Monthly Archives: júní 2007

Ó, hvar ertu Búrgúnd?

Arg!

Sending frá Búrgúnd sem átti að koma í gær — en í raun fyrir 2 vikum síðan — kom ekki.

Það er eitthvað ekki alveg að ganga upp þegar ég hef samband við íslenska flutningsfyrirtækið og þá kemur í laus að hans umboðsmaður í Evrópu sem sér um að sækja vöruna lætur ekki vita að það vantaði víst eitthvað „excise“ númer á útflutningsskjölin. Fínt, en óþarfi að bíða með að segja okkur frá því þar til á deginum eftir að varan átti að VERA KOMIN til Íslands og hvað þá ekki fyrr en eftir að hafa verið spurður hvar varan væri.

Vinsamlegast láta vita strax og eitthvað er ekki í lagi svo hægt sé að laga það pronto.

Svo þykist ég vita, ofan á allt, að excise númer séu ónauðsynleg þegar vara er send úr EC landi í EES land.

Hringi á morgun á staðinn þar sem varan er geymd (vöruhús í Beaune) og reyna að leysa úr þessu. En töfin þýðir að varan missir líka af næsta skipi og kemur þá ekki fyrr en eftir tvær vikur.

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, röfl

Rósavín og Búrgúndarvín fá lofsamlega umfjöllun í Wine Spectator

.

Við Rakel röltum niður í Eymundsson í gær í veðurblíðunni og fengum okkur kaffisopa. Einn af þessum góðu dögum þar sem er virkilega hægt að labba meðfram sjávarsíðunni á skyrtunni.

Eins og svo oft þegar ég fer í bókabúðirnar gluggaði ég í Wine Spectator víntímaritið bandaríska. Stundum kaupi ég eintakið, sérstaklega þegar verið er að fjalla vel um okkar vín.

Það sem vakti athygli mína var forsíða blaðsins. Annars vegar forsíðumyndin sjálf og aðalgreinin um rósavín og hins vegar umfjöllun blaðsins um Búrgúndarvín — en við eigum fulltrúa í báðum þessum flokkum.

Kom á daginn að í báðum flokkum voru okkar fulltrúar í sviðljósinu og Rakel þurfti að hlusta á undirritaðan monta sig og þusa alla leiðina aftur heim — upptendraðan af tvöföldum macchiato sem virkaði eins og olía á eldinn.

Það virðist ekki vera hægt að fjalla um rósavín á faglegan hátt án þess að minnast á Domaine Tempier rósavínið og það verður líklegast ekki ofsagt að þetta sé hugsanlega virtasta rósavín sem framleitt er miðað við þá almennu og góðu umfjöllun sem það fær meðal vínskríbentanna. Í tímaritinu er fjallað um vínið undir fyrirsögninni „Rosé Comes to the Table – These Versatile Wines Prove a Serious Match for Food“ þar sem því er stillt fram með ákveðnum réttum ásamt tveimur öðrur rósavínum.  Tempier rósavínið er parað með ofngrilluðu kálfakjöti með gulrótarmús og baunum.

Í blaðinu er líka listi yfir „Recommended Sparkling and Still Rosés“ þar sem 2005 árgangur af Tempier rósavíninu er í 2-4 sæti yfir bestu rósavínin (þ.e. „Still Rosés“) með einkunnina 89 stig og eftirfarandi umfjöllun: „Offers a luscious aroma, concentrated dried cherry and raspberry flavors and hints of fig. Spice and smoke on the finish.“. Uppgefið verð er 32$ sem verður að teljast vel samkeppnishæft við okkar verð á 2.290 kr. (2004 árg.).

Í umfjöllun tímaritsins um 2004 árganginn frá Búrgúnd er Lucien Le Moine einfaldlega fremstur meðal jafningja. Á „Top-Scoring“ lista blaðsins yfir 21 bestu vínin að þeirra mati eru fjögur vín frá Lucien Le Moine. Tvö í 2.-4. sæti, tvö í 5.-7. sæti og eitt í 11. sæti. Enginn annar framleiðandi á fleiri en tvö vín á þessum lista en önnur fræg nöfn eru t.d. Roumier, Champy, Laurent, Jadot, Méo-Camuzet og fleiri.

