Monthly Archives: september 2007

Ógnvænlegt þistilhjarta og bilaðir bragðlaukar

The New Yorker fékk nokkra af blaðamönnum sínum til að skrifa stutta matarminningu undir yfirskriftinni „Family Dinner“.

Þetta var í sept. 3/10 2007 útgáfunni og var blaðið í það skiptið tileinkað því sem við borðum og drekkum.

Tvær matarminningar þóttu mér sérstaklega fyndnar og vel skrifaðar eins og er venjan hjá höfundum þeirra, þeim Anthony Lane og David Sedaris.

Anthony Lane skrifar um fyrstu kynni sín af þistilhjarta sem táningur í heimsókn hjá vinafjölskyldu í Frakklandi og David Sedaris skrifar um bragðlaukana sína sem gera varla greinarmun á góðum og vondum mat.

Færðu inn athugasemd

Filed under grín og glens, matur, the new yorker

Vínkeðjan – Don Pedro bloggar um The Footbolt (aftur)

Vínkeðjan rann aftur af stað eftir sumarfrí og það heldur mjúklega.

Don Pedro hafði reyndar fjallað um The Footbolt fyrr í sumar þegar flaskan reyndist skemmd og fannst mér ómögulegt annað en að hann fengi heilbrigt eintak. Því tók hann vel og útkoman var á allt öðrum nótum. Mjög góðum.

Smelltu hér til að lesa hvað honum finnst núna um The Footbolt

Nýr árgangur af The Footbolt er nú í hillunum, 2004 í stað 2003, og í þetta skiptið eru allar flöskur með skrúftappa. Þannig eru meiri líkur að flaskan sem þú færð af The Footbolt sé fersk og heilbrigð.

Smelltu hér til að lesa hvað öðrum bloggurum finnst um The Footbolt

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, dómar, vínkeðjan

Hrein? Ítölsk? Ólífuolía?

Olio d’Oliva Extra Vergine. Ítölsk jómfrúarólífuolía.

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að slík „ítölsk“ ólífuolía er oftar en ekki alls ekki ítölsk yfir höfuð.

Það er nóg að ólífurnar komi frá einhverju Evrópusambandsríkjanna, aðallega Spáni og Grikklandi, og þá má kalla hana „ítalska“.

Gæðastimpillinn „made in Italy“ fer að verða æði loðinn í þessu samhengi.

Evrópusambandið setur meira að segja ekkert út á þetta og styrkir allar ólífuolíur sem framleiddar eru undir ítölsku flaggi jafnt og greiðir fyrir hvern unnin líter. Það sem er þó ólöglegt er að flytja inn olíu frá öðrum löndum eins og þeim sem liggja hinu megin við Miðjarðarhafið í N-Afríku og reyna að svindla út styrki á hana.

Menn eru hins vegar grunaðir um slíkan innflutning til að verða sér úti um ódýra ólífuolíu og Evrópusambandsstyrkina í leiðinni.

Það er samt ekki nóg að „ítalska“ ólífuolían í súpermarkaðinum sé kannski ekki ítölsk, og hugsanlega afrísk, heldur er möguleiki að hún sé bara alls ekki úr ólífum skv. frétt í The New Yorker í ágúst stl. (lestu fréttina). Slíkt brugg er náttúrulega bannað en sýnt hefur verið fram á stórfellt svindl á Ítalíu þar sem olía úr fræjum, heslihnetum og öðrum óæðri hráefnum hefur verið smyglað í ítalskar ólífuolíustöðvar og þar blandað við ólífuolíu eða jafnvel runnið óblönduð í flöskur risaólífuolífyrirtækjanna ítölsku sem „hrein“, „ítölsk“, „ólífuolía“.

Hvað er til ráða?

Kaupa ólífuolíu frá litlum gæðaframleiðanda sem hægt er að treysta eins og frá vínframleiðendunum Caprai og Fontodi. Caprai fæst í Kokku á Laugaveginum og Fontodi fæst í Fylgifiskum á Suðurlandsbraut. Þær eru bara ekki yndislega góðar heldur hreinar, ítalskar og örugglega ólífuolíur.

Kíktu á allan matseðilinn til að sjá allt góðgætið sem við flytjum inn

Færðu inn athugasemd

Filed under ólífuolía, caprai, fontodi, fréttir, the new yorker

Góð umfjöllun í Gestgjafanum

.

Rauðvínið Cúmaro Riserva 2004 fær 4 1/2 glas í nýjasta Gestgjafanum (11. tbl. 2007) og hvítvínið Emporio Inzolia Grecanico 2006 fær 4 glös.

Góð umfjöllun það.

