Monthly Archives: nóvember 2008

St. Laurent Reserve í fleiri Vinbúðir yfir hátíðarnar

Þemadagar svokallaðir ríkja í Vínbúðunum í desember þar sem lögð er áhersla á vín með villibráð.

Vínin á þemadögunum eru pöruð með ákveðnum réttum sem innihalda villibráð og fá sérstaka merkingu í hillunum samkvæmt því.

Birgjar fá að tilnefna sjálfir hvaða vín veljast á þemadagana og með hvaða réttum þau skuli parast en vínráðgjafar vínbúðanna hafa yfirumsjón með verkefninu og sjá til þess að tilnefnd vín fari vel með viðkomandi réttum og geta breytt óskum birgjanna eftir sínu nefi og þekkingu. Það er gert svo að birgjar séu ekki að tilnefna vín sem eiga ekkert erindi með viðkomandi réttum heldur tilnefna þau bara til þess að auka sölu viðkomandi vína.

Þar sem Vín og matur er lítið fyrirtæki fáum við færri tilnefningar en stóru birgjarnir, þ.e.a.s. birgir þarf að eiga ákveðið mikið af vínum í svokölluðum kjarna til þess að eiga rétt á hámarksfjölda tilnefninga. Sömuleiðis eru aðgangur vína sem er í reynslusölu eða í svokölluðum sérflokki takmarkaður verulega en aðeins má tilnefna eitt vín úr þeirra röðum.

Hvort tveggja þýðir að okkur er þröngur stakkur skorinn hvað tilnefningar varðar og fór það svo þetta árið að við tilnefndum bara eitt vín, rauðvínið St. Laurent Reserve frá Sandhofer.

St. Laurent Reserve er að okkar mati frábært með t.d. önd eða gæs, á þemadögunum er það einmitt parað með uppskrift af villiandabringum. Það er úr þrúgu sem sjaldan sést í Vínbúðunum, St. Laurent heitir hún eins og vínið, og glæðir vínið því úrval Vínbúðanna að okkar mati sem á það til að verða á köflum einsleitt. Ilmurinn af víninu er afskaplega heillandi, vínið mjúkt í munni og fágað.

St. Laurent Reserve er reynsluvín, það fæst því eingöngu í Heiðrúnu og Kringlunni, en til viðbótar fær það dreifingu í Skútuvog, Smáralind, Eiðistorg og til Akureyrar yfir hátíðarnar.

150 flöskur af víninu fara í þessar Vínbúðir öðru hvoru megin við helgina. Meira eigum við ekki til, í bili a.m.k. og erfitt að sjá fyrir sér að verðið á því (2.695 kr.) verði svona hagstætt á næsta ári en þetta er sama verð og frá því í sumar.

Gestgjafinn valdi vínið á dögunum sem Vín mánaðarins. Lestu dóminn

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, sandhofer, vínbúðirnar

Vínþjónasamtökin veita okkur Hvatningarverðlaunin 2008

Grandalaus gekk ég inn á Hilton Hótel Nordica í gær klukkan 16.00 og hugsaði hvað það gæti verið notalegt að vera útlendingur í smá stund í þessu fína lobbíi og sötra kannski eins og einn GT, Martini eða freyðivínsglas, með allt krepputalið hinum megin við glerið.

Tilefnið var reyndar að kíkja á samkomu hjá Vínþjónasamtökum Íslands og smakka á 10 vínum sem samtökin veittu Gyllta Glasið þetta árið. Í þetta sinn kepptu einungis vín undir 2.000 kr. frá Ameríku um glasið og tókum við því ekki þátt en stefnum á að gera það í fyrsta skipti að ári.