Ekki slæmt það. Af vínunum frá Lucien le Moine er það að segja að þau koma til landsins í vikunni eftir smávegis seinkunn. Flutningurinn er hitastýrður. Á sama bretti eru vínin frá Ég hef ekki haft tíma til þess að setja þessa tvo góðu framleiðendur frá Búrgúnd á vefsíðuna — það er líka sól úti — en geri það fljótlega. Þangað til má lesa kannski lesa þennan tölvupóst. Listinn yfir vínin í tölvupóstinum er ekki alveg tæmandi því nokkur vínanna voru þegar upppöntuð þegar hann var gerður og nokkur hafa selst upp síðan.

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, dómar, grivot, lucien le moine, wine spectator

Grecante fær 91 stig í Morgunblaðinu og Vitiano 89 stig.

.

Ég var að enda við blogga um frábæra dóma sem hvítvínið Grecante 2005 frá Arnaldo Caprai fær í nýja Gestgjafanum (lestu dóminn) þegar önnur fantagóð umfjöllun birtist — í Morgunblaðinu í dag fær vínið 91 stig

Sem fyrr er það Steingrímur Sigurgeirsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, sem fjallar um vínin.

Honum finnst það „[a]lgjörlega stórkostlegt matarvín“ og “ yfirbragðið allt einstaklega fágað og fókuserað“ m.a.

Í sömu grein fjallar Steingrímur um rauðvínið valinkunna Vitiano 2005  frá Falesco sem sömuleiðis fær mjög góða umfjöllun, 89 stig og finnst það vera „[e]kta sumarvín“. Fyrir skömmu fékk Vitiano hvítvínið sömu einkunn (lestu dóminn).

Þetta eru góðar fréttir. Greinin byrjar reyndar öll á mjög svo jákvæðu nótunum eins og kemur fram hér fyrir neðan:

     „Ítalir eru oft snillingar í víngerð og Steingrímur Sigurgeirsson segir að mörg af bestu kaupunum i vínbúðunum séu einmitt vín úr smiðju ítalskra víngerðarmanna, allt frá Veneto í norðri til Sikileyjar í suðri.

     Hér eru tvö snilldargóð vín frá miðbiki landsins, héraðinu Úmbríu suður af Toskana.
     Arnaldo Caprai er einn besti framleiðandi Úmbríu og vínið GRECANTE 2005 er eitt af þessum unaðslegu ítölsku hvítvínum sem stundum reka á fjörur manns. Þetta Úmbríuvín er unnið úr einni af heimaþrúgum þess héraðs, Grecante. Það hefur stílhreint, skarpt og þurrt yfirbragð með nokkurri sýru og beinskeyttum, slípuðum peru-, epla- og þrúguávexti. Mikil lengd í bragðinu og yfirbragðið allt einstaklega fágað og fókuserað. Algjörlega stórkostlegt matarvín. 1.790 krónur. 91/100
     Ég fjallaði nýlega um hvítvínið frá Falesco en það er annað af þeim unaðslegu hvítvínum sem okkur standa til boða. Falesco er fyrirtæki bræðranna Renzo og Riccardo Cotarella en sá síðarnefndi hefur á undanförnum árum getið sér orðs sem einhver besti víngerðarmaður Ítalíu og vinnur sem ráðgjafi fjölmargra vínfyrirtækja. Þetta er hins vegar fjölskylduhúsið.
     Rauðvínið Falesco VITIANO 2005 er ungt og bjart að upplagi, í nefi kirsuber, krækiber og plómur, mild eik umlykur síðan ávöxtinn. Í munni er þéttur berjaávöxturinn ríkjandi með góðri sýru. Þrúgurnar í þessu víni eru Sangiovese, Cabernet Sauvignon og Merlot í nokkurn veginn jöfnum hlutföllum. Ekta sumarvín sem gott er að bera fram við hitastig undir stofuhita, t.d. 18 gáður. 1.490 krónur [reyndar 1.590 kr.]. 89/100. “ 

(Morgunblaðið 22.6.2007, Steingímur)

Það er óvart birt vitlaus mynd, í staðinn fyrir Vitiano rauðvínið er mynd af systurvíninu Vitiano hvítvíninu.

