Monthly Archives: október 2006

Þurrkar í Ástralíu

Um fjórðungur vínuppskeru Ástrala er í hættu, jafnvel meira, vegna þurrka og frosts skv. þessari grein í Decanter.

Ég þarf að spyrja d’Arenberg hvernig ástandið er hjá þeim í McLaren Vale dalnum.

Reyndar hefur helsta ógn ástralskrar vínframleiðslu undanfarið ekki verið rýrnun uppskeru heldur einmitt öfugt — offramleiðsla… 900 milljón lítrar eru á umframlager eins og staðan er í dag.

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, d'arenberg, decanter, fréttir, loftslag, víngerð

Vínsmökkun í MK

Þá er ég nýkominn úr vínsmakki fyrir nemendur í matvælaskóla MK. 20 manns og annað holl á morgun.

Smakkið fer fram á ensku, til að undirbúa nemendur sem koma til með að vinna við veitingageirann í því að þekkja og hugsa um vín og eiga um það hugsanleg samskipti við erlenda gesti sína.

Neil enskukennari á heiðurinn að þessu. Fyrir utan að læra enskuna finnst honum mikilvægt byggja snemma upp áhuga og metnað í stéttinni.

Ég var með svona í MK líka í fyrra og hefur gengið vel. Gaman að sjá 16-17 ára krakka velta þessu fyrir sér og smakka nokkur vín — með leyfi foreldra að sjálfsögðu.

Færðu inn athugasemd

Filed under fræðsla, kennsla, vínsmökkun

Amedei smakkpakkar

Við göngum frá Amedei súkkulaðipöntun í næstu viku. Hægt er að panta einhvern þessari smakkpakka með því að senda okkur tölvupóst á vinogmatur@internet.is og við sendum til þín við komuna til landsins eftir u.þ.b. mánuð.

Smakkpakki #1 – 750 kr.
Toscano Black Selezioni
55gr. pakki með 12 smástykkjum af þremur ólíkum gerðum af dökku súkkulaði, 70%, 66% og 63%, og eru 4 smástykki af hverri sort.

Smakkpakki #2 – 900 kr.
I Cru Selezioni
55gr. pakki með 12 smástykkjum af eingöngu 70% súkkulaði frá 6 ólíkum löndum, tvö stykki frá hverju landi, Trínídad, Venezuela, Madagaskar, Ekvador, Granada og Jamaica.

Smakkpakki #3 – 4.900 kr.
Le Selezioni
Falleg askja með 5 ólíkum 55gr Selezioni pökkum sem hver inniheldur 12 smástykki. Toscana Black og I Cru eins og eru hér fyrir ofan en jafnframt sitt hver pakkinn af besta súkkulaði (í heimi?) Amedei, Porcellana (70%), Chuao (70%) og „9“ (75%).

Smakkpakki #4 – 2.500 kr.
Le Praline
290gr. konfektkassi með 25 molum þar sem einfaldleiki, jafnvægi og bestu fáanlegu hréfni spanna stórkostlega bragðflóru frá capuccino til mandarína. Maður lítur konfekt aldrei sömu augum eftir þennan kassa.

Smakkpakki #5 – 7.900 kr.
Collezione
Falleg askja sem inniheldur 80gr. konfektkassa með 12 molum, 120gr. trufflukassa með 12 molum, 55gr Selezione Chuao með 12 smástykkjum, 55gr Selezione Toscano Black með 12 smástykkjum og 100gr. súkkulaðiplötur af eftirfarandi tegundum (alls 8oogr.): Toscano 70%, Toscano 63%, Mjólkursúkkulaði, Mjólkursúkkulaði með heslihnetum, Dökkt súkkulaði með möndlum, Hvítt súkkulaði með pistasíuhnetum, 70% súkkulaði með rauðum berjum og 63% súkkulaði með ferskjum og apríkósum.

Smakkpakki #6 – 2.800 kr.
Samanstendur (ath. ekki gjafapakkning) af 6 mismunandi súkkulaðiplötum. Tegundirnar eru eftirfarandi: Chuao (50g), Toscano 70% (100g), Toscano 66%(100g), Mjólkursúkkulaði (100g), Hvítt súkkulaði með pistasíuhnetum (100g) og 63% súkkulaði með ferskjum og apríkósum (50g).

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, súkkulaði, smakkpakki

Rósavín á uppleið

Rósavínsneysla í Bretlandi er 5-7% af heildarléttvínsneyslu skv. þessari grein í Beveragedaily.com.

