Monthly Archives: desember 2006

Gleðilegt nýtt ár!

Við þökkum innilega öllum þeim sem hafa heimsótt þessa vefsíðu, lesið tölvupóstinn sem við sendum vikulega og síðast en ekki síst keypt vínin okkar. Takk fyrir allar góðu ábendingarnar, jákvæðu umfjöllunina, vínsmökkin og ekki síst áhugann og góðu viðtökurnar á vínum okkar og mat.

Gleðilegt nýtt ár!

Arnar og Rakel

Færðu inn athugasemd

Filed under vín

100 Parker stig gleypt í gærkvöld

One Hundred Parker Points!

Við höfum ekki ennþá flutt inn vín sem hefur fengið 100 stig hjá Robert Parker. 99 reyndar (Run Rig 2002 frá Torbreck) en aldrei 100.

Einhverjir gagnrýna Parker (það er í uppáhaldi hjá vínskríbentum um heim allan að setja út á Parker) fyrir að gefa 100 stig því svo fullkomið vín sé og verði aldrei til. Parker hlusta ekkert á svoleiðis röfl og slengir 100 stigunum að vísu ekki oft en þegar honum sýnist.

Við drukkum eitt slíkt vín í góðum hópi í gær, það var Hillside Select 2002 frá Shafer í Kaliforníu. Ógurlega gott vín, mikið um sig en svo stílhreint og svo ferskt. En hundrað stig? Þessar einkunnir eru reyndar alltaf svolítið afstæðar og persónubundnar – en því ekki 100 stig? Vart er hægt að hugsa sér betra vín frá Kaliforníu úr Cabernet Sauvignon þrúgunni og þarf þá eitthvað að vera að spara stigin eins og nískur grís. Þetta eru nú bara tölur, og þær eru ókeypis.

Drukkum fyrst annað rauðvín sem var af allt öðrum toga enda franskt og úr hinni gjörólíku þrúgu Pinot Noir, Charmes-Cambertin Grand Cru 2000 frá Dugat-Py. Mjög heillandi vín, sérstaklega fangaði mann ilmurinn af rauðu berjunum og náttúru Búrgúndí héraðsins en helst fannst mér það sýruríkt í munni. 95 stig held ég að Parker og vinir gefi þessu víni.

Að lokum smakkaði ég lögg af Messorio 2002 frá Tenuta Ornellaia. Það var botnfylli í flöskunni sem húsráðendur höfðu opnað fyrir 2-3 dögum og frekar en að hella því í vaskinn var því hellt ofan í mig. Greinilega magnað vín á ferðinni þótt árgangur þessi hafi ekki verið einn sá sterkasti.

Færðu inn athugasemd

Filed under robert parker, torbreck

Lífræn vín í Gestgjafanum: Montpeyroux er Vín mánaðarins

.

Dominique og Eymar taka fyrir lífræn vín í splúnkunýju hefti Gestgjafans sem datt inn um lúguna í dag.

Þau fjalla m.a. um Mas du Gourgonnier 2003, lífræna vínið frá Provence héraði og Domaine d’Aupilhac Montpeyroux 2003, lífræna vínið hans Sylvain Fadat í næsta héraði við Provence, þ.e.a.s. Languedoc.

Fyrrnefnda fær fjögur glös og mjög skemmtilega umfjöllun eins og: „Þetta er flugeldasýning sem heldur áfram í bragði“.

Hið síðarnefnda fær heil fjögur og hálft glas og heiðurstitilinn eftirsótta VÍN MÁNAÐARINS.

Við erum bara í skýjunum með þessa góðu umfjöllun.

MAS DU GOURGONNIER 20034 glös
Þau eru fá vínin frá Provence (Þetta er frá fallega þorpinu Baux de Provence) og merkilegt er að það eina sem lengi hefur verið til er úr lífrænni ræktun – það ber að hrósa þeim sem færa okkur þannig gullmola. Notaðar eru flestallar þrúgurnar sem má nota í þessu AOC, grenache, syrah, cinsault, carignan og mourvèdre og árangurinn er margslungið vín, þétt, sem opnast smám saman. Það hefur fágaða og ljúfa angan af blómum, þroskuðum ávöxtum (alls kyns ber, rauð og svört), kryddi og ristuðum tónum. Þetta er flugeldasýning sem heldur áfram í bragði, í hófi þó og á fínum nótum. Gott að drekka núna en verður enn betra daginn eftir, sem þýðir að enn má geyma það nokkuð lengi. Það er kjörið með kjötréttum í anda Miðjarðarhafslanda, með tómötum, eggaldini, kúrbít, ólífum, kryddjurtum og góðu kryddi.
Verð: 1690 kr. – Góð kaup.
Okkar álit: Fyrir ári var þetta vín lokað og gaf lítið frá sér nema hörku – en nú er það orðið mun opnara, mjúkt og afar skemmtilegt (okkur fannst það reyndar frá upphafi). Lífrænt sparivín.