Færðu inn athugasemd

Filed under vín

Nammi namm frá Ítalíu – Grecante 2005 frá Arnaldo Caprai í Gestgjafanum

.

Grecante 2005 frá Arnaldo Caprai fær 4 glös í nýjasta Gestgjafanum sem datt inn um lúguna í dag, „[g]imsteinn frá Ítalíu“ eins og þau kalla og „á þessu líka frábæra verði“

Þeim finnst það líka vera „nammi namm“.

Í sama blaði fær The Stump Jump rauðvínið frá d’Arenberg 3 1/2 glas. The Stump Jump hvítvínið var einmitt dæmt í síðasta Gestgjafa og fékk þá 4 glös (lestu dóminn)

ARNALDO CAPRAI GRECANTE 20054 glös
„Þrúgan grechetto er tiltölulega óþekkt þrúga sem einungis er ræktuð í Mið-Ítalíu og er hún þá oftast blönduð við malvasia, trebbiano og verdello. Hér er hins vegar á ferðinni 100% grechetto sem er sjaldséð og hvað þá hér á fróni. Það ilmar yndislega af blómum, perubrjóstsykri, sítrusi og hunangi – svona rétt í lokin. Það virkar svolítið feitlegt í munni en er samt sem áður ferskt og finna má sömu einkenni og í nefi. Virkilega aðlaðandi vín sem er ólíkt flestum hvítvínum og getum við verið þakklát fyrir að hafa aðgang að því og á þessu líka frábæra verði. Drekkið það með grilluðum fiski eða hreinlega humar-risotto, nammi namm.
Verð 1.790 kr. – mjög góð kaup
Okkar álit: Gimsteinn frá Ítalíu – kröftugt, glæsilegt og fágað með betri máltíðum í sumar (og í haust líka!).“

STUMP JUMP GSM 20053 1/2 glas
„Ástralar hafa komist upp á lag með að nota þessa algengu Miðjarðarhafsblöndu af grenache, mourvedre og shiraz og er útkoman nánast alltaf góð. Þetta eintak kemur frá hinum bráðskemmtilega (og sennilega sérvitra) framleiðanda d’Arenberg og er ilmurinn opinn með votti af blómum, kirsuberjum, kryddi og eik. Það er milt en líflegt á tungunni og þar er að finna jarðarber, hindber, blóm, krydd og létta eik. Skemmtilegt vín sem er ferskt en í senn bragðmikið og þægilegt. Prófið þetta með Miðjarðarhafsréttum, ætti að ganga vel.
Verð 1.490 kr. – góð kaup
Okkar álit: Bragðgott og þæilegt vín, líflegt og með góðan karakter. Fíngert og ferskt, gott matarvín í línu d’Arenberg.“ (Gestgjafinn 7. tbl. 2007)

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, dómar, Gestgjafinn

Parker gefur nýju árgöngunum af The Laughing Magpie og The Dead Arm toppeinkunn

The Laughing Magpie fékk feykilega góða dóma í íslensku pressunni þegar það kom fyrst á markaðinn.

Alls staðar fullt hús.

Það var 2003 árgangurinn. Nú er 2005 árgangur kominn í hillurnar og gefur hann ekkert eftir. Robert Parker gefur 2003 árganginum 90 stig en 2005 árganginum gefur hann þremur stigum meira, 93 stig, þannig að ef eitthvað er þá ….

Við höfum líka fengið eitthvað af The Dead Arm 2004 en því gefur Parker 95 stig.

