Monthly Archives: janúar 2009

Vín og matur: Vín með lambakjöti

Vín með lambalæri, vín með lambakótilettum, vín með lambalundum, vín með lambahrygg. Það skiptir ekki öllu máli hvaðan af lambinu kjötið er, vínið sem fer best með því er meira eða minna það sama.

Á þessu heimili er lambakjötið nefnilega alltaf meðhöndlað eins einfaldlega og mögulegt er, salt og pipar, í mesta lagi einhver fersk krydd til að nudda á kjötið, og nánast aldrei nein sósa. Íslenska lambakjötið er eiginlega of gott þegar það er upp á sitt besta til að vera að drekkja því í sósu. Maður vill að lambakjötið njóti sín, annars gæti maður alveg eins verið að nota soja“kjöt“. Þetta berum við svo gjarnan fram með fersku salati eða einhverju léttbrösuðu eins og pönnusteiktum gulrótum, sveppum og þess háttar. Það má alveg vera frumlegur í meðlætinu ef það skyggir ekki á aðalleikarann.

Lambakjötið er tiltölulega opið fyrir ýmsum gerðum vína, jafnvel sumum hvítvínum, en það er eitt svæði í veröldinni sem gerir rauðvín sem virðast fædd til þess að drekka með góðu lambakjöti.

Þessi vín heita einu nafni Chianti Classico eftir samnefndu svæði innan Toskana héraðsins á Ítalíu sem einu sinni hét bara Chianti en heitir í dag Chianti Classico, sem þýðir „hið upprunalega Chianti“. Hið upprunalega Chianti liggur á milli borganna Flórens og Siena. Aðeins rauðvín frá því svæði fá að kalla sig Chianti Classico en allt í kring fyrir utan það eru einnig framleidd Chianti vín ýmis konar sem þó fá ekki að kalla sig „Classico“.

Fyrir okkur eru Chianti Classico vínin hin erkitýpísku ítölsku rauðvín sem við unnum svo mikið. Þar liggur ástríða okkar fyrir vínum einna dýpst. Þegar best lætur finnur maður í þeim ilminn af sveitinni í Toskana og þau verða aldrei of þung heldur eru sígild matarvín. Það er eitthvað sem gerist þegar þessi vín eru pöruð með lambakjöti sem eldað hefur verið á þennan einfalda hátt sem lýst er hér fyrir ofan. Bæði lambakjötið og rauðvínið eru í essinu sínu.

Við höfum sannreynt þetta á öllum okkar Chianti Classico vínum. Þau sem eru fáanleg í Vínbúðunum sem stendur eru frá tveimur framleiðendum sem eru í u.þ.b. 15 mínútna fjarlægð hver frá öðrum. Fontodi gerir eingöngu lífræn vín og stundar sjálfsþurftarbúskap, Fontodi Chianti Classico er fágunin ein með lifandi karakter sem flytur okkur í einni svipan til þessa hjarta Ítalíu. Eikarkastalinn, Castello di Querceto, framleiðir breiða línu vína með sínum einkennandi stílhreina hússtíl sem við erum svo heilluð af. Castello di Querceto Chianti Classico gengur jafnvel enn lengra en nafni þess frá Fontodi í að fanga anda sveitarinnar og hefur léttari áferð á meðan stóri bróðir Castello di Querceto Chianti Classico Riserva er öllu meira og þykkara með burði til að standa í hárinu á nautasteikum sem lambasteikum.

Niðurstaða: við mælum með Chianti Classico rauðvínum með íslensku lambakjöti

Lokaorð: allir segi „mmmmmmeeee……“

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, fontodi, matur

Póstlistahappdrætti: Guðrún S. Hilmisdóttir er vinningshafi #2

Póstlistinn vex og vex.

Fjöldi áskrifenda fór yfir 800 í gær og þá var umsvifalaust dreginn út vinningshafi sem hlýtur að launum vínsmökkun fyrir sig og sína í boði hússins og fingurfæði í boði La Primavera. Þetta er í annað sinn sem við drögum út vinning í póstlistahappdrættinu.

Sú heppna að þessu sinni er Guðrún S. Hilmisdóttir en hún var nýkomin á póstlistann þegar hún fékk í fangið þennan fína glaðning.

Við Guðrún erum ekkert að slóra heldur erum þegar búin að skipuleggja vínsmökkun. Nú er gott að vera vinur Guðrúnar.