DOMAINE D’AUPILHAC MONTPEYROUX 20034 1/2 glas
Domaine D’Aupilhac er lítill framleiðandi í Languedoc, stutt frá Montpellier. Hann stundar lífræna ræktun af hugsjón en hefur ekki lagt í að fá vottun (eins og margir aðrir, því það er jú kostnaðarsamt) og má segja að ræktun hans einkennist af virðingu fyrir landinu. Þetta vín er opið og margslungið með ferskum ávöxtum, pipar, tímíani, lakkrís og örlitlum ristuðum tópn. Í bragði er það svipað með yndislegum ávexti, kryddi, ögn af eik og góðum tannínum. Frábær bygging og góð fylling einkennir þetta vín sem er í einstaklega góðu jafnvægi. Prófið það með villibráð, önd og eiginlega öllu gæðakjöti. Frá sama framleiðanda. Lou Maset.
Verð: 2.200 kr. – Mjög góð kaup
Okkar álit: Flott vín sem hefur allt: flotta byggingu, gott jafnvægi, skemmtilegan ávöxt og er tilbúið núna. Matarvín.“ (Gestgjafinn 13. tbl. 2006, Dominique og Eymar)

Við tókum upp flösku af Mas du Gourgonnier 2003 á jóladag, ilmurinn er æsandi og var ég afar ánægður eins og þau mæðgin Dominique og Eymar hvernig vínið hefur þróast. Eiginlega get ég ekki beðið eftir að opna það aftur. Montpeyroux smakkaði ég síðast fyrir viku síðan, það er nokkuð þurrt og öskrar á gott kjöt t.d. blóðuga steik, hreindýr og aðra villibráð. 

Færðu inn athugasemd

Filed under aupilhac, dómar, Gestgjafinn, lífrænt, mas de gourgonnier, vín mánaðarins

Væri ekki vín, væri ástin ekki heldur – Bakkynjur í Þjóðleikhúsinu

Það var verið að frumsýna Bakkynjur e. Evripídes í Þjóðleikhúsinu í gær. Leikritið er að mörgu leiti firnasterkt þótt á köflum hafi okkur Rakel fundist það aðeins langdregið, sérstaklega eftir hlé þegar tragedían tekur völdin og langar textarunur draga úr krafti sýningarinnar. Fékk maður á tilfinninguna að hefði kannski mátt hugsa minna um upprunalegan texta Evripídesar og meira um hina dramatísku útkomu en það er önnur saga.

Þrátt fyrir sterka framkomu Díonýsosar sjálfs í meðförum Stefán Halls og þrumandi leik Ólafs Darra voru það Bakkynjarnar sjö sem stálu senunni. Þær voru einfaldlega töfrandi, eggjandi, fallegar og ljótar, fyndnar, grátlegar og léku af miklu öryggi þrátt fyrir krefjandi hlutverk í leik, dansi og söng. Meiriháttar!

Bakkynjurnar út af fyrir sig eru næg ástæða til að sjá þessa metnaðarfullu uppfærslu. Kom kannski ekki á óvart þar sem dans þeirra er saminn af Ernu Ómarsdóttur og tónlistin af Atla Ingólfsyni. Sviðsmyndin var líka flott.

Mig langar eiginlega að sjá leikritið aftur, þarna var svo margt skemmtilegt á ferðinni.

„Væri ekki vín, væri ástin ekki heldur“ – spurning um að gera þessa setningu úr leikritinu að einkunnarorðum Víns og matar?

Smelltu hér til að fá upplýsingar um leikritið eða hér til að lesa leikhúsblogg um aðdragandann.

Færðu inn athugasemd

Filed under díonýsos, leikhús, tónlist

Gleðileg jól

Megi friður og birta ríkja á sem flestum heimilum.

Færðu inn athugasemd

Filed under vín

Hamflettar rjúpur og engin skata

Var að kára að hamfletta rjúpurnar. Gekk vel en tók alveg klukkutíma fyrir utan undirbúning og frágang, 8 rjúpur, enda aldrei gert það fyrr. Kannski er það bara allt í lagi, 7 og hálf mínúta per rjúpu.

Notaði leiðbeiningar úr Gestgjafanum en þær var líka hægt að nálgast í nýja blaðinu Bistró.

Skatan er hvergi sjáanleg á heimilinu. Nákvæmlega eins og það á að vera. Pöntum heldur pizzu eða fáum okkur snarl niðrí miðbæ og kannski einn kaldan með.

Svo þarf ég að muna að opna Tiziano í tíma, helst í fyrramálið svo það fái að ná andanum áður en við svolgrum því niður með rjúpunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under matur, rietine

Ítölsk meistaravín um hátíðarnar — umfjöllun í Fréttablaðinu

Undir fyrirsögninni „Ítölsk meistaravín um hátíðarnar“ fjallaði Einar Logi um nokkur rauðvín af Toskana-kyni í Fréttablaðinu síðastliðinn fimmtudag. „Meistaravín“ er að sjálfsögðu tilvísun í sigur þeirra bláklæddu á HM í sumar.

Við eigum tvö þarna á meðal. Chianti Classico 2004 frá Fontodi og Chianti Classico Riserva 2001 frá Castello di Querceto og að því er mér sýndist voru þau janframt þau ódýrustu.

Einar Logi er félagi í Vínþjónasamtökunum og hefur verið duglegur að fjalla um vín og bætta vínmenningu. Hann fékk til liðs við sig nokkra blaðamenn og vínáhugamenn til smakka vínin og byggðist umfjöllunin á viðbrögðum hópsins.

FONTODI CHIANTI CLASSICO er afar góður kostur fyrir þá sem vilja hreint og beint chianti af betra taginu. Ferskt og ljúft og á erindi með léttari hátíðarréttum. Vel þroskað miðað við aldur, en árgangurinn er 2004. 1.890 kr.

