Monthly Archives: mars 2008

Ef væri ég þrúga

.

Ef þú værir þrúga, hvaða þrúga værir þú?

Allar hafa þær sinn karakter sem oft er lýst eins og um ljóslifandi persónu væri að ræða.

Á appellationamerica.com er að finna þessar stórskemmtilegu andlitsmyndir af ótrúlega mörgum þrúgum með tilheyrandi persónulýsingum af hverri.

Svo má spyrja, af hvaða þrúgu heillast þú mest?

Nú skil ég að minnsta kosti betur af hverju ég hef alltaf verið svona hrifinn af Sauvignon Blanc. Ég mun aldrei drekka neitt annað.

4 athugasemdir

Filed under þrúgur

Amedei súkkulaði vinnur Gullnu baunina á Chocolate Awards 2008 – aftur

Amedei súkkulaði er í sviðsljóðinu þessa dagana, bæði Gestgjafinn og Decanter fjalla um Amedei súkkulaði í nýjustu tölublöðunum.

Gestgjafinn er tileinkaður súkkulaði að þessu sinn. Þegar ég frétti að það stæði til lagði ég til við blaðið að haldið yrði smakk á dökku súkkulaði sem var tekið vel í. Amedei fær góða umsögn í blindsmakkinu (bls. 41, 4. tbl.) en ég skal viðurkenna að ég hefði viljið sjá það toppa þetta smakk.

Decanter fjallar aðallega um vín en í nýjast tölublaðinu (apríl) er tvær síður lagðar undir súkkulaði og er fókuserað sérstaklega á Amedei sem „model producer“. Þar kemur fram að síðan fyrirmyndarfyrirtæki eins og Amedei fór að framleiða súkkulaði í nánariasamstarfi við bændurna og greiða þeim hærra verð hefur gæðum fleygt fram. Greinarhöfundurinn, Fiona Beckett, endar greinina á að lýsa Chuao súkkulaði frá Amedei með „deep chocolatey aroma and flavour and an amazingly long finish.“ Í greininn er kakóekrum Amedei í Venezuela, Chuao og Porcelana, líkt við það besta sem gerist í heimi vínframleiðslu, eins og ofurvínið Petrus.

Helst ber að minnast á Chocolate Awards 2008 sem voru haldin í þriðja sinn í ár. Þar sigraði súkkulaði frá Amedei eina ferðina enn sem besta dökka súkkulaðið. Að þessu sinn kom það í hlut 63% súkkulaðisins frá Amedei að hljóta Gullnu baunina en jafnframt hlutu gullverðlaun Porcelana og Chuao auka þess sem silfur hlutu 66%, 70% og „9“ sem er með 75% kakó. Mjólkursúkkulaðið frá Amedei hlat silfur í sínum flokki.

Það er gott úrval af Amedei súkkulaði í Ostabúðinni á Skólavörðustíg og hjá Sandholt á Laugaveginu.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, decanter, Gestgjafinn, súkkulaði, verðlaun/viðurkenningar

Litla ljóta Krónan

Þetta er sagan af litlu ljótu Krónunni.

Krónan er fallegur svanur, háfleygur og vængbreiður, sem hefur sig á loft frá tjörninni en flýgur á Seðlabankann, vængbrotnar og fellur til jarðar. Illa útleikin og óþekkjanleg vafrar hún um Borgartúnið þar sem enginn trúir að hún sé í raun svanur, hvað þá að hún hafi einu sinni flogið.

Sagan af litlu ljótu Krónunni er ekki ennþá búin. Enginn veit hvort hún fari á sjálfstyrkingarnámsskeið og hefji sig aftur til flugs eða hvort hún verður endanlega útskúfuð, dragi sig inn í skel og komi aldrei aftur út.

Ég hef verið spurður að því hvort fall krónunnar muni hafa áhrif á sölu vína og hef þá svarað í bjartsýni að nei, líklegast ekki nema hvað hugsanlega færist neyslan tímabundið enn meira í ódýrari verðflokka því þar mun áhrifa gengisfallsins gæta síst. Ástæðan er sú að á öllum vínum er áfengisskattur sem getur verið tvöfalt eða þrefalt hærri en raunverlegt innkaupsverð ódýrs víns og þar sem að gengisfallið hefur bara áhrif á innkaupsverð munu ódýrari vínin hækka minna. Því dýrara sem vínið verður hækkar hlutfall innkaupsverðs og því mun meiri áhrif hefur gengisfallið þar.

