Monthly Archives: júní 2008

Hubert Sandhofer í vídeóbloggviðtali

Íslandsvinurinn Hubert Sandhofer var staddur hér á landi í vikunni og við ákváðum að taka upp stutt viðtal í tilefni nýrra vína frá framleiðandanum sem byrja í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni 1. júlí.

Meira um vínin síðar en hér er viðtalið.

 

 

Færðu inn athugasemd

Filed under sandhofer, sjónvarp, viðtal

Chester Osborne d’Arenberg í úrslitum hjá Gourmet Traveler Wine Magazine

.

Hæ, hó, jibbí og jei. Það rignir yfir d’Arenberg.

Ekki blessaðri rigningunni heldur verðlaunum og viðurkenningum.

Annað hvort er það víngerðin sem er að fá viðurkenningu, Chester sjálfur, veitingastaðurinn þeirra eða jú það sem mestu máli skiptir (held ég), vínin.

Við fáum mánaðarlega skeyti frá víngerðinni með lista yfir nýjustu afrek og stundum fljóta brandarar með. Það er gott að eiga samskipti við d’Arenberg, það er létt fyrir starfsfólki og vingjarnlegt, „Aussie style“, sem kristallast í Chester sjálfur.

Nú er það einmitt víngerðarmaðurinn Chester Osborne d’Arenberg sem er tilnefndur í hóp 8 fínalista sem Víngerðarmaður ársins í Ástralíu skv. tímaritinu Gourmet Traveler Wine Magazine.

Lestu greinina í tímaritinu

Þetta er svona svipað eins og að komast í 8 liða úrslit í Evrópukeppninni og nú er að bíða og sjá hvort hann tekur sjálfan bikarinn.

Eitt að lokum:

— Áfram Ítalía !

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, d'arenberg, verðlaun/viðurkenningar

Block 6 toppar í Syrah/Shiraz áskorun

Við höfum áður minnst á vínsmakkanir EWS í New York hér á blogginu.

Nýlega stefndu EWS smakkarar saman vínum úr „Síras“ þrúgunni sem ýmist er kölluð Syrah á franska vísu eða Shiraz á t.d. ástralska vísu en sú þrúga er líklegast að verða vinsælasta rauðvínsþrúgan á eftir Cabernet Sauvignon eftir að kvikmyndin Sideways rústaði orðspori Merlot þrúgunnar. Í smakkinu voru eingöngu rómuð vín úr þrúgunni frá Frakklandi, Ástralíu, Kafliforníu og Ítalíu.

Það var gaman að sjá að Block 6 2004 frá Kay Brothers skaut öllum hinum ref fyrir rass og hlaut vel flest atkvæði sem besta vín vínsmökkunarinnar með 97 stig og komment eins og þetta hér segir allt sem segja þarf „Make no mistake, this first place wine rocked our world and was easily the best Kay Brothers “Block 6” we’ve ever encountered“.

Vínið er víst uppselt hjá okkur þar til nýr árgangur lítur dagsins ljós.

En hérna eru öll vínin frá því efsta til þess neðsta:

2004 Kay Brothers Shiraz “Block 6”
2004 Pax Syrah “Castelli-Knight Ranch”
2004 Shirvington Shiraz
2002 Kongsgaard Syrah “Hudson Vineyard”
2003 Cote Rotie “Les Rochains” (Patrick & Christophe Bonnefond)
2004 Sine Qua Non Syrah “Poker Face”
2004 Colgin Syrah “IX Estate”
2003 Cote Rotie “La Landonne” (René Rostaing)
2004 Clarendon Hills Syrah “Astralis”
2001 Le Macchiole  “Scrio”
2003 Cote Rotie “Chateau d’Ampuis” (Guigal)
2002 E & E Shiraz “Black Pepper”
2003 Cote Rotie “La Landonne” (Delas Freres)

2 athugasemdir

Filed under dómar, kay brothers, vínsmökkun

Cannubi Boschis 2003 rannsakaður (drukkinn)

.

