Monthly Archives: janúar 2007

Pinot Noir Smakkpakki – 3 rauðvín frá Ítalíu

Það er ekki mörg Pinot Noir, eða Pinot Nero eins og Ítalarnir kalla hana, framleidd á Ítalíu. Það er því all gott að þrjú þeirra skuld vera að þvælast hér á Íslandi, tvö frá Appiano og eitt frá Fontodi.

Það er næg ástæða til þess að blása til Smakkpakka.

Pinot Nero Riserva 2001 frá Appiano hefur siglt hér um strendur í rúmt ár en er nú ófáanlegt fyrir utan nokkrar flöskur sem lúra á lagernum. Litla systirin Pinot Nero 2004, einnig frá Appiano, rak hér á strendur í lok desember og mun fást í Vínbúðunum eftir mánuð auk þess að prýða vínlista Icelandair Business Class USA næsta árið. Pinot Nero Case Via 2001 frá Fontodi er drottning þessari þriggja og lætur þess vegna aðeins sjá sig í litlu upplagi á veitingastaðinum La Primavera.

Smelltu hér til að lesa meira um Pinot Nero (og hundruðir annarra þrúgna)

„It’s a hard grape to grow … it’s thin-skinned, temperamental, ripens early … it’s not a survivor like Cabernet, which can just grow anywhere and thrive even when it’s neglected. No, pinot needs constant care and attention … it can only grow in these really specific, little, tucked-away corners of the world. And only the most patient and nurturing of growers can do it, really. Only somebody who really takes the time to understand pinot’s potential can then coax it into its fullest expression. Then, oh, its flavors, they’re just the most haunting and brilliant and thrilling and subtle and ancient on the planet.“ (Miles í Sideways)

Pinot Noir smakkpakkinn kostar 7.400 kr.

Sendu okkur tölvupóst á vinogmatur@internet.is til að panta.

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, þrúgur, fontodi, smakkpakki

Dýra vínið – Le Vigne 1997 3L

.

Hún kostar 48.000 kr. og var seld í dag, dýrasta flaskan sem við höfum flutt inn hingað til. 3ja lítra flaska af Barolo Le Vigne 1997 frá Luciano Sandrone. Það gera 12.000 kr. per 750ml miðað við venjulega flöskustærð.

Er hún þess virði?

Að sjálfsögðu. Árgangurinn er frábær og vínið er með þeim bestu frá héraðinu. Svo má ekki gleyma því að aðeins um 100 flöskur eru framleiddar af þessari 3ja lítra útgáfu (svona 3ja lítra flösku kalla Ítalirnir „Imperiale“)

Fyrir áhugasama þá fæst Barolo Le Vigne í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni. Ekki 3ja lítra flaska heldur venjuleg 750ml og ekki 1997 árgangur heldur 2000 og 2001. Hún kostar líka ekki nema 7.400 kr.

Svo má fá ódýrari útgáfu af rauðvíni úr sömu þrúgu (þ.e.a.s. Nebbiolo þrúgunni) frá Luciano Sandrone, Nebbiolo d’Alba Valmaggiore, á 3.390 kr. Eins konar mini-Barolo. Hún fæst líka í Heiðrúnu og Kringlunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under luciano sandrone

Áfram Cheval Blanc 1964!

.

Áfram Ísland – tökum Þjóðverja í bóndabeygju á morgun!

En að öðru.

Eins og Cheval Blanc 1964.

Af rausnarskap vinar og vínsafnara áskotnaðist okkur flaska af þessu fágæta víni. Árgangurinn 1964 í Bordeaux var svona bland í poka þar sem vín úr Merlot gerðu það gott á meðan Cabernet Sauvignon fór illa. Framarlega meðal jafningja er Cheval Blanc 1964 (meirihluti Cabernet Franc og rest Merlot) sem Robert Parker gaf 96 stig, eitt besta vín þessa árgangar frá Bordeaux. Hann spáir því líftíma til 2025. Við vorum sjálf hlessa hversu unglegt og sprækt vínið var þótt erfitt sé að sjá fyrir sér frekar þroskun, hvað þá í næstum 20 ár til viðbótar – vínið er jú 42 ára!

