Monthly Archives: apríl 2007

Tappagjald á veitingastöðum og hvernig þú getur haft áhrif

Að taka með sér vínflösku til að drekka á veitingastað virðist ekki vera mikið stundað á Íslandi.

Fyrir það greiðist tappagjald sem er ákveðin upphæð per flösku. Ég hef aðeins gert þetta sjálfur og er gjaldið misjafnt eftir veitingastöðum en ég hugsa að það megi segja að það sé a.m.k. ekki undir 2.000 kr. að jafnaði og eflaust nær 3.000 kr. Tappagjaldið þekkja líka þeir sem hafa haldið stórar veislur, t.d. brúðkaup, í veislusölum og fengið að taka með sér vín gegn ákv. gjaldi per flösku sem má búast við að sé eitthvað lægra en á veitingastöðunum.

Maður tekur ekki vín með sér á veitingastað til að spara pening heldur til þess að njóta víns sem manni langar sérstaklega að njóta og er ekki á vínlista veitingastaðarins. Vínsafnarar gera þetta nokkuð og fá þannig tækifæri til að njóta góðu vínanna sinna í afslöppuðu umhverfi, félagsskap og með góðum mat og þjónustu.

Ég hef aldrei heyrt neinn veitingastað á Íslandi auglýsa þessa þjónustu enda ekki beint í þeirra verkahring en þó finnst mér ólíklegt að nokkur þeirra myndi neita ef borin væri fram kurteisleg fyrirspurn.

Lettie Teague (lestu pistilinn hennar) sem skrifar fyrir amerísku Food and Wine útgáfuna hefur tekið saman nokkur atriði sem vert er að hafa í huga:

1) Hringja á undan í veitingastaðinn til að athuga hvort það sé í lagi að taka með sér vín og láta vita hvaða vín það er.
2) Spyrja fyrirfram um hversu hátt tappagjaldið er og sætta sig við að borga skynsamlegt gjald.
3) Koma aðeins með vín sem eru nógu fágæt og dýrmæt – annars er þetta frekar tilgangslaust.
4) Bjóða vínþjóninum að smakka vínið.
5) Kaupa hugsanlega líka eitthvað af vínlista veitingastaðarins.

Mig langar útfæra lið 3 aðeins betur:

3-b) Þar sem margir íslenskir veitingastaðir hafa ekki svo yfirgripsmikla vínlista er kannski meiri ástæða til að færa sér þennan möguleika meira í nyt, að koma með sitt eigið vín, og ekki endilega einskorða það við sérstaklega fágæt vín heldur bara yfirleitt öll sérstaklega góð vín (ok. sleppa kannski kassavínum).

3-c) Margir íslenskir veitingastaðir (enginn þeirra sem við verslum við… annars væru vínin okkar ekki þar) hafa vínlista sem er stjórnað af þeim sem flytja inn vínin, einhverjum stóru heildsalanna. Veitingastaðirnir fá ekki að kaupa vín frá fyrirtækjum eins og Vín og mat þótt þeim fyndist þau góð og langaði að kaupa þau. Þetta er náttúrulega fáranleg staða sem kemur niður á gæðum og er vanvirðing á hæfni og menntum þjóna sem eiga að velja vín sín sjálfir og móðgun gestum staðarins. Ég mæli því sérstaklega með að þú takir með þér okkar vín á slíkan stað og mótmælir óbeint þessari fábreytni og þröngsýni.

Þetta eru þeir veitingastaðir sem bjóða upp á okkar vín á vínlistum sínum – þeir eru óháðir og metnaðarfullir allir sem einn.

2 athugasemdir

Filed under vínlisti, veitingastaðir

Skoðanakönnun á Umani Ronchi miðum

.

Ekki fyrir löngu síðan (lestu bloggið) lagði ég það til að Montepulciano d’Abruzzo frá Umani Ronchi ætti að breyta um miða svo það yrði skiljanlegra, þekkjanlegra og auðseljanlegra. Ég lýsti því yfir að ég myndi stinga upp á þessu við framleiðandann þegar ég hitti hann á Vinitaly vínsýningunni.

Kom í ljós að Umani Ronchi var skrefi á undan mér. Þeir voru þegar búnir að endurhanna miðann á þetta vín og tvö önnur í sama verðflokki að auki, með sama hætti.

Hvað finnst þér um breytinguna?

 Fyrir                                                     Eftir

Montepulciano vínið okkar er lengst til hægri á báðum myndum (ath. á myndunum er vínið lengst til vinstri ekki það sama en af svipuðum toga hvað verð og stöðu varðar).

9 athugasemdir

Filed under ítalía, umani ronchi, vangaveltur

Vinitaly 2007 – Vínsýningin hefst

.

Dagur 4, 29. mars.