Það er ekki oft sem hér fjúka tappar af vínum eins og Barolo Cannubi Boschis frá Luciano Sandrone. Í fyrsta lagi er það dýrt og í öðru lagi er upplagið svo lítið að maður hugsar sig tvisvar um áður en ákvörðun er tekin um að rannsaka eina flösku aðeins nánar. Svo er ekki alltaf tilefni eða stemning fyrir slíkum ofurvínum og ódýrari kostur og léttari meira viðeigandi. En, það er einmitt tækifærið til að njóta slíkra gæðavína öðru hvoru sem gerir vínreksturinn skemmtilegri og meira gefandi. Svona vín er tilefni út af fyrir sig.

Í gær hringdi ég í Rakel og spurði hvort hún væri ekki til í eitthvað virkilega gott vín, rautt eða hvítt, og var svarið eitthvað á þessa leið: „rautt og bragðmikið“. Fyrir valinu varð Barolo Cannubi Boschis 2003.

Aðeins 18 flöskur af 2003 árgangi komu til landsins og er helmingur farinn á 7.900 kr. per flösku. Við Rakel smökkuðum 2003 árganginn síðast fyrir rúmu ári siðan, þegar við heimsóttum framleiðandann á Vinitaly vínsýningunni. Það sem er skemmtilegt við vín frá svæðinu (Barolo er í Piemonte) er hversu mikill munur getur verið á milli árganga. 2003 var mjög heitt ár og þurrt. Að jafnaði eru slík skilyrði all góð en í þetta sinn voru aðstæður óvenju ýktar og þar af leiðandi mjög erfiðar. Mörg vínanna urðu of þroskuð, sæt, jafnvel væmin og skortir sýru og ferskleika sem er nauðsynlegur hverju góðu víni. Í slíkum árgangi skiptir meira máli en venjulega að kaupa vín frá framleiðanda sem maður þekkir eða er þekktur af sínu góða orðspori.

Luciano Sandrone er einmitt slíkur framleiðandi.

2003 Barolo Cannubi Boschis er glæsilegt Barolo. Hiti árgangsins er vart finnanlegur fyrir utan sæta en daufa tóna í bakgrunni af sveskjum og apríkósum og því að vínið er óvenju bragðmikið og öflugt í þessum árgangi. Ilmurinn er sláandi og breiðir úr sér eins og persneskt teppi. Þar fundum við dæmigerða Barolo-angan af rósum, trufflum, massífum steinefnum, sætri myntu og grænni papriku og þennan ágenga en undarlega heillandi ilm sem við vitum ekki hvað við eigum að kalla en gengur þangað til undir nafninu „lím-ilmur“ (Uhu sagði Rakel). Allt vínið er mikið og stórt um sig, fyllir vitinn frá ilmi til bragðs og eftirbragðið langt.

Með betri vínum sem hafa farið inn fyrir þessar varir.

Árið 2002 var ekkert Cannubi Boschis framleitt, þá voru skilyrðin enn erfiðari – ekki vegna hita heldur rigningar og kulda. 2004 smökkuðum við í vor og kemur það til landsins í haust. Þar er á ferðinni einhver besti árgangur á þessu svæði þar sem fágun er áberandi.

Lestu um heimsókn okkar til Sandrone vorið 2005

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, luciano sandrone

Viðtalið: Tinna í Kaffifélaginu

.

Eftir góðan hádegisverð, til dæmis í Ostabúðinni, eiga bloggarinn og ritstjórinn það til að kíkja í kaffi hjá Tinnu í Kaffifélaginu á Skólavörðustíg. Við römbuðum þar inn fyrir nokkrum vikum og þá var Tinna einmitt nýkomin úr myndatöku fyrir viðtal í Frjálsri verslun. Bloggið er kannski ekki með víðlíka deifingu, en bloggarinn ákvað að hamra járnið meðan það var heitt og taka Tinnu smá tali meðan hún hellti upp á kaffið. Smelltu til að skoða myndir úr viðtalinu.

