Vinitaly 2007 – Brennd samloka og Toskanavindlar

Dagur 5, 30. mars.

Eftir að hafa keyrt Rakel á flugvöllinn í Veróna og lagt bílnum aftur í bílskúr hótelsins sem var svo þröngur að það var töluvert átak að koma honum þangað inn – þá hélt ég á sýningarsvæðið. Komst að því að það var hægt að taka rútu rétt við hótelið sem fór beint þangað og tók hana en lenti svo í því við hliðið að miðinn sem ég notaði daginn áður var útrunninn þannig að ég fór í leigubíl aftur á hótelið til að ná í nýjan miða, og til baka. Framleiðendur gefa manni svona aðgöngumiða og ég átti nokkra, þessi gilti alla dagana en ekki bara einn dag eins og hinn.

Nóg af samgöngu- og miðatali. Ég var allaveganna endurmættur um 10.00.

Fyrsti liður þennan dag var lóðrétt vínsmakk á stórvíninu Sagrantino di Montefalco 25 Anni frá Arnaldo Caprai sem var haldið í fundarsal á sýningarsvæðinu. Við miðborðið sátu Marco Caprai, vínráðgjafinn hans rómaði Attilo Pagli, Francesco víngerðarmaður fyrirtækisins og blaðamaður frá Gambero Rosso útgáfunni. Gestir virtust vera úr öllum áttum en við mitt borð sátu einn af dreifingaraðilum víngerðarinnar á Ítalíu (það eru margir út um alla Ítalíu, þeir eru ekki á launum hjá fyrirtækinu heldur starfa sjálfstætt) og eigandi vínbúðar í Rómaborg.

Við smökkuðum fimm árganga af 25 Anni, 1998, 1999, 2000, 2001 og 2003 en 2002 var vínið ekki framleitt sökum slæms árferðis. Þrír síðustu þessara árganga hafa ratað hingað til Íslands, 2003 er fáanlegur á La Primavera og á Argentínu lúra 6 flöskur af 2001 árgangi sem verða seldar þar eftir einhver ár þegar vínið hefur náð meiri þroska. Blaðamaðurinn lofaði mikið 1998 og skv. Caprai gekk allt upp það ár en persónulega fannst mér þessi árgangur svolítið ýktur og allt að því væminn og kunni betur við þá sem á eftir komu, jafnvel 2003 sem var sá heitasti af öllum en náði engu að síður góðu jafnvægi. 2001 er þó líklegast það vín sem skín skærast í þessum hópi. Mjög forvitnilegt smakk á þessu einstaka gæðavíni en helsti gallinn voru lítil og vond glös og hitinn á víninu sem var of hár til að vínin nytu sín sem best.

Þá var rölt af stað á fund við La Spinetta sem sýna á sér óformlega hlið og kjósa frekar að vera í sal á 2. hæð með gluggum yfir sýningarsvæðið frekar en hafa eiginlegan bás eins og allir aðrir. Þarna ríkti létt stemning og maður raðaði sér við eitt borðið og gat fengið alls konar snarl með vínunum. Ég hitti tengiliðinn minn, hana Önju, sem er af þýsku bergi brotin en sinnir markaðsmálum fyrir víngerðina. Anja gaf mér að smakka á öllum vínum víngerðarinnar en hún framleiðir líka nokkur rauð í Toskana. Þarna stóðu upp úr svínandi góð Barbaresco vín. Í lokin smakkaði ég á nýjum 2006 árgangi af Moscato d’Asti Bricco Quaglia (4.5%) sem var svo gott og ferskt eftir alla rauðvínsboltana að ég fer ekki ofan af því að þetta hafi verið besta vín sýningarinnar miðað við þá augnabliksupplifun. Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tímann fengið vínflösku sem mig langaði bókstaflega að þamba í botn á staðnum.

Og bloggarinn spyr sig – skiptir einmitt upplifun augnabliksins ekki mestu þegar maður nýtur góðs víns? O jæja, ég skal reyndar ekki þora að fullyrða að vínið sé betra en bestu rauðvín víngerðarinnar en ómótstæðilegt var það, svo svalandi og gómsætt.

Ég heilsaði síðan stuttlega upp á Giorgio Rivetti, einna bræðranna þriggja sem eiga víngerðina, og hélt þaðan til næsta framleiðanda á dagsskrá, meistara Luciano Sandrone.

