Monthly Archives: nóvember 2006

Spagettí Carbonara og Vitiano hvítvín

.

Spagettí Carbonara er einn af fyrstu pastaréttunum sem við Rakel elduðum. Hann var einfaldur: steikja beikon og setja út á spagettí ásamt sósunni (rjómi, egg, parmeggiano, salt og pipar) sem léttsteiktist á heitu pastanu. Og svo gott, kalt og þurrt ítalskt hvítvín af einfaldari gerðinni með, t.d. Frascati.

Útgáfuna hér fyrir neðan fann ég hins vegar í bandaríska vín- og matartímaritinu Food and Wine og fannst okkur Rakel hún betri. Það er Cristopher Russel, veitingastjóri á Union Square Cafe í New York sem gefur hana. Hann mælir með rauðvíni úr Sangiovese þrúgunni, helst Chianti Classico. Chianti Classico frá Castello di Querceto, Fontodi eða Rietine væru  prýðileg en að jafnaði myndi ég frekar velja svalt og brakandi ferskt hvítvín þar sem rétturinn er í þyngri kantinum á pastavísu, t.d. Vitiano hvítvínið frá Falesco (systurvín samnefnds rauðvíns frá framleiðandanum).

Og þá að uppskriftinni:

Beikon (1 bréf) er skorið niður í litla bita og steikt í matskeið af ólífuolíu á meðalhita í 7-8 mínútur. Fitunni er síðan hellt af og hún geymd.

2 1/2 desilíter af rjóma hellt á sömu pönnu við vægan hita og pipar bætt útí þegar rjóminn er aðeins farinn að sjóða og síðan strax sett útí á eftir 2 1/2 desilíter af rifnum, ferskum parmeggiano og pecorino osti (við notuðum eingöngu parmeggiano). Hrært  í þar til allt hefur blandast vel saman, svona 2 mínútur. Blöndunni hellt í skál og látið aðeins kólna.

Út í blönduna er síðan hrærð 1 stór eggjarauða, steikta beikonið og 2 matskeiðar af fitunni sem var geymd. Látið kólna í ísskáp (hægt að gera sósuna daginn áður).

Síðar, á meðan spagettíið er að sjóða er sósan tekin úr ísskápinum og hituð við vægan hita. Spagettíið er látið þorna þegar það er tilbúið og hellt út í sósuna á pönnunni. Hrært og síðana borið fram t.d. með því að setja í skál eða beint á diska.

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, chianti classico, falesco, fontodi, kjöt, matur, pasta, rietine, uppskrift

Firriato aftur valinn Vínframleiðandi ársins á Ítalíu

.

Sikileyska víngerðin Firriato hefur gert það gott í ítölsku pressunni undanfarin ár en fáir hafa tekið jafn miklu ástfóstri við eyjaskeggjana og víntímaritið Il Mio Vino (nema ef vera kynni Luca Maroni).

Í annað sinn á þremur árum fær Firriato þessa viðurkenningu hjá tímaritinu og rauðvínið Ribeca var valið besta rauðvínið í sínum flokki (ítölsk rauðvín sem kosta á milli 15-30 Evrur).

Ég hef smakkað Ribeca en ekki ennþá flutt það inn, það gæti þó alveg gerst. Ribeca kostar það svipað og Harmonium sem er í uppáhaldi hjá mörgum gestum á La Primavera í Austurstræti. Santagostino vínin, rauða og hvíta, fást hins vegar í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni á 1.790 kr.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, dómar, firriato, la primavera, tímarit, veitingastaðir

Norræn máltíð á VOX: Gestakokkur René Redzepi

René Redzepi, yfirmatreiðslumaður á NOMA í Kaupmannahöfn, var gestakokkur á VOX um helgina. René þessi hefur starfað hjá ekki lakari stöðum en El Bulli, French Laundry og Jardin des Sense.

