Monthly Archives: nóvember 2006

Súkkulaði hreinsar æðarnar

Skv. nýrri rannsókn hjá John Hopkins Háskóla í Bandaríkjunum hjálpar dökkt súkkulaði við að hreinsa æðarnar.

Þessar nýjustu niðurstöður eru enn ein staðfestingin um heilsusamlega eiginleika súkkulaðis.

Rannsóknir um hollustu rauðvíns eru ennþá fleiri og hvítvín er talið vinna á bjúgi.

Svo ekki sé nú minnst á ólífuolíuna.

Kannski að Vín og matur ætti að fara að skilgreina sig upp á nýtt: „Heildsala með hollustuvörur“?.

Ég á bara eftir að finna eitthvað jákvætt um hunang og rauðvínsedik en það ætti ekki að vera erfitt.

Súkkulaðið okkar kemur frá Amedei á Ítalíu. Heyrst hefur að það veki líka erótískar kenndir hjá þeim er þess neyta.

Auglýsingar

Ein athugasemd

Filed under amedei, heilsa, rannsóknir, súkkulaði, vín

Winespectator Top 100: Torbreck The Struie 2004

Wine Spectator Top 100 listinn var að koma út, fyrir árið sem er senn á enda.

Við eigum eitt vín á listanum, The Struie 2004 frá Torbreck. Það fær 94 stig og er í 38. sæti listans.

Vínið var líka valið á listann fyrir tveimur árum síðan, þá 2002 árgangur, og merkilegt nokk í nákvæmlega sama sæti. Við keyptum hins vegar 2003 árganginn og verður hann væntanlega fáanlegur í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni innan skamms.

Ég mun leggja inn pöntun af þessu víni fljótlega — í næstu sendingu frá Ástralíu en hvort það verður 2004 eða 2005 er ég ekki alveg viss um.

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, dómar, fréttir, rauðvín, torbreck, wine spectator

Querceto Chianti Classico og Foradori í Mbl.

Fontodi Chianti Classico 2003 og Rietine Chianti Classico 2003 fengu flotta dóma í Mbl. fyrir rúmri viku síðan. Og nú, síðasta föstudag, birtist svipuð gagnrýni um 2004 árganginn af Chianti Classico frá Castello di Querceto.

Sömuleiðis gagnrýndi hann Foradori sem hann hafði einu sinni fjallað um áður  (fékk líka 17/20) og fundist svona nokkuð gott – ekki eins gott og ég hefði viljað og sama er kannski upp á teningnum hér. Lýsing hans er reyndar fín en eitt stig til viðbótar hefði hæft þessu víni betur, jafnvel tvö. Steingrímur minnist reyndar á annað vín frá Foradori sem heitir Granato og ber því sérstaklega vel söguna („alveg hreint magnað“) eins og fram kemur í umfjöllun hans hér neðar.

     „Ég fjallaði í síðustu viku um tvö alveg hreint virkilega góð Chianti Classico-vín. Hér er eitt til viðbótar, en árinu yngra en hin tvö, frá árinu 2004, og enn einn stíllinn.
     CASTELLO DI QUERCETO CHIANTI CLASSICO 2004 er haustlegt vín með ristuðum möndlum, kryddjurtum og laufum í bland við eik og dökkrauð rifsber og kirsuber. Örlítið sprittað og fínleg eik. Í munni hreint og beint, með flottri fyllingu og kröftuga sýru og tannín. Einfaldlega gott vín sem er flott núna en mun halda sér og batna í 2-3 ár. 1.790 krónur. 18/20  
[…] Teroldego Rotaliano […] sú þrúga er nær einungis ræktuð [í] Suður-Týrol og Trentino héraði á Ítalíu. Heitið Teroldego er sagt eiga rætur sínar í þýsku og merkja Tyroler Gold eða Týrólagull. Fáir gera betri Teroldego en Elisabeta Foradori og er toppvínið hennar Granato alveg hreint magnað.
     FORADORI TEROLDEGO ROTALIANO 2003 hefur dökkt yfirbragð, byrjar með sedrusvið og kryddi en færist síðan yfir í bláberjaböku blandaðri vanillu og lakkrís. Alllangt í munni með tannínbiti. Þarf nokkurn tíma til að opna sig. 1.950 króngur. 17/20″. ( Mbl. 17.11.2006, Steingrímur Sigurgeirsson)