Á leiðinni gekk ég framhjá bási vindlafyrirtækisins sem framleiðir Sigari Toscani. Þessir ólögulegu Toskanavindlar er handgerðir eins og sjá má á myndinni þar sem stúlkan á básnum var á fullu við að rúlla þeim upp. Básinn var úti og það var frekar fyndið að sjá hóp manna sitja spekingslega í sal þar sem fór fram vindlasmakk.  

Luciano Sandrone nennti ekki að bása sig upp á sýningunni heldur leigði fundarherbergi á hóteli á jaðri svæðisins (lestu blogg um heimsókn okkar til Sandrone vorið 2005). Ég tékkaði mig því út og rölti þangað yfir þar sem ég hitti Luciano, Barböru dóttir hans og Cristiano nokkurn sem er einhvers konar markaðsráðgjafi þeirra. Cristiano ræddi við mig um hversu mikið ég mátti fá af Barolo vínum fyrirtækisins en þau eru skömmtuð við nögl. Hann hafði skammtað mér 18 flöskur dömur mínar og herrar af 2003 árgangi en ég umpaði honum aðeins svo að ég fékk 48fl af Le Vigne og 24 af Cannubi Boschis en Le Vigne fæst sem stendur á sérlista í Vínbúðunum. Luciano smakkaði svo með mér í gegnum nýju árgangana og voru 2003 Barolo vínin óvenju fersk miðað við hinn heita árgang.

Einhverjir skríbentar hafa sagt að 2003 Barolo Le Vigne sé betra en 2003 Barolo Cannubi Boschis þar sem Le Vigne er blanda af ólíkum vínekrum og því betur hægt að stilla þá strengi í sannfærandi samhljóm á meðan Cannubi Boschis sé af aðeins einni vínekru og því viðkvæmari fyrir erfiðu árferði eins og 2003 og tók Cristiano undir það. Mér fannst hins vegar Cannubi Boschis hafa einhvern kjarna djúpt, djúpt undir yfirborðinu sem var ekki alveg ennþá augljós – en betra? Þau eru bara jafngóð skulum við bara segja.

Hápunktur („not!“) heimsóknarinnar til Sandrone var hins vegar samloka með skinku og osti úr hóteleldhúsinu sem tók 15 mínútur að grilla og var hálfbrennd þegar hún kom. Ég var hins vegar svangur og nagaði í hana en ekki vildi ég vera í fullu fæði á hóteli þar sem að rista brauð er svona vandasamt verkefni. En ég gekk út ánægður, með vínin og það að ekki ófrægari maður en Luciano skyldi hafa gefið mér samloku yfir höfuð.

Um 14.30 hélt ég á hótelið, náði í bílinn og keyrði í klukkutíma heim til Romano dal Forno sem er „Kóngurinn í Valpolicella“. Bloggarinn hafði þess vegna beðið heimsóknarinnar með nokkurri eftirvæntingu. Sonur hans tók á móti mér í vínkjallaranum og leiddi mig í sannleikann um vínin og gaf mér síðan að smakka nokkur þeirra úr tunnu.

WOW!

Þetta eru ógurleg vín, boltar að sjálfsögðu enda framleidd að hluta úr þurrkuðum vínberjum og verða því einstaklega þroskuð og alkóhólrík en svo glæsileg og mögnuð. Valpolicella frá dal Forno er reyndar hálfgert Amarone því ólíkt öðrum Valpolicella vínum þá eru þrúgurnar þurrkaðar eins og í Amarone vínunum. Þá smakkaði ég sætvínið þeirra líka úr tunnu.

Í lokin rabbaði ég við kallinn og hann fræddi mig um hvernig þeir stunduðu sinn bisness og möguleikann á því að selja mér vín en aukning í framleiðslu hefur gert þeim kleyft að opna nýja markaði. Þetta er ein af þeim víngerðum sem ekkert þarf að hafa fyrir markaðssetningu (hafa ekki einu sinni vefsíðu) enda eftirspurn langt umfram framboð. Blessuð verðin eru líka eftir því.

Þess virði? Já!

Í lokin: 3 klukkutímar í umferð sem vanalega tók 45 mínútur, bíl skilað á flugvöll, rúta til Veróna og pizza með mozzarello di buffala ásamt nokkru sem maður fer að þrá eftir stíft vínsmakk… kaldan bjór.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, la spinetta, luciano sandrone, vínsýning

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s