Vínlistinn á NOMA er evrópskur og einhver sá flottasti sem ég hef séð.

Tónninn í matreiðslunni á Vox var norrænn; ölbrauð, rækjur, kartöflur, rúgur, söl, villigæs, skyr og þess háttar — að ógleymdri öskunni! Öskuna framleiddu starfsmenn Vox með því að brenna hey.

Matseðillinn var fimm rétta og kostaði 7.950 kr. án vína, 13.450 kr. ef vínseðillinn var tekinn með. Fyrir utan réttina fimm voru boðnir 2 for-forréttir og einn for-eftirréttur, alls 8 réttir. Miðað við gæði var verðið sanngjarnt, á íslenskan mælikvarð a.m.k.

Svona leit 5 rétta matseðillinn út:

1) Hráar íslenskar rækjur með agúrkusafa og piparrótarsnjó (hvítvín: Riesling Steinmessel 2004 frá Brundlmayer sem mér fannst afbragðsgott, þurrt og glæsilegt)

2) Leturhumar og ostruemulsion, rúgur og söl (hvítvín: Sauvignon blanc 2006 frá Cloudy Bay sem angaði af kattahlandi og steinolíu og var afskaplega ljúft vín)

3) Litlar kartöflur og maltmjöður frá Fredriksberg (rauðvín: Aloxe Corton 1997 frá Louis Jadot sem ilmaði af hnakki og seltinni jörð og var áhugavert)

4) Íslensk villigæs með sultuðu selleríi, ösku og sykurbrúnuðum eplum (rauðvín: GSM 2002 frá Rosemount sem hafði skemmtilegan karamellu-ilm en á endanum fannst mér eikin bera það ofurliði)

5) Ölbrauð með skyrkrapís og freyðandi mjólk (styrkt sætvín: Maccabeu 2002 frá Mas Amiel sem hafði daufan ilm en skemmtilega áferð í munni og var bara fínt)

Án þess að fara of mikið í smáatriði var upplifunin mjög góð. Gúrkusósa var ferlega fersk og bragðgóð, ostruemulsion færði manni hafið á diskinn, mikil notkun á ýmis konar rúgi og malti var skemmtileg, askan var stórskemmtileg og ölbrauðið í eftirréttinum fékk mig til að hugsa um ömmu.

Sem sagt, mjög gott allt saman og þjónusta alveg til fyrirmyndar.

Færðu inn athugasemd

Filed under noma, vínlisti, veitingastaðir, vox

Veröldin í einni vínflösku — vínlýsingarorðabók í vasann

.

Bloggarinn Alder segir á Vinography vefsíðunni sinni: „[…] we can taste so much of the world in a bottle.“.

Hann á við hina miklu ilm- og bragðflóru sem menn geta fundið þegar þeir smakka vín en eiga oft í erfiðleikum með að koma orðum yfir. 

Alder hefur sett niður stutt orðasafn sem hægt er að nálgast hér, prenta út og stinga í vasann eða veskið. Svo þegar næsta vín er smakkað er hægt að kippa út listanum og finna réttu orðin.

Færðu inn athugasemd

Filed under bækur, Blogg um vín og mat, fræðsla, vínsmökkun

Smakkpakki frá S-Ástralíu

.

Við höfum sett saman 4 rauðvín frá þremur ólíkum framleiðendum í S-Ástralíu. Þetta eru fjölskyldufyrirtæki, þekkt fyrir að setja markið hátt. Svo hátt reyndar að öll hafa þau einhvern tímann fengið fyrir eitthvert vína sinna 98 eða 99 stig af 100 hjá Robert Parker.

d’Arenberg og nágranninn hans Kay Brothers eru í McLaren Vale héraðinu sem er syðst við strönd álfunnar og beint fyrir ofan er Barossa héraðið þar sem Torbreck er staðsettur.

d’Arenberg The Custodian Grenache 2004
d’Arenberg The Cadenzia GSM 2003
Kay Brothers Hillside Shiraz 200295 stig Robert Parker
Torbreck The Woodcutter´s Shiraz 2004

S-Ástralíu SMAKKPAKKI – 9.800 kr.

