Monthly Archives: desember 2007

Tveir nýir framleiðendur á nýju ári – Romano dal Forno og Sine Qua Non

Eins og alltaf er eitthvað í deiglunni á nýju ári.

Ef árið sem er nú senn að líða er skoðað fyrst mætti segja að þar standi upp úr landtaka í Búrgúnd. Vínin þaðan eru fremur fínleg og fáguð ef hægt er að alhæfa eitthvað, framleidd í svo litlu magni að okkur eru skammtaðar flöskurnar – allt niður í 6 flöskur per tegund fyrir sjaldgæfustu og jafnframt dýrustu vínin.

Sjaldgæf vín frá nýjum framleiðendum munu líka eitthvað setja mark sitt á næsta ár en af allt öðrum toga. Það verður kannski seint sagt að vínin þeirra séu fínleg en fáguð eru þau vissulega. Blessunarlega fáguð mætti kannski segja því án fágunar væru vínin villtar ótemjur, heillandi í fjarska en ógnandi í nálægð.

(Arnar, róa sig – kv. ritstj.)

Framleiðendurnir tveir eru líkir að mörgu leyti. Ekki bara framleiða þeir öflug vín heldur eru þeir viðurkenndir sem fulltrúar þess besta frá sínu svæði, metnaðarfullir svo vart verður lengra komist, fágætir og eftirsóttir. Ef það er til eitthvað sem heitir „cult“, „boutique“, „garage“ í vínframleiðslu þá á það við hér.

Ég meina, þeir eru ekki einu sinni með vefsíðu.

Á annan hef ég minnst lítillega hér áður. Romano dal Forno er í Valpolicella og framleiðir þar samnefnd vín og Amarone. Ég fæ ekkert eða lítið af Amarone en góðan skammt af Valpolicella en undanfarið hefur dal forno framleitt Valpolicellað sitt í Amarone stíl. Romano dal Forno er þekktur fyrir að fara eigin leiðir í því skyni að framleiða það besta sem völ er á. Að þessu leyti er hann nútímalegur frekar en hefðbundinn en réttara væri að segja að vínin séu einstök.

Hinn framleiðandinn kemur frá Kaliforníu og markar okkar fyrstu spor þar. Sine Qua Non skammtar vínin sín í gegnum póstlista, nokkrar flöskur per mann, og selur að öðru leyti eingöngu til veitingastaða í Bandaríkjunum auk þess að flytja út vínin til nokkurra landa. Miðað við það höfum við náð ótrúlega góðri stöðu því Hr. Krankl er hrifinn af Íslandi. Líklegast erum við eina landið sem bætist í hópinn á nýju ári. Við fáum tvö rauð, Shiraz og Grenache, og í ótrúlega góðu magni þar sem Hr. Krankl vill hefja nýtt samstarf af krafti. Vínin kosta skildinginn en það er í lagi þar sem að þau ganga kaupum og sölu á eftirmarkaði og uppboðum á u.þ.b. tvöfalt hærra verði. Vínin fá nýtt nafn á hverju ári og nýjan miða sem Manfred Krankl hannar sjálfur.

Hlustaðu á viðtal Graperadio við Manfred Krankl, eiganda Sina Qua Non – fyrri hluta og síðari hluta

Nákvæmari upplýsingar, komutími og verð auglýst síðar.

4 athugasemdir

Filed under ítalía, útvarp, bandaríkin, romano dal forno, sine qua non

Áramótapartývín – freyðivínin okkar í Gestgjafanum

.

Góðan daginn, góðan daginn.

Hér var að berast Gestgjafi inn um lúgu með góðri umfjöllun um freyðivínin okkar tvö, Francois 1er frá Castello di Querceto sem fær 4 glös af 5 og Frizzando sem fær 3 1/2 glas.

Hið síðara er reyndar ekki fullgilt freyðivín þar sem það er svona léttfreyðandi hvítvín, en freyðandi er það vissulega og telst vera slíkt þar til annað er sannað.

