Monthly Archives: desember 2006

Gleðilegt nýtt ár!

Við þökkum innilega öllum þeim sem hafa heimsótt þessa vefsíðu, lesið tölvupóstinn sem við sendum vikulega og síðast en ekki síst keypt vínin okkar. Takk fyrir allar góðu ábendingarnar, jákvæðu umfjöllunina, vínsmökkin og ekki síst áhugann og góðu viðtökurnar á vínum okkar og mat.

Gleðilegt nýtt ár!

Arnar og Rakel

Færðu inn athugasemd

Filed under vín

100 Parker stig gleypt í gærkvöld

One Hundred Parker Points!

Við höfum ekki ennþá flutt inn vín sem hefur fengið 100 stig hjá Robert Parker. 99 reyndar (Run Rig 2002 frá Torbreck) en aldrei 100.

Einhverjir gagnrýna Parker (það er í uppáhaldi hjá vínskríbentum um heim allan að setja út á Parker) fyrir að gefa 100 stig því svo fullkomið vín sé og verði aldrei til. Parker hlusta ekkert á svoleiðis röfl og slengir 100 stigunum að vísu ekki oft en þegar honum sýnist.

Við drukkum eitt slíkt vín í góðum hópi í gær, það var Hillside Select 2002 frá Shafer í Kaliforníu. Ógurlega gott vín, mikið um sig en svo stílhreint og svo ferskt. En hundrað stig? Þessar einkunnir eru reyndar alltaf svolítið afstæðar og persónubundnar – en því ekki 100 stig? Vart er hægt að hugsa sér betra vín frá Kaliforníu úr Cabernet Sauvignon þrúgunni og þarf þá eitthvað að vera að spara stigin eins og nískur grís. Þetta eru nú bara tölur, og þær eru ókeypis.

Drukkum fyrst annað rauðvín sem var af allt öðrum toga enda franskt og úr hinni gjörólíku þrúgu Pinot Noir, Charmes-Cambertin Grand Cru 2000 frá Dugat-Py. Mjög heillandi vín, sérstaklega fangaði mann ilmurinn af rauðu berjunum og náttúru Búrgúndí héraðsins en helst fannst mér það sýruríkt í munni. 95 stig held ég að Parker og vinir gefi þessu víni.

Að lokum smakkaði ég lögg af Messorio 2002 frá Tenuta Ornellaia. Það var botnfylli í flöskunni sem húsráðendur höfðu opnað fyrir 2-3 dögum og frekar en að hella því í vaskinn var því hellt ofan í mig. Greinilega magnað vín á ferðinni þótt árgangur þessi hafi ekki verið einn sá sterkasti.

Færðu inn athugasemd

Filed under robert parker, torbreck

Lífræn vín í Gestgjafanum: Montpeyroux er Vín mánaðarins

.

Dominique og Eymar taka fyrir lífræn vín í splúnkunýju hefti Gestgjafans sem datt inn um lúguna í dag.

Þau fjalla m.a. um Mas du Gourgonnier 2003, lífræna vínið frá Provence héraði og Domaine d’Aupilhac Montpeyroux 2003, lífræna vínið hans Sylvain Fadat í næsta héraði við Provence, þ.e.a.s. Languedoc.

Fyrrnefnda fær fjögur glös og mjög skemmtilega umfjöllun eins og: „Þetta er flugeldasýning sem heldur áfram í bragði“.

Hið síðarnefnda fær heil fjögur og hálft glas og heiðurstitilinn eftirsótta VÍN MÁNAÐARINS.

Við erum bara í skýjunum með þessa góðu umfjöllun.

