Monthly Archives: apríl 2007

Tappagjald á veitingastöðum og hvernig þú getur haft áhrif

Að taka með sér vínflösku til að drekka á veitingastað virðist ekki vera mikið stundað á Íslandi.

Fyrir það greiðist tappagjald sem er ákveðin upphæð per flösku. Ég hef aðeins gert þetta sjálfur og er gjaldið misjafnt eftir veitingastöðum en ég hugsa að það megi segja að það sé a.m.k. ekki undir 2.000 kr. að jafnaði og eflaust nær 3.000 kr. Tappagjaldið þekkja líka þeir sem hafa haldið stórar veislur, t.d. brúðkaup, í veislusölum og fengið að taka með sér vín gegn ákv. gjaldi per flösku sem má búast við að sé eitthvað lægra en á veitingastöðunum.

Maður tekur ekki vín með sér á veitingastað til að spara pening heldur til þess að njóta víns sem manni langar sérstaklega að njóta og er ekki á vínlista veitingastaðarins. Vínsafnarar gera þetta nokkuð og fá þannig tækifæri til að njóta góðu vínanna sinna í afslöppuðu umhverfi, félagsskap og með góðum mat og þjónustu.

Ég hef aldrei heyrt neinn veitingastað á Íslandi auglýsa þessa þjónustu enda ekki beint í þeirra verkahring en þó finnst mér ólíklegt að nokkur þeirra myndi neita ef borin væri fram kurteisleg fyrirspurn.

Lettie Teague (lestu pistilinn hennar) sem skrifar fyrir amerísku Food and Wine útgáfuna hefur tekið saman nokkur atriði sem vert er að hafa í huga:

1) Hringja á undan í veitingastaðinn til að athuga hvort það sé í lagi að taka með sér vín og láta vita hvaða vín það er.
2) Spyrja fyrirfram um hversu hátt tappagjaldið er og sætta sig við að borga skynsamlegt gjald.
3) Koma aðeins með vín sem eru nógu fágæt og dýrmæt – annars er þetta frekar tilgangslaust.
4) Bjóða vínþjóninum að smakka vínið.
5) Kaupa hugsanlega líka eitthvað af vínlista veitingastaðarins.

Mig langar útfæra lið 3 aðeins betur:

3-b) Þar sem margir íslenskir veitingastaðir hafa ekki svo yfirgripsmikla vínlista er kannski meiri ástæða til að færa sér þennan möguleika meira í nyt, að koma með sitt eigið vín, og ekki endilega einskorða það við sérstaklega fágæt vín heldur bara yfirleitt öll sérstaklega góð vín (ok. sleppa kannski kassavínum).

3-c) Margir íslenskir veitingastaðir (enginn þeirra sem við verslum við… annars væru vínin okkar ekki þar) hafa vínlista sem er stjórnað af þeim sem flytja inn vínin, einhverjum stóru heildsalanna. Veitingastaðirnir fá ekki að kaupa vín frá fyrirtækjum eins og Vín og mat þótt þeim fyndist þau góð og langaði að kaupa þau. Þetta er náttúrulega fáranleg staða sem kemur niður á gæðum og er vanvirðing á hæfni og menntum þjóna sem eiga að velja vín sín sjálfir og móðgun gestum staðarins. Ég mæli því sérstaklega með að þú takir með þér okkar vín á slíkan stað og mótmælir óbeint þessari fábreytni og þröngsýni.

Þetta eru þeir veitingastaðir sem bjóða upp á okkar vín á vínlistum sínum – þeir eru óháðir og metnaðarfullir allir sem einn.

2 athugasemdir

Filed under vínlisti, veitingastaðir

Skoðanakönnun á Umani Ronchi miðum

.

Ekki fyrir löngu síðan (lestu bloggið) lagði ég það til að Montepulciano d’Abruzzo frá Umani Ronchi ætti að breyta um miða svo það yrði skiljanlegra, þekkjanlegra og auðseljanlegra. Ég lýsti því yfir að ég myndi stinga upp á þessu við framleiðandann þegar ég hitti hann á Vinitaly vínsýningunni.

Kom í ljós að Umani Ronchi var skrefi á undan mér. Þeir voru þegar búnir að endurhanna miðann á þetta vín og tvö önnur í sama verðflokki að auki, með sama hætti.

Hvað finnst þér um breytinguna?

 Fyrir                                                     Eftir

Montepulciano vínið okkar er lengst til hægri á báðum myndum (ath. á myndunum er vínið lengst til vinstri ekki það sama en af svipuðum toga hvað verð og stöðu varðar).

9 athugasemdir

Filed under ítalía, umani ronchi, vangaveltur

Vinitaly 2007 – Vínsýningin hefst

.

Dagur 4, 29. mars.