CASTELLO DI QUERCETO CHIANTI CLASSICO RISERVA er af hinum frábæra 2001 árgangi og hér höfum við fært okkur upp um þyngdarflokk. Orðið eins gott og hefðbundið chianti vín getur orðið áður en mikið er farið að „fikta í því“ eins og stundum er sagt. 2.290 kr.“ (Fréttablaðið 21. des. 2006, Einar Logi Vignisson)

Mér finnst þessar niðurstöðulýsingar Einars mjög góðar þar sem hann nær að fanga anda vínanna á stuttu og hnitmiðuðu máli. Sérstaklega finnst mér sniðug athugasemdin „að fikta í“ síðarnefnda víninu. Hefðbundin Chianti Classico vín hafa nefnilega ákveðin heildareinkenni sem sameinar þau þótt margt ólíkt leynist með þeim líka. Þau endurspegla uppruna sinn, eru aldrei of þung, né of sæt, hafa mátulegan biturleika, ferska sýru og meðaltannín. Umfram allt eru þau aldrei of bragðmikil né of eikuð. Vín sem fara út af þessu spori eru, að undanskildum vínum sem eru einfaldlega bara óvönduð, yfirleitt vín sem búið er „að fikta í“ með t.d. mikilli eik, tæknibrellum eða hugsanlega með háu hlutfalli af framandi þrúgum  — ekki endilega vond vín heldur óvenjuleg fyrir Chianti Classico skilgreininguna. Til eru þau vín frá þessu sama svæði (Chianti Classico) sem kallast Súpertoskanir og í þeim leyfist framleiðendum nánast fullkomið frelsi til „að fikta“ og prófa sig áfram (Bloggaði um Súpertoskani nýlega).

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, dómar, fontodi, fréttablaðið

Vínsmökkun í höfuðstöðvunum

Síðbúin jólavínsmökkun var haldin í höfuðstöðvunum rétt áðan. Þar mætti nokkrir góðir samstarfsmenn Sigurjóns vinar okkar.

Á döfinni voru 6 ólík rauðvín og þótt ég sé nú farinn að þekkja þessi grey ansi vel er svona vínsmökkun alltaf lærdómsrík enda ekki á hverju degi sem ég smakka svona mörg góð vín úr okkar röðum.

Við byrjuðum á The Woodcutter´s Shiraz sem að mínu mati hefur yndislegan og ákafan ilm og hefur allt vínið reyndar raffínerast heldur í flösku síðan það barst hingað á land fyrst fyrir rúmu ári síðan. Þ.e.a.s. meiri fágun og betra jafnvægi. Fæst ekki lengur í Vínbúðunum en má sérpanta, nokkrar flöskur eftir af þessum góða 2004 árgangi frá einum heitasta framleiðanda Ástralíu, Torbreck.

Næst var á dagsskrá Montpeyroux 2004 frá Domaine d’Aupilhac í S-Frakklandi. Það vín inniheldur líka Shiraz en að vísu bara lítið því hinar þrúgurnar eru einar fjórar, Grenache, Mourvedre, Carignan og Cinsault. Það hefur afar skemmtilegan ilm eins og vínið sem kom á undan og ef til vill aðeins flóknari. Þurrasta vín kvöldsins en með góðri gæs eða hreindýri nýtur það sín til botns.

Santa Cruz 2003 frá Artazu í Navarra fær 95 stig hjá Robert Parker. Það er 100% úr Grenache þrúgunni. Það var almenn hrifning með þetta vín. Lokað vín sem þarfnast umhellingar en eftir smá stund (núna eru 4 tímar síðan það var opnað) koma fínlegri einkenni í ljós, sérstaklega er ilmurinn lúmskur og flottur og alls ekki ýktur á neinn hátt. Einfaldlega vel gert og flott vín sem hitti í mark hjá undirrituðum.

Barbera d’Asti Superiore Bionzo 2003 frá La Spinetta er nútímaleg útgáfa af Barbera þrúgunni. Eikað talsvert lengi í franskri eik, splúnkunýrri. Ef vín geta verið sexí þá er þetta eitt af þeim. Glycerín í nefi í bland við dökk ber og plómur og eikin í raun fullkomnlega integreruð. Bara, bara gott. Ekki furða þótt þetta sé eitt hæst skrifað Barberað í henni vínveröld.

Annar Ítali fylgdi á eftir. Il Sole di Alessandro 2000 frá Castello di Querceto var það vín sem ég kannski fyrirfram var spenntastur fyrir enda lýst því oft yfir (ég held reyndar að enginn hafi verið á hlusta) að það sé jafnoki frægari vína af súpertoskanakyni úr Cabernet Sauvignon þrúgunni. Ostar var það fyrsta sem menn funda í lyktinni og satt best að segja var þessi flaska aðeins ostaðri en aðrar sem ég hef smakkað. Í munni ómótstæðilegt. Sérlega vel gert vín og mjög Toskana-legt þrátt fyrir að vera úr Cabernet Sauvignon.

Að lokum var opnað megavínið með skrúftappanum, Block 6 Shiraz 2002 frá Kay Brothers. 95 stig hjá Parker (sem er eitt það lægsta reyndar sem vínið hefur fengið hjá honum, t.d. fær 2004 árg. 98 stig) og öll stigin vel til komin. 15% alkóhól, þykkt og safaríkt með áberandi sætu enda af hundgömlum vínviði. Jörð, sýra, krydd, sveit halda því hins vegar á jörðinni. Útkoman hlýtur að vera eitt af bestu vínum Ástralíu… og hananú!