Tvö vín til að njóta um áramótin, og næstu 364 daga þar á eftir.

Castello di Querceto Francois 1er Brut4 glös
Freyðivín úr chardonnay frá Toskana, mjög fágað, léttur og mildr ilmur með gulum eplum og steinefnum, aðeins smjörkennt í munni, freyðir mjög fallega og lengi. Verð: 1.990 kr

Frizzando d’Villa Vinera 3 1/2 glas
Austurrískt freyðivín frá Sandhofer úr gruner veltliner, muscat og chardonnay, ilmríkt, ferskt og milt, mjög fíngert sem virkar hálf sætt, afar ljúft freyðivín. Verð: 1.790 kr. “ (Gestgjafinn 16. tbl. 2007)

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, dómar, Gestgjafinn, sandhofer

Af dýrlingnum Þorláki

Hlustaði á áhugaverða frétt á RÚV um dýrlinginn Þorlák sem minnst er í dag.

Hann var víst góður til áheita, sérstaklega þeim er vildu að „víngerð lukkaðist vel“, var sagt.

Það var verra, því ólíklegt hlýtur að teljast að íslenskir kotbændur hafi getað nýtt sér þennan ágæta kost Þorláks mikið í  gegnum aldirnar, að láta „víngerð lukkast vel“.

Samkvæmt fréttinni var Þorlákur svo heilagur að hann snerti ekki vatn heldur drakk bara vín.

Mæli samt ekki með því að nokkur taki þetta upp eftir kallinum í því skyni að öðlast heilagleika. Það gæti endað mun verr.

Annars er það að frétta að rjúpan er komin í hús og ekki ólíklegt að rauðvínið Block 6 2004 frá Kay Brothers verði á boðstólnum.

Og vatn, að sjálfsögðu. Ég er ekki það heilagur.

Gleðileg jól!

Færðu inn athugasemd

Filed under furðufrétt, kay brothers

Frakklandsferð – 20 stykki Lucien Le Moine og eitt stykki Romanée Conti

.

31.10.2007

Reis upp á þriðja degi.

Morgunmatur.

Stephan Brocard kom að sækja mig kl. 10.00. Hann er af Brocard fjölskyldunni sem framleiðir vín í Chablis en hefur ákveðið að fara eigin leiðir og stofna negociant fyrirtæki í Búrgúnd. Engin 1er Cru eða Grand Cru ennþá en mjög góð vín af lægri stigum og nokkuð góð kaup. Stephan er ungur og metnaðarfullur og af vínunum sem við smökkuðum að dæma er hann greinilega hæfileikaríkur. Breytir engu þótt hann eigi ekki vínekrurnar sjálfur því það er sterk hefð fyrir því í Búrgúnd að kaupa þrúgur af bændum sem ræktaðar hafa verið eftir tilmælum þess er kaupir (svokallaður negociant business) og stígur Stephan sterkur inn í þessa hefð. Kannski með smá forskot enda með reynslu úr fjölskyldufyrirtækinu. Enduðum á nýjum fúsjón/vínbar í Beaune og Stephan fræddi mig betur um stefnu sína í víngerð sem er mjög í takt við aðra metnaðarfulla framleiðendur sem ég hitti í þessari ferð.

Gott mál.

Síðla dags mælti ég mér mót við sjálfan Mounir, eiganda Lucien Le Moine. Víngerð hans er óvenjuleg. Hann er ekki staðsettur í einhverju þorpanna eins og flestir framleiðendur heldur í miðri Beaune. Lucien Le Moine er negociant fyrirtæki eins og fyrirtæki Brocards. Mounir kaupir tunnurnar fullar af víni af völdum framleiðendum en elur þær síðan sjálfur og setur á flöskur. Magnið er lítið, ein tunna eða tvær af hverri sort og er það í raun smæðin sem hefur gert Mounir kleyft að kaupa yfir höfuð vín af helstu vínekrum svæðisins – og það eingöngu 1er og Grand Cru.

Takk fyrir.