Vinitaly vínsýningin stendur í 5 daga, frá 9.00 til 19.00. Það þýðir 50 tíma af léttvínsþambi ef maður ætlar að nýta hverja mínútu. Ef einhver kynni að vera að velta því fyrir sér þá nennti ég nú ekki að hanga þarna allan tímann og … ég spýti hverjum dropa. Annars endist maður ekki mjög lengi.

Upp úr 9.00 var rölt af stað frá hóteli. Minni bloggarans var einhvern veginn á þá veg að það væri ekkert mál að rölta frá miðbænum yfir á sýningarsvæðið og skundaði af stað með ófríska eiginkonuna. Við rötuðum alveg en röltið var amk. 30 mínútur í gegnum svæði sem seint verður talið með hreinni og fallegri hlutum borgarinnar. Leigubílar notaðir hér eftir.

10.00 vorum við mætt á básinn hjá Chianti Classico framleiðandanum Castello di Querceto. Okkur eru minnistæðar þær hlýju móttökur sem við fengum hjá fjölskyldunni á heimili þeirra í Toskana fyrir tveimur árum (lestu bloggið um heimsóknina) og því var ráð að hefja sýninguna hjá þeim. Hjónin Alessandro og Antonietta voru í góðu formi og leyfðu okkur að smakka á nýju árgöngunum. Við fengum að heyra að 2006 árgangur væri einn sá besti fyrr og síðar, orð sem áttu eftir að enduróma á nánast öllum básum sem við heimsóttum þar eftir. 2006 rauðvínin eru reyndar yfirleitt ekki komin á markaðinn ennþá en þau hvítu eru það hins vegar í flestum tilfellum.

11.00 var skundað á splúnkunýjan bás Umani Ronchi víngerðarinnar en eins og hjá Castello di Querceto höfðum við átt ansi fína dvöl hjá Umani Ronchi á Ítalíuferðalagi okkar fyrir tveimur árum (lestu bloggið). Gianpiero og Laura tóku á móti okkur en þau sinna markaðsmálum fyrir fyrirtækið, Umani Ronchi er nefnilega stærra fyrirtæki en svo að fjölskyldan geti sinnt öllum helstu störfum. Við smökkuðum 2005 og 2006 af Casal di Serra og þótt mér ánægjulegt hvað 2006 lofar góðu, betri en 2005 sem nú fæst í Vínbúðunum. Nýi árgangurinn er framleiddur með aðeins öðrum áherslum en áður og verður því líst betur síðar. Við smökkuðum ýmis vín, m.a. nýja línu frá Abruzzo héraði sem koma frá nýrri landareign fyrirtækisins og einnig glæsilegt Cumaro sem mun snúa aftur í hillur Vínbúðanna innan skamms.

Gianpiero leyfði okkur líka að smakka af nýrri matarlínu sem unnin er í samvinnu við einhvern Michelin stjörnu kokk úr héraðinu. Þetta er niðursoðinn fiskur af ýmsu tagi og sultur. Mjög gott en flytur maður fisk inn til Íslands?

12.00 var síðasta stopp dagsins. Fontodi er einhver rómaðasti framleiðandi í Chianti Classico. Síðar á sýningunni þegar ég heimsótti einn rómaðasta Brunello di Montalcino framleiðandann þá lyftist á honum brúnin ég sagðist flytja inn Fontodi vín og hann sagði mér að það væru góð meðmæli fyrir Vín og mat þar sem sá taldi Fontodi þann besta í Chianti Classico og vildi líkja sjálfum sér við hann og hans aðferðir.

Við smökkuðum nýja árganga þar sem annars staðar en hér eru öll vín fyrsta flokks og það var sönn ánægja að velta þeim um munninn og … spýta! Giovanni Manetti, eigandi og víngerðarmaður hjá Fontodi (hann svarar líka öllum tölvupóstum, talandi um markaðsdeildir) settist aðeins niður með okkur. Vínin hans eru lífræn en hann segir að það sé ekki beinlínis þess vegna sem þau séu eins og þau eru, þau væru líklegast alveg jafn góð þótt ekki væru þau svo lífræn því það væri landið sjálft sem byggi yfir þessum einstökum gæðum. Þeir sem hafa staðið og horft yfir vínekrur Fontodi geta vel ímyndað sér kosti þessa lands, hinnar „Gullnu hlíðar“ við bæinn Panzano (lestu bloggið um heimsókn okkar til Fontodi árið 2005).

13.00 yfirgáfum við svæðið. Rakel ætlaði heim morguninn eftir og því vildum við rölta meira um borgina og njóta hennar saman. Við kíktum á kirkjur, röltum um þröngar götur og enduðum á Teatro Romano þar sem útsýni yfir borgina var einstakt. Staðurinn er áhugaverð blanda af rómversku leikhúsi og klaustri sem var reist þar nokkru síðar. Í klaustrinu er safn með alls kyns rómverskum minjum.