Vinitaly vínsýningin stendur í 5 daga, frá 9.00 til 19.00. Það þýðir 50 tíma af léttvínsþambi ef maður ætlar að nýta hverja mínútu. Ef einhver kynni að vera að velta því fyrir sér þá nennti ég nú ekki að hanga þarna allan tímann og … ég spýti hverjum dropa. Annars endist maður ekki mjög lengi.

Upp úr 9.00 var rölt af stað frá hóteli. Minni bloggarans var einhvern veginn á þá veg að það væri ekkert mál að rölta frá miðbænum yfir á sýningarsvæðið og skundaði af stað með ófríska eiginkonuna. Við rötuðum alveg en röltið var amk. 30 mínútur í gegnum svæði sem seint verður talið með hreinni og fallegri hlutum borgarinnar. Leigubílar notaðir hér eftir.

10.00 vorum við mætt á básinn hjá Chianti Classico framleiðandanum Castello di Querceto. Okkur eru minnistæðar þær hlýju móttökur sem við fengum hjá fjölskyldunni á heimili þeirra í Toskana fyrir tveimur árum (lestu bloggið um heimsóknina) og því var ráð að hefja sýninguna hjá þeim. Hjónin Alessandro og Antonietta voru í góðu formi og leyfðu okkur að smakka á nýju árgöngunum. Við fengum að heyra að 2006 árgangur væri einn sá besti fyrr og síðar, orð sem áttu eftir að enduróma á nánast öllum básum sem við heimsóttum þar eftir. 2006 rauðvínin eru reyndar yfirleitt ekki komin á markaðinn ennþá en þau hvítu eru það hins vegar í flestum tilfellum.

11.00 var skundað á splúnkunýjan bás Umani Ronchi víngerðarinnar en eins og hjá Castello di Querceto höfðum við átt ansi fína dvöl hjá Umani Ronchi á Ítalíuferðalagi okkar fyrir tveimur árum (lestu bloggið). Gianpiero og Laura tóku á móti okkur en þau sinna markaðsmálum fyrir fyrirtækið, Umani Ronchi er nefnilega stærra fyrirtæki en svo að fjölskyldan geti sinnt öllum helstu störfum. Við smökkuðum 2005 og 2006 af Casal di Serra og þótt mér ánægjulegt hvað 2006 lofar góðu, betri en 2005 sem nú fæst í Vínbúðunum. Nýi árgangurinn er framleiddur með aðeins öðrum áherslum en áður og verður því líst betur síðar. Við smökkuðum ýmis vín, m.a. nýja línu frá Abruzzo héraði sem koma frá nýrri landareign fyrirtækisins og einnig glæsilegt Cumaro sem mun snúa aftur í hillur Vínbúðanna innan skamms.

Gianpiero leyfði okkur líka að smakka af nýrri matarlínu sem unnin er í samvinnu við einhvern Michelin stjörnu kokk úr héraðinu. Þetta er niðursoðinn fiskur af ýmsu tagi og sultur. Mjög gott en flytur maður fisk inn til Íslands?

12.00 var síðasta stopp dagsins. Fontodi er einhver rómaðasti framleiðandi í Chianti Classico. Síðar á sýningunni þegar ég heimsótti einn rómaðasta Brunello di Montalcino framleiðandann þá lyftist á honum brúnin ég sagðist flytja inn Fontodi vín og hann sagði mér að það væru góð meðmæli fyrir Vín og mat þar sem sá taldi Fontodi þann besta í Chianti Classico og vildi líkja sjálfum sér við hann og hans aðferðir.

Við smökkuðum nýja árganga þar sem annars staðar en hér eru öll vín fyrsta flokks og það var sönn ánægja að velta þeim um munninn og … spýta! Giovanni Manetti, eigandi og víngerðarmaður hjá Fontodi (hann svarar líka öllum tölvupóstum, talandi um markaðsdeildir) settist aðeins niður með okkur. Vínin hans eru lífræn en hann segir að það sé ekki beinlínis þess vegna sem þau séu eins og þau eru, þau væru líklegast alveg jafn góð þótt ekki væru þau svo lífræn því það væri landið sjálft sem byggi yfir þessum einstökum gæðum. Þeir sem hafa staðið og horft yfir vínekrur Fontodi geta vel ímyndað sér kosti þessa lands, hinnar „Gullnu hlíðar“ við bæinn Panzano (lestu bloggið um heimsókn okkar til Fontodi árið 2005).

13.00 yfirgáfum við svæðið. Rakel ætlaði heim morguninn eftir og því vildum við rölta meira um borgina og njóta hennar saman. Við kíktum á kirkjur, röltum um þröngar götur og enduðum á Teatro Romano þar sem útsýni yfir borgina var einstakt. Staðurinn er áhugaverð blanda af rómversku leikhúsi og klaustri sem var reist þar nokkru síðar. Í klaustrinu er safn með alls kyns rómverskum minjum.

