Frakklandsferð — Mugison rokkar í Meursault

1.11.2007

Það var frídagur.

Öll franska þjóðin í fríi og þar af leiðandi ég líka.

Kærkomið tækifæri til þess að kanna betur þorp og vínekrur á rólegu tempói.

Það var því ekið af stað, suður af Beaune í þetta skiptið, þar sem hvert vínþorpið tók við af öðru með stuttu millibili við undirleik Mugison. Flottur diskur hjá kallinum sem afmeyjaði svolítið virðuleika þessara heimsþekktu vínþorpa.

Smeltu hér til að skoða gervihnattarmynd af þorpunum

Fyrsta þorpið var Pommard. Ég lét mér nægja að aka þar í gegn en stoppaði í því næsta og rölti um þröngar götur smábæjarins Volnay sem þekktur er fyrir sín fínlegu og kvenlegu rauðvín. Það var fallegt veður, logn, sól og ekkert of svalt. Kirkjuklukkur hljómuðu, kona gekk hjá með baguette og ég settist á bekk þar sem ég gat horft yfir sléttuna fyrir neðan bæinn. Skv. skilti sem stóð þar hjá yfir víngerðarmenn bæjarins viðast þeir flestir heita Rossignol (skoðaðu stækkaða mynd af þessu skilti í Volnay).

Ég beið eftir tækifæri til þess að segja „Góðan daginn herra Rossignol“ við næsta mann sem ég myndi hitta en það var ekki nokkur hræða. Bærinn var að slappa af.

Eftir það renndi ég í gegnum Monthélie og þaðan til Meursault.

Þegar hér var komið við sögu var Mugison kominn í þungarokksgírinn og ég bað hann um taka sér pásu.

Ég lagði bílnum og gekk upp og niður þröngar götur Meursault þar til ég rataði á stíg sem leiddi mig út á vínekrurnar. Þar tók við meira labb, myndatökur, þukl á steinum og vínvið en ég lét vera að bragða á jarðveginum – læt nægja að smakka hann óbeint í gegnum vínið sem þaðan kemur.

Svangur ók ég af stað til þorpanna Puligny Montrachet og Chassagne Montrachet þar sem meiningin var að snæða á veitingastaðinum Le Chassagne. Glætan. Ekki séns að fá þar borð svo nú voru góð ráð dýr enda hafði ég ekki tekið eftir mörgum veitingastöðum á leið minni um þorpin. Ég ákvað því að aka ekki lengra heldur rölta aðeins um vínekrurnar í Montrachet þaðan sem dýrustu hvítvín í heimi koma frá og skella mér síðan aftur til Beaune og finna mér bita þar.

Í kringum hótelið í Beaune var ekki að finna sjoppu sem var opin til að selja mér svo mikið sem baguette og salami þannig að ég endaði sársvangur inni á hóteli og þáði það eina æta sem þau gátu boðið mér sem var kaldur bjór.Takk, hann var góður.

Það var því með mikilli tilhlökkun sem ég hélt á veitingastaðinn Le Gourmandin í miðbæ Beaune. Ég fór um leið og hann opnaði 19.00, fyrstur á staðinn. Svangari ferðalang höfðu þeir aldrei séð. Hér var ráðist í fjölbreyttan matseðil en sem fyrr lét ég vera að panta vín af stórglæsilegum vínseðli því það er takmarkað hvað einn maður getur drukkið. Ég tók mér því tvö glös af hvítu og tvö af rauðu af sæmilegu úrvali glasavína. Le Gourmandin valdi ég eftir meðmæli Lucien Le Moine sem á mörg vín á vínlistanum þar en fleiri höfðu mælt með honum og ég bætist hér með í þann hóp. Stemningin er svona „bistro“ og andrúmsloftið þægilega afslappað eftir því, maturinn til fyrirmyndar og úrval vína í fyrirrúmi. Ég táraðist næstum við að sjá flösku af Luciano Sandrone í einni hillunni.

Daginn eftir skyldi haldið til Champagne.

Smelltu hér til að skoða myndir frá ferðinni

Smelltu hér til að lesa aðrar bloggfærslur úr ferðinni

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, ferðalög, frakkland, lucien le moine, veitingastaðir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s