Cúmaro Riserva 20044 1/2 glas
Cúmaro Riserva er einnar ekru vín frá hinum virta og stórskemmtilega framleiðanda Umani Ronchi. Það er unnið úr montepulciano-þrúgunni sem oftar en ekki er talin gera gróf og óspennandi vín sem á ekki við í þessu tilfelli. Ilmurinn er opinn og margslunginn og er þar helst að finna kanil, negul, vanillu, dökkan ávöxt, eik, leður og súkkulaði. Áferðin er mild með þétt tannín og fyllingin er hrikalega mikil. Í munni má finna dökk ber, létta eik, krydd og dökkt súkkulaði. Cúmaro hlaut Riserva-viðbótina við nafnið fyrir ekki svo löngu sem þýðir að það er geymt í a.m.k. 14 mánuði á eikartunnum. Stórt, þétt og kraftmikið vín sem er í senn fágað og mjúkt. Hafið þetta með bragðmiklum ítölskum kjötréttum og verði ykkur að góðu.
Verð 2.590 kr.
Okkar álit: Vel kröftugt vín frá þrúgu sem er almennt ekki talin „eðal“ en Umani Ronchi nær framúrskarandi árangri með og úr verður fágað og flott vín.

Emporio Inzolia Grecanico 20064 glös
Hér er á ferðinni skemmtileg blanda af tveimur ítölskum þrúgum, inzolia og grecanico, sem eru upprunalega frá Sikiley og má segja að hér sé hreinræktað sikileyskt vín á ferð (þó að víngerðarmaðurinn Kym Milne sé ástralskur). Vínið er opið og ávaxtaríkt með ilm af gulum og hvítum blómum, apríkósum, ferskjum, perum, eplum og mildum kryddum. Virkilega líflegur og frískandi ilmur. Áferðin er fersk og ávaxtarík og einkennist bragðið, eins og ilmurinn, af gulum og hvítum blómum, apríkósum og ferskjum með vott af hunangi. Afar skemmtilegt og ilmríkt vín sem við skilgreindum sem evrópskt með Nýja heims-einkenni. Drekkist með sjávarréttapasta eða hráskinkusalati með melónubitum á síðustu sólardögum sumarsins (eða til minningar um frábært sumar!).
Verð 1.390 kr.
Okkar álit: Óvenjleg blanda af heimaþrúgum Sikileyjar, vel gert og yndislegt vín sem er auðvelt að para með mat.“ (- Gestgjafinn, 11. tbl. 2007) 

Í sama blaði er áhugaverð grein um pörun nokkurra sikileyskra rauðvína við kjarnmikla kjötréttinn Osso Bucco sem Gunni Palli á Vínbarnum gefur lesendum Gestgjafans (bls. 62-3). Þar er efst á blaði rauðvínið okkar Emporio 2004 og fær það 4 1/2 glas en sú einkunn miðast við hversu vel vínið passar með réttinum. Þeim finnst það smellpassa og vera „margslungið“.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, firriato, Gestgjafinn, umani ronchi

Kjarnavínin okkar — uppfærður listi

.

Við eigum ennþá fimm vín í kjarna Vínbúðanna sem þýðir að þau fást víðar heldur en bara í Heiðrúnu og Kringlunni.

Dreifingin er þó mis mikil. Ég myndi ekki treysta á að þú fyndir þau á Djúpavogi.

Chianti Classico frá Fontodi hefur selst best okkar vína undanfarið en Casal di Serra, eina hvítvínið af þessum fimm, á sér tryggan aðdáendahóp. Annað Chianti Classico frá öðrum framleiðanda, Castello di Querceto, hefur gengið nokkuð vel og síðan eru tvö rauðvín frá hinum stórskemmtilega d’Arenberg, The Footbolt og The Laughing Magpie.

Að öðru leyti fást vínin okkar eingöngu í Heiðrúnu og Kringlunni.

Undantekningin eru stöku sérlistavín (skoðaðu listann) og ákveðin vín sem fá tímabundið aukna dreifingu á þemadögum Vínbúðanna.

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, d'arenberg, fontodi, umani ronchi, vínbúðirnar

Útsala — rauðvín

Í haust kláruðu þó nokkur rauðvín sölutímabil sitt í Vínbúðunum og við eigum eftir lager sem að við ætlum að bjóða á útsölu. Það þarf gott átak því samanlagt myndar lagerinn um 100 kassa sem gera 1.200 flöskur á útsölu.

Kerfið er einfalt — álagning okkar fær að fjúka.

Lascaux (Frakkland) – 1.300 í stað 1.600 kr.
Terre d’Argence (Frakkland) – 1.550 í stað 1.900 kr.
Lou Maset (Frakkland) – 1.300 í stað 1.600 kr.
Montpeyroux (Frakkland) – 1.800 í stað 2.200 kr.
Oncle Charles (Frakkland) – 1.100 í stað 1.350 kr.
Orobio Rioja (Spánn) – 1.350 í stað 1.600 kr.
Laderas (Spánn) – 1.200 í stað 1.450 kr.
Rietine Chianti Classico (Ítalía) – 1.550 í stað 1.800 kr.
Montepulciano (Ítalía) – 1.100 í stað 1.300 kr.

