Vinitaly 2007 – Vínsýningin hefst

.

Dagur 4, 29. mars.

Vinitaly vínsýningin stendur í 5 daga, frá 9.00 til 19.00. Það þýðir 50 tíma af léttvínsþambi ef maður ætlar að nýta hverja mínútu. Ef einhver kynni að vera að velta því fyrir sér þá nennti ég nú ekki að hanga þarna allan tímann og … ég spýti hverjum dropa. Annars endist maður ekki mjög lengi.

Upp úr 9.00 var rölt af stað frá hóteli. Minni bloggarans var einhvern veginn á þá veg að það væri ekkert mál að rölta frá miðbænum yfir á sýningarsvæðið og skundaði af stað með ófríska eiginkonuna. Við rötuðum alveg en röltið var amk. 30 mínútur í gegnum svæði sem seint verður talið með hreinni og fallegri hlutum borgarinnar. Leigubílar notaðir hér eftir.

10.00 vorum við mætt á básinn hjá Chianti Classico framleiðandanum Castello di Querceto. Okkur eru minnistæðar þær hlýju móttökur sem við fengum hjá fjölskyldunni á heimili þeirra í Toskana fyrir tveimur árum (lestu bloggið um heimsóknina) og því var ráð að hefja sýninguna hjá þeim. Hjónin Alessandro og Antonietta voru í góðu formi og leyfðu okkur að smakka á nýju árgöngunum. Við fengum að heyra að 2006 árgangur væri einn sá besti fyrr og síðar, orð sem áttu eftir að enduróma á nánast öllum básum sem við heimsóttum þar eftir. 2006 rauðvínin eru reyndar yfirleitt ekki komin á markaðinn ennþá en þau hvítu eru það hins vegar í flestum tilfellum.

11.00 var skundað á splúnkunýjan bás Umani Ronchi víngerðarinnar en eins og hjá Castello di Querceto höfðum við átt ansi fína dvöl hjá Umani Ronchi á Ítalíuferðalagi okkar fyrir tveimur árum (lestu bloggið). Gianpiero og Laura tóku á móti okkur en þau sinna markaðsmálum fyrir fyrirtækið, Umani Ronchi er nefnilega stærra fyrirtæki en svo að fjölskyldan geti sinnt öllum helstu störfum. Við smökkuðum 2005 og 2006 af Casal di Serra og þótt mér ánægjulegt hvað 2006 lofar góðu, betri en 2005 sem nú fæst í Vínbúðunum. Nýi árgangurinn er framleiddur með aðeins öðrum áherslum en áður og verður því líst betur síðar. Við smökkuðum ýmis vín, m.a. nýja línu frá Abruzzo héraði sem koma frá nýrri landareign fyrirtækisins og einnig glæsilegt Cumaro sem mun snúa aftur í hillur Vínbúðanna innan skamms.

Gianpiero leyfði okkur líka að smakka af nýrri matarlínu sem unnin er í samvinnu við einhvern Michelin stjörnu kokk úr héraðinu. Þetta er niðursoðinn fiskur af ýmsu tagi og sultur. Mjög gott en flytur maður fisk inn til Íslands?

12.00 var síðasta stopp dagsins. Fontodi er einhver rómaðasti framleiðandi í Chianti Classico. Síðar á sýningunni þegar ég heimsótti einn rómaðasta Brunello di Montalcino framleiðandann þá lyftist á honum brúnin ég sagðist flytja inn Fontodi vín og hann sagði mér að það væru góð meðmæli fyrir Vín og mat þar sem sá taldi Fontodi þann besta í Chianti Classico og vildi líkja sjálfum sér við hann og hans aðferðir.

Við smökkuðum nýja árganga þar sem annars staðar en hér eru öll vín fyrsta flokks og það var sönn ánægja að velta þeim um munninn og … spýta! Giovanni Manetti, eigandi og víngerðarmaður hjá Fontodi (hann svarar líka öllum tölvupóstum, talandi um markaðsdeildir) settist aðeins niður með okkur. Vínin hans eru lífræn en hann segir að það sé ekki beinlínis þess vegna sem þau séu eins og þau eru, þau væru líklegast alveg jafn góð þótt ekki væru þau svo lífræn því það væri landið sjálft sem byggi yfir þessum einstökum gæðum. Þeir sem hafa staðið og horft yfir vínekrur Fontodi geta vel ímyndað sér kosti þessa lands, hinnar „Gullnu hlíðar“ við bæinn Panzano (lestu bloggið um heimsókn okkar til Fontodi árið 2005).

13.00 yfirgáfum við svæðið. Rakel ætlaði heim morguninn eftir og því vildum við rölta meira um borgina og njóta hennar saman. Við kíktum á kirkjur, röltum um þröngar götur og enduðum á Teatro Romano þar sem útsýni yfir borgina var einstakt. Staðurinn er áhugaverð blanda af rómversku leikhúsi og klaustri sem var reist þar nokkru síðar. Í klaustrinu er safn með alls kyns rómverskum minjum.

Um kvöldið fórum við svo út að borða á Osteria La Fontanina með Alessandro og Antoniettu, eigendum Castello di Querceto, tengdasyni þeirra og heildsala frá Mexíkó sem var með móður sína með sér. 8 réttir takk fyrir, 6 skv. matseðli (sjá matseðil) og 2 auka. Úff! Á milli rétta, og með réttum reyndar líka, fengum við að heyra af kvennaáhuga Mexíkóbúans sem lýsti því reglulega yfir að hann væri mikið karlmenni („macho“) sem væri nauðsynlegt að lifa sjálfstæðu og frjálsu lífi. Ég veit samt ekki alveg hvort móðir hans var sammála því.

Staðurinn er einstaklega skemmtilegur og svo þröngur að Alessandro gerði mikið grín að því að ameríkanar kæmust alls ekki þarna inn (og hló mikið af því sjálfur). Skraut og vínflöskur eru upp um alla veggi. Leifur á La Primavera hafði sérstaklega mælt með þessum stað og það var þess vegna skemmtileg tilviljun að okkur skildi einmitt hafa verið boðið þangað.

Fyrir utan mjög gott freyðivín, hvítvín og sætvín (I capitelli frá Anselmi) sem staðurinn mælti með þá voru dregnir fram tveir gamlir árgangar af vínum Castello di Querceto sem voru á vínlistanum, Cignale 1997 og La Corte 1997. Þau sýndu okkur hversu vel þau geta elst því þetta voru bara unglingar ennþá.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, ferðalög, fontodi, umani ronchi, vínsýning, veitingastaðir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s