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, artazuri, aupilhac, castello di querceto, kay brothers, la spinetta, torbreck, vínsmökkun

Mjög spes vín þessi sérlistavín

Sérlisti er safn vína sem valin eru í úrval Vínbúðanna gegnum vínsmökkun starfsmanna ÁTVR og gesta. Ég hef sjálfur tekið þátt í svoleiðis smökkun. Þetta eru undantekningalaust svokölluð „betri vín“, sem að jafnaði tolla illa í hillum Vínbúðanna þar sem þau uppfylla ekki sölukröfur. þess vegna er búinn til þessi listi svo þau haldi plássi sínu þrátt fyrir að seljast lítið. Þau auka við flóruna sem stundum verðum svolítið einsleit, ekki síst í smærri Vínbúðum.

Sérlistavín fengust aðeins í Heiðrúnu og Kringlunni en nú er þeim þeytt út í einar 20 vínbúðir eða svo.

Við áttum eitt vín á þessum lista en fimm voru að bætast við. Við áttum ekki svo mikinn lagar af þeim hins vegar þannig að þau fást ekki svo víða og sem fyrr er Heiðrún og Kringlan öruggustu staðirnir til að finna þau á.

St. Valentin Sauvignon Blanc frá San Michele Appiano (hvítvín, Ítalía) – 2.890 kr.
Montiano frá Falesco (rauðvín, Ítalía) – 3.590 kr
Nebbiolo d’Alba frá Luciano Sandrone (rauðvín, Ítalía) – 3.100 kr
Barolo Le Vigne frá Luciano Sandrone (rauðvín, Ítalía) – 7.400 kr
Bandol frá Domaine Tempier (rauðvín, Frakkland) – 2.890 kr
The Struie frá Torbreck (rauðvín, Frakkland) – 3.890 kr

Þetta er glæsilegur listi.

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, falesco, luciano sandrone, tempier, torbreck, vínbúðirnar

Bloggarinn er maður ársins skv. Time

.

Bloggarinn er maður ársins skv. Time eins og fram kemur á blogginu hans Denna.

Það er verið að tala um mig kæru vinir.

Upp með kampavínið!

Það er reyndar líka verið að tala um Denna. Og alla aðra bloggara í heimi.

Samt góð ástæða til að taka fram kampavínið.

Valdið er að færast úr höndum fjölmiðla til fólksins. Það er ekki langt síðan ég bloggaði um enskan bloggara (bloggara elska að blogga um aðra bloggara) þar sem kom fram að bloggsíðan hans fékk álíka margar heimsóknir og vefsíða eins mest lesna víntímarits í heimi, Decanter.

Færðu inn athugasemd

Filed under blogg, fréttir, time

Umræða á Decanter: er DOC í hættu vegna IGT?

.

Í nýlegri frétt á  Decanter.com var þeirri spurningu varpað fram hvort IGT flokkun vína á Ítalíu ætti ennþá rétt á sér.

Ég varpaði stuttu kommenti á fréttina þar sem ég sagði „já“, og útskýrði það aðeins nánar.

Áður en IGT flokkunin (Indicazione Geografica Tipica) var sett á laggirnar neyddust framleiðendur er vildu gera vín utan hinna hefðbundnu DOC reglna að kalla vín sín einfaldleg „borðvín“, þ.e.a.s. VdT (Vino da Tavola). Borðvín höfðu engar nákvæmar gæða- eða svæðisskilgreiningar — þau voru bara „frá Ítalíu“. Þess vegna var IGT kærkomin, flokkunin staðsetur vínið á ákveðnu svæði á Ítalíu (t.d. IGT Colli Toscani) og setur því einhvers konar skilyrði en ekki nærri eins ströng og DOC reglurnar gera ráð fyrir, t.d. leyfir IGT oft erlendar þrúgur eins og Cabernet Sauvignon eða Chardonnay. (Skoðaðu nánari útskýringur á IGT, VdT og DOC)

Eins og ég segi í kommentinum mínum á Decanter finnst mér báðir flokkar eiga rétt á sér: DOC heldur í hefðina (t.d. Chianti Classico DOC) en IGT leyfir mönnum ákveðnar tilraunir og gerir þeim kleyft að finna réttu framleiðslulausnirnar fyrir sinn víngarð. Samt verður að koma því að að DOC þýðir ekki stöðnum heldur undirgangast DOC flokkar líka breytingar og þróun þótt hægfara sé.

Gagnrýnin sú að ítölskum upprunaeinkunnum „terroir“ stafi hætta af IGT vínum þar sem þau leyfa meiri fjölbreyttni í t.d. þrúgnavali (sbr. erlendur þrúgur eins og Cabernet Sauvignon) er marklaus einfaldlega vegna þess að svo margir ítalskir framleiðendur kjósa fremur sjálfir að framleiða DOC vín eða þeir gera vín í báðum flokkum eins og algengt er í Toskana: Chianti Classico eru DOC vín en súpertoskanir eru oftast IGT (sumir eru ennþá VdT ef þeir falla í engan IGT flokk). IGT vín geta líka haft alveg jafn sterk upprunaeinkenni þótt ekki hafi þau endilega hinar dæmigerðu ítölsku þrúgur og eru kannski undir frönskum eikaráhrifum, gott dæmi er hið stórkostlega Il Sole di Alessandro frá Castello di Querceto sem skartar hússtílnum (þ.e. framleiðsluaðferðum og ekki síst jarðvegi og loftslagi landareignarinnar) þótt þrúgan sé 100% Cabernet Sauvignon.