Um kvöldið fórum við svo út að borða á Osteria La Fontanina með Alessandro og Antoniettu, eigendum Castello di Querceto, tengdasyni þeirra og heildsala frá Mexíkó sem var með móður sína með sér. 8 réttir takk fyrir, 6 skv. matseðli (sjá matseðil) og 2 auka. Úff! Á milli rétta, og með réttum reyndar líka, fengum við að heyra af kvennaáhuga Mexíkóbúans sem lýsti því reglulega yfir að hann væri mikið karlmenni („macho“) sem væri nauðsynlegt að lifa sjálfstæðu og frjálsu lífi. Ég veit samt ekki alveg hvort móðir hans var sammála því.

Staðurinn er einstaklega skemmtilegur og svo þröngur að Alessandro gerði mikið grín að því að ameríkanar kæmust alls ekki þarna inn (og hló mikið af því sjálfur). Skraut og vínflöskur eru upp um alla veggi. Leifur á La Primavera hafði sérstaklega mælt með þessum stað og það var þess vegna skemmtileg tilviljun að okkur skildi einmitt hafa verið boðið þangað.

Fyrir utan mjög gott freyðivín, hvítvín og sætvín (I capitelli frá Anselmi) sem staðurinn mælti með þá voru dregnir fram tveir gamlir árgangar af vínum Castello di Querceto sem voru á vínlistanum, Cignale 1997 og La Corte 1997. Þau sýndu okkur hversu vel þau geta elst því þetta voru bara unglingar ennþá.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, ferðalög, fontodi, umani ronchi, vínsýning, veitingastaðir

Vinitaly 2007 – Kvöldverður með Caprai

Dagur 3, 28. mars.

Það hefði ekkert verið að því að hanga aðeins lengur á Hótel Steigenberger, skreppa í nudd eða í girnilega sundlaugina sem blasti við þegar við opnuðum gluggann um morguninn. Nú eða rölta um miðbæ Merano. En Veróna beið okkar þannig að við borðuðum morgunmatinn (reyndar eins seint og hægt var, rétt fyrir 11.00) og keyrðum af stað.

Veróna er 200km eða svo beint í suður frá Meranó og liggur hraðbrautin meðfram endilöngu Garda vatni þótt ekki sjáist í vatnið fyrir fjallgarðinum sem að skilur á milli. Það var ekki laust við að mér fannst ég ekki almennilega kominn til Ítalíu fyrr en við keyrðum út úr hálf-þýsku Alpasamfélaginu og nálguðumst Veróna.

Hótel Europa er svona lala en staðsetningin er splendido! á Via Roma um 100m frá Piazza Bra þar sem Arena er staðsett (sjá kort af Veróna). Öll hótel í Veróna og í sveitunum í kring voru uppbókuð enda koma aldrei eins margir gestir til borgarinnar og meðan á Vinitaly vínsýningunni stendur.

Allavegana, veðrið lék við okkur og við röltum um miðbæinn með smá pizzustoppi í hádeginu. Veróna er falleg borg, frekar lítil en mátulega óreiðukennd þannig að maður getur týnt sér í henni ef maður vill. Ég myndi samt ekki segja að hún væri meðal uppáhaldsborga minna á Ítalíu, til þess þyrfti ég að komast aðeins sunnar.

Um kvöldið var kvöldverður á Trattoria Ai Pompieri í boði Arnaldo Caprai. Það var ferlega skemmtilegt kvöld með góðum mat, vínum og félagsskap. Ekki spillti fyrir að Marco Caprai sat á móti mér og gat ég rakið garnirnar hans um eitt og annað. Það var heppilegt því fyrstu kynni mín af þessum rómaða vínframleiðanda voru heldur stuttaraleg (sjá þetta blogg um Ítalíuheimsókn 2005). Marco lék á alls oddi og ekki get ég sagt að hann sé kominn með á leið á vínunum sínum!

Við átum okkum sem sagt í gegnum 5 rétti en eins og nafnið „trattoria“ gefur til kynna er maturinn þarna einfaldur og staðbundinn með mikið úrval osta og pylsa í broddi fylkingar. Standardinn var samt hár, þjónusta góð og andrúmsloftið svo gott að ég hlakka til að koma hingað aftur í næstu ferð.

Fyrir utan Marco sjálfan og Robertu sem vinnur fyrir Caprai sátu okkur næst kanadískir heildsalar. Það var forvitnilegt að ræða við þá því í Kanada er ríkiseinokun eins og á Íslandi, bara miklu strangari! Í samanburði við Ísland voru þeir ennþá á steinöld. Þarna nálægt okkur var líka skemmtilegur heildsali frá San Fransisco sem er hámenntaður í hornleik og aðeins virkur sem slíkur ennþá.

