliðarlínunni. Þau eru í tísku.

Láttu sjá þig með rósavín.

Láttu sjá þig með rósavínskvartettinn okkar; Domaine TempierMas Nicot, Chateau Mourgues du Gres og Artazuri.

Færðu inn athugasemd

Filed under artazuri, frakkland, fréttir, mas nicot, mourgues du gres, spánn, tempier

Tvö Chianti Classico 2004 í Decanter

Tvö af okkar Chianti Classico vínum fengu mjög góða einkunn í breska víntímaritinu Decanter nýlega. Chianti Classico 2004 frá Fontodi fékk fullt hús stiga, 5 stjörnur, og Chianti Classico 2004 frá Castello di Querceto fékk 4 stjörnur. 2004 árgangur af hinu síðarnefnda fæst nú þegar en 2004 árgangur af Fontodi er ekki kominn til landsins þar sem enn er eitthvað eftir af 2003.

* * * * * FONTODI CHIANTI CLASSICO 2004. This is packed with sumptuous ripe fruit, but the ripeness is balanced by refreshing acidity and firm tannins. Long and pure. Drink 2008-15-15.“

* * * * CASTELLO DI QUERCETO CHIANTI CLASSICO 2004.  A wine of zest rather than weight, with fresh cherry aromas and flavours, reasonable concentration and good length. Drink 2008-12. “ ( www.decanter.com )

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, dómar, decanter, flaugergues, fontodi

Ævintýraleg björgun úr vínkjallara (aka – Matarboð hjá H og J)

Það er fátt skemmtilegra en matarboð hjá góðu fólki.

Hildigunnur tónskáld og Jón Lárus tölvukall buðu okkur fjölskyldunni í mat í gær, og Birni Friðgeiri KB manni og viskubrunni. Þetta er í annað sinn sem við förum þangað. Við hlökkuðum mikið til eftir fyrra skiptið því þau eru listakokkar og mikið vínáhugafólk. Við smökkuðum þrjá árganga af nýsjálensku Chardonnay, Stonleigh 1999-2001. Það er oft talað um hversu stöðug vínin eru frá þessu heimshorni og átti ég því von á litlum breytingum milli árganga en það kom á daginn að þau voru hvert öðru ólíka. Mjög skemmtilegt. Heildarstíll vínsins er tvímælalaust góður og vísaði aðeins í áttina til Chablis (sérstaklega 1999) svo maður haldi nú áfram að bera öll Chardonnay við Mekkað sjálft, þe. Búrgúnarhéraðið.

Við drukkum svo áfram þessi vín með forréttinum og aðalréttinum. Forrétturinn var svo góður; ferskt pasta fyllt með þistilhjörtum (ferskum!) og ricottamixi borið fram með salvíusmjöri. Mmmmmm… Þeir sem hafa prófað að verka þistilhjörtu vita hversu mikið þolinmæðisverk það er að komast að kjarnanum. Laxinn í aðalrétt var líka góður. Stoneleigh vínin úr Chardonnay þrúgunni pössuðu vel með báðum réttum. Eftirréttur var heimalöguð Pavlova sem er svona semi-súkkulaðimarens með þeyttum rjóma og ferskum berjum. Allt er gott sem endar vel.

Á undan eftirréttinum var opnað eitt rauðvín frá Argentínu sem hjónin keyptu í Danmörku. Það var eftirminnilega gott, að mestu úr Malbec og þroskað í franskri eik í 18 mánuði eða svo. Nafni þess er haldið leyndu enn sem komið er af hernaðarlegum ástæðum.

Þá var haldið í vísindaferð niður í vínkjallara til að rannsaka hvert yrði lokavín kvöldsins. Þeir sem hafa vínbakteríuna vita að eitt af einkennunum er að missa tímaskynið í vínkjöllurum. Þeir geta því verið hættulegur staður, ekki síst þegar aðrir matargestir bíða. Okkur var bjargað naumlega af húsfrúnni. Fyrir valinu varð Stonewell Shiraz 1999 frá hinum ástralska Peter Lehman. Mikið og flott vín sem leið kannski aðeins fyrir það að vera svona aftarlega á dagskránni. Gaman að smakka hvað keppinautar okkar manna í Ástralíu eru að gera.

Takk kærlega fyrir okkur.

Færðu inn athugasemd

Filed under vín

Vín sem enda á -aia

Toskana-rauðvínin með endinguna „aia“ urðu tákngervingur fyrir ítölsku vínbyltinguna sem hófst fyrir um þremur áratugum síðan. Ornellaia, Sassicaia, Solaia o.sfrv. Þessi kvenlega ending hefur reyndar ekkert með gæði beinlínis að gera heldur réð tilviljun því að þau vín sem hlutu einhverja mestu athyglina og urðu eftirsóttust meðal vínsafnara höfðu sum þessa sömu endingu.

Solaia 1997 smakkaði ég í fyrsta sinn fyrir skömmu. Þessi árgangur fékk 96 stig hjá Robert Parker og 98 stig hjá Wine Spectator. Ég man hvað mig langaði að eignast þetta vín á sínum tíma en ég var ekki einn af þeim heppnu sem þá náðu að kaupa það í ÁTVR á fínu verði, um 3.000 kr. Ég sá það síðar í vínbúð á túristaslóðum í Flórens fyrir 30.000 krónur og veit af magnum flösku (1.5L) á bandarískum veitingastað sem kostar 1.200$.

