Monthly Archives: apríl 2009

Nokkrir DVD sem er næstum hægt að borða

Um tíma þegar heimilið var með BBC Food í áskrift datt bloggarinn ítrekað inn í ákveðna tegund af sjónvarpsþáttum. Þessir þættir voru ekki hefðbundir uppskriftaþættir með prúðbúnum sjónvarpskokki í myndveri heldur lögðu þeir mikið upp úr hráefninu sjálfu. Þáttastjórnandinn (sem var kokkur) fór þannig út á ekrurnar, niður í fjöru, sigldi á bátum, rölti inn á markaðinn, kíkti í sláturhúsið – hvert sem gott, staðbundið hráefni var að finna.

Síðan hófst matreiðslan, alltaf í nýju umhverfi eftir því hvar þátturinn gerðist hverju sinni; heima í eldhúsi viðkomandi framleiðanda, í káetu lítils veiðibáts, stundum á veitingastöðum eða bara undir berum himni úti á engi og við lygna á.

Öllu þessu var miðlað af mikilli ástráðu og stundum slatta af breskum húmor hjá köppum eins og Keith Floyd sem yfirleitt eldar með vínglas í annarri hendinni og hinum stóískari Rick Stein. Keith er öllu hrárri en Rick fágaðri, hvor með sína kosti.

Við keyptum í dag loksins nokkra þætti með köppunum tveimur á amazon:

Rick Stein Food Heroes (mjög áhugaverð sería þar sem Rick ferðast um Bretland og notar staðbundið hráefni)
The Keith Floyd Cookery Collection – Floyd Around The Med (miðjarðarhafs matargerð)
The Keith Floyd Cookery Collection – Floyd On Italy (matur, vín og menning Ítalíu)
The Keith Floyd Cookery Collection – Floyd Uncorked (Keith ferðast um vínekrur Frakklands í þessari seríu)

Það má segja að þættirnir miðli í leiðinni heilbrigðari lífsstíl því staðbundið og hollt hráefni er það besta sem völ er á. Þeir fá mann til þess að langa til og njóta þess að borða (og drekka) betur í víðum skilningi þess orðs.

Frábært skemmtiefni ef maður er þannig innstilltur.

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, matur, sjónvarp, uppskrift

Heimsókn í kjallara konungsins af Amarone

Bloggarinn hefur heiðrað „Konunginn af Amarone“ tvisvar sinnum með nærveru sinni.

Romano Dal Forno.

Bæði skiptin voru í kringum vínsýninguna stóru í Veróna, Vinitaly, en það liggur beinast við að kíkja á kallinn í leiðinni því hann býr í nágrenni borgarinnar.

Við fórum ekki á Vinitaly þetta árið en fundum áhugaverða bloggfærslu sem lýsir heimsókn í kjallara konungsins fyrir nokkrum vikum síðan. Gestirnir að þessu sinni eru frá Bandaríkjunum og bloggfærslan birtist á vef vínsala í Texas.

Lestu um heimsóknina í kjallara Romano Dal Forno

Það er greinilegt að sá sem greinina skrifar hefur orðið fyrir sams konar „vá“-faktor og þegar við kíktum í heimsókn — annað er ekki hægt þegar konungar eru annars vegar.

2 athugasemdir

Filed under ítalía, blogg, romano dal forno

Lucien Le Moine vínin á bestu veitingastöðum heims skv. Restaurant Magazine

Mounir, eigandi Lucien Le Moine sendi okkur póst í dag til að segja okkur með nokkru stolti að vínin þeirra hjóna hafa ratað á vínseðla bestu veitingastaða í heimi skv. tímaritinu Restaurant Magazine.

Restaurant Magazine var að gefa þennan árlega lista út og er jafnan beðið eftir honum með eftirvæntingu.

Af bestu 12 veitingastöðum í heimi eru 9 sem hafa vín frá Lucien Le Moine á vínseðlinum ( x=“Le“ Moine á listanum).

Meðmælin með vínunum geta því ekki verið mikið betri.

1 El Bulli, Spain (x)
2 The Fat Duck, U.K. (x)
3 Noma, Denmark
4 Mugaritz, Spain
5 El Celler de Can Roca, Spain (x)
6 Per Se, U.S. (x)
7 Bras, France (x)
8 Arzak, Spain (x)
9 Pierre Gagnaire, France (x)
10 Alinea, U.S.
11 L’Astrance, France (x)
12 The French Laundry U.S. (x)

Hér má sjá listann yfir 50 bestu veitingastaði í heimi að mati tímaritsins

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, lucien le moine, vínseðill, veitingastaðir