Um kvöldið fórum við svo út að borða á Osteria La Fontanina með Alessandro og Antoniettu, eigendum Castello di Querceto, tengdasyni þeirra og heildsala frá Mexíkó sem var með móður sína með sér. 8 réttir takk fyrir, 6 skv. matseðli (sjá matseðil) og 2 auka. Úff! Á milli rétta, og með réttum reyndar líka, fengum við að heyra af kvennaáhuga Mexíkóbúans sem lýsti því reglulega yfir að hann væri mikið karlmenni („macho“) sem væri nauðsynlegt að lifa sjálfstæðu og frjálsu lífi. Ég veit samt ekki alveg hvort móðir hans var sammála því.

Staðurinn er einstaklega skemmtilegur og svo þröngur að Alessandro gerði mikið grín að því að ameríkanar kæmust alls ekki þarna inn (og hló mikið af því sjálfur). Skraut og vínflöskur eru upp um alla veggi. Leifur á La Primavera hafði sérstaklega mælt með þessum stað og það var þess vegna skemmtileg tilviljun að okkur skildi einmitt hafa verið boðið þangað.

Fyrir utan mjög gott freyðivín, hvítvín og sætvín (I capitelli frá Anselmi) sem staðurinn mælti með þá voru dregnir fram tveir gamlir árgangar af vínum Castello di Querceto sem voru á vínlistanum, Cignale 1997 og La Corte 1997. Þau sýndu okkur hversu vel þau geta elst því þetta voru bara unglingar ennþá.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, ferðalög, fontodi, umani ronchi, vínsýning, veitingastaðir

Vinitaly 2007 – Kvöldverður með Caprai

Dagur 3, 28. mars.

Það hefði ekkert verið að því að hanga aðeins lengur á Hótel Steigenberger, skreppa í nudd eða í girnilega sundlaugina sem blasti við þegar við opnuðum gluggann um morguninn. Nú eða rölta um miðbæ Merano. En Veróna beið okkar þannig að við borðuðum morgunmatinn (reyndar eins seint og hægt var, rétt fyrir 11.00) og keyrðum af stað.

Veróna er 200km eða svo beint í suður frá Meranó og liggur hraðbrautin meðfram endilöngu Garda vatni þótt ekki sjáist í vatnið fyrir fjallgarðinum sem að skilur á milli. Það var ekki laust við að mér fannst ég ekki almennilega kominn til Ítalíu fyrr en við keyrðum út úr hálf-þýsku Alpasamfélaginu og nálguðumst Veróna.

Hótel Europa er svona lala en staðsetningin er splendido! á Via Roma um 100m frá Piazza Bra þar sem Arena er staðsett (sjá kort af Veróna). Öll hótel í Veróna og í sveitunum í kring voru uppbókuð enda koma aldrei eins margir gestir til borgarinnar og meðan á Vinitaly vínsýningunni stendur.

Allavegana, veðrið lék við okkur og við röltum um miðbæinn með smá pizzustoppi í hádeginu. Veróna er falleg borg, frekar lítil en mátulega óreiðukennd þannig að maður getur týnt sér í henni ef maður vill. Ég myndi samt ekki segja að hún væri meðal uppáhaldsborga minna á Ítalíu, til þess þyrfti ég að komast aðeins sunnar.

Um kvöldið var kvöldverður á Trattoria Ai Pompieri í boði Arnaldo Caprai. Það var ferlega skemmtilegt kvöld með góðum mat, vínum og félagsskap. Ekki spillti fyrir að Marco Caprai sat á móti mér og gat ég rakið garnirnar hans um eitt og annað. Það var heppilegt því fyrstu kynni mín af þessum rómaða vínframleiðanda voru heldur stuttaraleg (sjá þetta blogg um Ítalíuheimsókn 2005). Marco lék á alls oddi og ekki get ég sagt að hann sé kominn með á leið á vínunum sínum!

Við átum okkum sem sagt í gegnum 5 rétti en eins og nafnið „trattoria“ gefur til kynna er maturinn þarna einfaldur og staðbundinn með mikið úrval osta og pylsa í broddi fylkingar. Standardinn var samt hár, þjónusta góð og andrúmsloftið svo gott að ég hlakka til að koma hingað aftur í næstu ferð.

Fyrir utan Marco sjálfan og Robertu sem vinnur fyrir Caprai sátu okkur næst kanadískir heildsalar. Það var forvitnilegt að ræða við þá því í Kanada er ríkiseinokun eins og á Íslandi, bara miklu strangari! Í samanburði við Ísland voru þeir ennþá á steinöld. Þarna nálægt okkur var líka skemmtilegur heildsali frá San Fransisco sem er hámenntaður í hornleik og aðeins virkur sem slíkur ennþá.

