Monthly Archives: mars 2009

Chianti frá Querceto er BESTU KAUPIN í Gestgjafanum

Við vorum að fá nýjan árgang af Chianti frá Castello di Querceto.

Það er liður í yfirstandandi átaki að flytja inn meira af kostakaupum.

Okkur fannst þetta vín alltaf skrambi gott en 2007 árgangur en án nokkurs vafa sá besti sem við höfum smakkað af víninu. Þetta er ljúft og löðurmannlegt vín en með snerpu og kraft fyrir gott lamb eða naut.

Var einhver að tala um páskalamb?

Vínið birtist víða á síðum nýjasta Gestgjafans sem var að koma út, fjórum sinnum að því er okkur sýnist. Á bls. 31 er stungið upp á því með lambaskönkum í tómatkjötsósu, á bls. 58 er mælt með því sem mjúku og „alhliða“ matarvíni í útskriftaveisluna og á bls. 107 fær það mjög góð ummæli sem hentugt rauðvín með lambalæri.

En það er á bls. 104 sem það slær í gegn. Á vínsíðum Dominique og Eymars fær það titilinn BESTU KAUPIN og 4 glös þar að auki.

Það er bara gott.

Chianti Castello di Querceto 20074 glös BESTU KAUPIN
Þessi litli en frábæri framleiðandi er einn af okkar uppáhaldsframleiðendum í Chianti sökum gestrisni, yndislegheita og að sjálfsögðu góðra vína. Hér erum við með „grunn“ Chianti-vínið þeirra sem er blanda af sangiovese, cannaiolo og trebbiano – sígilda blandan. Opinn og dæmigerður chianti-ilmur með kirsuberjum, leðri, sveitasælu og tóbaki. Einfaldur en hreinn og afar góður ilmur. Í munni er vínið milt með góðan ferskleika og fínlega tannín. Mikill og góður ávöxtur í munni með sömu þáttum og var að finna í nefi. Fínlegt og fágað vín með því besta sem einföld chianti-vín hafa upp á að bjóða. Drekkið með nautakjöti í fínlegri sveppasósu en má einnig njóta með lambakjöti.
Verð: 1.790 kr.
Okkar álit: Vín í góðu jafnvægi með flottan karakter. Fínlegt vín og frábær kaup.“ (- Gestgjafinn 4. tbl. 2009 )

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, dómar, Gestgjafinn

Vínglös fyrir taflmenn — flúxus gjörningur á Kjarvalsstöðum

Á laugardaginn var fluttur flúxus gjörningur á Kjarvalsstöðum þar sem notuð voru vínglös í stað hefðbundinna skákmanna.

Það var hin áttræða Takako Saito sem gaf Listasafni Reykjavíkur þennan gjörning og við splæstum svo víni í glösin. Keppendur fengu mismunandi vín eftir leikmanni (eitt fyrir peð, annað fyrir riddara osfrv.) og þurfti að nota nefið til að þefa uppi leikmann sem þeir voru annars hugsanlega búnir að gleyma hver var (enda öll glösin meira eða minna eins á litin). Til að gera þetta erfiðara létum við þátttakendur ekki vita hvaða vín var í hverju glasi fyrirfram heldur smökkuðu þeir blint.

Meira um viðburðinn hér

Teflt var með glösum á tveimur borðum þar sem fjórir landsþekktir „þefarar“ munduðu glösin.

Á tveimur borðum til viðbótar var keppt með sams konar hætti þar sem snittur voru notaðar fyrir leikmenn og þótt sumir þurftu að tapa er ljóst að allir fóru saddir frá borði sem vildu.

Okkur fannst keppendur heldur sparsamir á víndrykkjuna en það hefði verið góð viðbótarregla að láta þá tæma úr hverjum leikmanni sem þeir misstu í hendur andstæðingins. Þá hefða skákin verið enn forvitnilegri og spennandi.

Bloggarinn hefur hugsað sér að fara aftur að tefla meira, hugsanlega stofna taflfélag þar sem eingöngu verður teflt með vínglösum.

VGTR — „Vínglasataflfélag Reykjavíkur“.

Kíktu á fleiri myndar á flickr

Færðu inn athugasemd

Filed under vín

Nýr framleiðandi: Chateau de Montfaucon

Á mánudaginn koma til landsins ný vín frá Rónarhéraði Frakklands. Þetta verða fyrstu vínin sem við flytjum inn af svokölluðu Côtes du Rhône kyni. 