* *

* Hvað segirðu Tinna, hvað er Kaffifélagið búið að vera opið lengi?*

Kaffihúsið hefur verið opið frá 1. júní í fyrra, en við hjónin erum búin að vera viðriðin kaffibransann í nokkur ár; maðurinn minn, Einar Guðjónsson í Kaffiboði, er forfallinn kaffiaðdáandi og hóf innflutning á ítölskum heimilisespressovélum frá La Pavoni árið 1986. Svo smám saman vatt þetta upp á sig hjá honum og hann smitaði mig.

*Og hvað kom til?*

Ja, nokkur atriði. Okkur fannst við hvergi fá kaffi að okkar smekk nema heima hjá okkur, mig langaði að skipta um starfsvettvang og Einar langaði að minnka búðarviðveruna í Kaffiboði. Og mig langaði að vinna í göngufæri frá heimilinu.

*Er einhver munur á kaffinu hjá þér og annars staðar?*

Við höfum staðla Ítölsku espressostofnunarinnar sem viðmið í lögun á kaffinu okkar. Ég veit ekki hvort fleiri fylgja þeim.

*Espressostofnunin? Er hún til í alvöru?*

Já, það er stofnun á Ítalíu sem upphaflega var stofnuð til að vernda hinn upprunalega ítalska 2,5 cl espresso. Hún skilgreinir nákvæmlega hvaða skilyrði espressobollinn þarf að uppfylla til að geta talist löggiltur. Hann skal lagaður undir 9 kg þrýstingi, úr 7 gr af möluðu kaffi frá viðurkenndum kaffiframleiðanda
og lögunin á að taka 25 sekúndur! Stofnunin hefur einnig skilgreint hvernig laga skal cappuccino; hlutföll mjólkur og kaffis, hitastig, áferð, fitu- og próótíninnihald mjólkurinnar, útlit og gerð bollans og svo framvegis. Mjög skemmtilegar spekúlasjónir og afskaplega gagnlegar fyrir þann sem langar að laga kaffi samkvæmt ítölsku hefðinni!

*Ja hérna. [Smakkar kaffið.] Mjög sérstakt.*

Fólk notar ýmis orð til að lýsa kaffi. Sjálf nota ég nú „gott“ eiginlega mest … en svo nota ég líka oft orð sem ekki endilega eru notuð til að lýsa bragði, s.s. holt, matt, rúnnað… Þetta kaffi sem þú ert að drekka núna er svolítið dökkt og þurrt, jafnvel reykt – ég get sjálf eiginlega ekki drukkið það fyrir hádegi.

*Soldið taðbragð af því?*

Tja, þú segir nokkuð. Það skyldi þó aldrei vera.

*Er eitthvað sameiginlegt með kaffismökkun og vínsmökkun? *

Eflaust. Eins og vín er búið til úr mörgum mismunandi þrúgum þá er kaffi búið til úr mismunandi baunategundum. Svo skiptir jarðvegurinn og staðsetningin líka miklu máli, alveg eins og í víninu. Og svo auðvitað úrvinnsla hráefnisins; blöndur og brennsla.

*Svo haldið þið skrá yfir viðskiptavini. *

Já, við höldum smá skrá yfir fólk sem kemur og kaupir kaffibaunir eða malað kaffi. Það er t.d. mikilvægt að kaffi sé rétt malað, mismunandi kaffivélar kalla
á mismunandi lögun, heimilisespressovélarnar taka til dæmis ekki næstum því allar sömu mölun, það er mjög mismunandi eftir framleiðendum hvaða mölun hentar. Þeir sem biðja okkur að mala fyrir sig muna svo ekki endilega stillingarnar á milli heimsókna og eru jafnvel að prófa sig áfram. Stundum man fólk jafnvel ekki hvaða tegund það fékk síðast, við bjóðum yfir 20 tegundir svo það er ekkert skrítið. Þá kemur sér vel að eiga glósur. Og ef fólk var ekki að fíla kaffið sem það keypti síðast getum við séð hvaða tegund það var og fundið aðra tegund næst. Við fáum líka oft áhugaverðar upplýsingar frá fólki um hvaða kaffi gengur í hvaða kaffivél.