Hér er ein dæmisaga:

Flaccianello er svokallaður Súpertoskani. Þegar Fontodi framleiddi hann fyrst fyrir einhverjum 30 árum eða svo neyddist hann til að kalla vínið VdT, þ.e. „borðvín“, þar sem Flaccianello er 100% Sangiovese og gat því ekki kallast Chianti Classico sem mátti ekki á þeim tíma hafa eingöngu Sangiovese. Síðar þegar IGT tók við fluttist vínið úr Vdt og kallaðist ekki lengur bara borðvín heldur IGT Colli Toscana Centrale (þ.e. vín frá hæðum mið-Toskana). IGT Toscana heitir vínið ennþá í dag — en — nú mega Chianti Classico vín hafa 100% Sangiovese þannig að eftir þennan hring getur Giovanni Manetti, eigandi Fontodi, eftir allt ákveðið að kalla vínið Chianti Classico ef hann vill.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, decanter, fontodi, víngerð

Cantucci smákökur úr AMEDEI súkkulaði

Leitið skjóls!

Þetta eru súkkulaðisprengjur.

Cantucci smákökur með kakói í deiginu, súkkulaðibitum og síðan hjúpaðar með súkkulaði að hálfu.

Cantucci eru þær ítölsku smákökur sem margir kalla oft Biscotti en Biscotti þýðir í raun og veru bara „kex“ á ítölsku og því réttara að nota Cantucci. Hinar ílöngu Cantucci smákökur koma í ýmsum útgáfum en sú klassíska er ljós að lit, sæt og með möndlum.

Það er búið að súkka þessa upp:

6 matskeiðar ósaltað smjör við stofuhita
2 bollar hveiti
1/2 bolli ósætt kakó
1 tsk. bökunarsódi
1/4 tsk. salt
1 bolli sykur
2 stór egg
1 bolli möndlur
1/2 bolli Amedei 70% súkkulaði skorið í smáa bita
1/2 bolli (eða meira) Amedei 70% súkkulaði brætt til að hjúpa með

(ath. bollar miðast við amerískan bolla)

Hita ofninn í 180¨C. Blanda saman hveitinu, kakóinu, bökunarsódanum og saltinu í skál. Smjör og sykur sett í aðra skál og þeytt saman þar til létt og loftkennt. Eggjunum síðan bætt út í og þeytt varlega þar til þau hafa blandast vel saman við. Sett úr báðum skálum í hrærivél og hrært þar til vel blandað saman. Möndlum og súkkulaðibitum bætt út í og hrært þar til vel blandað saman.

Deiginu skipt í tvennt og báðir hlutar settir á bökunarpappír sem hefur verið létt borið á smjör og hveiti. Báðum deighlutum er þjappað varlega niður og mótaðir þar til fremur flatir og ílangir (uþb. 7×25 cm), ekki of flatir þó. Bakað í ofni í 25 mínútur og kælt í uþb. 5 mínútur.

Skorið þversum niður með beittum hníf þannig að kökurnar verði um 2 cm á þykkt. Kökunum síðan raðað á bökunarpappír (sárið niður) og bakaðar í svona 8 mínútur.

Bræða Amedei súkkulaði og dýfa kökunum í að hálfu.

70% Amedei súkkulaði fæst í Fylgifiskum á Suðurlandsbraut.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, fylgifiskar, matur, súkkulaði, uppskrift

Er Egill Osborne?

Er Chester Osborne, víngerðarmaður og eigandi d’Arenberg í Ástralíu, og Egill Helgason eini og sami maðurinn?

Ég hef verið að vinna í því að fá Chester til að koma til landsins á næsta ári og kynna vínin sín — og mun þá hið sanna koma í ljós.

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, d'arenberg, furðufrétt

Hátíðarvínlisti Íslands 2006

Eftir mikið vínþamb, vangaveltur, símtöl, mútugreiðslur og fundi með ýmsum oddvitum aþjóðasamfélagsins er hann loksins tilbúinn — Hátíðarvínlisti Íslands 2006  [varist eftirlíkingar]:

Smelltu hér til að fá listann á pdf (prentað út og tekið með í Vínbúðina)

Rjúpa: Ef þú tímir að kaupa rjúpur (ef þú finnur þær á annað borð) þá tímir þú að splæsa í gott rauðvín. Súpertoskaninn Tiziano frá Rietine er safaríkur og bragðmikill bolti en á ítalska vísu jarðbundinn og karaktermikill. Einstakt vín með einstökum mat.- 2.900 kr. í Heiðrúnu og Kringlunni.

Hreindýr: Montpeyroux frá Domaine Aupilhac er lífrænt rauðvín frá S-Frakklandi. Það angar af franskri sveit, þroskuðum ávexti, jörð og ferskum kryddum sem henta afar vel með villibráðinni.- 2.200 kr. í Heiðrúnu og Kringlunni.

Hamborgarhryggur: Selta og reykur kallar á ferskt og ávaxtaríkt rauðvín sem er ekki of þurrt né of eikað. Chateau Mourgues du Gres Galets Rouges sem er að mestu Shiraz uppfyllir öll þessi skilyrði með glæsibrag. Best létt kælt með hryggnum.- 1.600 kr. í Heiðrúnu og Kringlunni.