Þetta stutta innlit átti heldur betur eftir að enda á skemmtilegan hátt þegar kom að veitingu Hvatningarverðlauna Vínþjónasamtakanna árið 2008. Þetta er í annað sinn sem verðlaunin eru afhent, í fyrra féllu þau í skaut Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Verðlaunin eru veitt „sem viðurkenning fyrir að stuðla markvisst að vínmenningu á Íslandi, með því að leggja áherslu á vandað úrval af víntegundum á aðgengilegu verði.“

Ræðumaður hafði þessi orð að segja:

„Á tíma þennslunnar sótti hann nýja framleiðendur heim og valdi vandlega nokkra þeirra sem höfðu öðlast frægð á heimsmarkaðnum (eða ekki) en voru líka sérstakir persónuleikar sem mynduðu persónutengsl. Hann stækkaði sjóndeildarhringinn, sinn og annarra, að miklu leyti af hugsjón. Hann hélt okkur við efni og kynnti fyrir okkur vínbændum sem eiga ekki erindi í heimsvæðingu og eru lífandi tákn síns héraðs. Hann minnir okkur stöðugt á að hafa gæði að leiðarljósi en ekki gefa eftir í auðvelda sjónarmiðið “þetta er svo vinsælt”, hann minnir okkur á að gera kröfur.

Hann vinnur einn og er flokkaður sem “eins manns birgi”, en hann nær þó að halda uppi fróðlegri kröftugri heimasíðu, markvissu fréttabréfi þar sem skín hans kimnigáfa, hann slakar ekki á gæðum og lætur ekki ginnast af massaframleiðslu vínheimsins.

Hann á skilið að fá alla hvatningu sem hægt er að veita til að halda áfram á þeirri braut og það sérstaklega á erfiðum tímum því við þurfum öll að fá smá hlutdeild í hans hugsjón og jákvæðni.

Hann heitir Arnar Bjarnason og þekktur sem Arnar í Vín og Mat“.

Lestu fréttina á vef Vínþjónasamtakanna

Undirritaður leit í kringum sig til að kanna hvort það væri ekki örugglega einhver annar Arnar Bjarnason á staðnum en svo var ekki og rölti hálf vandræðalegur upp að púltinu og tók við verðlaununum Honum leið eins og fegurðardrottningnu nema að fegurðardrottning hefði haft eitthvað að segja en það hafði undirritaður alls ekki og lét sig hverfa aftur út í salinn (honum datt síðan margt sniðugt í hug á leiðinni heim).

Þetta hefði hann viljað segja:

Vín og matur er samstarfsverkefni okkar Rakelar og allra þeirra sem hafa tekið þátt í því sem við erum að gera, með því að fjalla um vínin okkar, með því að lesa Vínpóstinn okkar, með því að setja vínin okkar á vínlistinn sinn, með því að spyrja um vínin okkar í Vínbúðunum, með því að senda okkur ábendingar og hvatningu, og svo mætti lengi telja. Við þökkum ykkur öllum og ekki síst Vínþjónasamtökum Íslands fyrir svo hugulsöm orð og hvatninguna.

Takk, takk, takk.

Kiss og knús.

5 athugasemdir

Filed under fréttir, Vínþjónasamtökin

Og fyrsti vinningshafinn í póstlistaáskoruninni er…

… Tryggvi Blöndal!

Innilega til hamingu með vinninginn Tryggvi.

Tryggvi var númer 654 á póstlistanum og hlýtur að launum vínsmökkun fyrir sig og sína ásamt fyrsta flokks ítölsku fingurfæði frá veitingastaðinum La Primavera.

Við Tryggvi erum þegar farnir að skipuleggja vínsmökkun fyrir hann og hans fólk á næstu vikum.

Nú er gott að vera vinur Tryggva.

Við minnum á að póstlistaáskorunin er í fullum gangi ennþá, næst verður dreginn út sambærilegur vinningur þegar fjöldi áskrifenda að Vínpóstinum verður 800 manns. Þá verður einn áskrifandi dreginn út úr þeim sem bættust við frá 701 til 800.

