Monthly Archives: desember 2008

Og enn af verðbreytingum…

Það er ekki annað hægt að segja en að starfsmenn Vínbúðanna hafi haft nóg að gera í verðmerkingum síðusta misserið.

Fyrst var það hver hækkunin á fætur annarri sem skall á þegar gengið féll og féll og vínkaupmenn þurftu að hækka söluverð í kjölfarið, síðan hækkun á áfengisgjaldi og loks breytingar á lögum er varða álagningu ÁTVR.

Þessari síðustu verðbreytingu var dembt á starfsmenn Vínbúðanna og landsmenn alla 22. desember. Skemmtilegur jólaglaðningur það. Nú er álagning á öll léttvín 18% og það sem er merkilegt við það er að það er ekki munur gerður á því hvort léttvínið fæst í kjarna eða reynslu. Áður var álagningin 13% fyrir fyrrnefnda flokkinn en 19% fyrir þann síðari.

Við höfum alltaf verið með nánast öll vínin okkar í reynslu, þ.e.a.s. í 19% flokkinum, sem hafa þar af leiðandi þurfti að etja kappi við 13% vínin en nú eru öll vín jöfn og kvörtum við svo sem ekki yfir því (þótt betra hefði verið ef sameiginlega prósentan hefði farið niður en ekki upp). Við höfum bara átt tvö vín í kjarna undanfarið, Arnaldo Caprai Grecante og Castello di Querceto Chianti Classico Riserva og hækkuðu þau tvö svolítið á meðan öll hin vínin okkar í Vínbúðunum lækkuðu um þetta prósentustig.

Nú þarf ég að fara að breyta verðunum á www.vinogmatur.is því þau eru flest úreld.

Já það er fjör.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, castello di querceto, fréttir, vínbúðirnar

Lítið djásn frá Lini fjölskyldunni

Það er nokkuð síðan að vínin okkar fengu umfjöllun í Morgunblaðinu. Það var því sérstaklega ánægjulegt að opna sunnudagsmogga einn fyrir jól og lesa þesa fínu umfjöllun sem þar birtist um hvítvínin Pecorino 2007 frá Umani Ronchi (88 stig) og Grecante 2007 frá Arnaldo Caprai (91 stig) en þó sérstaklega um hið skemmtilega Lambrusco Scuro frá Lini (91 stig).

Steingrímur fangar mjög vel karakter þessara þriggja vína í lýsingum sínum á þeim.

Þannig finnst honum Pecorino anga m.a. af „fersku grasi“ og „steinefnum“ og Grecante einkennast af dæmigerðri ítalskri „lífsgleði“.

En Lambrusco Scuro virðist alveg hafa slegið í gegn hjá honum því ekki man ég eftir umfjöllun hér á landi um lambrusco vín sem fjallað er um svo lofsamlega — nema ef vera skyldi umfjöllun Gestgjafans um sama vín fyrir skömmu (lestu dóminn í Gestgjafanum sem velur vínið Bestu kaupin).

Honum finnst Lambrusco Scuro vera „lítið djásn“ og mælir með því „fyrir þá sem vilja koma nýjungagjörnum gestum á óvart og vera svolítið „molto chic“ eða þá einfaldlega bara njóta af einstaklega góðu víni.“

Og ekki spillir fyrir hvað flaskan er flott.

Svona lítur öllu umfjöllun Steingríms um okkar vín út, eins og hún birtist undir fyrirsögninni „Getur vín verið sauðslegt?“:

„Ég myndi ekki halda því fram að það væri sauðslegt en Pecorino 2007 er engu að síður vín – eða öllu heldur þrúga – sem dregur nafn sitt af rollum. Á þessu eins og öllu öðru eru til skýringar, eftir að vínviðurinn og búsmalinn höfðu deilt rými um alda skeið ætti engum að koma á óvart að þau dragi dám hvort af öðru. Hagar Pecorino hafa verið við Adríahafsströnd Ítalíu en hún hefur löngum fyrst og fremst verið notuð til blöndunar, þ.e. að veita öðrum þrúgum smásýruskot þegar þurft hefur á að halda.

Vínhúsið Umani-Ronchi (sem íslenskir vínunnendur þekkja flestir í gegnum hvítvínið Casal di Serra) setti fyrir nokkrum árum í gang athyglisvert verkefni er miðar að því að endurvekja margar af óþekktari þrúgum austurstrandar Ítalíu. Kannski ekki ósvipað og Torres hefur gert með þrúgur Katalóníu.