Kalkún: Kalkún fer vel með bæði hvítu og rauðu og eru tvö vín frá d’Arenberg í Ástralíu tilvalin. The Hermit Crab er óeikað en all bragð- og karaktermikið hvítvín úr Viognier og Marsanne.- 1.600 kr. í stærstu Vínbúðunum. The Footbolt er ferskt þrátt fyrir að vera töluvert sultað og eikað og smellur sérstaklega vel með kalkún sem hefur sætt og bragðmikið meðlæti. 1.750 kr. í stærstu Vínbúðunum.

Önd: Rauðvínið Santagostino Rosso frá Firriato á Sikiley smellpassar með bragðmikilli öndinni og tilheyrandi sósum og meðlæti. Þykkt, þroskað og kröftugt vín en með mjúkri áferð.- 1.790 kr. í Heiðrúnu og Kringlunni.

Gæs: Laderas de El Seque er ódýrt vín frá Alicante sem gefur mikið miðað við verð. Mourvedre þrúgan er dökk og krydduð sem fer vel með gæsinni. Skemmtilega ilmríkt vín með ferskum og mjúkum ávexti og mátulega þurrt fyrir gæsakjötið.- 1.370 kr. (tilboð) í stærstu Vínbúðunum.

Lambakjöt: Flott rauðvín frá Chianti Classico svæðinu á Ítalíu er frábært með lambakjöti. Chianti Classico frá Fontodi er alltaf eitt af þeim bestu svæðinu.- 1.890 kr. í flestum stærri Vínbúðum.

Nautakjöt: Gott steikarvín þarf ekki endilega að vera dýrt. Hið ljúfa Vitiano rauðvín frá Falesco sameinar þrúgurnar Sangiovese, Cabernet Sauvignon og Merlot. Nokkuð bragðmikið með björtum og ferskum ávexti, kryddað og þægilega eikað.- 1.490 kr. í stærstu Vínbúðum.

Kjúklingur: S-franska rauðvínið Pic Saint Loup frá Chateau de Lascaux er GSM blanda (þrúgurnar Grenache, Syrah og Mourvedre). Það er talsvert þykkt með sætuvotti úr suðrinu og ferskum kryddum. Þurrt og matarvænt.- 1.750 kr. í Heiðrúnu og Kringlunni.

Lax: Casal di Serra frá Umani Ronchi er fjölhæft, ítalskt hvítvín og alls ekki bundið við laxinn þótt það falli einstaklega vel að honum. Það hefur meðalþyngd, þægilega angan og er aðgengilegt. Örlítill eikarvottur í bland við krydd og hvít blóm.- 1.590 kr. í flestum Vínbúðum.

Humar: Hið sikileyska Santagostino Bianco er að hluta úr Chardonnay og að hluta úr Cataratto. Það hefur ferskan ávöxt, skemmtilegan karakter og léttristaðan eikarblæ sem passar alltaf svo vel með humrinum.- 1.790 kr. í Heiðrúnu og Kringlunni.

Aðrir forréttir og grænmetisréttir: Þessi flokkur er svolítið víður en að jafnaði hentar létt og brakandi ferskt hvítvín eins og Vitiano Bianco frá Falesco í Umbria á Ítalíu, óeikað og ilmríkt.- 1.490 kr. í stærstu Vínbúðunum.

Færðu inn athugasemd

Filed under jól, matur, vínlisti, villibráð

Wine Spectator elskar líka Vitiano — efsta ítalska vínið á ‘Best Buy’ listanum

.

Já, Wine Spectator velur ekki bara 100 bestu vínin á hverju ári heldur líka þau sem þeim finnst skara fram úr fyrir góð kaup á árinu sem er að líða (90 stig eða yfir og 15 dollarar eða undir).

Dálítið súrt að efsta ítalska vínið á þeim lista skuli ekki komast hærra en í 21. sæti.

En gott að það skuli vera Vitiano rauðvínið frá Falesco.

Smelltu hér til að skoða listann

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, falesco, wine spectator

Þrjú Hátíðarvín í fleiri Vínbúðir

Við gátum tilnefnt þrjú vín sem Hátíðarvín í Vínbúðunum. Hátíðarvín fá betri dreifingu, í fleiri Vínbúðir, og sérstakan miða í hillunum sem undirstrikar að viðkomandi vín er Hátíðarvín og með hvaða jólamat er best að drekka það.

Þetta er ágætt tækifæri til að dreifa reynsluvínum, eins og þessum þremur hér fyrir neðan, sem að jafnaði fást bara í Heiðrúnu og Kringlunni í fleiri Vínbúðir.

d’Arenberg The Hermit Crab 2005
Falesco Vitiano 2004
Laderas de El Seque 2005

Það síðastnefnda er á tilboði á 1.370 kr. Þau fást öll í Heiðrúnu, Kringlunni, Eiðistorgi, Smáratorgi, Hafnarfirði og Akureyri.

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, d'arenberg, El Seque, falesco, hátíðarvín, vín

Gestgjafinn fjallar um Pic Saint Loup 2004 og Orobio Rioja 2004

.

Í jólablaði Gestgjafans er að finna tvö vín frá okkur sem bæði fá 3 1/2 glas.