Vinningslíkur eru því 1 á móti 100 fyrir hvern nýjan áskrifanda.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, happdrætti, la primavera, vínpósturinn, vínsmökkun

Útsalan vekur sterk viðbrögð

Það er varla hægt að tala um að útsalan sé ennþá í gangi því aðeins ein tegund er eftir af þeim 8 sem lagt var upp með. Það er samt ennþá hægt að panta hana á meðan birgðir endast.

Og nú ætla ég ekki að vera eins og Ríkisstjórn Íslands og gefa sem minnst upp heldur upplýsi hér með að seldar voru um 1.200 flöskur á útsölunni.

Við græddum ekkert á þessu nema ánægjuna með þessi góðu viðbrögð.

Eitt skrítið gerðist. Nýtt nnkaupakerfi ÁTVR var ekki tilbúið til þess að skrá eitt og sama vínið á mismunandi verðum og fengu því allir 5% aukaafslátt sem auglýstur var eingöngu til handa þeim sem keyptu vín í kassavís. Líklegast náum við samt að laga það fyrir næstu útsölu.

2 athugasemdir

Filed under útsala, fréttir, tilboð

Tvö snertimörk í Gestgjafanum – The Footbolt og St. Laurent Reserve

Mitt í önnum og jafnvel almennri bloggleti gleymdist að færa það til bókar að rauðvínið St. Laurent Reserve 2006 frá Hubert Sandhofer hlaut hina eftirsóttu viðurkenningu Vín mánaðarins í nýlegum Gestgjafa.

Snertimark!

Þetta kórónar frábæra útkomu Sandhofer vínanna þriggja með íslenska flöskumiðanum því hvítvínið Gruner Veltliner 2007 og rósavínið Rosando 2006 höfðu áður fengið 4 glös af fimm í Gestgjafanum.

Þeim mæðginum Dominique og Eymari finnst St. Laurent Reserve 2006 „líkjast pinot noir grunsamlega mikið“ sem er ekki undarlegt því ilmur vínsins og ekki síst fáguð áferðin minnir á þá sómaþrúgu.

Síðan þessi góðí dómur birtist hafa ekki liðið nema tvö tölublöð þar til að vín frá okkur hlýtur aftur titilinn Vín mánaðarins í Gestgjafanum, í þetta skiptið The Footbolt 2004 frá d’Arenberg.

Annað snertimark!

Við förum eiginlega hjá okkur eftir alla þessa jákvæða gagnrýnu í garð okkar vína í Gestgjafanum en erum þó aðallega þakklát fyrir þessi góðu viðbrögð og hrósum þeim fyrir þann góða smekk sem ríkir í herbúðum tímaritsins :-)

The Foobolt 2004 fær eiginlega ennþá betri umfjöllun en St. Laurent því hún hittir svo vel í mark með lýsingum eins og „hvergi neitt úr hófi“, „laust við allar öfgar sem oft finnast í shiraz-vínum“, „alvöru matarvín“ og svo ekki sé minnst á hina mjög svo hógværu fullyrðingu „frábært vín“.

 

Þetta er annað vínið frá d’Arenberg sem er valið Vín mánaðarins í Gestgjafanum því áður hafði The Laughing Magpie hlotið þá viðurkenningu með fullt stig húsa, 5 glös.

Hér birtast dómarnir í heild sinnni.

 

d’Arenberg The Footbolt 2004VÍN MÁNAÐARINS 4 1/2 glas
Hér er endurkoma eins skemmtilegasta shiraz-vín frá Ástralíu sem Vínbúðirnar hafa haft í hillum sínum og fögnum við því vel. Fjölskyldufyrirtækið d’Arenberg er skemmtilegur og hugmyndaríkur en fyrst og fremst vandaður framleiðandi og sést það glöggt á vínum þeirra. Þessi fótbolta-shiraz hefur opinn, margslunginn og kraftmikinn ilm af kryddi, mentóli, lakkrís, fjólum, bláberjum, sveskjum og plómum og létta eik í bakgrunni. Í munni er það milt með ansi góða fyllingu og þægilegt tannín. Jafnvægið er flott og má hvergi finna neitt úr hófi. Dökkur ávöxtur, krydd, fjólur, lakkrís og létt eik einkenna vínið í munni og endar það á krydd- og mokkatónum. Frábært vín. Drekkið með villibráð s.s. gæs með kryddjurtum og skógarberjum.
Verð 1.979 kr.
Okkar álit: Virkilega verl gert og laust við allar öfgar sem oft finnast í shiraz-vínum. Alvöru matarvín.“ (Gestgjafinn 14. tbl.) 