*Hverjir kaupa kaffi hjá þér, svona fyrir utan okkur?

Einstaklingar og fyrirtæki; bara allir sem fíla gott, ítalskt kaffi. Fólk dettur auðvitað mikið inn af götunni en við eigum líka tryggan kjarna sem kemur reglulega. Og mér finnst ég líka oft taka eftir því að sami hópur fólks kemur samtímis – samt ekkert endilega á sama tíma dagsins. Þetta er svolítið eins og sjávarföllinn – það er eins og það sé hópur fólks sem er allt á sömu öldunni.

Kaffifélagið, Skólavörðustíg 10, opið mán.-fös. frá 7:30 til 18:30, lau. 10:00-16:00. www.kaffifelagid.is

 

Ein athugasemd

Filed under ítalía, kaffi, matur

Lucien Le Moine og aðrir Búrgúndarar fá lofsamlega umsögn í Wine Spectator

.

Það má segja að Lucien Le Moine ríði feitum hesti frá einkunna-afhendingu Wine Spectator fyrir vín frá Búrgúndarhéraði af 2005 árgangi. 16 rauðvína framleiðandans af 2005 árgangi eru til umfjöllunar í blaðinu og fær ekkert þeirra undir 93 stigum. Hann endurtekur því leikinn frá því þegar 2004 árgangurinn frá Búrgúnd var til umfjöllunar þegar vín Lucien Le Moine voru líka fremst á meðal jafningja að mati blaðsins (lestu meira).

Annars staðar í blaðinu er svo fjallað um næsta árgang 2006, sem við flytjum hingað til Íslands í september, þar sem nokkrir framleiðendur eru valdir til sérstakrar umfjöllunar og teknir við þá viðtal og er Mounir Saouma, eigandi Lucien Le Moine, í þeirra hópi.

Það sem gerir Lucien Le Moine svo ennþá heitari er eins og lesa má úr upplýsingum Wine Spectator að hann framleiðir yfirleitt ekki meira en 50 kassa af hverri sort (600 flöskur) á meðan að sumir framleiðendur í Búrgúnd eru að senda fleiri þúsund flöskur af sambærilegum vínum bara á Bandaríkjamarkað.

Ég spái því að vínin frá Lucien Le Moine eigi eftir að auka hressilega við verðgildi sitt í framtíðinni sökum frábærra dóma, ekki síst í amerísku pressunni, og vegna þess hversu lítið er til af þeim.

Í sama tímariti fá vínin fá Jean Grivot sömuleiðis hörkudóma en ekki er langt síðan að það var bloggað um það hér þegar að blaðamaður Decanter valdi framleiðandann í efsta elítuhóp framleiðenda í Búrgúndarhéraði (lestu meira). Í Wine Spectator er hluti rauðvína Jean Grivot af 2005 árgangi til umfjöllunar og hljóta einkunnir á bilinu 89 til 94 stig.

Ekki verra að glæsileg mynd af Clos Vougeot vínekru Jean Grivot prýðir forsíðu tímaritsins.

Nokkur vín frá Vincent Girardin eru sömuleiðis til umfjöllunar í Wine Spectator og fá á bilinu 86 til 94 stig en þess verður að geta að lína framleiðandans er mjög breið og spannar allt frá ódýrustu vínflokkum svæðsins til þeirra bestu og í þetta skiptið vantaði flest betri vín framleiðandans í umfjöllun blaðsins.

Þegar öllu er á botninn hvolf — Glæsileg útkoma vína frá okkar framleiðendum í Búrgúndarhéraði í þessu nýjasta hefti bandaríska víntímaritsins Wine Spectator.

Svo verð ég að koma að þessari hlýju umfjöllun um okkur og vínin okkar frá Búrgúnd í Gestgjafanum. 

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, dómar, Gestgjafinn, grivot, lucien le moine, vincent girardin, wine spectator