Í útskýringu á einkunnagjöf liggur þessi einkunn á milli þeirrar sem kallast „Gott“ (þ.e. 3 glös) og „Mjög gott“ (þ.e. 4 glös) en kallast sjálf „Ágætt, vantar herslumuninn“ (þ.e. 3 1/2 glas). Þessi útskýring „vantar“ finnst mér svolítið neikvæð. 3 1/2 glas er góð einkunn og vín sem hana fá þarf ekki að líta á að „vanti“ eitthvað sérstaklega upp á. Vanti upp á hvað?  Sum vín ná fullkomnun á sinn hátt, fyrir sitt svæði og verðflokk og vantar því alls ekki neitt upp á neitt þótt þau verðskuldi ekki hærri einkunn en 3 1/2 glas. Þessi neikvæða útskýring rýrir þennan annars ágæta einkunnaflokk.

Svona lítur þetta út í Gestgjafanum:

5 – „Framúrskarandi“
4 1/2 – „Frábært“
4 – „Mjög gott“
3 1/2 – „Ágætt, vantar herslumuninn“
3 – „Gott“
2 – „Sæmilegt“

Ég sting upp á þessu:

5 – „Einstakt“
4 1/2 – „Framúrskarandi“
4 – „Frábært“
3 1/2 – „Mjög gott“
3 – „Gott“
2 – „Sæmilegt“

Eða þessu:

5 – „Í stuði með guði“
4 1/2 – „Gekt gott, sko, ég meina’ða“
4 – „Mjög gott fyrir kynlífið“
3 1/2 – „All gott, mjög áhugavert, fallegur miði“
3 – „Jú jú, bara fínt, en hvað er þetta á botninum?“
2 – „Kassavín“
1 – „Þetta er eins og lýsi“

Hér er svo umfjöllunin um vínin tvö:

CHATEAU LASCAUX PIC SAINT LOUP 20043 1/2 glas
Frakkar í suðri hafa verið að sækja í sig veðrið, eftir nokkurra ára lægð, og hafa ólátabelgirnir í Languedoc gert mjög góða hluti. Þetta vín er gott dæmi um það. Ferskur ávöxtur, fjólur, krydd og lítillát eik í nefi sem skapar mjög aðlaðandi heild. Í munni er áferðin létt með þægileg tannín og góðan ávöxt (svolítið falinn) og vottar fyrir beiskju í eftirbragðinu. Þetta er vín sem er enn of ungt og má alveg geyma það í u.þ.b. 2 ár í viðbót. Ætti að fara mjög vel með grilluðu kjöti og ragout.
Verð 1.750 kr. – Góð kaup.
Okkar álit: Vel gert vín, fágað og fíngert. Það þarf að umhella því eða geyma það til að það njóti sín til fulls. Mjög aðlaðandi og margslungið – hörkumatarvín

OROBIO 20043 1/2
Það er alltaf gaman þegar framleiðendur, eins og Artadi, taka upp á því að brjóta upp hefðir og gera óhefðbundin Rioja-vín eins og þetta. Fullt af sólberjum í ilmi ásamt eukalyptus, kryddi, ferskleika og sætuvotti. Ekki beint hinn hefðbundni Spánverji úr tempranillo. Það er ferskt og milt í munni með vott af sólberjum, kirsuberjum og pipar; góð fylling. Sniðugt vín fyrir forvitna og reyndar ljómandi gott fyrir alla hina lílka. Prófið þetta með tapaskjötréttum.
Verð 1.600 kr. – Góð kaup.
Okkar álit: Skemmtilegt dæmi um mjög óvanalegt vín frá Rioja. Ekki kaupa það sem Rioja-vín, heldur nýmóðins Spánverja og það kemur ykkur á óvart. “ (Gestjafinn, 12. tbl. 2006)

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, Chateau du Lascaux, dómar, Gestgjafinn, vangaveltur

Ein matskeið af The Footbolt, tvær matskeiðar af Chianti Classico…

Ég veit það ekki, kannski var það þessi grein hans De Long sem ég bloggað um fyrir stuttu þar sem hann setti einfalt Chianti í andlitslyftingu — eða kannski var það einfaldlega vegna þess að ég var með ótal uppteknar flöskur í eldhúsinu eftir vínsmökk síðustu daga. Í fyrsta skipti síðan við byrjuðum að flytja inn vín fyrir rúmlega þremur árum síðan blandaði ég tveimur tegundum saman.

Já, ég játa. 

Samt ótrúlegt að ég hafi aldrei gert þetta fyrr. Í þágu vísindanna.

Fyrir valinu urðu rauðvínið ástralska The Footbolt og gott Chianti Classico frá Querceto. The Footbolt er eikað, sultað og berjaríkt vín en Chianti-inn er jarðbundinn, þurr. Þau gætu ekki verið ólíkari.

Útkoman var áhugaverð. Frekar en að bæta við hvort annað (þar sem ólíkir eiginleikar vínanna mættust í sama glasi) var þess húsblanda fremur hlutlaus. Þau skófu af karakter hvors annars frekar en bæta við. Ég get samt ekki leynt því að ég velti fyrir mér hvernig áströlsk vín myndu vera ef þau væru eilítið jarðbundnari og þurrari eins og þessi blanda var. En — við höfum nóg af öðrum vínum sem fylla í þann flokk og áströlsk vín eru líklegast best nákvæmlega eins og þau eru.

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, ítalía, castello di querceto, chianti classico, d'arenberg, rannsóknir, vangaveltur

Robert Parker hrósar Falesco í viðtali við Business Week

.

Falesco víngerðin sendi mér viðtal við Robert Parker sem birtist í Business Week í fyrradag.

Hann lofar víngerðina hástert og gefur Vitiano vínunum okkar, rauða og hvíta, 89 stig.