MAS DU GOURGONNIER 20034 glös
Þau eru fá vínin frá Provence (Þetta er frá fallega þorpinu Baux de Provence) og merkilegt er að það eina sem lengi hefur verið til er úr lífrænni ræktun – það ber að hrósa þeim sem færa okkur þannig gullmola. Notaðar eru flestallar þrúgurnar sem má nota í þessu AOC, grenache, syrah, cinsault, carignan og mourvèdre og árangurinn er margslungið vín, þétt, sem opnast smám saman. Það hefur fágaða og ljúfa angan af blómum, þroskuðum ávöxtum (alls kyns ber, rauð og svört), kryddi og ristuðum tónum. Þetta er flugeldasýning sem heldur áfram í bragði, í hófi þó og á fínum nótum. Gott að drekka núna en verður enn betra daginn eftir, sem þýðir að enn má geyma það nokkuð lengi. Það er kjörið með kjötréttum í anda Miðjarðarhafslanda, með tómötum, eggaldini, kúrbít, ólífum, kryddjurtum og góðu kryddi.
Verð: 1690 kr. – Góð kaup.
Okkar álit: Fyrir ári var þetta vín lokað og gaf lítið frá sér nema hörku – en nú er það orðið mun opnara, mjúkt og afar skemmtilegt (okkur fannst það reyndar frá upphafi). Lífrænt sparivín.

DOMAINE D’AUPILHAC MONTPEYROUX 20034 1/2 glas
Domaine D’Aupilhac er lítill framleiðandi í Languedoc, stutt frá Montpellier. Hann stundar lífræna ræktun af hugsjón en hefur ekki lagt í að fá vottun (eins og margir aðrir, því það er jú kostnaðarsamt) og má segja að ræktun hans einkennist af virðingu fyrir landinu. Þetta vín er opið og margslungið með ferskum ávöxtum, pipar, tímíani, lakkrís og örlitlum ristuðum tópn. Í bragði er það svipað með yndislegum ávexti, kryddi, ögn af eik og góðum tannínum. Frábær bygging og góð fylling einkennir þetta vín sem er í einstaklega góðu jafnvægi. Prófið það með villibráð, önd og eiginlega öllu gæðakjöti. Frá sama framleiðanda. Lou Maset.
Verð: 2.200 kr. – Mjög góð kaup
Okkar álit: Flott vín sem hefur allt: flotta byggingu, gott jafnvægi, skemmtilegan ávöxt og er tilbúið núna. Matarvín.“ (Gestgjafinn 13. tbl. 2006, Dominique og Eymar)

Við tókum upp flösku af Mas du Gourgonnier 2003 á jóladag, ilmurinn er æsandi og var ég afar ánægður eins og þau mæðgin Dominique og Eymar hvernig vínið hefur þróast. Eiginlega get ég ekki beðið eftir að opna það aftur. Montpeyroux smakkaði ég síðast fyrir viku síðan, það er nokkuð þurrt og öskrar á gott kjöt t.d. blóðuga steik, hreindýr og aðra villibráð. 

Færðu inn athugasemd

Filed under aupilhac, dómar, Gestgjafinn, lífrænt, mas de gourgonnier, vín mánaðarins

Væri ekki vín, væri ástin ekki heldur – Bakkynjur í Þjóðleikhúsinu

Það var verið að frumsýna Bakkynjur e. Evripídes í Þjóðleikhúsinu í gær. Leikritið er að mörgu leiti firnasterkt þótt á köflum hafi okkur Rakel fundist það aðeins langdregið, sérstaklega eftir hlé þegar tragedían tekur völdin og langar textarunur draga úr krafti sýningarinnar. Fékk maður á tilfinninguna að hefði kannski mátt hugsa minna um upprunalegan texta Evripídesar og meira um hina dramatísku útkomu en það er önnur saga.

Þrátt fyrir sterka framkomu Díonýsosar sjálfs í meðförum Stefán Halls og þrumandi leik Ólafs Darra voru það Bakkynjarnar sjö sem stálu senunni. Þær voru einfaldlega töfrandi, eggjandi, fallegar og ljótar, fyndnar, grátlegar og léku af miklu öryggi þrátt fyrir krefjandi hlutverk í leik, dansi og söng. Meiriháttar!

Bakkynjurnar út af fyrir sig eru næg ástæða til að sjá þessa metnaðarfullu uppfærslu. Kom kannski ekki á óvart þar sem dans þeirra er saminn af Ernu Ómarsdóttur og tónlistin af Atla Ingólfsyni. Sviðsmyndin var líka flott.

Mig langar eiginlega að sjá leikritið aftur, þarna var svo margt skemmtilegt á ferðinni.

„Væri ekki vín, væri ástin ekki heldur“ – spurning um að gera þessa setningu úr leikritinu að einkunnarorðum Víns og matar?