Smávegis glaðningur frá Amedei súkkulaðiálfunum í Toskana fylgir með ásamt litlu hefti með ítarlegum upplýsingum um vínin fjögur og framleiðendur þeirra.

ATH! Til að panta smakkpakkann sendir þú okkur tölvupóst á vinogmatur@internet.is. Við munum leiða þig í gegnum ferlið.

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, d'arenberg, kay brothers, smakkpakki, tilboð, torbreck, vín

50 vín sem hafa breytt Ítalíu

Gambero Rosso útgáfan er allt í senn, vefsíða, tímarit og bók. Gefin út af Slow Food samtökunum sem eiga sér fulltrúa hér á Íslandi.

Bókin er gefin út einu sinni á ári og fjallar um nánast öll vín eru skipta máli á Ítalíu. Hún er án nokkurs vafa áhrifamesta heimildin um vín þar í landi og áhrifanna gætir um allan heim.

Vínin sem þeir gefa hæstu einkunn, svokölluð þrjú glös eða  „Tre Bicchieri“,  á hverju ári eru um 300 talsins. Það þykir afar eftirsóknarvert að hljóta þann heiður. Sum vín fá þessa einkunn á næstum hverju ári, önnur endrum og eins.

En að velja 50 vín sem hafa breytt og mótað landslagið í ítalskri vínmenningu er önnur ella, öllu marktækari.

Gambero Rosso finnst 50 vín hafa gert betur en önnur í gegnum tíðina. Af þeim 50 eigum flytjum við inn 7. Þau eru Montevetrano, St. Valentin Sauvignon Blanc, Barolo Cannubi Boschis, Granato, Sagrantino di Montefalco 25 Anni, Montiano og Flaccianello della Pieve.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, dómar, fréttir, gambero rosso, vín

Flugleiðir velja Vín og mat á Business Class vínlistann

Ég er nokkuð ánægður akkúrat núna. Svona næstum eins ánægður og krakkarnir í Langholtsskóla sem unnu Skrekk í gær.

Inn um lúguna kom bréf frá Flugleiðum með pöntun fyrir Business Class vínlistann árið 2007.

Það eru 8 vín á vínlistanum, fjögur fyrir Evrópu Business Class (187ml flöskur) og fjögur fyrir Bandaríkja Business Class (750ml flöskur).

Af 8 eigum við 3 sem við erum eiginlega mjög ánægð með.

Þetta er þriðja árið sem við störfum með Flugleiðum. Frá stofnum Víns og matar hafa vínin okkar verið á Business Class vínlistum Flugleiða, 2007 verður fjórða árið í röð.

Hvernig fer valið fram? Birgjar senda 2-3 sýnishorn af hverju víni sem er síðan smakkað af nokkrum helstu vínsérfræðingum landsins og stóru vínteymi af hinum og þessum að auki til að gefa sem breiðasta mynd af vínunum sem eru smökkuð.

Og að vínunum þremur. Fyrst ber að nefna Pinot Noir rauðvín (750ml Business Class USA) frá San Michele Appiano, okkar framleiðanda í Alto Adige á norðurhjara Ítalíu, síðan Grecante hvítvín (750ml Business Class USA) frá Arnaldo Caprai á Mið-Ítalíu og loks sérsmíðuð hvítvínsbland (187ml Business Class Evrópa) fyrir Vín og mat frá nýjum framleiðanda, Sandhofer í Austurríki.

Þess má geta að báðir ítölsku framleiðendurnir hafa verið valdir framleiðendur ársins hjá Gambero Rosso/Slow Food.

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, caprai, ferðalög, flug, fréttir, gambero rosso, hvítvín, rauðvín, sandhofer, vín