Framleiðandinn er Chateau de Montfaucon og komumst við í kynni við hann fyrir um tveimur árum síðan. Þá fengum við send sýnishorn sem við smökkuðum í góðum hópi við mikla ánægju (lestu fréttina um smakkið), síðan heimsóttum við hann í haust og þá var ekki aftur snúið.

Metnaður og ástríða framleiðandans heillaði okkur upp úr skónum en það er Rodolphe de Pins sem sér um framleiðsluna fyrir fjölskylduna.

Vínin hefja sölu 1. apríl og eru tvö, rauðvín Côtes du Rhône og hvítvínið Comtesse Madeleine.

Við vorum að enda við að uppfæra upplýsingar um framleiðandann og vínin á www.vinogmatur.is

Með í sendingu eru tvö önnur vín frá sama héraði en munu ekki hefja sölu fyrr en 1. júní úr þessu. Það eru hin stórskemmtilegu „Little James“ vín, rautt og hvítt, frá einum rómaðast framleiðanda Gigandas svæðis Rónarhéraðsins, Saint Cosme, sem er ekki síður dýnamísk víngerð. Einstaklega skemmtileg vín með skondin miða, vægast sagt.

1. apríl hefur líka sölu nýtt vín frá Castello di Querceto, Chianti 2007.

Án gríns.

Færðu inn athugasemd

Filed under vínbúðirnar

Uppskrift: Tómata-, mozzarella- og basilíkusalat

Hér er enn ein uppskriftin þar sem ,,hinni heilögu þrenningu”, tómötum, basilíku og mozzarella osti, er stefnt saman í fullkomna heild. Við höfum áður birt á blogginu basilíku- og tómatapastað okkar einfalda og góða sem hefur verið í miklu uppáhaldi hjá okkur í áratugi og er reglulega á borðum okkar.

Hér er ,,hin heilaga þrenning” í öðrum, klassískum búningi sem gengur sem forréttur eða meðlæti með ýmsum mat. Galdurinn við gæðin í þessum einföldu, klassísku uppskriftum, er að velja hráefnið rétt og meðhöndla það rétt.

Salat:

Tómatar, rauðir og þroskaðir, skornir í sneiðar (athugið að tómata skal ekki geyma í ísskáp því þeir eru viðkvæmir fyrir kæliskemmdum og missa bragð og ilm. Við veljum ætíð vel rauða, millistinna tómata (íslenska að sjálfsögðu) og geymum þá svo á eldhúsborðinu á fallegum diski (ekki er gott að stafla þeim um of í skál því þrýstingurinn getur marið þá tómata sem eru neðstir) þannig halda þeir áfram að þroskast á borðinu og verða dásamlega ljúffengir). (Athugið að hið sama gildir um papriku, sem eyðileggst fyrr í ísskápnum en á borðinu – okkur þykir þetta hið besta mál því að ekkert er girnilegra en eldhús hlaðið af fallegum, litríkum matvælum úr nægtarbrunni náttúrunnar).

Basillika (eitt gott, dökkgrænt búnt, rifið eða skorið niður (hef það eftir heilsufrömuði að best sé að rífa allt blaðsalat niður í stað þess að skera, því þá rifnar það ,,rétt” í samræmi við sína mólekúlbyggingu (sel það ekki dýrara en ég keypti))

Mozzarella sneiddur (Mjólka er farin að selja góðan mozzarella í krukku)

Góð ólífuolía (ætíð kaldpressuð jómfrúarolía)

Gott balsamic edik

Sjávarsalt

Svartur pipar úr kvörn

Örlítið af þurrkuðum, rauðum chili pipar

Tómötum og mozzarella er raðað á hringlaga disk, fyrst tómatasneið, svo mozzarrella sneið og svo koll af kolli í snúð þar til miðjunni er náð. Basilliku er dreift yfir. Nokkru af góðri ólífuolíu er skvett yfir. Svolitlu (ekki of) af góðu balsamic ediki er kastað yfir, því næst er sjávarsalt mulið yfir og einnig svartur pipar úr kvörn. Okkur þykir gott að dreifa dálitlu af þurrkuðum chili pipar yfir í lokin (gefur salatinu  svolítið auka ,,úmpf”).

Bragðið af Ítalíu leynir sér ekki í þessu salati ef hráefnið er rétt valið og meðhöndlað.

Buon appetito.