ATH! 5% aukaafsláttur fæst af þeirri tegund sem keypt er af í kassavís (12 fl.)

Pantaðu með því að senda okkur línu á vinogmatur@vinogmatur.is. Lágmarkspöntun er 12 flöskur (1 kassi).

Hvíslaðu þessu að næsta manni.

Færðu inn athugasemd

Filed under útsala

Vertíðarfréttir – Languedoc kveður og Búrgúnd heilsar

Svalt loft. Rigning, sól, regnbogar. Gustur. Fullur strætó, fullar bókabúðir. Eftirvænting.

Það er komið haust.

Eins og víða fylgja árstíðaskiptinum breytingar hér hjá Víni og mat. Fyrir rúmi ári síðan fluttum við inn helling af vínum frá Languedoc héraði S-Frakklands og er það í fyrsta sinn sem við lögðum til atlögu við aðeins eitt hérað af svo miklum krafti. Þetta var tilraun m.a. til að sjá hver þessara vína myndu plumma sig í Vínbúðunum og hver ekki og nota þannig markaðinn til að ákveða hvaða framleiðendum við myndum sinna áfram og hverfjir myndu taka pokann sinn. Ég las mér til, fór til S-Frakklands og sigtaði út framleiðendur, allir í fremsta flokki síns svæðis innan Languedoc héraðsins.

Nú er reynsluárið í Vínbúðunum liðið og niðurstaðan liggur fyrir. Margir hafa verið mjög ánægðir með þessa miklu flóru vína frá Languedoc héraðinu enda einstaklega karaktermkil og fjörleg vín. Við höfum selt um 2.500 flöskur frá héraðinu á rúmu ári. Það er all gott held ég en þar sem salan dreifist á svo margar tegundir þá þýðir það að engin þeirra nær að halda velli í Vínbúðunum og hér með fást þær ekki lengur þar. Næstu misserin kembi ég kollinn hvern þessari framleiðanda ég haldi í því ekki er unnt að hafa svo marga af sama svæði og var það kannski aldrei meiningin að það yrði gert til lengri tíma.

Góðu fréttirnar eru þær að restina seljum við með góðum afslætti á útsölunni sem hefst bráðlega. En það er slatti eftir þannig að vonandi fáum við góð viðbrögð við útsölunni. 700 flöskur af Languedoc vínum verða í boði á útsölunni og eitthvað af öðrum vínum sem eru að hætta í Vínbúðunum.

Það er ein undantekning. Af þeim 12 vínum frá Languedoc sem byrjuðu fyrir ári síðan er eitt sem stendur eftir sem seldist lang mest. Chateau de Flaugergues hefur selst í um 1.000 flöskum af þessum 2.500 og stendur því óhaggað í hillum vínbúðanna og gerir svo vonandi um ókomna tíð. Ég vænti þess líka að þar sem það verður eitt eftir þá beinist áhuga fólks á héraðinu af enn meiri krafti að því víni. Vonandi kemst það í kjarna Vínbúðanna.

Búrgúnd.

Við höfum undanfarið verið að horfa norðar á Frakklandi, til Búrgundarhéraðs. Í sumar komu þaðan tveir glæsilegir framleiðendur, Lucien Le Moine og Domaine Jean Grivot, og innan tíðar bætist Chablis framleiðandi í hópinn. Meira er í vinnslu. Þetta ferli vinn ég allt öðruvísi heldur en Languedoc pakkann enda vín í allt öðrum verðflokki og af einu þekktasta vínsvæði veraldar – og eftirsóttasta því það er hægara sagt en gert að snapa upp flöskur í þeirri miklu eftirspurn sem ríkir eftir vínum héraðsins. Þessi vín verða líka að nokkru leyti ekki í hillum Vínbúðanna heldur auglýst eingöngu á póstlistanum því magnið af hverri sort er svo lítið. Við stefnum þó að því að finna líka vín á góðu verði frá héraðinu en í raun má segja að allt undir 2.000 kr. u.þ.b. sé tiltölulega „ódýrt“ frá Búrgúnd ef gæðin eru í lagi að sjálfsögðu.

Í október fer ég til Búrgundar og skoða málin frekar, hitti framleiðendur og smakka vín.

Lengra fram í tímann.

Plön fyrir árið 2008 eru komin af stað og stefnir í að tveir af mestu „cult“ framleiðendum sinna landa, Ítalíu og Bandaríkjanna, fljóti hingað á strendur. Það verður tilkynnt nánar síðar. Þar verða engin fínleg og rígmontin Búrgúndarvín á ferðinni heldur stór og mikil kraftavín, ef svo mætti að orða komast.

Þá er í farveginum að flytja inn framleiðanda frá Bordeaux sem framleiðir kostakaup að mínu mati og gæti það verið væntanlegt í Vínbúðirnar 1. desember á þessu ári ef allt gengur eftir.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, bandaríkin, búrgúnd, flaugergues, frakkland, grivot, languedoc, lucien le moine, vangaveltur