Skammtímagengissveiflur hafa haft frekar lítil áhrif á verð okkar vína hingað til enda ómögulegt að vera að hækka vín nokkra tíkalla upp bara til að lækka aftur nokkrum vikum eða mánuðum síðar. Frekar tekur maður eitthvað meðalgengi og námundar síðan svo verð haldist sem stöðugast. Öðru máli gildir um breytingar á gengi til lengri tíma eða þá ýktar sveiflur eins og fallið sem við erum að horfa á núna.

Því miður er ekki hægt að námunda niður á við þegar krónan fellur um 30%. Það eru því hækkanir framundan. Sem betur fer vorum við búin að greiða flesta reikninga og mun hækkana ekki gæta alveg strax en eftir fáeina mánuði verður landslagið töluvert breytt.

Það er því margt vitlausara en að fara ú í Vínbúð til að kaupa sér lager á gamla genginu.

Færðu inn athugasemd

Filed under innflutningur, vangaveltur

Hvað er málið með Decanter og 2004 súpertoskanina?

Ég er svolítið hvumsa yfir Decanter þessa dagana.

Í nýjasta tímaritinu er 2004 árgangur frá Toskana tekinn fyrir, nánar tiltekið svokallaðir súpertoskanir. Jafnan eru það þau vín frá Toskana sem framleiðendur leggja mest í og upp úr.

2004 árgangur er afskaplega góður víða á Ítalíu, þá ríkti gott og jafnt verðurfar. En vínsmökkunarhópur blaðsins dissar þennan árgang verulega. Aðeins eitt vín fær fullt hús, 5 stjörnur, og ekkert vín fær 4 stjörnur. Þetta er vægast sagt óvenjulegt miðað við góðan árgang, gæði vínanna og þá staðreynd að sjaldan er svo illa gefið á heildina í dálkum blaðsins.

Okkar fulltrúi Flaccianello 2004 fær bara 2 stjörnur, rétt eins og hið fræga Tignanello og t.d. annað vín sem heitir Montevertine. Þessi má geta að Flaccianello 2004 fær 95 stig hjá bæði The Wine Advocate og Wine Spectator.

Annars staðar í blaðinu er svo grein um 50 bestu vín Ítalíu (vín sem hafa verið framúrskarandi í gegnum árin) og þar eru öll þessi þrjú vín í þeirra hópi og meira að segja stór mynd af Tignanello 2004 sem fær hálfgerða útreið (a.m.k. miðað við væntingar) síðar í blaðinu.

Þetta er í takt við þann helsta galla sem mér finnst um Decanter. Mismunandi fólk fjallar um sömu vín milli ára, jafnvel í sama blaði, og því skortir alveg viðmiðun sem hægt sé að túlka einkunnir blaðsins út frá, árgang eftir árgang.

Ef sami gagnrýnandi eða hópur gagnrýnenda fjallar um sömu vín ár frá ári, jafnvel þótt maður sé ekki alltaf sammála, verður til sú viðmiðun sem mér finnst vanta í Decanter. Einkunnir þess aðila má skilja út frá einkunnum hans frá fyrri árum og svo koll af kolli. Ekki þessi losaraháttur sem mér finnst oft ríkja hjá Decanter.

Annað sem ég set út á í þessari umfjöllun Decanter eru smakknótur sem fylgja hverju víni sem fær 3 stjörnur og yfir. Þær eru frekar ófókuseraðar og einfaldlega leiðinlegar og þrátt fyrir nokkurn mun á einkunnunum er ekki að finna mun í textanum. Þannig er sagt um vínið sem fær 5 stjörnur að það sé „Tight, concentrated, not giving much away. This one has middle and promise and is still very closed. Fruit will win. There is a great deal here.“ á meðan að eitt af allra neðstu vínunum fær meðal annars umsögnina „Very good“.

Og besta dæmið um ósamræmi í Decanter.

Það varðar annað rauðvín sem kemur einmitt líka frá Fontodi, þ.e.a.s  Chianti Classico. Sami árgangur af því, 2004, fær 3 stjörnur í einu hefti Decanter en í öðru hefti fær sama vín 5 stjörnur. Það er eitt misræmið milli árganga en hjá einu og sama víninu þá eru hlutirnir að verða verulega ruglandi.

Færðu inn athugasemd

Filed under decanter, fontodi

Fleiri vín á VOX

Vínin okkar hafa verið að sækja í sig veðrið á vínlista VOX undanfarið. Við áttum 8 vín þar inni í byrjun ársins en sá fjöldi tvöfaldaðist við nýjustu uppfærsluna sem átti sér stað í síðustu viku.