Vínin voru að sjálfsögðu frá Caprai. Fyrst 2006 árgangur af Grecante sem er alveg jafn ferskur og góður og 2005, þá Montefalco Rosso 2004 sem er að mestu úr Sangiovese og er af svipuðum gæðum og verði og betri vín frá Chianti Classico og síðan komu Sagrantino di Montefalco Collepiano 2003 og Rosso Outsider 2004 en hið síðara er úr Cabernet Sauvignon og Merlot en gefur vínunum úr Sagrantino þrúgunni lítið eftir. Að lokum var drukkið Sagrantino di Montefalco 25 Anni 2003 sem er stjarna víngerðarinnar og dýrasta vínið. Í lokin var borðuð súkkulaðikaka með appelsínusósu sem var afbragð en full afgerandi kannski til að lokavín kvöldsins nyti sín sem best en það var Passito sætvín úr Sagrantino þrúgunni.

Takk fyrir okkur.

Úti tók svöl nóttin á móti okkur, kvöldið hafði dregist á langinn og við skiluðum okkur upp á hótel í kringum miðnættið.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, hótel, vínsýning, veitingastaðir

Tilboð í tölvupósti frá Bordeaux

Pierre nokkur frá Bordeaux sendi mér tölvupóst í gær þar sem hann var svo vænn að bjóða mér nokkur fágæt Bordeaux vín sem Robert Parker hafði gefið á bilinu 97 til 100 stig.

Frábært. Takk fyrir það Pierre.

Dýrasta vínið í þessum föngulega hópi var Chateau Lafite Rothschild 2000. Það kostaði ekki nema 953 Evrur, flaskan.

Nei, þetta er ekki 7500ml flaska ef þú kynnir að vera að velta þessu fyrir þér heldur óbreytt 750ml.

Þá á eftir að leggja á hana 19% álagningu Vínbúðanna og 24.5% VSK. Eftir það myndi hún kosta um 130.000 kr. — fyrir utan álagninu Víns og matar. Í þessu sambandi verður að segjast að 450 kr. í áfengisgjald fyrir flöskuna er ekki neitt.

Jæja Pierre minn, viltu ekki bara fara að slá grasið eða eitthvað?

Færðu inn athugasemd

Filed under bordeaux, frakkland, vangaveltur

Súkkulaði betra en koss

„There is no doubt that chocolate beats kissing hands down when it comes to providing a long-lasting body and brain buzz“ segir Dr. Lewis á vef BBC í dag.

Lestu alla fréttina þeirra

Það er vitnað í fréttina á mbl.is í dag.

Þau hafa væntanlega notað Amedei súkkulaði.

2 athugasemdir

Filed under amedei, fréttir, rannsóknir, súkkulaði

Bestu meðmælin koma frá ykkur

.

Það er eitt að fjalla um þá góða dóma sem vínin okkar fá í íslensku og erlendu pressunni. Við notum þessa dóma töluvert til að styðja við okkar eigin lýsingar og meðmæli sem virka þá ekki eins hlutdræg fyrir vikið og verða marktækari.

Hins vegar þykja okkur engin meðmæli betri en þau sem koma frá ykkur sem kaupið vínin, njótið þeirra og eruð sátt á eftir, jafnvel himinlifandi.

Hann Georg sendi mér þennan tölvupóst sem hann leyfði mér að birta hér á blogginu – það varðar tvö vín, nýja hvítvínið Grecante og sikileyska rauðvínið Santagostino sem ég hafði mælt með:

„Vildi bara þakka fyrir ábendingar þínar um vín í matarklúbbinn okkar um daginn. Við höfum áður fengið góð ráð og aldrei verið svikin að þeim. Við völdum vínin sem þú bentir á bæði Grecante 2005 með aldamóta humarsúpunni – aðeins stílfærðri – og Santagostino 2003 með hreindýrakjötinu. Hvítvínið vakti mikla hrifningu, þótti þétt, mjúkt og jafnframt ferskt, það passaði sérstaklega vel með súpunni og tvær konur ákváðu að drekka það áfram með hreindýrinu. Rauðvínið sló algjörlega í gegn, þar höfðu menn orð á því að það væri með betri rauðvínum sem þeir höfðu látið inn fyrir sínar varir – ótrúlega góð kaup í þessum Ítala. Létt og fjörugt vín sem heldur sínum einkennum en leyfir kjötinu að njóta sín. Með létt steiktri villibráð, sykurgljáðum ávöxtum og ofnbakaðri kartöflumús úr sætum og venjulegum kartöflum er ekki sjálfgefið að finna vín sem nýtur sín og leyfir öllu öðru að njóta sín með. Mæli með þessum vínum.“

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, firriato, ummæli

Spánn — tvö rauðvín á tilboði

.

Það dugir ekki alltaf til þótt vínin séu góð, þau bara seljast ekki nógu vel. Þau hafa kannski ekki með nógu eftirminnilegan miða eða grípandi nafn. Eða eru ekki nógu venjuleg heldur „of“ einstök.

Þá er allt í lagi að gefa smávegis afslátt.