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, chianti classico, dómar, foradori, rauðvín

Ný sending leggur af stað frá Ítalíu

Jólasending ársins kemur frá Ítalíu um mánaðarmótin. Ég kalla hana svo þar sem í henni verður Amedei-súkkulaðið sem við höfum verið að bíða eftir enda ekki stök stöng eftir á heimilinu.

TVG sér um að sækja þetta og koma því til landsins. Trukkur á þeirra vegum sækir 5 bretti af víni til Castello di Querceto í Toskana þar sem við höfum safnað saman nokkrum framleiðendum: Castello di Querceto sjálfum á tveimur brettum og nágranna hans Fontodi á öðrum tveimur brettum og síðan grappa frá öðrum nágranna Rietine og ofurvíninu Montevetrano saman á einu bretti geri ég ráð fyrir. Montevetrano er sá eini sem kemur frá öðru svæði en Toskana, alla leið frá Campania héraði syðst á Ítalíu.

Trukkurinn kemur líka við hjá Amedei súkkulaðigerðinni í nágrenni við borgina Pisa, einnig í Toskana áður en hann brælir upp eftir álfunni til Hollands þar sem sendingin fer í skip. Sendingin átti að fara í skip næsta miðvikudag og þá hefði hún komið til landsins 5 dögum síðar en því miður klikkaði það og henni seinkar um viku.

Þetta verður svona jólasending okkar í ár en við munum setja aðrar af stað í desember sem koma á næsta ári t.d. frá Ástralíu en þær eru heila tvo mánuði að berast á landsteinana.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, castello di querceto, chianti classico, fontodi, innflutningur, montevetrano, rietine, vín

Einfalt vín fær andlitslyftingu hjá de Long

Undir fyrirsögninni „Pimp My Wine“ veltir De Long því fyrir sér á léttu nótunum hvernig megi breyta einföldu borðvíni í eikarávaxtasprengju og gerir tilraun á saklausu Chianti víni.

De Long er hönnuður Wine Grape Varietal Table sem hefur vakið nokkra athygli.

Færðu inn athugasemd

Filed under furðufrétt, rannsóknir

Góðir dropar frá Toskana: Gagrýni í Mbl. um Fontodi og Rietine Chianti Classico

Steingrímur Sigurgeirsson skrifaði  um fjögur vín frá Toskana í Morgunblaðið síðustu helgi og voru tvö vín frá okkur þar á meðal, bæði frá Chianti Classico svæðinu.

Chianti Classico er hjartað í Toskana héraðinu (jafnvel í allri Ítalíu?) og liggur á milli borgríkjanna Flórens og Siena sem fyrr um aldir háðu blóðuga bardaga um yfirráðin á svæðinu sem Flórens á endanum vann.

Það er eitthvað magnað við þetta svæði sem orð ná ekki yfir. Andrúmsloftið er mett af þessari sögu sem hefur oltið yfir hæðirnar í gegnum aldirnar. Dante í lok 13. aldar, Botticelli, Michelangelo, Medici, Vasari og fleiri. Síðari heimstyrjöldin setti líka sitt mark á hæðirnar þegar Bandamenn hröktu Nasista norður eftir skaganum og má finna leifar af skotgröfum víða. Í umhverfinu ríkir jafnvægi manns og náttúru sem á sömu stöðum virðist nánast fullkomið.