Í einni tunnu eru um 300 vínflöskur sem er ekki mikið fyrir eina tegund af víni. Og Mounir gerir 52 tegundir héðan og þaðan af Cote d’Or svæðinu, allar í svona litlum magni fyrir utan Bourgogne rautt og Bourgogne hvítt sem hann framleiðir aðeins meira af en þau tvö vín eru mun betri en óbreytt „bourgogne“ eru almennt því megnið sem fer í þessi vín er raun village og 1er cru.

Þá hófst hin ógleymanlega vínsmökkun.

Mounir leiddi mig í gegnum hverja tunnuna af fætur annarri, allt frá Chassagne Montrachet Les Grandes Ruchottes til Corton Charlemange og frá Pommard Les Grands Epenots til Richebourg. Allt saman 2006 árgangur. Tók ekki nema um hálftíma að snarast í gegnum 20 vín með tilheyrandi, lifandi lýsingum Mounirs sem voru ýmist „dýrslegt“, „kvenlegt“ og allt þar á milli og tilheyrandi misgáfulegum kommentum og hummi frá bloggaraanum sem aldrei hefur fengið eins ítarlega og skemmtilega yfirferð á eins mörgum, góðum vínum – fyrr eða síðar.

Og hananú.

Það sem gerði þessa vínsmökkun enn áhugaverðari er að ég vissi ekki hvar ég hafði vínin frá Lucien Le Moine fullkomnlega þótt tilfinning og fyrri smakkanir lofuðu góðu. Hann hefur verið að fá frábæra dóma í pressunni, ekki síst þeirri bandarísku en líka þeirri bresku þótt einn krítíker hafði lýst frati á hann og það enginn annar en Búrgúndarsérfræðingurinn Clive Coates (sem, merkilegt nokk, lýsir tvo aðra framleiðendur – Grivot og Moreau – sem við flytjum líka inn, sem tvo af 10 bestu í héraðinu). Clive hefr örugglega ekki kíkt á nýjstu árganga Lucien le Moine. Hér eru engir eikaðir kraftaboltar á ferðinni eða nútímaleg tískuvín heldur einstaklega fáguð og týpísk vín eins og þau sem bloggarinn sækist eftir frá hinu eina og sanna Búrgúndarhéraði. Mounir lýsti sjálfur yfir ánægju með 2006 árganginn því hann er aðgengilegur ungur en er jafnframt til geymslu sem að hans mati eru fýsilegri árgangar heldur en þeir sem vilja láta bíða, og bíða eftir sér.

Mounir á skemmtilegan feril að baki. Starfaði hjá munkum í Beaune við vínrækt áður en hann stofnaði fyrirtækið og notfærði sér síðan þau góðu sambönd til þess að vingast við og kaupa vín, til eigin framleiðslu, af framleiðendum í héraðinu. Hann aðhyllist náttúrulega víngerð, þyngdarlögmálsvíngerð, í raun gerir vínin eins og þau voru gerð fyrir 50 árum. Hann vill enga öfga á neinu sviði, uppskeran er t.d. ekki öfga-lág heldur í kringum 40hl per hektara. Eikartunnur eru sérsmíðaðar og framleiddar í eikarlundi sem hann á sjálfur.

Kvöldmatur.

