Sauvignon Blanc – kötturinn í grasinu

.

Ég var á rölti í vikunni á leiðinni heim í  kvöldmat þegar að allt í einu kom yfir mig þessa sterka löngun til að opna St. Valentin Sauvignon Blanc frá San Michele Appiano.

Ég fann hnífbeittan ilminn af þessari þrúgu, grænan, ferskan, sýruríkan og með sínu einkennandi kattahlandi.

Kattahlandi?

Já, það er merkilegt hvað kattahlandsilmur getur tekið á sig heillandi mynd þótt ég myndi kannski orða þetta frekar á hinn veginn og segja að það sé Sauvignon Blanc ilmur af kattahlandi en ekki öfugt.

Þegar maður kemst upp á lagið þá eru það fá hvítvín sem toga eins í mann eins og þau úr Sauvignon Blanc. Ilmurinn lokkar og bara tilhugsunin um ertandi sýruna setur munnvatnskirtlana í viðbragðsstöðu.

Uppruni þrúgunnar er yfirleitt  rakinn til Frakklands, ekki síst Loire héraðsins en í Bordeaux myndar hún uppistöðu í flestum hvítvínum þó oft í bland við Semillon. Síðan var það eftir vel heppnaðar tilraunir í Nýja Sjálandi fyrir um 30 árum að þrúgan komst rækilega á kortið.

Sauvignon Blanc hefur stuttan þroskaferil, bæði er líf hennar á vínviðinum stutt þar sem hún blómgast seint og þroskast snemma og almennt er talið að það sé ekki ráðlegt að geyma Sauvignon Blanc vín í mörg ár. Ég ætla þó að leyfa mér að efast aðeins um þetta síðara atriði og bíð spenntur eftir því að sjá hvernig St. Valentin Sauvignon Blanc frá Appiano þróast með árunum. Hún kýs líka fremur svalt loft og verður of þung og flöt í miklum hita.

Vín úr Sauvignon Blanc fá yfirleitt að vera í friði fyrir eikartunnum. Persónulega finnst mér það nánast alltaf löstur og kýs fremur óeikuð, hrein og tær Sauvignon Blanc vín.

Mamma!

Sauvignon Blanc á líka heiðurinn af því að færa okkur vinsælustu þrúgu í heimi, Cabernet Sauvignon, því hún ásamt Cabernet Franc eru foreldri þeirrar ágætu þrúgu.

Ég hef enn ekki smakkað betra Sauvignon Blanc en það frá St. Valentin Sauvignon Blanc frá Appiano nema ég myndi kannski setja að jöfnu eitt ofurljúft frá þeim Polz bræðrum í Austurríki.

2005 árgangur af St. Valentin Sauvignon Blanc er nýkominn og kostar 2.900 kr. í Heiðrúnu og Kringlunni. Það hefur ljúfan suðrænan ávöxt í bland við einkennin sem var lýst hér að framan.

Auglýsingar

4 athugasemdir

Filed under appiano, ítalía, þrúgur

4 responses to “Sauvignon Blanc – kötturinn í grasinu

 1. Er um það bil að senda vinnufélaga eftir einni svona í veðmálsuppgjöri. Hvað á að elda með til að njóta hennar sem best?

 2. Gott hjá þér að láta vinnufélaga kaupa vínin fyrir þig!

  Við drukkum það síðast með hörpuskelfisk – 3 bitar per spjót og gul paprika á milli sett í ofn í 7 mín. Hellt yfir bræddu kryddsmjöri þegar það er komið út (smjör, kóríandar+önnur fersk krydd, ólífuolía – mixað í mixer)

  Ert búinn að taka fram grillið? Þú getur sett pinnana þar eða t.d. skötusel.

 3. Reyndar var hún uppseld (á föstudaginn síðasta) og hann gerði upp með ekki síðri rauðvín. Ekki síðri fyrir mig, en eitthvað síðri fyrir ykkur, því á hana vantar límmiðann :)
  St Valentin bíður betri tíma.

 4. Æj æj, líklegast hefur það klárast í kjölfar vínpóstsins þar sem ég fjallaði um vínið – hef samt ekki fengið pöntun frá ÁTVR og er því dálítið hissa á þessum skorti.
  Sagðir þú ekki við vin þinn „hva, er þessi ekki með límmiða“ þegar hann rétti þér staðgengilinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s