Monthly Archives: júlí 2008

Átta ný vín frá Ítalíu fara í Vínbúðirnar í dag

Lítil bylting í gangi hér.

Ekki á hverjum degi sem við sendum átta ný vín í Vínbúðirnar. Þessi hersing er afleiðing af heimsókn bloggarans á Vinitaly vínsýninguna í vor (lestu meira um heimsóknina).

Frá Arnaldo Caprai eru tvö ný vín með sama nafni, Anima Umbra rautt og Anima Umbra hvítt, sem ætlað er að fanga anda Úmbría héraðsins eins og nafnið „anima umbra“ gefur til kynna. Þau eru með sniðugum flipa aftan á flöskunni með nafni vínsins sem hægt er að fjarlægja. Umani Ronchi er sömuleiðis að spreyta sig á nýju víni, Pecorino Vellodoro, sem kemur frá vínekrum framleiðandans í Abruzzo héraði. Hvítt og rautt frá Falesco eru með í för, Poggio dei Gelsi og Tellus, bæði frá Lazio héraði. Síðan er það alveg nýr framleiðandi, Lini í Emilia Romagna héraðinu, og koma frá honum tvö freyðandi vín, rautt Lambrusco og hvítt Moscato, en frá Lini höfum við einnig fengið Balsamik edik. Að lokum er það Chianti Classico frá Fontodi sem er nú tæplega alveg nýtt en það er að byrja aftur í vikunni eftir nokkurt hlé frá Vínbúðunum.

Fimm framleiðendur frá fimm mismunandi héruðum á Ítalíu. Tilviljun eiginlega að öll þessi héruð liggja gott sem upp að hvert öðru á miðju stígvélinu.

Vínin átta fást í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni frá og með morgundeginum.

4 athugasemdir

Filed under ítalía, caprai, falesco, fontodi, lini, umani ronchi, vínbúðirnar

Lucien Le Moine er Vínframleiðandi ársins 2008

Bandaríska víntímaritið Wine and Spirits hefur valið Lucien Le Moine sem „2008 Winery of the Year“.

Þetta er í annað sinn sem framleiðandinn hlýtur þessa viðurkenningu.

Tilkynningin mun þó ekki birtast lesendum tímaritsins fyrr en í tölublaðinu sem kemur út um miðjan október og samhliða því verður formleg afhending á viðurkenningunni afhent 14. október í San Fransisco. Þar mun Lucien Le Moine vera fremstur í fylkingu 100 framleiðenda sem tímaritið hefur valið þá bestu þetta árið.

Bestur af þeim bestu.

Nýr sending af Lucien Le Moine vínum kemur um svipað leyti til Íslands ásamt öðrum vínum frá Búrgúndarhéraði.

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, frakkland, lucien le moine, verðlaun/viðurkenningar

Dominique og Eymar heimsækja Arnaldo Caprai

Í lok maí fóru blaðamenn og vínspekúlantar Gestgjafans, mæðginin Dominique og Eymar, í heimsókn til Arnaldo Caprai sem er staðsettur í Úmbría-héraði Ítalíu.

Í nýjasta Gestgjafanum er blaðsíðu-grein um framleiðandann („Arnaldo Caprai – frumkvöðull og hugsjónamaður'“ bls. 75, 9. tbl. 2008) og í blaðinu þar á undan fjallaði Dominique um matar-markað í Perugia, höfuðborg Úmbría héraðsins.

Frekar verður fjallað um heimsóknina í næsta tölublaði Gestgjafans en ég ætla að taka mér það bessaleyfi og hafa það eftir blaðamönnum að þeir voru alsælir með móttökur framleiðandans, vín, mat og menningu héraðsins.

Ævintýri líkast heyrðist mér.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskir blaðamenn heimsækja einn af okkar framleiðendum með svo markvissum hætti síðan við stofnuðum fyrirtækið og er það ekki síst að þakka metnaði framleiðandans til að bjóða blaðamenn svo velkomna og miklum áhuga þeirra mæðgina til þess að kynna sér nýja og spennandi hluti sem eru ekki á allra vörum hér á Íslandi.

Ekki ennþá.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, ferðalög, Gestgjafinn

Viðtal í 24 Stundum í dag vegna íslenskrar myndlistar á vínum frá Sandhofer

.

Bloggarinn og Kristín Gunnlaugsdóttir eru í viðtali í dagblaðinu 24 Stundum í dag vegna vínanna frá okkar manni í Austurríki Hubert Sandhofer.

Eins og hér hefur áður komið fram eru flöskurnar prýddar myndlist Kristínar og hefur hún áritað fyrstu flöskurnar sem fóru í Vínbúðirnar.

Þarna eru myndir af öllum miðunum, ein af bloggararnum og Kristínu og ein til af Kristínu einni en einhverra hluta vegna hafði ljósmyndari blaðsins ekki áhuga á að taka myndir af bloggaranum einum og sér í öllu hans veldi.

Við veltum því aðeins fyrir okkur af hverju blaðið notar vín alltaf í eintölu frekar en fleirtölu en sjálf höfum við vanið okkur á fleirtöluna þegar um er að ræða flöskur og tegundir, þ.e.a.s. „þessi vín“ frekar en að líta á vöruna eins og hvert annað „hveiti“. s.br. „þetta hveiti“. Þó fallbeygjum við nafn fyrirtækisins í eintölu, „til víns og matar“.