 „Hubert Sandhofer St. Laurent Reserve 2006VÍN MÁNAÐARINS 4 – 4 1/2 glas
Sankt Laurent er merkileg þrúga og ekki eru allir á eitt sammála um uppruna hennar. Austurríkismenn vilja meina að þessa sé stökkbreytt pinot noir á meðan aðrir vilja meina að svo sé alls ekki. En ásamt blaufrankisch er St. Laurent foreldri zweigelt sem er vinsælasta þrúga Austurríkis. Vínið er með opinn og margslunginn ilm af rauðum berjum, léttri eik, kaffi, vanillu, sveppum og sedrusviði. Veit ekki um aðra en mér finnst þetta líkjast pinot noir grunsamlega mikið. Í munni er það ferskt og milt með lítið og gott tannín og fallega heild. Svipuð einkenni og í nefi með sama feitlega ávöxtinn ásamt kryddi og góðum skógarbotnstónum. Endar á ávextinum og eikinni. Skemmtilegt vín sem er vel skreytt. Smellpassar með önd eða góðri steik með villisveppasóu.
Verð 2.695 kr.
Okkar álit: Drekkið við u.þ.b. 16°C. Fágað vín með góða fyllingu og mikinn sjarma. Ekki langt frá því að vera gott pinot noir frá Búrgúndí. “ (Gestgjafinn 12. tbl. )

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, dómar, Gestgjafinn, sandhofer

Flest okkar vín á óbreyttum verðum fram yfir jól

Við fengum margar hringingar á föstudaginn varðandi þá miklu hækkun 1. nóvember í Vínbúðunum sem fólk taldi að myndi gerast og hafði farið eins og eldur um sinu um samfélagið.

25% héldu flestir að hækkunin myndi verða og einn hafði heyrt 50%.

Þetta var mikill miskilningur því þótt mörg vín hafi hækkað í Vínbúðum þessi mánaðarmót var hækkunin ekki nema um 5% að meðaltali þegar uppi var staðið og var það ekki ÁTVR sem lagði hana á heldur vínheildsalar sem hafa þurft að glíma við lækkandi krónu undanfarið eins og aðrir sem flytja inn vöru.

Okkar vín stóðu hins vegar í stað fyrir utan eitt sem hækkaði nýlega um nokkur prósent og stefnir í að við þurfum ekki að hækka neitt einasta vín fram yfir jól, hvað gerist á nýju ári veltur á stöðu krónunnar að sjálfsögðu. Góðkunningjar frá Caprai, d’Arenberg, Fontodi, Sandhofer, Falesco og fleirum verða áfram á óbreyttu verði.

Skál fyrir því!

Nýju sérflokksvínin sem við erum enn með í biðstöðu varðandi innflutning munu hins vegar verða dýrari á endanum heldur en reiknað var með miðað við núverandi gengi en þar sem við höfum ekki keypt þau ennþá er ómögulegt að spá hvert lokaverðið verður eða hvort þau komi landsins yfir höfuð (sjá eldra blogg). Þessi nýju sérflokksvín hafa verið skráð á vefsíðu Vínbúðanna en þau verð byggjast á tilboðum sem gerð voru í ágúst þegar gengi var allt annað og því varla marktæk í stöðunni eins og hún er nú. Það er einfaldlega sú staðreynd sem blasir við.

Færðu inn athugasemd

Filed under innflutningur, vínbúðirnar