Ennio Morricone og Zafferano í London

.

Dreif mig á föstudaginn til London. Tilefnið voru tónleikar með Ennio Morricone, ítalska kvikmyndatónskáldinu sem ég eins og svo margir aðrir hef mikið dálæti á (einhver sem hefur komið til okkar Rakelar í heimsókn og lent í late-night Morricone tónlistarveislu myndi bæta fyrir aftan „vægast sagt!“). Morricone er maðurinn. Við vorum þarna fjórir bekkjarfélagar úr Verzló sem áttum góðar minningar úr menntaskólaferðalögum með Morricone á meðan aðrir höfðu hlustað á það sem mætti kalla hefðbundnari partítónlist. Sá okkar sem búsettur var í London (ekki ég) bauð okkur á tónleikana og út á borða á eftir – TAKK.

Við mættum snemma og fórum á Gordon’s vínbarinn í hádeginu. Gordon´s er sjarmerandi kjallarahola með langa sögu en enginn ætti að fara þangað til að upplifa góð vín heldur frekar ákveðna stemningu. Þeir segjast vera elsti vínbarinn í London og miðað við hina 86 ára Joan sem afgreiddi okkur gæti maður alveg trúað því. Hún bauð okkur í níræðisafmæli sitt eftir fjögur ár og kom með tvo umganga af rauðvíni í boði hússins. Þarna snæðir maður ólífur, osta, brauð og salami og öll vínin eru í borðvínagæðaflokkinum. Sem sagt, ekkert fuzz.

Þá tóku við neyðarinnkaupaaðgerðir þar sem kom í ljós að veitingastaðurinn sem við ætluðum á um kvöldið, Zafferano, leyfði ekki gallabuxur og hvíta strigaskó og einn okkar braut báðar þessar reglur (ekki ég). Það fékk farsælan endi og áður en við vissum af vorum við komnir í Apollo leikhúsið þar sem kom í ljós að tónleikarnir byrjuðu 8.15 en ekki 19.30. Veitingastað var því frestað til 22.00 og sötraður var bjór fram að tónleikum á næstu knæpu — þó ekki nema bara til þess að drepa tímann.

Tónleikarnir voru flottir. Morricone stjórnaði sjálfur lögum sínum úr myndum eins og The Mission, Once Upon a Time in America, spagettívestrunum o.fl. Ekkert hlé en vegna borðhaldsins framundan misstum við af uppklappsatriðum sem guð má vita hvað myndu standa lengi yfir því salurinn var fullur af aðdáendum goðsagnarinnar. Morricone var með næstum 150 hljóðfæraleikara og kórmeðlimi.

Zafferano er ítalskur veitingastaður með Michelin stjörnu. Hann er rétt suður af Harvey Nichols, svona 3 mínútna labb. Við Rakel höfum einu sinni farið þangað til að borða í hádeginu og var máltíðin nú alveg jafn eftirminnileg og þá. Staðurinn býður upp á einfalda ítalska matargerð þótt umgjörðin öll og þjónustan sé aðeins viðhafnarmeiri en ekki um of. Hráefnin eru af þeim toga að maður ímyndar sér að þau geti vart orðið betri og vínlistinn er frábær.

Ég fékk mér mozzarello di buffala (mozzarella ostur úr buffalamjólk) í forrétt með þistilhjörtum og vorlauk. Síðan fashanafyllt ravioli og loks kálfalifur á kartöflumús. Vínin voru Sauvignon Blanc frá okkar framleiðanda La Spinetta, Barolo Ciabot Mentin Ginestra 1998 frá Domenico Clerico sem fékk held ég 98 stig í Wine Spectator og var ofsalega flott en kannski ekki týpískt þar sem þetta er nokkuð eikaður bolti  (117 pund). Loks fengum við okkur sætvín úr Moscato þrúgunni frá eyjunni Pantelleria sem er langt suður í Miðjarðarhafi og álíka langt frá Túnis eins og frá Sikiley.  Við ætluðum ekki að fá okkur eftirrétt en listinn var einfaldlega of girnilegur og freistaðist ég til þess að fá mér vanilluís með 100 ára gömlu balsamik ediki og ferskum, hvítum trufflum. Trufflutíminn er nefnilega akkúrat núna og þessar komu frá Piemonte héraði alveg eins og vínin sem við drukkum, hvíta og rauða. Þjónninn okkar frá Puglia héraðinu var eitthvað ánægður með okkur og bauð okkur upp á sætvínið, grappa og kaffi.

Zafferano er staður sem ég get ekki beðið eftir að heimsækja aftur.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, þrúgur, ennio morricone, gordon´s, london, matur, tónlist, vínbar, vínlisti, veitingastaðir, wine spectator, zafferano

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s