Þetta hefur Parker að segja um vínin tvö:

„Year in and year out, one of the most exotic, flamboyant, and sexiest cuvees in the d’Arenberg portfolio is The Laughing Magpie Shiraz/Viognier. The 2005 exhibits a spring flower garden-like character interwoven with blackberries, creme de cassis, melted licorice, and sweet, toasty new oak. Opulent and voluptuous, with silky tannin, and a plump, fleshy, rich, full-bodied personality, this offering is meant to be consumed over the next 5-8 years

The renowned 2004 Shiraz The Dead Arm, fashioned from ancient head-pruned vines, is stunning. An inky/purple color is accompanied by a glorious perfume of creosote/melted road tar, blackberry and cassis liqueur, pepper, and spice. This deep, rich, full-bodied, tannic Shiraz should be drinkable in 2-3 years, and will last for two decades or more. It is the finest Dead Arm since the 2001.“ (erobertparker.com) 

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, díonýsos, robert parker

Jancis Robinson um Bordeaux en primeur

Í viðtali hjá Berry Brothers vínbúðinni í London lýsir Jancis Robinson frati á Bordeaux sölukerfið.

Hún hefur líka ákveðnar efasemdir um 2006 árganginn og finnst hann fyrir það fyrsta allt of dýr og óskar þess að gráðugir umboðsmenn í Frakklandi sitji í súpinni.

Sölukerfið virkar þannir að umboðsmennirnir frönsku hafa einkumboð á vínunum og selja kaupréttinn meira en ári áður en vínið sjálft kemur á markaðinn — svokallað „en primeur“ kerfi. Ef enginn kaupir þennan rétt þá sitja þeir uppi með lager þegar vínið kemur á markað og eru þá væntanlega knúnir til að lækka verðið.

Smelltu hér til að fara á bbr.com þar sem má hlaða niður viðtalinu.

Færðu inn athugasemd

Filed under bordeaux, frakkland, jancis robinson

Uppskrift af kræklingum

Það er svona á mörkunum að hægt sé að kalla þennan rétt „uppskrift“, svo einfaldur er hann.

Þetta er meira svona leið til að koma hráefninu á diskinn í sem bestu formi.

Og þó, það er nú hvítvín í þessu.

Mikið hvítvín.

Ég keypti kíló af íslenskum kræklingi hjá Víni og Skel á Laugaveginum í gær og reiddi það fram í forrétt um kvöldið ásamt hinu vinsæla hvítvíni frá Appiano á N-Ítalíu St. Valentin Sauvignon Blanc 2005. Þurrt hvítvín og óeikað fer best með skelfiski. Ég hef leitað að skelfiski lengi en hvergi fundið og því er þetta framtak hjá þeim Vín og Skel mönnum lofsvert en á hverjum laugardegi í sumar verður hægt að kaupa ferskan krækling og ýmislegt fleira í portinu hjá þeim.

Líklegast er best að finna sem einfaldasta aðferð til að matreiða kræklinginn svo hann njóti sín sem best og virkaði þessi hér fyrir neðan afbragðs vel – ég fann hana í bókinni The Best Recipe:

1/2 flaska af þurru hvítvíni (notuðum Mas Nicot)
1 desilíter saxaður skallottulaukur
3 söxuð hvítlauksrif
1 lárviðarlauf
1 kíló kræklingur
2 msk smjör
1 desilíter söxuð steinselja

ATH! Það á aðeins að nota lokaðar skeljar og henda þeim sem eru þegar opnaðar. Þegar kræklingurinn soðnar opnast allar skeljar, þeim sem ekki gera það má henda.

Hvítvín, skallottulaukur, hvítlaukur og lárviðarlauf sett í pott og suðu náð upp. Soðið létt í 3 mínútur. Hitinn aukinn og kræklingurinn settur út í. Soðinn í 5-6 mínútur og hrært öðru hvoru í til að soðið dreifist vel yfir fiskinn. Kræklingurinn fjarlægður með sleif úr pottinum og settur í skál. Smjöri bætt út í soðið, síðan steinselju og öllu saman hellt yfir kræklinginn.