Ég var svo upprifinn af þessari reynslu hjá Lucien Le Moine að ég ákvað að hálda áfram á sömu braut á einhverju af betri veitingahúsum Beaune og fyrir valinu varð Bernard-Loiseau sem er nýr staður í eigu samnefnds Michelin staðar (3 stjörnur) ekki langt frá borginni. Svona hálfgert Michelin útíbú og nokkuð ódýrara en frumgerðin. Það sem er merkilegt við þennað stað er að allur vínlistinn er til í glasi, nánar tiltekið er búið að setja allar tegundir af vínlistanum í Enomatic vélar sem spýta svo út úr sér tilheyrandi skammti eða hálfskammti.  Og þetta voru bara ansi hreint góð vín. Þarna sá bloggarinn sér leik á borði og pantaði Vosne-Romanée 1er Cru 2004 frá Romanée Conti en svo dýrt glas hafði hann aldrei verslað áður – 45 evrur fyrir glasið – aðallega til að geta sagst hafað drukkið Romanee Conte, og jú – vínið var ansi hreint gott. Frekar aumt samt að sötra drykkinn úr of litlu glasi (það er bara ein stærð af glösum á staðnum). Maturinn var til mikilliar fyrirmyndar á þessum stað en bloggarinn fékk samt næstum hjartaáfall af risastórum skammti af fois gras og svo sterkum ostum að á tímabili vissi hann ekki hver hann var eða hvað hann hét. Tomatsúpan í forrétt var ljómandi og dúfan var virkilega góð. Í lokin eitt stk. risavaxið soufflé og bloggarinn rúllaði saddur heim á hótel.

Smelltu hér til að skoða myndir úr ferðinni á flickr

Smelltu hér til að lesa fleiri blogg færslur úr ferðinni

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, christian moreau, ferðalög, frakkland, grivot, hótel, lucien le moine, veitingastaðir

Caprai og Moreau eru flottir í Gestgjafanum og Morgunblaðinu

.

Fjallað er um Collepiano 2004 frá Arnaldo Caprai í nýjasta Gestgjafanum og líka í Morgunblaðinu sem kom út í gær.

Við eigum líka hvítvín í báðum þessum Útgáfum og bæði Chablis vín frá Domaine Christian Moreau, 1er Cru Vaillon 2006 í Morgunblaðinu og Grand Gru Les Clos 2004 í Gestgjafanum.

Í Gestgjafanum fá bæði vínin 4 1/2 glas. Í Morgunblaðinu fá þau 91 og 90 stig. Í báðum tilfellum er verið að fjalla sérstaklega um hátíðarvín.

Fínir dómar það.

Ég er að hugsa um að hafa vín frá þessum tveimur framleiðendum á borðum yfir hátíðarnar en er ekki viss. Get ekki ákveðið mig ennþá og veit reyndar ekki alveg hvaða skeppnu verður slátrað til að prýða hátíðarmatseðilinn. Fyrir utan hreyndýr sem ég fékk frá skotglöðum félaga.

Þetta segir Gestgjafinn:

Christian Moreau Grand Cru Les Clos 2004 4 1/2 glas
Lokað í upphafi, opnast á blóm, sítrus, steinefni og epli. Brakandi og margslunginn ilmur, frábært jafnvægi, kraftmikið í munni. Mikill karakter og afskaplega góð lengd. Drekkið með humri eða ostrum. Nammi namm.
Okkar álit: Ungt en frábært Chablis. Kraftmikið en fágað, þyrfti jafnvel að umhella.

Collepiano 2004 – 4 1/2 glas
Þétt og mikið vín með ákveðinn elegans. Margslungið bæði í nefi og munni með fjólum, kryddi, þroskuðum ávexti og möndlum. Kröftugt en gott tannín með frábæra lengd. Kallar á góðan og bragðmikinn mat eins og dádýr eða hreindýr. 4.300 kr.
Okkar álit: Frábært vín með góðan kraft. Best milli 2009 og 2014 en má umhella til að flýta fyrir. “ (- Gestgjafinn 15. tbl. 2007)

þetta segir Morgunblaðið:

Collepiano 2004 er rauðvín frá Úmbría úr heimaþrúgunni Sagrantino di Montefalco frá besta framleiðanda héraðsins, Arnaldo-Caprai. Þurrt birki, vanillusykur og áfengislegin svört kirsuber. Langur, þurr og tannískur endir Opnar sig með mat en mun batna næstu fimm árin það minnsta. Mjög athyglisverður Ítali. 4.300 krónur. 91/100

Domaine Christian Moreau Chablis 1er Cru Vaillon 2006 er klassískur og fágaður Chablis. Þurr og sýrumikill, steinefni og hnetur í nefi, þykkur sítrus í munni með löngum endi. Vín fyrir t.d. humarsúpuna. 2.890 krónur. 90/100“ (- Morgunblaðið, 15.12.2007)

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, christian moreau, dómar, Gestgjafinn, morgunblaðið

Uppskriftir — Konfekt úr Amedei súkkulaði

.