Laderas de El Seque (1.290 kr. í stað 1.450 kr.) er frá Alicante héraðinu. Jay Miller sem skrifar nú um vín frá Spáni fyrir Robert Parker útgáfuna gefur þessum árgangi 90 stig og kallar það „sensational value“. Um Orobio Rioja 2004 (1.490 kr. í stað 1.600 kr.) hefur ekki verið fjallað hjá Parker en árgangurinn á eftir, 2005, fær þar 89 stig.

Bæði vínin eru framleidd af Artadi víngerðinni sem er ein skærasta stjarnan á Spáni í dag.

Þau fást í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni. 

Hér er umfjöllunin um El Seque 2005

Laderas de El Seque 200590 stig
„The 2005 Vinedos de El Seque is composed of 80% Monastrell, 10% Syrah, and 10% Cabernet Sauvignon aged 4-6 months in French oak. Opaque purple-colored, it offers a superior nose of graphite, truffle, mocha, blueberry, and blackberry liqueur. Full-flavored and supple on the palate, its personality is formed by gobs of sweet, ripe fruit with all components in balance. There is enough structure to support several years of bottle age but who will be able to resist it now? It is a sensational value worth buying by the case.“

www.erobertparker.com

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, dómar, rioja, robert parker, spánn, tilboð

Þrír Ástralir fá 97 til 99 stig hjá Robert Parker

.

Við vorum að fá sendingu frá Ástralíu í síðustu viku. Í henni voru vín frá d’Arenberg, Torbreck og Kay Brothers.

d’Arenberg er lang stærstur hluti af viðskiptum okkar við Ástralíu en nokkrir gæðingar frá Torbreck og Kay Brothers fengu að fljóta með.

Þau eru bara svo góð. Þau eru engu lík.

Þetta hefur Robert Parker sjálfur að segja um vínin:

Torbreck The Factor 200497 stig
„Made from 100% Shiraz that spent 24 months in French oak (30% new), the exuberant, flamboyant 2004 The Factor offers up gorgeously pure blueberry and blackberry fruit intermixed with smoke, bacon fat, camphor, and graphite. Silky smooth, and, as David Powell says, “the most Barossa-like” of all his wines, it represents Powell’s rendition of a Cote Rotie. It can be drunk over the next 15-20 years.“

Torbreck Run Rig 200399 stig
„The estate’s flagship cuvee is the virtually perfect 2003 Run Rig. Made from 8 separate Barossa vineyards (ranging in age from 94 to 158 years), it is primarily Shiraz with 4-5% co-fermented Viognier included in the blend. The wine was aged in French oak of which 60% is new. The sensational, inky/purple-tinged 2003 exhibits a stunningly sweet nose of blackberries, blueberries, litchi nuts, smoked meats, and a hint of apricots. Elegant yet super-powerful, rich, concentrated, and long, it is a tour de force in winemaking as well as a modern classic example of Barossa Shiraz. It should drink well for 20-25 years.“

Kay Brothers Block 6 200498 stig
„There are 1,400 cases of the flagship cuvee, the Block 6 Shiraz, which is aged 28 months in 60% new American oak and 40% new Hungarian oak. Typically, it possesses between 15-16% alcohol and is always a candidate for twenty or more years of cellaring. The 2004 Shiraz Block 6 is the finest example of this cuvee since the 1998. It is an awesomely concentrated Shiraz with an inky/plum/garnet/purple color and a sweet nose of roasted meats, dried herbs, ground pepper, blackberries, and cassis. This intense, full-bodied effort boasts a profound depth and richness as well as layer upon layer of awesome concentration and length. While approachable, it should hit its peak in 5-6 years, and last for two decades or more.“

– Robert Parker (www.erobertparker.com)

Vínin er hægt að sérpanta með því að senda okkur tölvupóst á vinogmatur@internet.is. Á meðan birgðir endast.

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, d'arenberg, dómar, kay brothers, robert parker, torbreck

Vinitaly 2007 – Diskóbúlla í Dólómítunum

Dagur 2, 27. mars.

7.00 á fætur.

8.00 inn í rútu.

10.00 mætt á Sellaronda skíðasvæðið í Dólómítunum. Veðrið var rjómagott, færið var fyrirtak og umhverfið óviðjafnanlegt. Ekki svo mikið af fólki og því engin bið í lyftur. Eiginlega er ekki hægt að biðja um meira þótt bloggarinn hafði ekki stigið á skíði í 15 ár. Rakel fór hins vegar í hópgöngu á snjóblöðkum þar til við hittumst í hádeginu.

13.30 matur á Rifugio Comici sem af öllum ólíklegum veitingastöðum er Miðjarðarhafs-fiskistaður í miðri skíðabrekku. Fiskurinn er hins vegar veiddur af ættingja fjölskyldunnar sem á staðinn og sóttur daglega niður á strönd svo hann sé alltaf ferskur og góður. George Clooney er víst fastagestur þarna. O jæja, staðurinn var amk. virkilega góður, þrír fiskréttir og síðan eftiréttur og drukkin með rauðvínið Pinot Nero 2005 og hvítvínið Schulthauser Pinot Bianco 2006 frá afmælisbarninu að sjálfsögðu, San Michele Appiano.