Uppskrift: Frönsk lauksúpa

Frönsk lauksúpa hefur ef til vill upphaflega verið álitin fátækrafæði en hún er svo ljúffeng að það er auðvelt að gleyma stund, stað og stöðu sinni þegar seyðið er sopið og smjattað á sætum lauknum. Laukur, aðaluppistaða súpunnar, er herramannsmatur ef marka má næringarfræði nútímans. Hann er mjög ríkur af sulfur og því m.a. afeitrandi. Svo veitir laukur að sögn vörn gegn myndun krabbameinsfruma í ristli og lifur og á víst einnig að lækka blóðsykur. Talað er um að 2-3 laukar á viku hafi afar jákvæð áhrif á heilsu manns. Því ekki að súpa seyðið af því?
Vidalia laukur er líklega ljúffengasti laukur í heimi, stór, sætur og safaríkur. Skáldið Pablo Neruda er líklega að gæða sér á slíkum lauk þegar hann sést borða hráan lauk eins og epli í kvikmyndinni ljúfu Il postino. Höfum því miður ekki fundið þetta góðgæti á Íslandi enn.

Frönsk lauksúpa:
C.a. 2 lítrar af vatni eru settir í stóran pott og suða látin koma upp.
Kjúklingasoð (heimatilbúið soð, teningar eða keypt soð) eftir smekk (byrjið á litlu magni og bætið við)

6-10 gulir laukar (eftir stærð – má líka blanda gulum og rauðum) eru skornir í sneiðar (hálfhringi).
2-3 beikonsneiðar eru steiktar létt á pönnu, beikonið svo fjarlægt en bragðmikil feitin notuð til að steikja laukana létt (rétt gylla, ekki brúna). (ATH nota má smávegis af jómfrúarólífuolíu í stað beikonfeiti).
Skvettu af Vin Santo bætt á pönnuna meðan steikt er (má sleppa, en myndi ekki gera það).

Léttsteiktir laukarnir eru settir í vatnið og látið malla í 2 tíma (eða þar til hungrið er að fara með þig).
Sjávarsalt og nýmalaður, svartur pipar eftir smekk.

Þegar súpan er tilbúin er henni skenkt í ofnheldar súpuskálar (ein á mann eða ein stór eftir því hvað til er á heimilinu). Passið að hella ekki alveg upp á brún.
Ein hrá eggjarauða fer í hverja skál (jafn margar og heimilismeðlimir ef ein stór skál) – þetta er þýskt innslag.
Ein brauðsneið (ljóst brauð, skerið af mjög harða skorpu) fer ofan á hverja skál
væn ostsneið (mozzarella eða brauðostur) fer ofan á hverja brauðsneið.

Súpuskálarnar eru settar í 200°C heitan ofn þar til osturinn er bráðnaður og gullinn.

Farið varlega þegar skálarnar eru teknar út.
Byrið á að sprengja eggjarauðurnar (sem ættu ekki að vera alveg harðnaðar), þá verður súpan sæt og mjúk og ómótstæðileg.

Frönsku gæðavínin frá Saint Cosme sem koma í Vínbúðirnar 1. júní væru áskjósanleg með súpunni (þau eru komin til landsins og má sérpanta þau ef einhver getur ekki beðið).

Færðu inn athugasemd

Filed under matur, uppskrift

Lambrusco ÁSKORUN — frítt balsamik edik frá LINI í póstkassann

Ef við tökum saman öll ítölsku vínin (sjö talsins) sem byrjuðu í Vínbúðunum sumarið 2008 (lestu meira) og leggjum þau í mat sem byggist á praktískum viðmiðunum, eins og fágæti víns miðað við flóru Vínbúðanna, auk slatta af eigin væntumþykju — stendur eitt vín upp úr sem við viljum sérstaklega halda inni og koma í kjarna.

Lambrusco frá Lini.

Lambrusco frá Lini er nefnilega afar skemmtilegt vín sem má ekki dæma út frá slælegu orðspori „lambrusco“ vína. Það býr nefnilega yfir miklum karakter, er þurrt matarvín og freyðandi að hætti kampavína sem færir okkur birtu og gleði.

Því efnum við til áskorunar.

Keyptu 3 flöskur af Lambrusco frá Lini og sendu okkur myndskilaboð (6937165) eða fax (5347175) af kassakvittun. Hún þarf að vera læsileg og nafn og heimilisfang þarf að fylgja með.

Í staðinn sendum við þér flösku (250ml) af ekta, eðal Modena balsamik ediki frá sama framleiðanda, Lini, en eins og kannski sumir hafa áttað sig á þá koma Lambrusco vín og balsamik edik frá sama svæði Ítalíu.

Til að koma Lambrusco frá Lini í kjarna þurfum við að selja 30 flöskur á viku næstu þrjá mánuði. Það hljómar kannski ekki svo ýkja mikið en er reyndar slatti því það fóru bara 7 flöskur í síðustu viku.

Flaskan kostar 1.980 kr. og einhver gæti sagt „Bíddu nú við… á lambrusco ekki að vera ódýrt?“. Svarið er einfalt, þetta er bara gott VÍN! Það eru einmitt svona vín sem við föllum svo oft fyrir, vín sem eru ekki alltaf augljós eða í miðju massasölunnar, vín sem eru einstök út fyrir sig.