En svo maður snúi sér að greininni hans Steingríms:

„Góðir dropar frá Toscana

     Það er fátt betra en góður Chianti Classico frá Toscana með mat og það er ágætis úrval af þeim til í vínbúðunum. Hér eru tvö fantagóð – en mjög ólík Chianti-vín – sem hafa áður komið við sögu hér en nú er 2003 árgangurinn kominn í hillurnar. Kannski ekki toppárgangur (við verðum að bíða enn eftir 2004) en þó ágætur og mun betri en 2002 sem var fremur slappur í Chianti (NB. 2002 árgangur af Fontodi fékk líka 19/20 í Mbl, hvað mun 2004 þá fá?).
     Fontodi er víngarður í hjarta Chianti Classico-svæðisins, nánar tiltekið í Panzano. Vínekrurnar þekja eina 67 hektara og árið 1998 var nýtt og tæknilega fullkomið víngerðarhús tekið í notkun.
     FONTODI CHIANTI CLASSICO 2003 er hreint Sangiovese-vín og koma þrúgurnar af nokkrum mismunandi eikrum á landareigninni. Vínið er látið liggja á frönskum eikartunnum í ár áður en því er tappað á flöskur. Eikin er enn nokkuð áberandi í nefi með miklu dökku súkkulaði, vanillu og kaffi í nefi. Það hefur yfir sér þykkt og feitt yfirbragð jafnt í nefi sem munni með djúpum og góðum svörtum berjaávexti. Hefur all-massíva uppbyggingu og góða lengd. Vín til að smjatta á. Mjög góð kaup á 1.890 krónur. 19/20
     Rietine er lítið fjölskyldufyrirtæki í Gaiole í Chianti sem býr til stór og góð vín á ágætu verði. Það er stofnað af hjónunum Mario og Galinu Gaffuri-Lazarides en þau eru upprunalega frá Sviss og ráku þar Michelin-stjörnu veitingahús sem þau seldu til að geta fjárfest í vínrækt á Ítalíu.
     RIETINE CHIANTI CLASSICO 2003 er að mörgu leyti andstaða í stílnum við Fontodi. Vínið er dökkt á lit með fallegum fjólubláum hjúp, sýrumikill berjasafi, skarpur, beittur og með vott af lakrís og ferskum kryddjurtum. Breiðir vel úr sér í munni, ferskt og tannískt. Góð kaup á 1.800 krónur. 18/20
     Bæði vínin eru flott nú en munu batna næstu 203 árin hið minnsta.“ (Mbl. 10.11.2006, Steingrímu)

Færðu inn athugasemd

Filed under chianti classico, dómar, fontodi, rietine, vín

Myndir frá Per og Britt: Chateau Mourgues du Gres og Mas de Gourgonnier

Ég hitti sænsku hjónin Per og Britt Karlsson á leiðina á Vinisud vínsýninguna í Montpellier snemma á þessu ári. Við vorum að reyna að finna rútuna úr miðbænum til sýningarsvæðisins, þau kunnu frönsku og ég hékk með þeim á meðan við rundum út úr strætóleiðum til að taka í stað rútunnar. Á leiðinni í strætó spjölluðum við heilmikið saman enda reyndumst við vera með marga af sömu framleiðendunum á heimsóknarlistanum fyrir vínsýninguna.

Per og Britt skrifa um vín, fara í vínferðir og eru þekkt í Svíþjóð á þeim vettvangi.

Á vefsíðunni þeirra rakst ég á þessar skemmtilegu myndir frá einum af okkar framleiðendum, Chateau Mourgues du Gres. Ennþá ítarlegri myndalista af Mourgues du Gres er að  finna hér (ath. birtist á fjórum síðum).

Einnig rakst á nokkrar myndir (ath. birtist á tveimur síðum) frá Mas de Gourgonnier.

Ch. Mourgues du Gres er í Rhone héraði en Mas de Gourgonnier í nágrannahéraðinu Provence. Vínstíllinn (rauðvín) hjá þessum tveimur er nokkuð ólíkur þar sem sá fyrrnefndi gerir mjög ávaxtarík vín en sá síðarnefndi gerir jarðbundnari vín og þurrari.

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, mas de gourgonnier, mourgues du gres, myndir, vínsýning