Smelltu hér til að fá upplýsingar um leikritið eða hér til að lesa leikhúsblogg um aðdragandann.

Færðu inn athugasemd

Filed under díonýsos, leikhús, tónlist

Gleðileg jól

Megi friður og birta ríkja á sem flestum heimilum.

Færðu inn athugasemd

Filed under vín

Hamflettar rjúpur og engin skata

Var að kára að hamfletta rjúpurnar. Gekk vel en tók alveg klukkutíma fyrir utan undirbúning og frágang, 8 rjúpur, enda aldrei gert það fyrr. Kannski er það bara allt í lagi, 7 og hálf mínúta per rjúpu.

Notaði leiðbeiningar úr Gestgjafanum en þær var líka hægt að nálgast í nýja blaðinu Bistró.

Skatan er hvergi sjáanleg á heimilinu. Nákvæmlega eins og það á að vera. Pöntum heldur pizzu eða fáum okkur snarl niðrí miðbæ og kannski einn kaldan með.

Svo þarf ég að muna að opna Tiziano í tíma, helst í fyrramálið svo það fái að ná andanum áður en við svolgrum því niður með rjúpunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under matur, rietine

Ítölsk meistaravín um hátíðarnar — umfjöllun í Fréttablaðinu

Undir fyrirsögninni „Ítölsk meistaravín um hátíðarnar“ fjallaði Einar Logi um nokkur rauðvín af Toskana-kyni í Fréttablaðinu síðastliðinn fimmtudag. „Meistaravín“ er að sjálfsögðu tilvísun í sigur þeirra bláklæddu á HM í sumar.

Við eigum tvö þarna á meðal. Chianti Classico 2004 frá Fontodi og Chianti Classico Riserva 2001 frá Castello di Querceto og að því er mér sýndist voru þau janframt þau ódýrustu.

Einar Logi er félagi í Vínþjónasamtökunum og hefur verið duglegur að fjalla um vín og bætta vínmenningu. Hann fékk til liðs við sig nokkra blaðamenn og vínáhugamenn til smakka vínin og byggðist umfjöllunin á viðbrögðum hópsins.

FONTODI CHIANTI CLASSICO er afar góður kostur fyrir þá sem vilja hreint og beint chianti af betra taginu. Ferskt og ljúft og á erindi með léttari hátíðarréttum. Vel þroskað miðað við aldur, en árgangurinn er 2004. 1.890 kr.

CASTELLO DI QUERCETO CHIANTI CLASSICO RISERVA er af hinum frábæra 2001 árgangi og hér höfum við fært okkur upp um þyngdarflokk. Orðið eins gott og hefðbundið chianti vín getur orðið áður en mikið er farið að „fikta í því“ eins og stundum er sagt. 2.290 kr.“ (Fréttablaðið 21. des. 2006, Einar Logi Vignisson)

Mér finnst þessar niðurstöðulýsingar Einars mjög góðar þar sem hann nær að fanga anda vínanna á stuttu og hnitmiðuðu máli. Sérstaklega finnst mér sniðug athugasemdin „að fikta í“ síðarnefnda víninu. Hefðbundin Chianti Classico vín hafa nefnilega ákveðin heildareinkenni sem sameinar þau þótt margt ólíkt leynist með þeim líka. Þau endurspegla uppruna sinn, eru aldrei of þung, né of sæt, hafa mátulegan biturleika, ferska sýru og meðaltannín. Umfram allt eru þau aldrei of bragðmikil né of eikuð. Vín sem fara út af þessu spori eru, að undanskildum vínum sem eru einfaldlega bara óvönduð, yfirleitt vín sem búið er „að fikta í“ með t.d. mikilli eik, tæknibrellum eða hugsanlega með háu hlutfalli af framandi þrúgum  — ekki endilega vond vín heldur óvenjuleg fyrir Chianti Classico skilgreininguna. Til eru þau vín frá þessu sama svæði (Chianti Classico) sem kallast Súpertoskanir og í þeim leyfist framleiðendum nánast fullkomið frelsi til „að fikta“ og prófa sig áfram (Bloggaði um Súpertoskani nýlega).

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, dómar, fontodi, fréttablaðið