Súper-sommelierinn Alba velur vínin á vínlistann af sinni fagmennsku og ástríðu.

Það veitir okkur mikla ánægju að vinna með svo góðu fólki og ekki laust við að við séum svolítið montin af þessum árangri.

Smelltu hér til að skoða öll vínin okkar á VOX og á öðrum veitingastöðum

Færðu inn athugasemd

Filed under mont, vínlisti, veitingastaðir, vox

Uppskriftir af Rossini turnbautum

Gioachino Rossini hætti að semja óperur á miðjum aldri. Það gaf honum nægan tíma til að sinni hinni ástríðunni sinni sem var matur. Frægar veislur fóru fram í húsakynnum hans í París og voru þar m.a. bornir fram turnbautar sem Rossini bjó til. Turnbautarnir eru frönsk uppskrift frekar en nokkurn tímann ítölsk.

Við gætum líka kallað þetta gourmet hamborgara.

Ég hef aldrei eldað þessa uppskrift. Hún er ekki flókin svo sem en Rossini ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur hvað hráefnið varðar því í uppskriftina notaði hann bæði fois gras og trufflusveppi. Það má reyndar finna fois gras á Íslandi og skipta út trufflunum fyrir góða villisveppi (og ef til vill smávegis af truffluolíu).

Þrír staðir á netinu hafa þessi uppskrift, með smávægilegum breytingum sín á milli. Þessi uppskrift á Foodnetwork kemur frá Emile Lagasse. Hún er fyrir 6 manns en í hana fara lifandi ósköp af fois gras, trufflum og madeira víni, ekki fyrir viðkvæma sem sagt. Uppskriftin á UKTV-Food er fyrir tvo og skiptir út trufflum og madeira fyrir sveppi og rauðvín. Útgáfan á FrenchFoodFreaks gefur hins vegar kost á annað hvort trufflum eða öðrum sveppum en gengur lengra í víninu og vill ekki bara madeira heldur líka portvín og brandý. Sú síðasta er fyrir fjóra og gerir ráð fyrir að skammturinn fyrir hvern og einn innihaldi m.a. 200g kjöt fyrir utan 80g af fois gras, brauð og sveppi.

Það er því best að vera svangur þegar maður ræðst í Rossini turnbautana.

Ég myndi drekka með þessu Chateau de Flaugergues. Það er nægilega kröftugt fyrir bragðmikinn matinn og hefur snerpu til að taka á allri fitunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under flaugergues, frakkland, tónlist, uppskrift

Skoðanakönnun: Hvaða framleiðandi frá Languedoc finnst þér bestur?

.

Fyrir tæpum tveimur árum síðan tókum við inn fullt af víni frá Languedoc héraði S-Frakklands.

Af þeim er aðeins eitt eftir í hillum Vínbúðanna, Chateau de Flaugergues. Hin duttu úr sölu og restina seldi ég á rífandi útsölu á póstlistanum ekki fyrir löngu.

Það stendur til að taka eitthvað af þessum vínum inn aftur, kannski þó bara einn framleiðanda eða tvo, fyrir utan Chateau de Flaugergues sjálfan. Hinir voru Chateau Mourgues de Gres, Chateau de Lascaux, Mas de Perry (Mas Nicot) og Domaine Aupilhac.

Hver finnst þér bestur?

Okkur þætti vænt um að heyra skoðanir sem flestra af þeim sem hafa smakkað þessi vín. Ykkar álit skiptir okkur miklu máli.

Takk.

Ein athugasemd

Filed under languedoc

Tilrauneldhúsið: Grecante og tveir réttir úr Gestgjafanum

Þar sem að Gestgjafinn var svo góður að mæla með hvítvíninu okkar Grecante með tveimur réttum í nýjasta blaðinu (sjá nánar um það hér) þá fannst okkur tilvalið að elda réttina fyrir gesti á laugardagskvöldið.

Annars var um að ræða „Smálúðurúllur með parmaskinku, basilíku og tómatsultu“ og hins vegar „Fenníkulegin lúða”.

Að sjálfsögðu smellpassaði vínið með enda…. [jada, jada, jada — hér á að standa mikill lofsöngur um vínið].

Þau kunna líka sitt fag, Dominique og Eymar, sem hafa umsjón með vínmálum í Gestgjafanum.

Það gleymdist reyndar að bera fram tómatasultu með öðrum réttinum sem undirritaður var 2 tíma að sjóða en hún datt inn síðar um kvöldið og var alveg sátt við það. Var líka góð ofan á brauð daginn eftir.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, Gestgjafinn, matur, uppskrift