Gott að bera fram með ristuðu brauði til að dýfa í sósuna.

4 athugasemdir

Filed under appiano, matur, uppskrift

Bordeaux 2006 samanburður

Bordeaux Report er frábær síða fyrir þá sem vilja bera saman einkunnir helstu vína frá Bordeaux.

Henni er haldið úti af Gavin Quinney, eiganda Chateau Bauduc.

Gavin fjallar um sérhvert vín af 2006 árganginum, gefur því einkunn og birtir til samanburðar einkunnir frá Robert Parker og Jancis Robinson.

2006 Bordeaux árgangurinn er ekki kominn á markaðinn ennþá. Þessa dagana er hins vegar verið að bjóða hann til sölu en það tíðkast í Bordeaux að selja flest vínin um tæplega eitt ár fram í tímann.

Ég er á póstlistum þar sem ég fæ daglega tilboð til að kaupa fyrirfram vínin af 2006 árganginum. Ég kaupi jafnvel eitthvað ef mér býðst eitthvert toppvínanna á skynsömu verði. 2006 er amk. nokkuð ódýrari en 2005 sem var reyndar alveg út úr kortunum hvað verð varðar.

Færðu inn athugasemd

Filed under bordeaux, chateau bauduc, dómar, frakkland, jancis robinson, robert parker

Vínkeðjan heldur til Svíþjóðar – Don Pedro bloggar um The Footbolt

.

Don Pedro fór alla leið til Svíþjóðar til að leita uppi kjöraðstæður til þess að smakka The Footbolt.

Hér er hægt að lesa hvað honum finnst

Don Pedro á bestu þakkir skilið fyrir að sinna þessu verkefni af svona mikilli alvöru og kappi.

Verst að flaskan hafi (vonandi) verið skemmd.

Það geta verið ýmsar skýringar á því og ég ætla fyrir kurteisissakir ekki að koma með þá tilgátu að hún hafi eyðilagst í höndum Donsins heldur er líklegra að flaskan hafi verið skemmd áður en hún hélt frá Ástralíu eða þá á leiðinni til Íslands. The Footbolt er nefnilega ekki filterað eða síað. Nei – d’Arenberg fólkið er ekki svona miklir sóðar. Þessum gerhreinsunum er sleppt til þess að varðveita karakterinn frekar en þvo hann í burtu en í staðinn verður vínið aðeins óstöðugra og líklegra til þess að skemmast undir álagi.

Don Pedro hefur skorað á Huga til að halda áfram Vínkeðjunni.

Ég mun líka að sjálfsögðu láta Don Pedro hafa aðra flösku af The Footbolt, þó ekki nema í sárabætur fyrir alla fyrirhöfnina. Þá mun koma í ljós hvort vínið geti unnið sig upp úr flokkinum „vont“ í „gott“, eða jafnvel í „frábært“. 

Kannski óþarfi samt að fara sérstaklega til útlanda til þess að smakka vínið í þetta skiptið.

Lestu hér hvað aðrir bloggara hafa að segja um The Footbolt

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, dómar, vínkeðjan

Skólabókardæmi um aðlaðandi vín frá Sikiley

.

Steingrímur fjallar um sikileysk vín í Morgunblaðinu í dag.

Við eigum þrjú vín þar á meðal. Nýju vínin tvö frá Firriato víngerðinni, Emporio hvítt og Emporio rautt, fá 87 og 86 stig. Firriato er á bak við þessi tvö vín þótt nafnið þeirra komi hvergi fram.

Santagostino frá Firriato fær 89 stig og finnst Steingrími það vera „skólabókardæmi um hvað það er sem gerir sikileysku vínin svo aðlaðandi og svo góð kaup.“ Þetta er í þriðja sinn sem Steingrímur fjallar um Santagostino og gaf hann því áður 18/20 í bæði skiptin — þá gaf hann einkunnir á 20 stiga skalanum en núna á 100 stiga skalanum.