Flaskan var vel fyllt upp í háls sem gaf til kynna að það hafði verið vel geymt þessa fjóra áratugi. Liturinn var appelsínubrúnn eins og við var að búast en all dökkur og líflegur. Við drukkum það með lambainnanlærisvöðva sem hafði verið nuddaður með rósmarín, oreganó, salti og pipar og ólífuolíu. Svona gamalt vín þolir ekki flóknari mat en það. Við vorum sátt við þetta vín vægast satt, það var ekki stórt í munni heldur elegant og nett, staldraði stutt við en skildi eftir langan hala. Frábært jafnvægi einfaldlega því aðeins nánast fullkomið vín er svona gott eftir svona langan tíma – ef fullkomið vín er til yfir höfuð. Skemmtileg sveitaelement eins og mold og tjara voru áberandi, nettur ávöxtur og sýra og tannín að sjálfsögðu samrunnin víninu eftir allan þennan tíma.

Á eftir smökkuðum við aðra Bordeaux blöndu en sú var frá Ítalíu. Cabernet Sauvignon og Merlot að hætti Bordeaux búa í bland við Aglianico – Montevetrano 2003. Bragðmikið vín og verulega flott sem malaði eins og köttur undir silkimjúkum hjúp. Nammi.

Síðan komu tveir árgangar af enn einni Bordeaux blöndunni, í þetta skiptið Cabernet Sauvignon, Merlot, Cabernet Franc og Petit Verdot frá d’Arenberg – nánar tiltekið Galvo Garage 2003 og 2004. 2004 var lokað með skrúftappa og þótti okkar það betra vín af tveimur verulega góðum. Verðið er sama og fyrir Laughing Magpie. Líklegast tökum við það inn í vor.

Arnaldo Caprai höfum við flutt inn í tvö ár en aldrei tekið sætvínið Sagrantino di Montefalco Passito enda fágætt vín sem okkur hefur einfaldlega ekki boðist fyrr. Það var svakalega ljúft, óvenju þurrt og létt miðað við sætvín og minnti að mörgu leyti frekar á þétt rauðvín. Frábært með súkkulaði (Amedei konfekt NOTA BENE).

Að lokum – tvær tegundir af grappa. Önnur vel kunnug, Rietine Grappa Chianti Classico, hin splúnkuný, Caprai Grappa Sagrantino di Montefalco. Rieitine er svona grappa hússins hjá okkur en Caprai er líklega álíka gott þótt það rífi aðeins meira í. En er það ekki einmitt það sem grappa á að gera?

Við byrjuðum reyndar á St. Valentin Sauvignon Blanc 2005 með hörpuskelfisk í kryddsmjöri. Um það er svo sem ekkert meira að segja en að þar er sígilt gæðahvítvín á ferðinni.

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, bordeaux, caprai, cheval blanc, d'arenberg, montevetrano, rietine, vínsmökkun

Sauvignon Blanc – kötturinn í grasinu

.

Ég var á rölti í vikunni á leiðinni heim í  kvöldmat þegar að allt í einu kom yfir mig þessa sterka löngun til að opna St. Valentin Sauvignon Blanc frá San Michele Appiano.

Ég fann hnífbeittan ilminn af þessari þrúgu, grænan, ferskan, sýruríkan og með sínu einkennandi kattahlandi.

Kattahlandi?

Já, það er merkilegt hvað kattahlandsilmur getur tekið á sig heillandi mynd þótt ég myndi kannski orða þetta frekar á hinn veginn og segja að það sé Sauvignon Blanc ilmur af kattahlandi en ekki öfugt.

Þegar maður kemst upp á lagið þá eru það fá hvítvín sem toga eins í mann eins og þau úr Sauvignon Blanc. Ilmurinn lokkar og bara tilhugsunin um ertandi sýruna setur munnvatnskirtlana í viðbragðsstöðu.

Uppruni þrúgunnar er yfirleitt  rakinn til Frakklands, ekki síst Loire héraðsins en í Bordeaux myndar hún uppistöðu í flestum hvítvínum þó oft í bland við Semillon. Síðan var það eftir vel heppnaðar tilraunir í Nýja Sjálandi fyrir um 30 árum að þrúgan komst rækilega á kortið.

Sauvignon Blanc hefur stuttan þroskaferil, bæði er líf hennar á vínviðinum stutt þar sem hún blómgast seint og þroskast snemma og almennt er talið að það sé ekki ráðlegt að geyma Sauvignon Blanc vín í mörg ár. Ég ætla þó að leyfa mér að efast aðeins um þetta síðara atriði og bíð spenntur eftir því að sjá hvernig St. Valentin Sauvignon Blanc frá Appiano þróast með árunum. Hún kýs líka fremur svalt loft og verður of þung og flöt í miklum hita.