Þar sem tómatar ráða ríkjum er best að velja gott, sýruríkt hvítvín eins og Anima Umbra frá Arnaldo Caprai.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, uppskrift

Vínkeðjan: „Stíft og snarpt“ — Sigurður Elvar bloggar um Chianti Classico frá Castello di Querceto

Vínkeðjan rataði á dögunum til mannsins með „lyktarskynið eins og íslenska bankakerfið.“, Sigurðs Elvars Þórólfssonar.

Sigurður bloggar um Chianti Classico 2007 frá Castello di Querceto og líkir því við sportbíl.

Kannski rauðan Ferrari?

Lestu bloggið hans Sigurðs um Chianti Classico 2007 frá Castello di Querceto

Okkur finnst sú líking hitta naglann á höfuðið. Hún fangar karakter vínsins betur en einhver analísa og upptalning á berjum og öðrum lífrænum eða ólífrænum eiginleikum sem finna mætti í víninu.

Þessi árgangur, 2007,  er nefnilega alveg nýr og vínið því ungt og ennþá svolítið „stíft og snarpt“ eins og Sigurður orðar það. Við mæltum því með umhellingu sem Sigurður fór samkviskusamlega eftir, til að leyfa því aðeins að opna sig. Þetta vín er svolítið eins og sportbílll eða flygill beint úr kassanum, á aðeins eftir að keyra og spila það til.

Eftir nokkra mánuði verður það tilbúnara. Eftir 1-2 ár fer það virkilega að blómstra.

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, chianti classico, dómar, vínkeðjan

Uppskrift: Heimalagaðir hamborgarar

Það má endalaust leika sér að hamborgaragerð.

Aðalatriðið er að kaupa gott nautahakk og fara síðan bara inn í ísskápinn og finna eitthvað skemmtilegt til að setja í hakkið áður en maður hnoðar borgarana.

Þessi tilraunmennska heppnast kannski misvel en í gærkvöld tókst það svo vel að jafnvel frúin sagði þetta vera bestu hamborgara sem hún hefði smakkað!

Það skal tekið fram að hún er ekki eins mikil borgaramanneskja og bloggarinn sem þetta skrifar svo þetta var mikið hól.

Keypt var ungnautahakk í Nóatúni. Úr ísskápnum greip bloggarinn einn ferskan chilipipar, ferskt rósmarín og nokkra sólþurrkaða tómata (í olíulegi) sem hann saxaði mjög smátt og setti út í kjöthakkið. Út í það fór síðan eitt egg í heilu lagi og eitthvað af salti og pipar og allt hnoðað vel saman að lokum með berum höndum.

Tilbúið.

Þá var þessu skipt niður í nokkra borgara og þeir flattir út og steikir á pönnu með osti.

Sósan:

Í sósuna var sömuleiðis gripið eitthvað sem var bara til þar fyrir svo sem majónes, sýrður rjómi, tómatsósa og dijon sinnep og út í það var hrærð matskeið af „Thai sweet chili pineapple“ sósu.

Ferskt kál fór síðan í brauðið og hrár laukur auk heimatilbúnu sósunnar.

Með þessu var drukkinn svolítill bjór en frúin bað um betri bíl og pantaði Lambrusco frá Lini.

4 athugasemdir

Filed under lini, matur, uppskrift

Vín og matur: vín með svínakjöti

Á meðan við eldum lambakjötið okkar alltaf mjög einfalt er svínakjöt líklegra til þess að fá einhvers konar meðferð, maríneringar, barbeque sósur og svo framvegis. Ekki síst þegar við skellum því síðan á grillið sem við gerum gjarnan.

Vínið sem hentar best með er The Footbolt frá d’Arenberg í Ástralíu. Það er all kröftugt og lifandi og getur vel tekið á bragðmiklum, jafnvel súrsætum, kjötréttum – eins og við eldum gjarnan svínakjötið. Karakter vínsins, sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur, þolir líka fjölbreytta flóru af alls kyns meðlæti svo sem grilluðum paprikum, fylltum sveppum og þess háttar.

Það fer aðeins eftir stemningunni en við drekkum líka oft hvítvín með svínakjöti t.d. sérstaklega á sumrin. Eitthvað svolítið feitt í munni en þétt og sýruríkt til að eiga roð við svínakjötinu. Það góða við að velja hvítvín, ágætlega kælt, er að það léttir máltíðina og gerir hana alla ferskari og hressilegri. Hvítvínið Grecante frá Arnaldo Caprai er upplagt í það hlutverk.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, d'arenberg, matur