Við Ingó mágur (og stórbakari) hittumst einn sunnudag ekki fyrir löngu og bjuggum til konfekt úr Amedei súkkulaði fyrir jólablað Fréttablaðsins. Tilgangurinn var að koma súkkulaðinu til skila á sem einfaldastan og bestan hátt í konfektmola og nota til þess hrein hráefni eins og grappa, sætvín og kaffi og lítið annað. Þessir molar eru snilld, þótt ég segi sjálfur frá, enda Ingó sem á mestan heiður af þeim.

Þetta er líka auðveldara en það virkar kannski út frá lestri greinarinnar en nauðsynlegt samt að vanda sig. 

Hér fyrir neðan er greinin nokkurn veginn eins og hún birtist í Fréttablaðinu en smelltu líka á flickr til að skoða myndir sem ég tók af konfektgerðinni og vídeó á youtube sem sýnir Ingó bakara tempra súkkulaðið sem við notuðum í molana á marmaraplötu:

Amedei – konfekt 4 tegundir (samtals um 100 konfektmolar)

Konfekthjúpur (skel)
1.5 kg 70% Amedei súkkulaði.

Súkkulaðið brætt rólega þar til hitastig þess nær 45/50°C. Þá er súkkulaðinu hellt á kalt marmaraborð (eða annan stein) og því velt um með spöðum þar til hitastigið fellur niður í u.þ.b. 27°C. Þessi aðferð er kölluð “temprun” og við það kristallast súkkulaðið og tekur á sig fallegan gljáa sem gerir það glansandi auk þess sem auðveldara verður að losa molana úr formunum og handfjatla þá. Þegar temprunarhitastiginu er náð er því hellt í formin sem nota skal.
Það er líka mikilvægt að formin séu “póleruð” með því að fara vandlega ofan í hvert mót með hreinni tusku. Súkkulaðinu er þá hellt í formin og þau slegin varlega í borðið til að ná loftbólum upp á yfirborðið, þá er umframsúkkulaði hellt úr formunum aftur í skálina. Mikilvægt er að fylla í öll form sem nota skal á meðan að súkkulaðið er við þetta kjörhitastig.
Þegar búið er að setja fyllingarnar í alla molana er hugsanlegt að það þurfi að tempra súkkulaðið upp á nýtt áður en því er hellt yfir formin til að loka molunum (setja á þá botninn). Formin er þá hrist aftur til að ná loftbólum og loks smurt vel yfir með spaða til að fjarlægja umframsúkkulaði og ná fram sléttum botnum.
Það er hægt að tempra súkkulaði án þess að hella því á marmara og er það gert með því að bæta út í brætt súkkulaðið afar fínt söxuðu súkkulaði (200g á móti hverju kiló af bræddu súkkulaði) og ná þannig fram snöggkælingu – en sú aðferð er ekki eins örugg.

Fyllingar

Caffé Ganache
200 ml. rjómi
20 g. nýmalað gæðakaffi
180 g 75% súkkulaði smátt saxað (notuðum 75% Amedei “9”)

Búinn til kaffirjómi með því að hita saman í potti rjóma og kaffi vandlega án þess að sjóða og síðan látið standa. Síað í gegnum grisju á meðan það er enn heitt. Þessum kaffirjóma (samtals um 75g) síðan hellt yfir smátt saxað súkkulaðið og hrært vandlega þar til áferðin er orðin slétt og fíngerð (emúlíserað). Fyllingunni síðan sprautað í súkkulaðihjúpuð konfektmótin og þeim lokað. Þegar konfektmolinn er laus úr forminu er upplagt að skreyta hann með kaffibaun.