Vín úr Sauvignon Blanc fá yfirleitt að vera í friði fyrir eikartunnum. Persónulega finnst mér það nánast alltaf löstur og kýs fremur óeikuð, hrein og tær Sauvignon Blanc vín.

Mamma!

Sauvignon Blanc á líka heiðurinn af því að færa okkur vinsælustu þrúgu í heimi, Cabernet Sauvignon, því hún ásamt Cabernet Franc eru foreldri þeirrar ágætu þrúgu.

Ég hef enn ekki smakkað betra Sauvignon Blanc en það frá St. Valentin Sauvignon Blanc frá Appiano nema ég myndi kannski setja að jöfnu eitt ofurljúft frá þeim Polz bræðrum í Austurríki.

2005 árgangur af St. Valentin Sauvignon Blanc er nýkominn og kostar 2.900 kr. í Heiðrúnu og Kringlunni. Það hefur ljúfan suðrænan ávöxt í bland við einkennin sem var lýst hér að framan.

4 athugasemdir

Filed under appiano, ítalía, þrúgur

Appiano er 100 ára í ár

.

San Michele Appiano víngerðin á 100 ára afmæli í ár. Afmælisveislan er í lok mars, síðustu dagana fyrir Vinitaly vínsýninguna og er okkur Rakel boðið. Skíði, matur og líklegast eitthvað af víni.

San Michele Appiano er vínsamlag í eigu yfir 300 bænda í sveitinni í kringum bæinn Appiano.

Það er því ólíklegt að við náum að taka í spaðann á þeim öllum.

Þeir eru samt örugglega að lesa bloggið og því segjum við bara – TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ!

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, vínsýning

Vínblogglistar – það var helst í fréttum

Winebloglist er dálítið sniðug vefsíða.

Hún sýnir lista af nokkrum helstu vínbloggsíðunum og vínfréttasíðunum. Fyrirsagnir af tveimur nýjustu færslum hverrar síðu eru birtar þannig að það er hægt að skanna hratt yfir hvað er þar helst í umræðunni og smella á það sem vekur áhuga manns til að lesa nánar á viðkomandi vefsíðu.

Wineblogwatch er aðeins öðruvísi. Hún sýnir nánast endalausan lista af vínbloggurum (fleiri hundruð!) en birtir ekki helstu fyrirsagnir.

Svo má líka bara láta sér nægja að lesa vín og matur bloggið.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, Vínblogg, vefsíður

Wine Spectator smakkar Chateau Flaugergues 2003 (vídeó)

.

Ég hef ekki farið eins mikið á Wine Spectator vefsíðuna eftir að þeir byrjuðu að rukka fyrir aðganginn en ein skemmtileg nýjung á síðunni kostar ekki neitt – vídeó af smökkunum, víngerð og fleiru.

Í vídeói sem kallast „Time to Shine in Southern France“ sýnir Kim Marcus fram á hversu góð víngerð er orðin í Languedoc héraðinu og smakkar þrjú vín , eitt rautt, eitt hvítt og eitt rósa, því til staðfestingar.

Rauðvínsfulltrúann könnumst við vel við, þar er okkar vín Chateau du Flaugergues 2003 á ferðinni en tímaritið gaf því 92 stig fyrir þann árgang. Greinlega verðugur fulltrúi héraðsins að þeirra mati.

Horfðu á Marcus smakka og lýsa víninu í vídeóinu.

Hann bendir m.a. á hversu vínið er fágað frekar en kröftugt.

Það á enn frekar við um 2004 árganginn sem er ekki eins sætur í nefi enda ekki eins heitt sumarið 2004 heldur vínið að sumu leyti jafnara. Litur og stíll minnir næstum á Pinot Noir frá Búrgúnd. Vínið er enn að opna sig og spái ég því að það gefa meira af sér í sumar heldur en nú. Það verður forvitnilegt að sjá hvað Wine Spectator segir um þennan árgang en ég spái því að hann nái ekki að jafna dóma þeirra um 2003 heldur hljóti svona 90 stig.

Færðu inn athugasemd

Filed under árgangar, dómar, flaugergues, frakkland, languedoc, sjónvarp, wine spectator