Færðu inn athugasemd

Filed under happdrætti, la primavera, vínpósturinn

Skoðanakönnun um miðana á flöskunum okkar

Miðarnir hafa nú verið á flöskunum okkar í meira en tvö ár.

Fyrst voru dýramyndir sem þá prýddu, síðan kom nýtt módel þar sem stílað var inn á einfaldleikann.

Enn á ný hugsum við okkur til hreyfings með nýja seríu af miðum og þætti okkur vænt um að heyra skoðanir sem flestra um notagildi miðanna:

Finnst þér miðinn yfir höfuð eiga að vera?

Notar þú þá til að þekkja flöskurnar í hillunum?

Heldur þú að þeir vekja jákvæða forvitni þeirra sem þekktu miðana ekki áður?

Fannst þér miðinn betri nú (stílhreinn) eða áður (dýr o.fl.)?

Hefur þú hugmyndir sem þú vilt deila með okkur um hvernig þeir gætu litið út og hvað fram mætti koma á þeim þegar ráðist verður í gerð nýrrar seríu?

Þín skoðun skiptir öllu máli.

Takk fyrir að taka þátt.

Smelltu hér til að skoða gömlu seríuna með dýramyndunum 

Smelltu hér til að skoða úrval miða sem notuðum til að velja nýjasta miðann úr

Færðu inn athugasemd

Filed under límmiðar, vangaveltur

Uppskrift: Cannelloni með spínati og ricotta

Það er mín skoðun (Rakel) að  matargerð á ekki að vera flókin, það sem skiptir mestu er gott hráefni, hollusta og einfaldleiki. Fátt er betra en rjúkandi cannelloni fyllt með heilnæmu spínati og ricotta osti. Hvað þá að eiga kalt cannelloni frá því í gær inni í ísskáp mmmm.  Þessi réttur er ótrúlega fljótlegur og auðveldur þó að hann sýnist annað þegar hann er borinn á borð.

Í cannelloni geri ég annað hvort sjálf ferskt pasta eða nota lasagnaplötur, sem er náttúrulega minni fyrirhöfn þó að ég sé á þeirri skoðun að pastagerð sé eitt það skemmtilegasta sem fjölskyldan getur aðhafst saman, allir geta hjálpað. Segi nánar frá pastagerð seinna, nú er komið að cannelloni.

Ef þú notar ferskt pasta, býrðu til plötur á stærð við lasagnaplötur og sýður þær þar til þær eru al dente.

Ef þú notar lasagnaplötur sýður þú þær skv. leiðbeiningum á pakka (ég geri yfirleitt ráð fyrir 3 á mann – þó er betra að sjóða fleiri en færri, einhverjar geta rifnað, svo er svo gott að gera of mikið og eiga til daginn eftir). Gerðu ráð fyrr 16-20 plötum í þessa uppskrift. Ég hef komið mér upp góðri aðferð til að koma í veg fyrir að plöturnar límist saman við suðu. Þú notar stóran pott og fyllir hann vel af vatni. Skvettir dálitlu af ólífuolíu út í vatnið og sýður lasagnaplöturnar. Af og til stjakarðu þeim varlega í sundur með trésleif. Þegar suðu er lokið tekurðu pottinn og hellir vatninu af og setur kalt vatn ofan í. Svo losarðu þær plötur sem loða saman varlega í sundur með fingrunum ofan í vatninu áður en þú tekur þær upp. Lasagnaplötunum er raðað á smjörpappír og þær látnar standa aðeins.

Athugið að ég er þeirrar skoðunar að þú eigir að fylgja tilfinningunni og skynfærunum í matargerð, ekki bókstafnum :-) Ég fer því frjálslega með öll fyrirmæli og mælieiningar, hér eru þó mælieiningar til viðmiðs.

Fylling:

1 og ½ poki ferskt spínat (steikt í dálítilli ólífuolíu á pönnu)
350 g ricotta (eða kotasæla, ath að hella vökva sem oft myndast ofan á af áður en notað)
100 g parmeggiano reggiano, grana padano eða pecorino romano
(svolítið af myntu, ef þú átt hana til, ekki nauðsynlegt)
sjávarsalt og nýmalaður, svartur pipar
Steikt spínatið og allt hitt er sett í matvinnsluvél og maukað saman í þéttan, en léttan massa.

