Monthly Archives: apríl 2008

Léttklæddasti maðurinn í Veróna — bloggarinn skreppur á Vinitaly 2008

.

Hún er stór.

Vínsýningin sem skiptir mestu máli á Ítalíu fyrir seljendur og kaupendur er án efa hin árlega Vinitaly í Veróna, í byrjun apríl. Bloggarinn var einn af 45.000 erlendum gestum þetta árið en alls mættu 150.000 gestir á sýninguna fyrir utan vínframleiðendurna sjálfa.

Þetta er mikið af fólki. Þótt fjöldinn dreifist á þá 5 daga sem sýningin stendur yfir eru margir gestir sem mæta dag eftir dag og því ekki ólíklegt að giska að um 100.000 gestir hafi verið þarna saman komnir þegar mest lét. Bloggaranum fannst vægi sitt í þessari mannmergð full lítið en 185cm dugðu samt til að fölt andlit hans gægðist öðru hverju upp úr svartkollóttu mannhafinu.

Það var sól og hlýtt í Veróna, svona 17°C. Bloggarinn asnaðist út á skyrtunni fyrsta morguninn til að kaupa tannbursta og leið vel í loftslagi sem teldist jafnvel betra en íslenskt sumar en varð strax mjög vandræðalegur þegar hann uppgötvaði að hann var á þeirri stundu hugsanlega léttklæddasti maðurinn í allri Veróna, innan um kappklædda Ítalí, og lét vera að framkvæma þá tilhugsun sem hafði læðst að honum fyrr um morguninn að baða sig í gosbrunnum borgarinar.

En þetta hófst allt kvöldið áður. Þá var kvöldverður á Pompieri í boði Caprai þangað sem bloggarinn mætti seint og fékk í staðinn express útgáfu af herlegheitunum því ekki skyldi hann sleppa við neinn rétt. Hann var því ennþá að tyggja pylsur þegar settur var diskur af pasta fyrir framan hann og hálfnaður með pastað þegar kjötrétturinn kom en þar náði hann hinum gestunum og fylgdi þar á eftir í gegnum osta og síðan súkkulaðiköku. Var gerður góður rómur að matarlyst bloggarans. Öllu skolað niður með vínunum frá Arnaldo Caprai.

Þetta var ekki í síðasta skipti sem bloggarinn snæddi með Caprai og kompaníi því í hádeginu daginn eftir var boðið upp á margrétta fiskmáltíð inni á sýningarsvæðinu þar sem Caprai vínin voru smökkuð enn frekar. Saddur og glaður bloggari gekk út í sólina með fullan maga af kolkrabba, smokkfisk, skelfisk og ýmsum öðrum sjávardýrum ásamt einu stykki af Michelin stjörnu en bloggaranum er næstum sama hvað hann fær að borða ef það er Michelin stjarna í boði og þessi kom frá veitingastað í hafnarbænum Livorno í Toskana.

Ekki verður tíundað ítarlegar hvað bar á fund bloggarans á sjálfri sýningunni sem var svona „business as usual“. Nýir árgangar af öllum vínum sem Vín og matur flytur inn voru smakkaðir og er óhætt að segja að bloggarinn hafi verið ánægður með sína menn, „Complimenti!“ hrópaði bloggarinn hvað eftir annað. Sömuleiðis var leitað á ný mið eins og tími gafst og ekki ólíklegt að einhverjar nýjungar skili sér á næstunni.

Helst ber að nefna tvennt sem gerðist hins vegar utan sýningarsvæðisins. Annað var heimsókn í óperuhúsið sem var steinsnar frá hóteli bloggarans, 25 skref nánar tiltekið. Ein af fyrstu óperum Verdis var í boði, Attila, sem fjallar um Atla Húnakonung. Fín ópera sem ber þess merki að vera samin snemma á ferli tónskáldsins, nokkru áður en stórvirki eins og Rigoletto komu til sögunnar. Í sumar verður óperuhúsinu lokað og óperuflutningurinn færist út undir beran himinn, inn í rómverska hringleikahúsið Arena eins og frægt er orðið.

Hinn hápunkturinn í utandagskránni var heimsókn til Dal Forno Romano. Bloggarinn kom þangað fyrst fyrir nákvæmlega ári síðan og er árangurinn þeirrar ferðar þegar búinn að skila sér eins og auglýst var í Vínpóstinum ekki fyrir löngu. Hér voru kynnin endurnýjuð, smakkað úr tunnum, en eftirminnilegust er skoðunarferð um splúnkunýja víngerðina sem er reyndar enn í smiðum. Ef það er til nokkuð sem heitir hápunktur í víngerð þá er ekki ólíklegt að hann náist hér í húsakynnum Dal Forno fjölskyldunnar.

Smelltu til að skoða fleiri myndir frá heimsókninni á Vinitaly

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, ferðalög, matur, tónlist, vínsýning, veitingastaðir

Nýr matseðill á La Primavera

Það er vor á La Primavera.

Nýr matseðill byrjaði þar í vikunni með girnilegum réttum.

Unnendur Nautacarpaccio geta andað léttar því sá frægi forréttur situr sem fyrr sem fastast á matseðlinum fastagestum til mikillar ánægju.

Kílktu á nýja matseðilinn á La Primavera

Nýju réttunum má skola niður með vínunum okkar á La Primavera.

Færðu inn athugasemd

Filed under la primavera, matur, vínlisti, veitingastaðir

Domaine Jean Grivot er ein af súperstjörnunum í Búrgúnd að mati Decanter

.