Lestu viðtalið

Þeir sem hafa lesið þetta blogg, eru áskrifendur af póstlistanum eða hafa einhvers staðar hlustað á boðorð undirritaðs ættu að hafa tekið eftir því að þessi víngerð hefur verið að hrúga inn viðurkenningum. Þá meina ég viðurkenningum sem skipta máli. T.d. að Vitiano Rosso var kosið Bestu rauðvínskaup Ítalíu í bæði Gambero Rosso og Wine Spectator, vín mánaðarins í Gestgjafanum og fékk 18 af 20 í Mbl. á meðan Vitiano Bianco fékk ein 19 af 20 í Mbl.

Jamm.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, business week, dómar, falesco, fréttir, robert parker, tímarit, viðtal

Ennio Morricone og Zafferano í London

.

Dreif mig á föstudaginn til London. Tilefnið voru tónleikar með Ennio Morricone, ítalska kvikmyndatónskáldinu sem ég eins og svo margir aðrir hef mikið dálæti á (einhver sem hefur komið til okkar Rakelar í heimsókn og lent í late-night Morricone tónlistarveislu myndi bæta fyrir aftan „vægast sagt!“). Morricone er maðurinn. Við vorum þarna fjórir bekkjarfélagar úr Verzló sem áttum góðar minningar úr menntaskólaferðalögum með Morricone á meðan aðrir höfðu hlustað á það sem mætti kalla hefðbundnari partítónlist. Sá okkar sem búsettur var í London (ekki ég) bauð okkur á tónleikana og út á borða á eftir – TAKK.

Við mættum snemma og fórum á Gordon’s vínbarinn í hádeginu. Gordon´s er sjarmerandi kjallarahola með langa sögu en enginn ætti að fara þangað til að upplifa góð vín heldur frekar ákveðna stemningu. Þeir segjast vera elsti vínbarinn í London og miðað við hina 86 ára Joan sem afgreiddi okkur gæti maður alveg trúað því. Hún bauð okkur í níræðisafmæli sitt eftir fjögur ár og kom með tvo umganga af rauðvíni í boði hússins. Þarna snæðir maður ólífur, osta, brauð og salami og öll vínin eru í borðvínagæðaflokkinum. Sem sagt, ekkert fuzz.

Þá tóku við neyðarinnkaupaaðgerðir þar sem kom í ljós að veitingastaðurinn sem við ætluðum á um kvöldið, Zafferano, leyfði ekki gallabuxur og hvíta strigaskó og einn okkar braut báðar þessar reglur (ekki ég). Það fékk farsælan endi og áður en við vissum af vorum við komnir í Apollo leikhúsið þar sem kom í ljós að tónleikarnir byrjuðu 8.15 en ekki 19.30. Veitingastað var því frestað til 22.00 og sötraður var bjór fram að tónleikum á næstu knæpu — þó ekki nema bara til þess að drepa tímann.

Tónleikarnir voru flottir. Morricone stjórnaði sjálfur lögum sínum úr myndum eins og The Mission, Once Upon a Time in America, spagettívestrunum o.fl. Ekkert hlé en vegna borðhaldsins framundan misstum við af uppklappsatriðum sem guð má vita hvað myndu standa lengi yfir því salurinn var fullur af aðdáendum goðsagnarinnar. Morricone var með næstum 150 hljóðfæraleikara og kórmeðlimi.

Zafferano er ítalskur veitingastaður með Michelin stjörnu. Hann er rétt suður af Harvey Nichols, svona 3 mínútna labb. Við Rakel höfum einu sinni farið þangað til að borða í hádeginu og var máltíðin nú alveg jafn eftirminnileg og þá. Staðurinn býður upp á einfalda ítalska matargerð þótt umgjörðin öll og þjónustan sé aðeins viðhafnarmeiri en ekki um of. Hráefnin eru af þeim toga að maður ímyndar sér að þau geti vart orðið betri og vínlistinn er frábær.

Ég fékk mér mozzarello di buffala (mozzarella ostur úr buffalamjólk) í forrétt með þistilhjörtum og vorlauk. Síðan fashanafyllt ravioli og loks kálfalifur á kartöflumús. Vínin voru Sauvignon Blanc frá okkar framleiðanda La Spinetta, Barolo Ciabot Mentin Ginestra 1998 frá Domenico Clerico sem fékk held ég 98 stig í Wine Spectator og var ofsalega flott en kannski ekki týpískt þar sem þetta er nokkuð eikaður bolti  (117 pund). Loks fengum við okkur sætvín úr Moscato þrúgunni frá eyjunni Pantelleria sem er langt suður í Miðjarðarhafi og álíka langt frá Túnis eins og frá Sikiley.  Við ætluðum ekki að fá okkur eftirrétt en listinn var einfaldlega of girnilegur og freistaðist ég til þess að fá mér vanilluís með 100 ára gömlu balsamik ediki og ferskum, hvítum trufflum. Trufflutíminn er nefnilega akkúrat núna og þessar komu frá Piemonte héraði alveg eins og vínin sem við drukkum, hvíta og rauða. Þjónninn okkar frá Puglia héraðinu var eitthvað ánægður með okkur og bauð okkur upp á sætvínið, grappa og kaffi.

Zafferano er staður sem ég get ekki beðið eftir að heimsækja aftur.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, þrúgur, ennio morricone, gordon´s, london, matur, tónlist, vínbar, vínlisti, veitingastaðir, wine spectator, zafferano