Vin Santo
300 g persipan (hægt að nota marsipan)
  60 g sykur
  60 g flórsykur
100 g Vin santo sætvín

Hrært saman í sprautuhæfan massa og síðan sprautað í hjúpuð konfektmótin og lokað fyrir.

Pistaccio
150 g ósaltað smjör
  60 g flórsykur
300 g Amedei mjólkursúkkulaði brætt
100 ml. Vin santo sætvín
  60 g ósaltaðar/malaðar pistasíuhnetur

Öllu hrært saman vandlega saman (emúlíserað). Sprautað í hjúpuð konfektmótin og lokað fyrir.

Grappa
270 g 70% Amedei súkkulaði (notuðum einnarekru Amedei Chuao)
140 g ósaltað smjör
  45 g flórsykur
  35 g Grappa (eða ef til vill aðeins meira…)

Súkkulaðið brætt í u.þ.b. 45°C, smjörið sett í bitum út í súkkulaðið ásamt flórsykrinum, hrært í þar til smjörið bráðnar. Grappanu bætt út í og hrært þar til allt er slétt og fínt. Sprautað í hjúpuð konfektmótin og lokað fyrir.

Eitthvað gott til að sötra á með (vín)

Líklegast er gott freyðivín það besta sem hægt er að njóta með súkkulaði og konfekti. Francois 1er (1.990 kr) frá Castello di Querceto er gott freyðivín sem liggur einhvers staðar stíl, gæðum og verði á milli einfalds prosecco freyðivíns og kampavíns. Frizzando (1.790 kr) freyðivínið frá Sandhofer í Austurríki er glettilega gott með súkkulaði Frá Querceto koma einni vínin sem við notuðum í sjálft konfektið, grappa (4.110 kr) og Vin santo (2.100 kr) og eru þau afbragðsgóð til að njóta með sömuleiðis ef fólk er yfir höfuð hrifið af hinu sterka grappa eða sætvínum. Hjónin sem eiga Querceto nota einmitt sjálf grappað sitt til að setja í fyllingar þegar þau laga konfekt heima hjá sér. Rauðvín með súkkulaði eða góðu konfekti (ekki of sætu) getur verið afbragðsgóð blanda ekki síst í lok máltíðar þegar gott rauðvín er klárað yfir góðu súkkulaði. Þó er ekki hægt að segja að súkkulaðið dragi fram bestu eiginleika rauðvína heldur er það upplifunin sem telur. Þá myndi ég mæla með rauðvíni af betri gerðinni og sem er ekki of sýrumikið eða fínlegt heldur opið og ávaxtaríkt. Góð rauðvín með súkkulaði væru t.d. rauðvínin frá hinum ástralska d’Arenberg, Juveniles (2.390 kr) frá Torbreck sem er sömuleiðis ástralskt eða feitari rauðvín frá Ítalíu eins og Nebbiolo (2.690 kr) frá La Spinetta, Cumaró Riserva (2.590 kr) frá Umani Ronchi eða Santagostino (1.890 kr) frá Firriato. Þessi vín fást í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

(Amedei súkkulaði í 1kg plötum fæst í Sandholt bakaríi og í Ostabúðinni Skólavörðustíg)

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, ítalía, fréttablaðið, súkkulaði, uppskrift

Hinn eini sanni Hátíðarvínlisti Íslands 2007

.

Neyðarlína Víns og matar hefur verið rauðglóandi undanfarna daga til að svara spurningum um vín með hátíðarmatnum. Til að létta á starfsfólki í símaveri höfum við ákveðið að taka hann saman aftur — Hátíðarvínlista Íslands 2007 [varist eftirlíkingar]:

Manstu ekki neitt þegar þú kemur í Vínbúðina? Smelltu hér til að prenta listann (pdf) og taktu hann með

Rjúpa: Ert þú einn af þeim heppnu sem fær að borða rjúpur þessi jól og hlærð að okkur hinum? Þá mælum við með hinu ástralska rauðvíni The Laughing Magpie sem kostar 2.100 kr. í flestum stærri Vínbúðum. Sá hlær best sem síðast hlær. (innsk. ritstj: umfram rjúpur eru vel þegnar í síma 693 7165).