Fyrir 10 árum síðan gaf Búrgúndar-sérfræðingurinn Clive Coates út lista af framleiðendum sem hann taldi þá bestu í Búrgúnd. Af urmul framleiðenda voru aðeins fimm á listanum. Nú eru þeir orðnir 17.

Þökk sé framförum í víngerð í héraðinu undanfarin ár að vínin eru almennt orðin betri, segir Clive. Honum finnst menn sýna náttúrunni meiri virðingu (margir á svæðinu eru lífrænir eða bíódínamískir) fyrir utan að vanda sig betur og skilar það sér í hreinni og beinni umbreytingu frá vínvið í flösku.

Okkar maður Jean Grivot er einn af nýju súperstjörnunum í Búrgúnd að mati Clive Coates eða eins og Clive segir: „Etienne Grivot is one of my favourite winemakers in Burgundy, and one of the most thoughtful. […] [T]he star of the cave is the Richebourg, a wine of remarkable beauty, intensity, and ravishing fruit. There is nothing obvious or clumsy here, just sheer breed.“

Eins og sjá má á myndinni þá elskar Grivot berin sín.

Fyrir utan Grivot eru hinir 16 (fyrstu fimm eru þeir upprunalegu): Comtes Lafon, Leroy, Romanée-Conti, Armand Rousseau, De Vogüé, Denis Bachelet, Sylvain Cathiard, Anne Gros, Michel Gros, Bonneau du Martray, Michel Lafarge, D’Auvenay, Guy Roulot, Louis Carillon, Leflaive og Ramonet.

Nánari upplýsingar um þessa framleiðendur og aðra er að finna í bók Clive Coates, The Wines of Burgundy, sem er nýkomin út.

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, decanter, frakkland, grivot

Vernaccia di San Gimignano í Gestgjafanum

Vernaccia di San Gimignano er „eitt af þessum hvítvínum sem krydda upp á úrval hvítvína í Vínbúðunum“ segir í umfjöllun Gestgjafans frá því í apríl.  Hvítvíninu gefa þau Dominique og Eymar 3 1/2 glas sem er gott fyrir það sem við köllum fyrsta flokks hversdagsvín.

Fyrir neðan birtist öll umfjöllunin:

Querceto Vernaccia di San Gimignano 20063 1/2 glas
Vernaccia er enn ein þrúgan sem fæstir hafa heyrt um en kemur úr þessu þrúgnahafi sem Ítalía hefur að geyma. Staðbundnar þrúgur gefa vínunum gildi, sem ansi margir víða um heim kunna að meta, og víngerðamenn nostra við þær til að fá það besta úr þeim. Hún er mjög afmörkuð við Toskana n.t.t. við San Gimignano, „Turnaborgina“ fallegu. Ilmurinn er ljúfur með hunangi, sítrónum, gulum ávöxtum og blómum á meðan áferðin er frekar fersk með svolitla stemmu aftast. Vínið er frekar stutt en samt sem áður mjög skemmtilegt og í fínu jafnvægi. Drekkið með léttu sjávarréttapasta eða sjávarréttagratíni.
Verð 1.390 kr.
Okkar álit: Einfalt en skemmtilegt. Eitt af þessum vínum sem krydda upp á úrval hvítvína í Vínbúðunum. “ – Gestgjafinn 4. tbl. 2008 

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, dómar, Gestgjafinn

Góð viðbrögð við póstlistaáskorun

Í gær fór út Vínpósturinn þar sem áskrifendur eru hvattir til að fá fleiri til að skrá sig á póstlistann. Þetta er í annað sinn sem pósturinn er sendur út með nýju útliti.

Í leiðinni tilkynntum við verðlaunin, af hverjum nýjum 100 áskrifendum yrði einn dreginn út sem hlyti vínsmökkunarkvöld fyrir sig og sína.

Þá voru 606 skráðir áskrifendur en þeim hefur fjölgað á sólarhring um tæplega 50.

Við erum að vonum mjög ánægð með þessi góðu viðbrögð og hlökkum til að tala við fleiri áskrifendur en nokkru sinni áður. Takmarkið en ennþá 900 áskrifendur, þá höldum við veislu og verður öllum áskrifendum boðið. Það tekur einhvern tíma en ég ætla að vera bjartsýnn og segja að það náist sumarið 2009.

Kannski það verði grillpartý?

Færðu inn athugasemd

Filed under vínpósturinn

Fiskiveisla í Vínbúðunum

.

Það er fiskiveisla í Vínbúðunum í apríl.

Þar verður ekki boðið upp á úrval fiskirétta beint af grillinu, gestakokka og ferskan krækling ásamt úrvali hvítvína sem hægt er að smakka á staðnum.

En þar er hægt að nálgast þennan bækling með fiskiuppskriftum ásamt lista af góðum hvítvínum til að drekka með, heima hjá sér, eins og The Stump Jump og Casal di Serra.

Við drögum upp gamlan límmiða af því tilefni hér til hægri. 

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, matur, umani ronchi, vínbúðirnar

Vínkeðjan: Sigurlín Bjarney bloggar um Montefalco

Sigurlín Bjarney bloggar um Montefalco sem hún smakkaði á meðan hún horfði á Kiljuna.

Góð blanda það.

Lestu hvort henni finnst vínið sætt eða súrt

Hún skorar á Arngrím Vídalín sem hefur tekið áskoruninni.

Vínkeðjan heldur för sinni áfram um ljóðheima.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, dómar, vínkeðjan