Fyrir nokkrum árum var hún aðeins 1%.

Rósavín eru ekki bara í tísku heldur er fólk að átta sig á því hversu miklu betri rósavín eru miðað við gutlið sem það var vant að drekka þegar rósavín voru vinsæl hér í gamla daga.

Ég get ekki sagt að ég sé beinlínis að moka út rósavínum þessa dagana en það getur ekki verið tilviljun þegar tveir góðir veitingastaðir hér í borg hringja í mig að fyrra bragði og spyrjast sérstaklega fyrir um rósavín. Annar þeirra, Vox, býður gestum sínum upp á rósavínin Artazuri og Mourgues du Gres Les Capitelles.

Rósavín eru ekki bara sumarvín frekar en hvítvín. Þau eru jú gleðivín, björt, fersk og hressandi. En hver slær hendinni á móti slíkum eiginleikum í skammdeginu?

Rósavín eru sömuleiðis fjölhæf matarvín, feta stíginn milli hvítra og rauðra og geta gengið í hlutverk þeirra beggja þegar svo ber við.

Færðu inn athugasemd

Filed under artazuri, frakkland, fréttir, mourgues du gres, spánn, vín

Kraftbrauð úr súrdeigi

Ingólfur mágur minn er bakarameistari og Fagstjóri bakaradeildarinnar í Hótel- og Matvælaskólanum í MK. Hann bjó til uppskriftina af súrdeigskraftbrauðinu hér fyrir neðan. Frábært brauð, kjarnmikið, hollt en létt engu að síður og upplagt með hvers konar góðu áleggi (eins og heimalöguðu marmelaði og osti…).

Kraftbrauð úr súrdeigi
Höfundur: Ingólfur Sigurðsson

Súrdeig 1. þrep „Móðursúr”  
50 g bygg (móðir jörð)           ** Hrært saman í skál. Breiða plastfilmu yfir.
50 g rúgmjöl                           ** Standa í stofuhita í 2 sólarhringa
50 g rúgsigtimjöl
50 g speltmjöl gróft                * pressugerið þarf að standa úti í stofuhita í
200 g vatn 27°C                       1 – 2 sólarhringa fyrir notkun til að fá
3-5 g gamalt pressuger*          fram réttu  mjólkursýrubakteríurnar.

Þegar móðursúrdeigið er tilbúið þarf að halda því við með því að fara í 2. þrep og endurtaka það á 2ja daga fresti þar til deigið er orðið fullþroskað eftir 10-14 daga. Eftir það getur súrdeigið haldist lifandi við stofuhita í fleiri ár svo framarlega sem það fær áfram næringu með því að endurtaka 2. þrep ávallt á 2ja daga fresti. Ef það er ekki gert deyr súrdeigið. Það skiptir ekki máli hversu miklu magni er bætt út í móðurdeigið, aðalatriðið er að hlutfallið milli hráefnanna haldi sér (50/50 vatn og mjöl).

Súrdeig 2. þrep   Bæta út í móðursúrinn:
50 g bygg (móðir jörð) 
50 g rúgmjöl
50 g rúgsigtimjöl                    ** Hrært saman. Breiða plastfilmu yfir. Standa í
50 g speltmjöl gróft               ** stofuhita í 2 sólarhringa
200 g vatn 28°C  

o.s.frv.
—————————

Kraftbrauð (uppskriftin gefur 2 – 3 stór brauð (fer eftir formastærð)):
160 g hörfræ                      *
300 g vatn (mjög heitt)      * Lagt í bleyti í 30 mín.
+
700 g  fullþroskað (10-14 daga gamalt eða meira) súrdeig blandað,  bygg sigti, rúg og spelt.(**)
+
600 g vatn  30°C
200 g spelt gróft
200 g rúgmjöl
200 g rúgsigtimjöl
160 g graskersfræ  
160 g sólkjarnafræ 
140 g heilir hafrar
170 g haframjöl (grautargrjón)
  15 g kúmen
  30 g sjávarsalt 
  
Deigið unnið hægt í 10 mín; látið standa í 16 klst.
Vigtað í frekar stór form þannig að deigið fylli formið ¾ , Látið hefast í formunum í ca. 3 klst eða þar til deigið fyllir formin upp að brún.
   