Vínin voru að sjálfsögðu frá Caprai. Fyrst 2006 árgangur af Grecante sem er alveg jafn ferskur og góður og 2005, þá Montefalco Rosso 2004 sem er að mestu úr Sangiovese og er af svipuðum gæðum og verði og betri vín frá Chianti Classico og síðan komu Sagrantino di Montefalco Collepiano 2003 og Rosso Outsider 2004 en hið síðara er úr Cabernet Sauvignon og Merlot en gefur vínunum úr Sagrantino þrúgunni lítið eftir. Að lokum var drukkið Sagrantino di Montefalco 25 Anni 2003 sem er stjarna víngerðarinnar og dýrasta vínið. Í lokin var borðuð súkkulaðikaka með appelsínusósu sem var afbragð en full afgerandi kannski til að lokavín kvöldsins nyti sín sem best en það var Passito sætvín úr Sagrantino þrúgunni.

Takk fyrir okkur.

Úti tók svöl nóttin á móti okkur, kvöldið hafði dregist á langinn og við skiluðum okkur upp á hótel í kringum miðnættið.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, hótel, vínsýning, veitingastaðir

Tilboð í tölvupósti frá Bordeaux

Pierre nokkur frá Bordeaux sendi mér tölvupóst í gær þar sem hann var svo vænn að bjóða mér nokkur fágæt Bordeaux vín sem Robert Parker hafði gefið á bilinu 97 til 100 stig.

Frábært. Takk fyrir það Pierre.

Dýrasta vínið í þessum föngulega hópi var Chateau Lafite Rothschild 2000. Það kostaði ekki nema 953 Evrur, flaskan.

Nei, þetta er ekki 7500ml flaska ef þú kynnir að vera að velta þessu fyrir þér heldur óbreytt 750ml.

Þá á eftir að leggja á hana 19% álagningu Vínbúðanna og 24.5% VSK. Eftir það myndi hún kosta um 130.000 kr. — fyrir utan álagninu Víns og matar. Í þessu sambandi verður að segjast að 450 kr. í áfengisgjald fyrir flöskuna er ekki neitt.

Jæja Pierre minn, viltu ekki bara fara að slá grasið eða eitthvað?

Færðu inn athugasemd

Filed under bordeaux, frakkland, vangaveltur

Súkkulaði betra en koss

„There is no doubt that chocolate beats kissing hands down when it comes to providing a long-lasting body and brain buzz“ segir Dr. Lewis á vef BBC í dag.

Lestu alla fréttina þeirra

Það er vitnað í fréttina á mbl.is í dag.

Þau hafa væntanlega notað Amedei súkkulaði.

2 athugasemdir

Filed under amedei, fréttir, rannsóknir, súkkulaði

Bestu meðmælin koma frá ykkur

.

Það er eitt að fjalla um þá góða dóma sem vínin okkar fá í íslensku og erlendu pressunni. Við notum þessa dóma töluvert til að styðja við okkar eigin lýsingar og meðmæli sem virka þá ekki eins hlutdræg fyrir vikið og verða marktækari.

Hins vegar þykja okkur engin meðmæli betri en þau sem koma frá ykkur sem kaupið vínin, njótið þeirra og eruð sátt á eftir, jafnvel himinlifandi.

Hann Georg sendi mér þennan tölvupóst sem hann leyfði mér að birta hér á blogginu – það varðar tvö vín, nýja hvítvínið Grecante og sikileyska rauðvínið Santagostino sem ég hafði mælt með:

„Vildi bara þakka fyrir ábendingar þínar um vín í matarklúbbinn okkar um daginn. Við höfum áður fengið góð ráð og aldrei verið svikin að þeim. Við völdum vínin sem þú bentir á bæði Grecante 2005 með aldamóta humarsúpunni – aðeins stílfærðri – og Santagostino 2003 með hreindýrakjötinu. Hvítvínið vakti mikla hrifningu, þótti þétt, mjúkt og jafnframt ferskt, það passaði sérstaklega vel með súpunni og tvær konur ákváðu að drekka það áfram með hreindýrinu. Rauðvínið sló algjörlega í gegn, þar höfðu menn orð á því að það væri með betri rauðvínum sem þeir höfðu látið inn fyrir sínar varir – ótrúlega góð kaup í þessum Ítala. Létt og fjörugt vín sem heldur sínum einkennum en leyfir kjötinu að njóta sín. Með létt steiktri villibráð, sykurgljáðum ávöxtum og ofnbakaðri kartöflumús úr sætum og venjulegum kartöflum er ekki sjálfgefið að finna vín sem nýtur sín og leyfir öllu öðru að njóta sín með. Mæli með þessum vínum.“

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, firriato, ummæli