Þá var skíðað niður að rútunum með fullan maga af mat og víni og ekið af stað. Við stoppuðum til að hitta hóp gesta sem höfðu valið erfiðari skíðaleið (svo erfiða að tveir ameríkanar týndust í dágóðan tíma) og allir fengu Alpahatta merkta víngerðinni. Þarna stigum við upp í skíðalyftu, 6-8 í hverja, og hífðumst upp í 2.200 metra hæð þar sem beið okkar heitt rauðvín, meiri matur og … diskódans!

Diskóbúllan Club Moritzino er furðulegur fjallakofi sem eldar frábæran mat og spilar síðan dúndrandi danstónlist á milli rétta þar sem gestir eru hvattir til að standa upp á stólum og sleppa af sér beislinu. Það gekk eitthvað illa að fá Íslendinginn til að gefa sig allan í fjörið en á endanum var hann þó farinn að smella fingrum, – og gott ef ekki stíga nokkur úthugsuð spor. Stjórnendur San Michele Appiano víngerðarinnar fóru hins vegar hamförum á dansgólfinu og eiginlega má segja að stuðið á mannskapnum hafi verið skrambi gott.

Þegar matnum og djamminu lauk um 23.00 fóru allir í snjóbíla sem keyrðu okkur niður brekkuna að rútunum. Á miðri leið þurfti að gera neyðarstopp þar sem var farið að renna af einhverjum og allir fengu síðasta sopann af St. Valentin Pinot Nero 2004.

Að lokum hlykktust rúturnar af stað eftir svo bugðóttum vegum að manni fannst þeir fara í hringi þar til við komum á hótelið í Meranó tveimur tímum síðar.

Afmælisprógrammi var formlega lokið. Takk fyrir okkur, þetta var virkilega vel skipulagt, flott og skemmtilegt.

Það staðfestist líka að San Michele Appiano gerir einhver best gerðu vín á norðurhveli Ítalíuskagans, hin stílhreinu og tæru hvítvín með hið margverðlaunaða (13 sinnum hlotið hæstu einkunn 3 glös í Gambero Rosso)  St. Valentin Sauvignon Blanc í broddi fylkingar ásamt karaktermiklum rauðvínum, ekki síst St. Valentin Pinot Nero sem hlýtur að teljast með bestu vínum Ítalíu úr Pinot Noir þrúgunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, ferðalög, hótel, vínsýning, veitingastaðir

Vinitaly 2007 – Ljósasjóv undir berum himni

.

Dagur 1, 26. mars.

Flug  í Keflavík 7.20, millilending í Frankfurt og þaðan til Veróna 18.00.

Vinitaly vínsýningin í Veróna er stærst og elst allra vínsýninga. Ekki hissa kannski að hún skuli vera elst enda liggja allar rætur á endanum til Móður Ítalíu (og reyndar þaðan til Grikklands og Asíu en gleymum því) en að hún sé stærst kom mér á óvart þar sem ég taldi Bordeaux vera umfangsmeiri. Nóg um það.

En áður en sýningin hófst fórum við Rakel í afmæli til San Michele Appiano sem kenndur er við þorpið Appiano. Þótt ég hafi vanið mig á að nota ítalska heitið (eins og Gambero Rosso gerir) þá væri eiginlega réttara að nota þýskuna því hún virðist vera ráðandi tunga innan fyrirtækisins enda reka fyrirtækið menn með nöfn eins og Günther, Anton og Hanz.

Þeir hjá Appiano voru svo elskulegir að bjóða okkur flug og gistingu enda ekki á hverju ári sem menn verða 100 ára (þegar leið á partýið og menn urðu hressir voru þeir byrjaðir að lofa svona partýi á 5 til 10 ára fresti en ég held að kannski hafi það verið í hita leiksins…- aldrei að lofa þegar maður er í slíku stuði). Grazie mille!

Við Rakel lentum sem sagt 18.00 á Veróna flugvelli sem var skemmtilega sveitalegur miðað við gímaldið í Frankfurt, og brunuðum til Appiano á bílaleigubíl. Partýið var byrjað þegar við mættum en við komum akkúrat í forréttinn. Ekki er hægt að segja að við Rakel létum lítið fara fyrir okkur þegar við gengum inn í salinn þar sem allir voru sestir til borðs því dyrnar sem við þurftum að opna til að ganga inn voru svona 300 fermetrar að flatarmáli og Rakel í skjannahvítri kápu með 5 mánaða bumbu út í loftið og ég í skjærgrænum jakka með 34 ára gamla bumbu út í loftið.