Bakstur:  250° inn í ofn
Skvetta 1 dl vatni í botninn á ofninum og loka.
Hitastig á brauðum lækkað eftir 5 mínútur í 200° og bökuð í ca 80 mín (miðað við 1000 ml. form)

——————————

Súrdeigið sem ekki þarf að nota í þessa uppskrfit er hægt að halda á lífi með reglulegum viðbótum/næringu sbr. leiðbeiningar hér ofar. Dæmi eru um 5 ára gamalt móðursúr í bakarastéttinni sem fæddi af sér margt brauðið.

Ath. Pressugerið sem notað er í upphafi er einungis til að ná fram ræktun á heppilegustu mjólkursýrubakteríunum. Þetta hefur engin áhrif á það germagn sem er í fullþroskuðu súrdeigi. Hins vegar er mikilvægt að pressugerið sé ekki nýtt heldur gamalt. Þannig hefur magn mjólkursýru í gerinu margfaldast.

Verði ykkur að góðu
Ingólfur Sigurðsson

Færðu inn athugasemd

Filed under brauð, uppskrift

Vinitaly vínsýninginn – hér kem ég

Þá er ég búinn að ganga frá flugmiðum og hóteli í Veróna um mánaðarmótin mars/apríl.

Flugmiðarnir höfðust með smá púsli enda engin bein og greið leið niður á smáflugvöllinn í Veróna.

Hótelið var erfiðara. Vínsýningin er vel sótt þannig að öll herbergi fyllast að því er virðist með árs fyrirvara. Ég sendi út um 10 fyrirspurnir í sumar auk þess að skoða heilmargar leitarvélar þangað til ég fékk loks eitt jákvætt svar sem ég tók fegins hendi. Skilyrðið mitt var að vera í miðborginni en þaðan er sýningarsvæðið í göngufjarlægð. Reyndar fékk ég boð um gistingu hjá framleiðanda á svæðinu sem á geysilega flottan kastala en þar sem ég hef ekki áhuga á vínum þeirra í bili amk. fannst mér eitthvað ómögulegt við það að sníkja þar gistingu.

Vinitaly vínsýninginer sú stærsta á ítalíu og kæmi mér ekki á óvart að hún væri sú stærsta í heimi á eftir Bordeaux vínsýningunni. Þarna koma saman nánast allir framleiðendur Ítalíu, vínkaupmenn, veitingamenn, blaðamenn og áhugafólk. Ég er ekki síst spenntur fyrir boðum á lokaðar smakkanir, matarboðum og slíku sem gefur svona ferð ennþá meira gildi.

Ég hef ekki farið nýlega, síðast gekk það ekki einfaldlega vegna þess að ég fann hvorki hótel né flug. Árið þar á undan fórum við Rakel frekar í almennilega heimsókn til framleiðandanna okkar og ferð á vínsýninguna því að mestu óþörf.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, ferðalög, vín, vínsýning

Montevetrano í biblíunni

Fimm vínbiblíur á Ítalíu eru gefnar út á hverju ári á Ítalíu hver frá sínum útgefandanum/höfundinum. Þær voru að koma út fyrir 2007.

Hver og ein hefur sitt einkunnakerfi og í raun breytir það frekar litlu hvaða kerfi þær nota – allar draga þær fram ákveðin vín sem bestu vín Ítalíu í það skiptið.

Merkilegt nokk að þótt oft séu einhverjar biblíanna fimm sammála um að ákveðin vín séu bestu vín Ítalíu þá gerist það ótrúlega sjaldan að allar fimm biblíurnar séu sammála.

Gambero Rosso gefur t.d. hæstu einkunn sína, glösin þrjú (TRE BICCHIERI), til næstum 300 vína.

Af þeim eru aðeins tvö sem hin fjórar biblíurnar gefa líka hæstu einkunn.

Vínin tvö þetta árið sem allar fimm vínbiblíurnar eru sammála um að séu bestu vín Ítalíu eru Galatrona 2004 frá Petrolo og okkar vín Montevetrano 2004.

Reyndar fluttum við aðeins inn Montevetrano 2001 en ég sendi póst rétt áðan til  hennar Patriziu til að athuga hvort ég ætti ennþá inni flöskurnar sem ég pantaði af 2002, 2003 og nú 2004 árganginum. Vonandi gengur það svo Íslendingar geti notið þess víns sem flestir eru sammála um að sé meðal bestu vína Ítalíu.

Í fyrra voru aðeins fleiri vín sem allar fimm biblíurnar voru sammála um að væru þau bestu eða alls átta vín. Við áttum tvö þeirra, Barolo Le Vigne 2001 frá Luciano Sandrone og Granato 2003 frá Foradori.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, dómar, fréttir, montevetrano, rauðvín