Monthly Archives: október 2008

Vín í vanda

Það hefur ekki farið framhjá neinum að innflutningur til Íslands liggur gott sem niðri.

Við erum ágætlega birg af þeim vínum sem fást í Vínbúðunum þessa stundina en þetta kemur hugsanlega til með að hafa áhrif á innkomu nýju vínanna sem sérfræðingar Vínbúðanna völdu nýlega í svokallaðan Sérflokk. Vín og matur fékk þar tæplega 20 fulltrúa sem fæstir hafa fengist áður í Vínbúðunum.

Sérflokkur er flokkur vína í Vínbúðunum sem byggist á smakki sérfræðinganna og er ætlað að gera vínum kleyft að fást í Vínbúðunum sem annars ættu erfitt uppdráttar. Þ.e.a.s. flokkurinn bætir upp og breikkar flóruna með vínum frá t.d. sjaldgæfari vínræktarsvæðum eða úr ákveðnum þrúgum, lífrænum vínum, dýrari vínum o.s.frv.

Fyrir lítið fyrirtæki eins og okkar sem fæst einmitt talsvert við slík vín þá er Sérflokkurinn mikilvæg og góð leið til að tryggja okkar vínum betri sess í hillum Vínbúðanna en ella, bæði með tilliti til fjölda tegunda og dreifingar því sérflokksvínum er dreift í margar Vínbúðir.

Gengi krónunnar hefur verið nokkuð stöðugt undanfarið en veikt og því höfum við haldið að okkur höndum með von um að það styrktist en svo virðist ekki ætla að gerast í bráð. Sérflokksvínin eru því enn í biðstöðu en við lifum í voninni að einhver þeirra a.m.k. verði fáanleg fyrir jól. Hvort maður fær svo að kaupa gjaldeyri til að flytja þau inn yfir höfuð höfum við ekki hugmynd um því ekki hefur reynt á það ennþá síðan núverandi ástand skapaðast.

En það verður til vín, já, já, það verður til vín.

Færðu inn athugasemd

Filed under innflutningur, vangaveltur, vínbúðirnar

Bingó! Áskrifendur að vínpóstinum eru orðnir fleiri en 700

Það var efnt til póstlistaáskorunar (lestu meira).

Verðlaun voru tilkynnt.

Fyrir hverja 100 sem bætast við í dyggan áskrifendahóp Vínpóstsins er einn heppinn dreginn úr og hlýtur í verðlaun vínsmökkun fyrir sig og sína.

Og það var að gerast.

Áskrifendur Vínpóstsins sigldu fram úr 700 í vikunni.

Þá er að bretta upp ermar, draga út þann heppna og blása í lúðra.

Takmarkið bjartsýna er að auka hópinn í 900 áskrifendur sem þýðir að dregið yrði a.m.k. tvisvar í viðbót auk þess sem að haldið verður svaka partý þegar þeim góða fjölda er náð.

Smelltu hér til að skrá þig í hóp ánægðra áskrifenda

Vinningshafi verður tilkynntur innan skamms, ekki fara langt.

Færðu inn athugasemd

Filed under happdrætti, vínpósturinn

Vínkeðjan — Óttar Völundarson drekkur Anima Umbra í partýi

Meðalmaðurinn Óttar Völundarson bloggaði nýlega um rauðvínið Anima Umbra frá Arnaldo Caprai.

Hann prófar það í kjöraðstæðum, í partýi.

Óttar kemst reyndar að því að verðsins vegna sé það eilítið of dýrt fyrir meiriháttar partýdrykkju og mælir frekar með því að vínsins sé notið með pastarétti á föstudags- eða laugardagskveldi.

Lestu hvað Óttari finnst um Anima Umbra

Þá er að koma flösku til næsta bloggara sem er kominn í startholurnar.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, dómar, vínkeðjan

Lambrusco frá Lini — Bestu kaupin í Gestgjafanum

.

Við vissum það en við vorum ekki viss um að Gestgjafinn myndi vita það.

 

Vita hvað?

Lambrusco frá Lini væri ekki eins og flest þau vín sem Íslendingar hafa fengið að kynnast undir heitinu „lambrusco“ heldur eitthvað annað og meira. Þurrt, vel freyðandi og berjaríkt — alveg eins og gott, hefðbundið (þ.e.a.s. samkvæmt upprunalegu hefðinni) lambrusco á að vera, framleitt af bónda en ekki verksmiðju.

Jú annars, við hefðum átt að vita að Gestgjafinn myndi vita það því rýnar blaðsins fjalla um vín af smekkvísi og með opnun hug. Lambrusco frá Lini er valið þar Bestu kaupin og fær 4 glös.