Okkar var vísað til borðs hjá frændum okkar Norðmönnum og Finnum. Norðmenn voru ung vinaleg hjón sem við ræddum svolítið við í ferðinni og Finnar voru fremur þöglir á hinum enda borðsins. Ég hefði hvort sem er ekki heyrt neitt í þeim því tónlistin var hávær – talandi um tónlistina, hún var prýðisgóð og flutt af áhugamönnum sem allir störfuðu sem fréttamenn hjá RAI sjónvarpsstöðinni. Öllu hressari voru tékknesku fulltrúarnir sem einnig sátu við borðið, svo hressir að það þurfti reglulega að sussa á þegar þurfti að fá þögn í salinn. Anton, sem ég held að sé framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sat síðan á milli okkar og Tékkanna.

Kvöldið leið þannig að hver rétturinn var reiddur fram af öðrum undir vaskri stjórn Michelin-stjörnu kokks sem ég náði ekki hvað heitir og með réttinum var borið fram vín frá víngerðinni sem víngerðarmaðurinn Hanz Terzer kynnti jafnóðum. Þetta voru eðalvín öll sem eitt, allt frá hinum ljúfa Riesling Montiggl 2006 til hins heillandi Pinot Nero St. Valentin 2004, nú eða sætvínsins Comtess í endann sem var eðal. Skemmtilegt var að smakka 1998 árgang af Pinot Grigio St. Valentin sem sýndi hversu vel vínið getur þroskast, verulega áhugavert, og ekki síður skemmtilegt var að smakka sérstakt hátíðarvín úr Chardonnay, Pinot Grigio og Pinot Bianco sem er hið fyrsta þar sem þeir blanda nokkrum þrúgum saman (aðeins framleiddar um 200 flöskur). Ótrúlegt miðaða við að víngerðin gerir um 30 ólík vín en þau eru öll sem eitt úr sinni þrúgu hvert.

Áður en rúllað var upp á hótel (Hótel Steigenberger er í 30km fjarlægð í bænum Merano) vorum öllum húrrað út í garð þar sem var framið ljósasjóv á stóran húsvegg víngerðarinnar. Það var gott veður, allir voru hressir – þetta var svona létt Cinema Paradiso stemning. Og borið var fram Gewurztraminer St. Valentin 2006 undir öllu saman. Ljósasjóvið sýndi upphaf víngerðarinnar en líka stutta senu frá landi hvers fulltrúa (gestir voru nær eingöngu innflutningsaðilar um allan heim) og fengum við að sjá Flugleiðavél, gamla báta, íslenska fánann og fleira undir söng Bjarkar þegar kom að Íslandi. Skemmtilegt nokk. Einna flottast fannst mér samt þegar orginal teikningnum víngerðarinnar var varpað á húsið í réttum hlutföllum, það var kúl.

Komið á hótel á miðnætti, framundan skíðadagur í Dólómítunum.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, ferðalög, matur, vínsýning, vínsmökkun

Glös, umhellingar og hitastig

.

Ég fæ margar góðar spurningar þegar ég er með vínsmakkanir. Nokkrar sem ég fæ eiginlega alltaf varða umhellingu vína, hitastig vína og glösin sem við drekkum þau úr (ef ég fæ ekki spurninguna um glösin spyr ég hana sjálfur).

Byrjum á glösunum. Já, glösin skipta verulegu máli. Sama vín getur verið líltið spennandi í t.d. litlu glasi úr þykku gleri en aftur á móti virkað mjög heillandi í rétta glasinu. Rétta glasið fer náttúrulega eftir tegund vínsins en bestu glösin eru alltaf úr þunnum, óskornum kristal, létt og all rúmgóð. Ég þekki ekki almennilega vísindin á bak við þetta en segi þetta af reynslu. Lituð glös og skorin geta verið falleg og skapað góða stemningu og þess vegna upplögð en sé meiningin að njóta vínsins best er betra að hafa þau óskorin og glær – þannig sést litur og áferð vínsins betur. Þykk glös og lítil þrengja ilmprófíl vínsins niður í nánast ekki neitt á meðan stór og þunn glös leyfa hinum flóknustu ilmeiginleikum þess að koma fram. Ég mæli með Riedel glösunum sem fást í Kokku.

Það má lesa nánar um glasafræðin hér

Hitastig vína er annar mikilvægur þáttur. Hvítvín verða flöt ef þau fá að hitna of mikið, mismikið þó eftir tegund. Það er betra að byrja með þau of köld en of heit og leyfa þeim frekar að hitna niður í kjörhitastig. Bragðmeiri, þykkari, stundum eikaðri og betri hvítvín vilja aðeins hærra hitastig til að sem flestir eiginleikar þeirra komi í ljós. Rauðvín eru yfirleitt drukkin of heit, íslenskur stofuhiti er ekki kjörhiti. Sama hér, betra að byrja með þau aðeins í svalari kantinum og leyfa þeim að ná réttum hita smám saman frekar en að byrja með þau í 24°C (íslenskur stofuhiti). Of heit verða rauðvín oft römm og ýkt. Smekkur skiptir samt víst einhverju máli hér.

