Þegar við höldum vínsmakkanir erum við oft spurð að því hvernig við förum að því að finna framleiðendur okkar.
Eðlileg spurning í ljósi þess að framleiðendur eru svo margir – hvernig kemur maður auga á þá sem skipta máli?
Leiðirnar eru nokkrar en í flestum tilfellum kynnumst við framleiðendum okkar fyrst í gegnum lestur bóka, tímarita og vefsíðna. Þar eru greinar og dómar um framleiðendur og vín þeirra og oftar en ekki dúkkar sama nafnið upp á fleiri en einum stað með jákvæðum umsögnum. Stundum gerist það af tilviljun, stundum eftir markvissa rannsókn með ákveðið markmið í huga.
Við þetta má bæta að öðru hvoru fáum við góðar ábendingar frá öðrum vínunnendum og einstaka sinnum svörum við jákvætt tölvupósti frá framleiðanda sem hefur áhuga á að selja til Íslands en við fáum oft sendan tölvupóst, jafnvel frá þekktum framleiðendum.
Þegar búið er að sigta út góðan framleiðanda þarf að smakka vínin ef við höfum ekki þegar gert það við eitthvert tilefni, t.d. kynntumst við mörgum góðum framleiðendum þegar við áttum heima í Boston og síðar á Ítalíu. Við smökkum með því að fá send sýnishorn með hraðpósti (borgum tolla og vsk af þeim) eða heimsækjum framleiðendur á vínsýningum eða förum beint heim til þeirra.
Yfirleitt tekur ferlið marga mánuði, stundum nokkur ár. Við viljum vera viss.
Þá er vínið pantað, ekkert flóknara en það. Eimskip sækir og sendir, Vöruhótelið geymir við gott hitastig og þaðan fer varan í ÁTVR og á veitingastaði.