Vínið var virkilega gott. Toskanauppruni vínsins var augljós og stíllinn var flottur. Hins vegar er ég feginn að hafa ekki reynt að kaupa það einhvers staðar fyrir uppskrúfað verð. Það er svo mikið af góðum vínum þarna úti, gæðavínum sem endurspegla uppruna sinn á ómótstæðilega hátt þótt kannski fái þau ekki þessar himinháu einkunnir sem stundum glepja mann og annan.

Það sem er svo skemmtilegt við Ísland er að erlend súpergagnrýni hefur engin áhrif á verðið. Birgjar og ÁTVR halda sinni venjulegu álagningu sem veldur því einmitt svo oft að hér kosta slík vín minna en í öðrum löndum.

Að lokum. Eitt annað vín kom upp í hugann minn þegar ég smakkaði Solaia 1997 sem mér fannst ekkert gefa hinu frægara eftir. Það er Il Sole di Alessandro 2000 frá Castello di Querceto sem kemur frá Toskana eins og Solaia og er úr sömu þrúgu, Cabernet Sauvignon (Il Sole er 100% Cab. en Solaia um 75%). Hægt er að sérpanta það á 4.400 kr.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, fræðsla, vangaveltur

Fleiri suður-frönsk í Morgunblaðinu

Steingrímur gaf fjórum rauðvínum frá Chateau de Lascaux og Domaine d’Aupilhac fína dóma í Tímariti Morgunblaðinsins síðastliðinn sunnudag.

     „Suður-frönsk vín hafa verið nokkuð fyrirferðarmikil undanfarið. Enda ekki nema von. Eftir að hafa verið nær ósýnileg á íslenska markaðnum um langt skeið streyma inn spennandi vín frá bestu framleiðendum frönsku Miðjarðarhafssvæðanna. Suðursvæðin eru hvað mest spennandi víngerðarsvæði Frakklands í dag þar sem framsæknir framleiðendur hafa margir hverjir brett upp ermarnar og bjóða Nýjaheimsvínunum birginn á heimavelli — þ.e. með framleiðslu sólbakaðra vína á hagstæðu verði. Þau vín sem hér eru til umfjöllunar eru þó í dýrari kantinum enda um að ræða toppvín frá toppframleiðendum, sem framleidd eru í takmörkuðu magni.
     CHATEAU DE LASCAUX PIC SAINT-LOUP 2004 er skemmtilegt vín frá Suður-Frakklandi. Pic Saint Loup er með betri svæðum Languedoc þótt það sé ekki stórt, það nær til einna 13 þorpa en einungis 22 framleiðendur og þrjú vínsamlög framleiða undir Pic Saint-Loup nafninu. Jarðvegurinn er ríkur af kalksteini og ekrur Pic Saint-Loup eru nokku hátt yfir sjávarmáli, sem temprar af Miðjarðarhafsloftslagið. Lascaux er vínhús sem hefur yfir að ráða um 35 hektörum og er í eigu Jean-Benoit Cavalier. Rabarbarasulta, rifsber, sólber og sprittlegnar rúsínur (vínið er 14%) ásamt vanillu úr eik, syrah-þrúgan algjörlega ríkjandi í nefinu, ávöxturinn sætur og þægilegur í munni ásamt mildum tannínum og þægilegum kryddkeim. Langt í lokin. 1750 krónur. 18/20
     Annað vín frá sama framleiðanda er CHATEAU DE LASCAUX COTEAUX DU LANGUEDOC 2004. Sæt ber, krækiber, bláber, sólber í áfengum, sætum hjúp. Ágæt lengd og þéttleiki í munni, ávöxturinn sætur og þægilegur. 1.600 krónur. 17/20
     DOMAINE D’AUPILHAC 2003 er rauðvín frá Montpeyroux-svæðinu í héraðinu Coteaux du Languedoc í Suður-Frakklandi. Montpeyroux hefur ekki enn eigin „appelation“ innan Languedoc en helstu framleiðendur svæðisins heyja hetjulega baráttu fyrir því með Sylvain Fadat, eiganda Domaine d’Aupilhac, í fararbroddi. Þetta er rauðvín úr einum fimm Miðjarðarhafsþrúgum (Mourvédre, Carignan, Syrah, Cinsault og Grenache). Sólbökuð rauð og svört ber í nefi, heit og krydduð, allt að því sultuð með vott af karamellu og sveskjum. Kryddmikið og langt í munni og þar kemur líka dýpt vínsins fyllilega í ljós. Ávöxturinn þéttur og að því er virðist endalaus í bragðinu. 2.200 krónur. 18/20
     DOMAINE D’AUPILHAC LOU MASET 2004 er blanda úr sömu þrúgum nema Mourvédre sem átti 30% í fyrra víninu. Heitur ávöxtur með ríkjandi svörtum berjum, bjartur og aðgengilegur með góðri lengd í munni. 1.600 krónur. 17/20“ (Tímarit Morgunblaðsins 30.07.2006, Steingrímur Sigurgeirsson)

Færðu inn athugasemd

Filed under aupilhac, Chateau du Lascaux, dómar, frakkland, morgunblaðið