Það má lesa nánar um hitastig hér

Umhelling? Fyrir flesta er það ónauðsynlegt, sérstaklega hvað hvítvínin varðar, en ef þú drekkur bara ung gæðarauðvín skaltu splæsa í eitt stykki karöflu líka. Slík vín eru oft lokuð og þá hjálpar umhellingin að opna þau svolítið. Rúmgott vínglas gerir það sama, stundum er nóg að hella víninu tímanlega í glasið til að ná fram sömu áhrifum. Öndun getur gert mikið fyrir ungt rauðvín, ég hef  t.d. drukkið vín sem hefur verið talsvert betra daginn eftir (flaskan full að 2/3 og lokað aftur með korktappanum). Hefur líka gerst fyrir hvítvín sem hafa verið lokuð aftur með tappa og sett í ísskáp. Umhelling vína sem hafa botnfall og eldri árganga hefur annan tilgang en að opna vínið en þá þarf að hella varlega til að botnfallið sitji eftir í flöskunni.

Meira um umhellingar hér

Gleðilega páska!

Færðu inn athugasemd

Filed under fræðsla

The Hermit Crab fær þrusudóma hjá Winestate

.

Winestate er ástralskt víntímarit.

Þeir virðast hafa fallið í stafi yfir The Hermit Crab 2005 hvítvíninu frá d’Arenberg.

Þeir velja það eitt af Bestu vínum ársins 2006 og gefa því 4 1/2 sjörnu af 5 mögulegum.

Lestu allan dóminn

Kíktu líka á þetta skemmtilega vídeóblogg þar sem Cary Vaynerchuk lofar vínið.

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, d'arenberg, dómar

Vefsíða Parkers endurnýjuð

.

Robert Parker er nýbúinn að taka vefsíðu sína í gegn.

Hún lítur vel út.

Það hefur ekki svo mikið breyst held ég hvað innihaldið varðar fyrir utan að núna er Bretinn og fyrrverandi vínbloggarinn Neal Martin orðinn sýnilegur.

Neal þessi skrifar fyrirtaks góða og fyndna texta. Það er því kominn húmor inn á vefsíðu Parkers, góður breskur húmor. 

Ekki veitt af — ég man ekki eftir að hafa lesið nokkurn tímann eitthvað eftir Parker sjálfan sem getur á einhvern hátt talist fyndið!

Það er því kominn húmor inn á vefsíðu Parkers, góður breskur húmor. Svo virðist sem Wine Journal sá er Neal hélt uppi á bloggsíðu sinni hafi verið færður eins og hann leggur sig og að Neal haldi uppteknum hætti að fjalla um vín og gefa einkunnir eftir sínu nefi. Gott mál. Neal er líka með spjallþræði á umræðuvef Parkers.

Áskrift að vefsíðunni kostar 99 dollara fyrir árið. Hún er vel þess virði.

Færðu inn athugasemd

Filed under robert parker, spjallþræðir

Hótel KEA um páskana

.

Síðan í desember hefur Hótel KEA boðið upp á tvö rauðvín sem Vín og matur flytur inn, The Laughing Magpie frá Ástralíu og Mas Nicot frá Frakklandi.

Þannig að nú er manni óhætt að renna norður án þess að hafa áhyggjur af því að fá ekkert gott að drekka.

T.d. má drekka þessi tvö vín með sérstökum páskamatseðli sem hótelið býður upp á fram á sunnudag. Það verður líka lifandi tónlist og eitthvað fyrir börnin — smelltu hér til að skoða seðilinn og dagskránna

Betra að taka hlý föt með sér því spáin framundan er frekar köld og hvít.

2 athugasemdir

Filed under d'arenberg, ferðalög, hótel, hótel kea, mas nicot, matur

Bloggarinn kemur heim frá Veróna

Buongiorno!

Bloggarinn er kominn aftur.

Ekki tókst að blogga á meðan á ferðalaginu á Ítalíu stóð. Hótelið í Veróna reyndist bara bjóða upp á hefðbundna símatengingu við netið (það þurfti að taka símann úr sambandi til að tengja tölvuna við netið… og gott ef ekki sjónvarpið og útvarpið líka… auk þess sem að skrúfa þurfti frá heitavatnskrananum og fara með þrjár Maríubænir til að ná betra sambandi) þannig að bloggarinn nennti ekki að standa í því að fremja bloggfærslur uppi á herberginu. Síðan var eitthvað erfitt að hrista íslenska bókstafi út úr lyklaborðinu á næstu internetþjónustu.

Þannig að — myndir og nánari færslur um þessa æsispennandi ferð verða birtar hér fljótlega.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, vínsýning