Pecorino 2007 er ferskt í nefi með fersku grasi, hveiti og geri, gulum perum og steinefnum (hveravatni). Sýran gerir vínið létt og lipurt og það ætti að vera ágætis fylgifiskur með t.d. salati og bleikju. 88/100

Annað hvítvín frá Ítalíu er Grecante úr smiðju Arnaldo-Caprai, eins besta framleiðanda Úmbríu. Ef maður vill alhæfa má segja að gott franskt vín einkennist gjarnan af mikilli fágun. Gott ítalskt vín hins vegar af lífsgleði. Það á við hér. Aðlaðandi og ferskur, sætur ávöxtur. Granny Smith-epli og perur, ferskar fíkjur og blóm. Það hefur þægilegt og ferskt bit og góða lengd. Tilvalið með flestu. 1.889 krónur. 91/100

Lambrusco-vín þykir ekki fínn pappír hjá mörgum vínunnendum sem gretta sig og fetta þegar þeir heyra þetta orð nefnt. Ég skal fyrstur játa að Lambrusco-nafnið er ekki gæðastimpill í sjálfu sér en rétt eins og með t.d. Soave og Valpolicella er hættulegt að alhæfa. Lambrusco getur nefnilega verið afbragð. Ólíkt því sem flestir halda er Lambrusco ekki samheiti yfir lélegt, sætt rautt freyðivín heldur þrúga en vissulega er framleitt úr henni lélegt, sætt rautt freyðivín. Það er líka framleitt úr henni þurrt rautt freyðivín sem er allt að því unaðslegt, ekki síst með góðum hádegisverði einhvers staðar í sveitum Ítalíu.

Lini-fjölskyldan er ein þeirra sem framleiða Lambrusco samkvæmt gömlum hefðbundnum aðferðum, ekki ósvipuðum þeim sem notaðar eru við framleiðslu á kampavíni. Þetta er alvöru vín og valkostur fyrir þá sem vilja koma nýjungagjörnum gestum á óvart og vera svolítið „molto chic“ eða þá einfaldlega bara njóta af einstaklega góðu víni.

Lini 910 Lambrusco Scuro er lítið djásn, berjaríkt og ferskt með ferskri sýru og allt að því tannískt. Það vinnur á við hvern sopa. Ég myndi jafnvel reyna það með hangikjöti. 1.695 krónur. 91/100„. (Mbl. Steingrímur)

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, dómar, lini, morgunblaðið, umani ronchi

Gleðilega hátíð!

Það hefur ýmislegt gengið á á árinu sem er að líða. Ýmislegt sem stóð til að bjóða uppá með haustinu datt upp fyrir en sem betur fer vorum við ágætlega birg af okkar góðkunningjum áður en gengið féll svo hækkanir okkar vína vegna þessa hafa verið í algjöru lágmarki. Þá bættist við hækkun áfengisgjalds ofan á það sem leiddi til almennrar hækkunar okkar vína um 100 kr. eða svo út úr Vínbúðunum.

Hvatningarverðlaun Vínþjónasambandsins sem okkur voru veitt voru sérstaklega ánægjuleg og efla í okkur kraft til að halda áfram og gera betur.

Sömuleiðis er ánægjulegt hvað áskrifendum Vínpóstins hefur fjölgað mikið á árinu og vonandi verða þeir orðnir 900 í sumar svo við getum staðið við loforðið og haldið grillpartý.

Framundan á nýju ári eru nýjar áskoranir. Hvað það verður er ekki víst en við munum svo sannarlega halda inn í árið 2009 full af bjartsýni. Væntanlega setjum við enn meiri kraft en áður í að finna góð vín á góðu verði.

Okkar bakland ert þú sem ert áskrifandi að Vínpóstinum, lest bloggið, sem kaupir vínin okkar og mælir með þeim við vini og kunningja.

Við þökkum fyrir ánægjulegt samstarf á árinu sem var að líða og óskum þér og þinni fjölskyldu gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Færðu inn athugasemd

Filed under jól

Tveir nýir Búrgúndarar og tveir N-Ítalir í Vínbúðunum

Eins og ég bloggað um áður þá olli staða íslensku krónunnar því að við héldum að okkur höndum með stórfelldar pantanir fyrir þessi jól. Áttum lager af okkar vínum fyrir.

Þetta kom því helst niður á nýliðun í vínúrvalinu, við slepptum að byrja með ný vín yfir höfuð.