Annars er greinin ljómandi góð og þökkum við 24 Stundum kærlega fyrir okkur.

Færðu inn athugasemd

Filed under austurríki, sandhofer, viðtal

Biluð strikamerki – St. Laurent Reserve frá Sandhofer komið aftur í Vínbúðirnar

.

Það var einhver óheppni að strikamerkin á St. Laurent Reserve frá Sandhofer fóru illa í lesarana í Vínbúðunum og þurftum við að sækja allt saman og setja ný strikamerki á flöskurnar.

Okkur þykir miður ef einhver fór fýluferð í Vínbúðirnar og var stoppaður við kassann vegna grunsemda um að hafa undir höndum illlæsilegt strikamerki en viðkomandi getur tekið gleði sína aftur því vínið er komið aftur í hillur Vínbúðanna og bíður eftir því að fara til nýs eiganda.

Færðu inn athugasemd

Filed under sandhofer, vínbúðirnar

Nýjustu viðbætur í bókahilluna

Mig hefur lengi langað í bók Búrgúndarsérfræðingsins Clive Coates The Wines of Burgundy en það sem stoppaði mig frá því að kaupa hana var að ég velti því fyrir mér hvort hún væri ekki nægilega ný af nálinni. Það hefur mikið gerst í Búrgúnd síðustu árin eins og víðast í vínheiminum.

Í vor kom hins vegar ný og uppfærð útgáfa af bókinni og ég sló strax til. Hann fjallar um alla framleiðendur í héraðinu og gefur þeim stjörnu sem standa upp úr, eina, tvær eða þrjár. Það eru ekki margir sem fá þrjár stjörnur en Domaine Jean Grivot er einn þeirra. Vincent Girardin gefur hann eina stjörnu en Lucien Le Moine ekki neina því eins og ég vissi fyrir er hann ekki par hrifinn af þeim litla lúxusframleiðanda og kallar vínin hans Kalíforníuleg. Gott og vel því fæstir sem ég veit um eru sammála honum hvað það snertir.

Bókina keypti ég á Amazon enda er úrval vínbóka ekki gott á Íslandi þótt finna megi eitt og annað. Í sömu sendingu var bókin The Science of Wine sem virkar við fyrstu sýn einkar góð og fræðileg bók um allt það er snertir vísindi vínframleiðslunnar en ég hef leitað eftir slíkri bók með meiri fræðilegri þekkingu en flestar vínbækur veita. Höfundurinn Jamie Goode heldur uppi einhverri vinsælustu vínsíðu Bretlandseyja The Wine Anorak.

Þriðja vínbókin í sendingunni var svo Passion on the Vine eftir Sergio Esposito sem er svona minningarbrot úr ferðalögum hins ítalsk-ættaða höfundar í föðurlandinu fagra en um hana frétti ég á vefpósti IWM vínbúðarinnar í New York sem Sergio á og rekur og selur eingöngu ítölsk vín. Hef aðeins kíkt í hana og lítur sömuleiðis vel út. Hún er svolítið í anda Adventures on the Wine Route eftir Kermit Lynch sem er án efa mín uppáhalds vínbók enda drepfyndin og persónuleg.

Sitt hvað fleira var í sendingunni eins og The 150 Healthiest Foods on Earth sem Rakel valdi og fjallar um eins og nafnið gefur til kynna hollustu finnanlegu hráefnin að mati höfundar og ný Valla bók fyrir litla manninn en þó aðallega nótur, píanó/söng-nótur af óperunum Rigoletto og Attila eftir Verdi og píanólög eftir óperutónskáldið og matgæðinginn Rossini sem vöktu áhuga minn en þau samdi höfundurinn á efri árum sínum löngu eftir að hafa hætt alfarið óperutónsmíðum þegar vín og matur áttu nánast hug hans allan.

Allt þetta á u.þ.b. 14.000 kr. með vsk sem er ekki slæmt og tók um viku í afgreiðslu.

Færðu inn athugasemd

Filed under bækur

Vínkeðjan: Unnur María bloggar um Montefalco

Þá er næsti hlekkur kominn í vínkeðjuna.

Unnur María var ánægð með Montefalco og ekki spillti fyrir að framleiðandinn Arnaldo Caprai hafði hlotið viðurkenningu frá Slow Food samtökunum á Ítalíu fyrir gæði vínanna því Unnur hefur „snobbað alveg agalega fyrir öllu því sem fær samþykkisstimpil Slow Food samtakanna“ eins og hún segir sjálf frá.

Lestu bloggið hennar Unnar Maríu um Montefalco

Hér má reyndar bæta við að Caprai er ekki bara með viðurkenningu frá samtökunum fyrir vínin sín heldur er hann sjálfur mjög Slow Food sinnaður og notar hvert tækifæri til þess að koma á framfæri matargerð og menningu Úmbría héraðsins og dró með sér eitt stykki kokk hingað til Íslands ekki alls fyrir löngu (sjá myndir).

Hún skorar á Helgu Þóreyju til þess að taka við keflinu og hefur hún tekið áskoruninni.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, dómar, vínkeðjan