Bechamela sósa:

600 ml nýmjólk
55 g smjör
40 g hveiti
2 sneiðar af lauk (gulur laukur)
1 lárviðarlauf
handfylli af steinselju (smátt skorið)
6 heil svört piparkorn
150 ml hvítvín
sjávarsalt og nýmalaður, svartur pipar

Þú bræðir smjörið í potti og hrærir hveitið út í. Hellir svo mjólkinni hægt yfir og hrærir stöðugt í (athugaðu að hitinn sé ekki of hár svo að ekki brenni við). Bætir svo öllu hinu við og hrærir létt í. Lætur malla á mjög vægum hita í nokkra stund.

Nú seturðu rönd af fyllingunni langsum fyrir miðju á hverja lasagnaplötu og lokar svo fyrir þannig að þú ert komin með langa, fyllta rúllu. Svo snýrðu rúllunni við (samskeytin niður).

 Þú hellir nú helmingnum af bechamela sósunni í stórt eldfast mót (eða ofnskúffu) og raðar rúllunum (með samskeytin niður) hlið við hlið þar til fatið er fullt (eða rúllurnar búnar). Hellir svo afgangnum af bechamela sósunni yfir og stráir parmeggiano, grana eða pecorino  yfir. Svo fer þetta inn í heitan ofn (200° C í 15 mínútur).

Best að bera fram eitt og sér á eftir fersku salati.

Buon appetito.

(Nota bene: spínat er án vafa með hollari fæðu. Það er sneisafullt af vítamínum og er einn besti K-vítamíngjafinn (sem sumir telja vanmetið vítamín). Það er jafnframt ríkt af D-vítamíni, kalki, magnesíum og járni).

Drukkum með Poggio dei Gelsi frá Falesco sem smellpassaði.

Færðu inn athugasemd

Filed under falesco, matur, pasta, uppskrift

Kvikmynd frá heimsókn til vínframleiðenda í Frakklandi

Þegar við fórum til Frakklands síðasta haust tókum við stutta kvikmynd af heimsóknum okkar til vínframleiðenda allt frá suðri (Languedoc, Rhone og Provence) norður til Búrgúndarhéraðs.

Uppskeran var í fullum gangi, veður var gott og við náðum nokkrum ágætum augnablikum úr lífi franskra víngerðarmanna.

C’est la vie.

Ykkar undirritaður fer með aðalhlutverk í myndinni auk þess að leikstýra og klippa en naut góðrar aðstoðar Rakelar. Nú þarf bara að semja tónlistina.

Við blogguðum ekkert um þetta ferðalag á sínum tíma, kvikmyndin kemur í staðinn fyrir það, en við tókum fullt af ljósmyndum.

Sannsöguleg mynd. Fæst á öllum betri myndbandaleigum.

Færðu inn athugasemd

Filed under christian moreau, ferðalög, flaugergues, frakkland, grivot, kvikmyndir, lucien le moine, mas de gourgonnier, mourgues du gres, sjónvarp, vincent girardin

Búin að uppfæra verðin á vefsíðunni, eina ferðina enn!

Oftast hefur okkur gengið vel að halda vefsíðunni vel uppfærðri. Hvað varðar upplýsingar um vínin sjálf þurfti lítið að gera því verð höfðu ekki verið að breytast svo mikið, helst voru upplýsingar um nýja árganga sem þurfti að uppfæra.

Í ruglinu sem hefur gengið á síðustu mánuði hafa verðin hins vegar breyst hraðar en síðust 5 ár samanlagt og uppfærslan því setið á hakanum.

Nú er undirritaður búinn að bretta upp ermar og setja réttar upplýsingar (þar til annað kemur í ljós) um hvað vínin kosta og hvaða árgangur eru fáanlegir.

Náttúrulega eru ýmis vín og framleiðendur á vefsíðunni sem eru hér um bil óvirkir því við höfum ekki flutt inn frá þeim í nokkurn tíma og eigum jafnvel ekkert til. Við höfum samt látið þá halda sér inni á vefsíðunni áfram í flestum tilfellum því ekki er loku skotið fyrir að margir þeirra muni snúa aftur til landsins. Tveir spánskir framleiðendur voru samt fjarlægðir og nokkur vín voru tekin út sömuleiðis til að snyrta aðeins til.

Hér má sjá alla framleiðendur og vínin frá þeim

Færðu inn athugasemd

Filed under vangaveltur

Vín og matur á facebook

Vígið er fallið.

Við erum komin á facebook

Hverjum hefði dottið það í hug?

Færðu inn athugasemd

Filed under furðufrétt