Vínin sem voru valin í nýja sérflokkinn í Vínbúðunum voru ekki heldur pöntuð inn, allt þar til við ákváðum í nóvember að taka frá tveimur framleiðendum alls fjögur vín. Þetta eru framleiðendurnir La Spinetta og Vincent Girardin.

Við pöntuðum bara það sem ÁTVR bað um fyrir utan að við eigum nokkra kassa af La Spinetta vínum ennþá. Vínin eru fjögur og hefur eitt þeirra fengist hér áður, Moscato Bricco Quaglia (1.980 kr.) frá La Spinetta. Hitt vínið frá La Spinetta er stórvínið Pin (6.823 kr.) sem er blanda af þrúgunum Nebbiolo (Barolo þrúgan) og Barbera. Vínin frá Vincent Girardin eru að sjálfsögðu frá Búrgúnd, rautt Pommard Vielles Vignes (5.590 kr.) og hvítt Meursault Charrons (6.190 kr.). Girardin vínin eru bæði gæðavín, rauðvínið mun fá dreifingu um allt land nánast því.

Vínin fóru í Vínbúðirnar í síðustu viku.

Færðu inn athugasemd

Filed under vín

Hækkun um hundað kall takk fyrir

Svona til að einfalda hlutina þá má segja að hækkun áfengisgjalds í vikunni hafi leitt til 100 kr. hækkunar (miðað við 750ml flösku af léttvíni með meðaláfengisprósentu).

Þetta ætla ég ekki að sýna fram á með dæmi. Það yrði frekar frekar leiðinlegt.

Okkar vín hækkuðu öll sem eitt um 100 kall fyrir utan eitt sem hækkaði meira (200 kr.) og annað sem hækkaði minna (60 kr.).

Þetta er náttúrulega nokkuð fúlt, að þurfa að hækka vínin ofan á gengisfallið, og spurning hvort þetta hafi þurft að gerast síðustu daga fyrir jól. Mætti halda að betra væri að halda aftur af útgjöldum ríkis en auka tekjur með þessum hætti þar sem það stuðlar að aukinni verðbólgu. Þrátt fyrir hagsmuni er samt ekki hægt að segja að manni þætti betra að skorið væri niður í menntun eða hjúkrun landsmanna heldur en klípa af vínneyslu landsmanna.

O jæja.

2 athugasemdir

Filed under fréttir, vínbúðirnar

Tvö sérstaklega jólaleg vín

Ef ég væri spurður hvaða rauðvín og hvaða hvítvín úr okkar röðum hentuðu almennt best með jólamatnum þyrfti ég velja vín sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:

– Gengur með öllu nema Ris a la mande, fjölhæft

– Ömmu þarf að finnast það gott, ekki ýkt á nokkurn hátt heldur aðgengilegt

– Áhugavert, ekki ýkt, bæði súrt og sætt, ferskt og feitt, vel gert, persónulegt, lifandi, skemmtilegt og ekki með móral

– Þarf ekki að slá lán fyrir

– Flottur miði (nei, reyndar er það ekki nauðsynlegt)

– Hátt áfengismagn (ekki heldur þetta, kannski á gamlárskvöld)

Og jólalegustu vín ársins eru.

Trrrrrrrrrrrrrrrrommur!

Rauðvínið The Footbolt frá d’Arenberg og hvítvínið Grüner Veltliner frá Hubert Sandhofer.

Þau eru jólalegustu vín ársins.

Enda annað með gylltum tónum og hitt rauðum borða.

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, jól, sandhofer

Hátíðarvínlisti Íslands 2008 – pantaðu beint af vefnum

Hann er kominn út, Hátíðarvínlisti Íslands 2008.

Gospel íslenskra vínunnenda.

Í fyrsta sinn í sögunni er hægt að gera pantanir á hátíðarvínum beint af vefnum okkar.

Smelltu hér til að skoða Hátíðarvínlistann og panta hátíðarvínin

Það er hægt að senda pöntunina í hvaða Vínbúð sem er og það er ekkert lágmarksmagn.

Ef þú vilt ekki nýta þér nýjasta nýtt má líka skoða Hátíðarvínlistann á pdf og prenta hann jafnvel út. Dettur þá í hug að það megi áframsenda hann á vini og vandamenn, hengja upp á kaffistofum vinnustaða, lesa upp úr honum á bókafundum, ljóðakvöldum, mótmælendafundum osfrv. osfrv.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, hátíðarvín, vínlisti