Frakklandsferð — Betri morgunmatur en kvöldmatur

.

30.10.2007

Vaknað snemma til að hitta Moreau feðga kl. 8.00 því þeir áttu báðir erindi annars staðar þennan sama morgun. Sem reyndar hentaði mér vel því ég átti langa keyrslu fyrir höndum.

En fyrst… morgunmatur.

Morgunmatur á svona ferðalögum er kapítuli út af fyrir sig. Þótt bloggarinn gefi sér sjaldnast tíma fyrir svoleiðis lúxus hér heima þá er góður rólegheitamorgunmatur nauðsynlegur í byrjun góðs dags á flakkinu. Það þarf ekki að vera flókið en baguette, croissant, sultur, smjör, hunang, kaffi og safi eða vatn eru vanalega á matseðlinum (bloggarinn lætur kjöt, egg, grauta og slíkt yfirleitt eiga sig). Og aðeins meira kaffi.

Morgunmaturinn á Hostellerie des Clos þennan morgun samanstóð einmitt af þessum elementum en þau voru bara SVO góð. Allt saman einfalt en það var heimalögunin sem gerði hann svo ómótstæðilega góðan. Enda kannski ekki við öðru að búast þar sem er Michelin stjörnu veitingastaður. Sultur og hunang af bestu sort, greip- og appelsínusafarnir nýkreistir og svo framvegis. Bloggarinn var næstum búinn að framlengja dvöl sína á hótelinu bara til þess að geta borðað þar meiri morgunmat.

En þá var rúllað út á götu og inn í bíl og ekið stað til Domaine Christian Moreau við Framleiðendagötuna í Chablis sem vísar manni út úr bænum, beint inn í Grand Cru vínekrurnar sem gnæfa í breiðri hlíð yfir bænum. Þar tóku á móti mér Moreau-feðgarnir, Christian og Fabien, og kom það í hlut þess síðarnefnda að sýna mér víngerðina og fara yfir framleiðsluferlið enda stýrir hann því dag en ekki faðir hans.

Í Chablis eru eikartunnur rökræddar. Þ.e.a..s hvort nota eigi þær yfir höfuð við gerð Chablis hvítvínanna og þá hversu mikið. Fabien fer hinn gullna meðalveg, notað eikartunnur að hluta en setur meirihluta vínsins í tanka. Áhugavert þótti mér þegar hann lýsti eikartunnunum sínum (þeir kaupa 10 nýjar á ári fyrir um 500E stykkið) eftir að ég hafði spurt hvers vegna eikin væri lítið áberandi í vínunum. Hann sagði að þér létu rista eikartunnurnar lengi en á vægum hita sem gæfi þeim þessar eftirsóknarverðu niðurstöður. Við viljum nefnilega ekki „eikuð“ Chablis vín, það er nóg af þeim annars staðar.

Eftir að hafa kvatt feðgana rölti ég um Grand Cru vínekrurnar, tók myndir og spókaði mig um í haustblíðunni. Fátt getur gefið manni betri tilfinningu fyrir svæði og víni þess eins og að standa í miðjum vínekrum og horfa yfir bæinn. Nema þá kannski að hafa glass í annarri hönd og flösku í hinni, en það var óviðeigandi á þessari stundu.

Brunað til Beaune.

Hótelið í Beaune var bókað með aðgengi í huga, þ.e.a.s. að hægt væri að leggja bílnum án þess að stofna mannslífum í hættu og þar á meðal mínu eigin en samt þannig að hægt væri að labba í miðbæinn. Hótelið sem uppfyllti þessi skilyrði og á fínu verði var Hotel Grillon í um 1km göngufjarlægð frá miðbæ Beaune, þungamiðju helsta vínræktarsvæðis Búrgúndar, Cote d’Or. Prýðilegt fjölskylduhótel.

Næsta vínfund átti ég við Étienne Grivot, eiganda og víngerðarmann Domaine Jean Grivot. Vínframleiðandi sá á það sameiginlegt með Domaine Christian Moreau að vera á lista Búrgúndarsérfræðingsins Clive Coates yfir 10 bestu vínframleiðendur héraðsins. Domaine Jean Grivot er í bænum Vosne-Romanée sem er í svona 20 mínútna keyrslu norður af Beaune, í áttina til og aðeins spölkorn frá sinnepsborginni Dijon.

Ég var á undan áætlun og naut þess að rölta um Vosne-Romanée þorpið og ekki síst vínekrurnar. Domaine Jean Grivot fann ég síðan fljótlega á einni af aðalgötum gamla þorpsins, við rætur vínekranna, með tvo þekkta vínframleiðendur sér við hlið, Anne Gros og Henri Jayer. Hér búa stórlaxarnir, m.a. Leroy og Romanée Conte.

Þegar ég mætti var einu smakkinu að ljúka. Þessi tími í Búrgúnd er tími heimsóknanna þar sem vínkaupmenn og blaðamenn koma til að smakka, m.a. höfðu Clive Coates og Allan Meadows stoppað við nýlega. Síðan fékk ég rúnt með hinum viðkunnalega Étienne um kjallarann. Étienne gaf mér að smakka 6 rauðvín af 2006 árgangi úr tunnu og 6 rauðvín af 2005 úr flösku, allt frá Nuits-St-Georges til hins magnaða Richebourg. Hann var sammála þeim almenna rómi að 2005 væri framúrskarandi ár og betra en 2006. 2006 fannst mér hins vegar gefa 2005 vínunum lítið eftir, sérstaklega Richebourg 2006. Sterkan hússtíl má finna í öllum vínunum frá Grivot, fallegur litur mikil jörð koma upp í hugann.

Áður en ég kvaddi svo hjónin Etienne og Marielle og þakkaði fyrir heimsóknina og fallega bók sem þau gáfu mér, ræddum við um að auka skammtinn fyrir Vín og mat þegar 2006 árgangurinn verður settur á markað. Við fáum nefnilega bara tvo kassa af 2005, takk fyrir.

Brunað til Beaune II.

Þá var ekið niður á hótel og rölt á vínbarinn Bistrot Bourguignon. Mér var bent á hann til að smakka góð vín en svo reyndist úrvalið í glasi ekki svo gott og glösin tíkaleg þótt vínlistinn í heild sinni hafi verið flottur. Ég sé mig þó ekki spandera í dýrt vín á stað sem þessum, frekar panta ég bjór. Ég smakkaði þó eitt glas af hvítu og eitt af rauðu með og var hvítvínið ágætt en rauðvínið slappt. Matur sæmilegur. Ég velti því samt fyrir mér af hverju það séu ekki fleiri vínbarir í svona mekka vínsins sem Beaune er, þar sem hægt er að panta toppvín í glasi í notalegu umhverfi. Það verður þó að segjast að þótt bloggarinn sé ágætur skal ég glaður endurmeta kosti Bistrot Bourguignon í góðum félagsskap.

Smelltu hér til að skoða myndir úr Frakklandsferðinni á flickr

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, christian moreau, ferðalög, frakkland, grivot, veitingastaðir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s