Ég hef ekki gert könnun en það kæmi mér ekki á óvart að ofar hefði lambrusco ekki lent fyrr í einkunnaskala tímaritsins.

Síðan Lambrusco frá Lini kom til landsins í sumar hefur það hlotið þann „vafasama“ titil að vera mest drukkna vínið á okkar bæ. Við drekkum það skv. hefðinni með lasagna, tortellini, bolognese og þess háttar og að sjálfsögðu með parmaskinku eða heimlagaðri föstudagspizzu en okkur líst líka vel á meðmæli Gestgjafans; kálfakjötsrétt eða súkkulaðiköku.

Lini 910 Lambrusco Scuro — 4 glös Bestu kaupin
Það hafa eflaust margir smakkað Lambrusco og sumir drukkið ótæpilega af því. Fæstir hafa þó smakkað alvöru-Lambrusco, þar á meðal ég sjálfur, þar til núna. Mynd flestra af drykknum er sætur, hálffreyðandi rauðvínsvökvi en hér erum við að ræða um skraufþurrt rauðvín með mikinn ávöxt og fínlegar loftbólur, gert með „méthode champagnoise“, þ.e.a.s. þar sem seinni gerjun fer fram í flöskunni. Vínið er með opinn og ferskan kræki-, kirsu-, og bláberjailm ásamt tóbaki, kryddi og leðri. Í munni er það ferskt, hálffreyðandi og með vott af tanníni. Mikill ávöxtur, létt krydd, góð lengd og flottur karakter er í þessu víni. Matarvænt og má prófa með parmaskinku, kálfkjötspottréttum eða súkkulaðiköku, í tilraunaskyni!.
Verð 1.695 kr.
Okkar álit: Enn einu sinni fá fordómar að fjúka út um gluggann. Alvöru-Lambrusco sem er nauðsynlegt fyrir hvaða áhugamann sem er að smakka. Enn ein perlan frá Vín og Mat sem á hrós skilið fyrir að bjóða okkur upp á vín eins og þetta.“  (- Gestgjafinn 13. tbl. 2008)

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, lini

Myndir úr frakklandsferð

.

Við Rakel og yngsta afkvæmið Áslaug Birna skruppum til Frakklands í lok september.

Ferðalaginu verður betur líst hér innan skamms en myndirnar eru komnar á flickr.

Myndasýningin hefst í París þar sem við kíktum í óperuna, röltum um og borðuðum góðan mat.

Þaðan tókum við lest til Montpellier og heimsóttum síðan á fjórum dögum vínframleiðendur allt frá S-Frakklandi og norður eftir til Búrgúndarhéraðs, smökkuðum vín og fylgdumst með uppskerunni sem var víðast hvar í fullum gangi.

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, frakkland, myndir

Útsala, útsala!

HIn árlega rauðvínsútsala er komin í gang og í fyrsta skipti notum við nýtt innkaupakerfi sem gerir fólki kleyft að panta á netinu.

Þú pantar vínið með því að nýta þér kerfið okkar en sækir að sjálfsögðu sem fyrr í Vínbúðirnar.

Þessi fítus hefur verið í bígerð lengi og er þetta fyrsta skrefið í þá átt að bjóða til sérpöntunar ýmis vín, smakkpakka og þvíumlíkt sem fasta liði á vefnum okkar.

Þetta er í raun einfalt kerfi; þú hakar við þau vín sem þú hefur áhuga á, gefur upp nafn, netfang, kennitölu og síma og velur jafnframt í hvaða Vínbúð þú vilt sækja pöntunina þegar hún er tilbúin. Þegar því er lokið sendir þú pöntunina og þá fer hún beina leið, í þínu nafni og með þínu netfangi, til ÁTVR sem staðfestir móttöku pöntunar með því að svara þér tölvupóstinum og lætur síðan vita þegar hún er tilbúin til að vera sótt.

Einfalt er það ekki?

En að útsöluvínunum. Þau eru 8 talsins, allt rauðvín. Lágmarkspöntun er 12 flöskur sem má velja og blanda að vild en ef teknar eru 12 flöskur eða meira af sömu sort þá er veittur 5% aukaafsláttur af útsöluverði þeirrar sortar.

Smelltu hér til að fara inn á útsölusíðuna

Við þökkum þau góðu viðbrögð sem útsalan hefur þegar vakið og vonum að vínin veki lukku hjá þér og þínum.

Færðu inn athugasemd

Filed under útsala, tilboð