Ný á markaðnum eru vín sem seld eru undir nafninu Emporio. Þessi vín eru framleidd í samstarfi sikileyska vínhússins Firriato (sem verið hefur á markaðnum hér um árabil) og fyrirtækisins International Wine Services, sem undir stjórn Ástralans Kym Milne hefur tekið þátt í margvíslegum samstarfsverkefnum víða um heim. Ágætt dæmi um svokallaða „fljúgandi“ víngerðarmenn sem hafa verið svo áhrifamiklir í að hleypa nýju blóði í víngerð hér og þar.

Hvítvínið EMPORIO INZOLIA-GRECANICO 2006 er skemmtilegt vín í stíl einhvers staðar á milli Evrópu og Nýja heimsins. Ferskju-, apríkósu- og kantalópuangan. Millilengd, einfalt og milt, bragðgott og ljúft. 1.390 krónur. 87/100

Ilmur rauðvínsins Vinarte EMPORIO ROSSO [Nero d’Avola-Sangiovese] 2006 [2004 er reyndar árgangurinn] er einfaldur en ljúfur, þarna er plómu- og sveskjuávöxtur, fremur létt vín, sumarlegt og þægilegt. 1.390 krónrur. 86/100

Og er þá ekki fínt að ljúka þessu með víni frá Firriato, nefnilega SANTAGOSTINO 2003: Þetta er vín sem er einmitt skólabókardæmi um hvað það er sem gerir sikileysku vínin svo aðlaðandi og svo góð kaup. Þykkur, kryddaður og heitur ávöxtur. Sólber, rósir og vindlavafningur, mjúkt, feitt og kryddað með flottri uppbyggingu. Afskaplega þéttriðið í munni, tannískt og öflugt. Og allt þetta fyrir bara 1.890 krónur. 89/100

– Morgunblaðið 8. júní 2007

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, firriato, morgunblaðið

Heimsókn frá Castello di Querceto — Vínsmökkun á La Primavera

.

Alessandro og Antonietta, eigendur Castello di Querceto í Chianti Classico í Toskana, koma í heimsókn til Íslands í lok júní.

Við blásum til vínsmökkunar með þeim ljúfu hjónum á La Primavera laugardaginn 30. júní kl. 14.00.

8 tegundir verða smakkaðar og verða vínin sem fyrr borin fram með léttu nasli að hætti Leifs og Jónínu á La Primavera — í anda Toskana héraðsins.

Þáttökugjald er 3.500 kr.

Sendu okkur línu á vinogmatur@vinogmatur.is til að láta taka frá sæti.

Hlökkum til að sjá þig!

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, la primavera, vínsmökkun

Hvað er þetta með ríkiseinokun á drykkjarvöru?

Samkeppniseftirlitið gerði í dag húsleit hjá Mjólkursamsölunni til að kanna hvort fyrirtækið hafi hugsanlega misnotað markaðsráðandi aðstöðu sína (sjá frétt á mbl.is).

Það er slæmt ef satt er og ennþá verra að fyrirtækið skuli vera í eigu ríkisins.

Manni verður ósjálfrátt hugsað til annars slíks fyrirtækis sem er nágranni Mjólkursamsölunnar og selur annars konar drykkjarvöru, öllu áfengari. Nú er ég að sjálfsögðu ekki að segja að Mjólkursamsalan hafi brotið af sér, það á eftir að koma í ljós, og hvað þá síður að nágranni þess ÁTVR sé líklegt til nokkur slíks. ÁTVR er líka einokunarfyrirtæki og getur því ekki brotið á neinum hefðbundnum samkeppnisaðilum.

Það að ríkið skuli yfir höfuð vera að fást við þessa tegund af atvinnurekstri er náttúrulega löngu úrelt hugmynafræði.