Hreindýr: Með kröftugum mat þarf kröftug vín og fá vín eru kröftugri en rauðvínin úr Sagrantino þrúgunni frá Arnaldo Caprai. Sagrantino di Montefalco Collepiano fæst á sérlista í flestum stærri Vínbúðum og kostar 4.300 kr. Svaðalegt vín í silkihanska.

Hamborgarhryggur/Hangikjöt: Selta og reykur kallar á ferskt og ávaxtaríkt vín sem er ekki of þurrt né of eikað. Rauðvínið ástralska The Stump Jump úr GSM þrúgnablöndu eða samnefnt hvítvínið The Stump Jump eru spriklandi skemmtileg. Hið fyrra kostar aðeins 1.490 kr. og hið síðara 1.390 kr. yfir hátiðarnar í flestum stærri Vínbúðum.

KalkúnChateau de Flaugergues úr GSM þrúgnablöndunni frá S-Frakklandi hefur aðlaðandi ilm og mjúka áferð. Það kostar 1.750 kr. og fæst í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

Gæs/Önd: Þótt þessar fuglategundir séu ekki nákvæmlega eins (önnur segir „bra“ hin segir „kvak“) mælum við einu og sama víninu með þeim báðum. Litla „Barolo“-ið, Nebbiolo Langhe frá La Spinetta er þykkt og karaktermikið og fer lokkandi vel með fuglinum. Það kostar 2.690 kr. í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

Lambakjöt: Lífræna sveitaprinsessan Les Baux de Provence frá hinu fallega Provence héraði Frakklands smellpassar með lambakjötinu. Það fæst á sérlista og má finna í stærstu Vínbúðunum á 1.790 kr.

Nautakjöt: Nýi árgangurinn (2003) af Castello di Querceto Chianti Classico Riserva er bragðmikill og þéttur og mun auðveldlega taka nautakjötið í bóndabeygju. Það kostar 2.360 kr. í flestum stærri Vínbúðunum.

Kjúklingur: Létt rauðvín frá Chianti er málið með kjúlla litla. Querceto Chianti kostar 1.390 kr. í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

Lax: Casal di Serra frá Umani Ronchi er fjölhæft, ítalskt hvítvín og alls ekki bundið við laxinn þótt það falli einstaklega vel að honum. Það hefur þægilega angan og er aðgengilegt. Þroskað í bland við krydd og hvít blóm.- 1.590 kr. í flestum Vínbúðum.

Humar: Hvað með Chablis? Hvað með 1er Cru Chablis? Þá er málið að kippa Chablis 1er Cru Vaillon frá Domaine Christian Moreau sem fæst í Vínbúðunum Kringlunni og Heiðrúnu á 2.890 kr.

Aðrir forréttir og grænmetisréttir: Þessi flokkur er svolítið víður en að jafnaði hentar létt og brakandi ferskt hvítvín eins og Grecante í Úmbría á Ítalíu. Það er óeikað en hefur þroskaðan og þykkan ávöxt sem gælir við bragðlaukana. Kostar 1.690 kr. í flestum stærri Vínbúðunum yfir hátíðarnar. 

Fordrykkur: Það er ekki hægt að búa til hátíðarvínlista án freyðivíns. Frizzando frá Sandhofer er aðlaðandi, hálffreyðandi vín sem er unun að drekka fyrir mat – og jafnvel með honum líka. Það kostar 1.790 kr. í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

Eftirréttir: Heilaga sætvínið Vin santo frá Toskana sér til þess að allar máltíðir endi á amen. Það kostar 2.100 kr. á sérlista og fæst í stærstu Vínbúðunum.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, castello di querceto, christian moreau, d'arenberg, flaugergues, hátíðarvín, jól, la spinetta, mas de gourgonnier, matur, sandhofer, vínbúðirnar