En að annarri frétt, svolítið skyldri:

Áfengiseinokunin í Svíþjóð hefur tapað máli á hendur nokkrum þarlendum einstaklingum sem keypt höfðu vín gegnum netið og flutt inn til landsins (sjá frétt á mbl.is). Sömu einstaklingar ætla nú að kæra einokunina fyrir að leggja á áfengistolla.

Ég skal viðurkenna að ég fagna svoítið óförum þessarar sænsku ríkiseinokunarrisaeðlu svo framarlega sem það geti stuðlað óbeint að því að áfengissmásala verði gefin frjáls á Íslandi.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, morgunblaðið, vangaveltur

Vínmeðmæli fyrir Björk og aðra Íslendinga

Neal Martin, hinn nýráðni vínkrítíker hjá Robert Parker útgáfunni, er ástfanginn af tónlist Bjarkar — og af henni sjálfri reyndar líka.

Hann fjallar um nýju plötunni hennar á Robert Parker vefnum.

Nei Robert Parker sjálfur er ekki farinn að fjalla um tónlist — sem betur fer kannski — en Neal gerir það hins vegar og þrátt fyrir að hafa lagt niður bloggsíðuna sína (sem fjallaði bæði um vín og tónlist)  til að ganga til liðs við Parker útgáfuna þá heldur hann áfram tónlistarumfjöllun sinni þar innan veggja.

Það þarf reyndar að gerast áskrifandi til þess að lesa hvað honum finnst um nýju plötuna (smelltu hér til að prófa hvort það gengur).

Neil endar greinina sína með því að gefa Íslendingum ókeypis vínmeðmæli:

„Hmmm….alas Iceland is not renowned for its viticulture but there would certainly need something to warm their cockles in all that snow. So why not a Bandol Rouge 2003 from Domaine Gros’ Noré with lots of warm alcohol to aid blood circulation and ward of hypothermia?“

Verst að hann mælti ekki með Bandol Rouge 2003 frá Domaine Tempier.

Færðu inn athugasemd

Filed under björk, robert parker, tónlist

Stump Jumparnir fá fína dóma í Morgunblaðinu

.

Það eru bara nokkrir dagar síðan að Stump Jump hvítvínið hlaut afbragðsumfjöllun í Gestgjafanum og núna í dag er fjallað um það í Morgunblaðinu.

Steingrímur gefur því góða einkunn, 88 stig fyrir vín sem kostar 1.490 kr. verður að teljast all gott. Honum finnst það tilvalið „fyrir heit síðdegi í sólinni“ en í guðanna bænum ekki drekka það bara þá!

Hann fjallar líka um Stump Jump rauðvínið og gefur því stigi lægra eða 87 stig sem er sömuleiðis prýðileg einkunn.

THE STUMP JUMP 2005 er hvítvín frá McLaren Vale í Ástralíu úr smiðju vínhússins d’Arenberg. Líkt og unnendur d’Arenberg eiga að venjast eru farnar ótroðnar slóðir í þrúgublöndunni en þarna eru notaðar þrúgurnar Riesling, Sauvignon Blanc og Marsanne. Vægast sagt óvenjuleg blanda en þarna eru þrúgur sem eiga ættir sínar að rækja að þremur stórfljótum Frakklands: Rínar, Loire og Rónar. Þetta er ávaxtaríkt og ilmríkt vín með miklum og sætum sítrus, hvítum ávexti, perum og grænum rabarbara. Mjúkt og þykkt sumarvín fyrir heit síðdegi í sólinni. 1.490 krónur. 88/100 Rauðvínið STUMP JUMP 2005 er einnig þriggja þrúgna blanda en þrúgurnar þrjár eru allar frá Rón: Grenache, Shiraz, Mourvédre. Það hefur feitt og þykkt yfirbragð, bláber, brómber og jarðarber í bland við vanillu og krydd. Sætur ávöxtur í munni en jafnframt sýra þótt sætleikinn hafi yfirhöndina. 1.490 krónur. 87/100.“ (Morgunblaðið 1. júlí 2007 )

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, dómar, morgunblaðið, vín