Svo minnum við á að vínið var valið Bestu Kaupin í Gestgjafanum (lestu meira) og fékk 91 stig af 100 í Morgunblaðinu (lestu meira) sem kallaði það „lítið djásn“.

Fæst í Vínbúðunum Heiðrúnu, Kringlunni og Skútuvogi.

Færðu inn athugasemd

Filed under áskorun, ítalía, lini

Tom Cannavan fjallar um Chianti Classico framleiðendur

Gleðilega páska!

Það er við hæfi að fjalla í dag um rauðvín sem eru svo góð með lambakjöti, páskalambinu.

Reyndar látum við sjálf það eiga sig (það eru nú páskar) en gefum í staðinn Tom Cannavan, breska vínspekúlantinum, orðið.

Bloggarinn skoðar reglulega vefinn hans Tom www.wine-pages.com og þar er ný umfjöllun um Chianti Classico framleiðendur.

Lestu greinina hans Tom Cannavan

Það er skemmtilegt að tveir fyrstu Chianti Classico framleiðendurnir í röðinni eru einmitt okkar menn, Fontodi og Castello di Querceto. Hægt er að lesa jafnframt dóma um nokkur vína þeirra og eru þeir góðir, á bilinu 88 til 95 stig fyrir Fontodi vínin og 86 til 92 fyrir Querceto.

Chianti Classico svæðið er endalaust fallegt eins og myndin hér fyrir ofan sýnir, ekki amalegt að búa í því miðju og framleiða vín sér og öðrum til ánægju.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, dómar, fontodi

Litli Jón

Við erum spennt yfir nýjum framleiðanda sem kemur í Vínbúðirnar 1. júní.

Við viðurkennum að við erum reyndar alltaf spennt yfir nýjum vínum enda værum við einfaldlega ekki að flytja þau inn annars.

Svo einfalt er það.

Það er samt eitthvað við þessu nýju vín frá framleiðandanum Saint Cosme í Rónarhéraði Frakklands sem gerir þau einstaklega skemmtileg.

Fyrst er það miðinn.

Við veljum ekki vínin af miðanum en það er ekki verra ef hann er vel heppnaður. Þannig vöktu þessi vín áhuga okkar vegna miðans og orðsporsins hvort tveggja í einu. Gæðin voru svo staðfest þegar við fengum sýnishorn og hringnum var lokað. Miðinn skemmtilegi er bara plús.

Little James vínin munu fást í bæði hvítri og rauðri útgáfu í Vínbúðunum og leyfum við okkur að íslenska þau „Litli Jón“ þótt réttari þýðing væri „Jakob“ á nafninu James.

James litli er sonur víngerðarmannsins Louis Barruol. Louis er ungur og metnaðarfullur framleiðandi sem er orðin stjarna í Gigondas fyrir sín fögru vín sem vínspekúlantinn Tanzer lýsir svo: „almost Pinot-like aromatic finesse, with beautifully restrained oak influence“. Þeas. öflug vín með fínlega angan sem minnir á Búrgúnd og hóflega eik — lýsing sem höfðar mjög sterklega til okkar.

Miðar vínanna frá Saint Cosme eru í raun dæmigerðir, franskir miðar með mynd af hús — en í Little James vínunum fær Louis að leika sér og dregur þar upp skemmtilega, kómíska mynd af lífi víngerðarmannsins. Innihald Little James vínanna er líka óvenjulegt að því leyti að þau eru ekki árgangsvín heldur er nokkrum árgöngum blandað saman.

Vínin eru eins og miðarnir; lífleg og einstök.

Færðu inn athugasemd

Filed under vín

Verðfréttir: New York — Reykjavík

Þetta er helst í verðfréttum.

Góð vínbúð í New York gefur út fréttabréf sem við erum áskrifendur að. Þetta er specíalistabúð með ítölsk vín og hefur eigandi þeirra, Sergio Esposito, gefið út fína bók um æsku sína og vínferðalög á Ítalíu.

Í nýjasta fréttabréfinu auglýsir hann vín frá Dal Forno Romano, kónginum í Valpolicella (eða amk. krónprinsinum). Þar var á ferðinni dýrara rauðvín framleiðandans, Amarone, og var verðið litlir 409 dollarar per flösku sem gerir 50.000 íslenskar krónur.

Við eigum fjórar flöskur eftir af þessu víni.

Flaskan kostar 21.000 kr. með húð og hári.

Ódýrara rauðvínið frá Dal Forno, Valpolicella 2003, kostar 149 dollara í vínbúðinni í New York sem gerir á gengi dagsins 18.000 kr. íslenskar eða svo.

Við eigum nokkra kassa af því, verð per flösku er 7.990 kr.

Við höfum ákveðið að sleppa nýjasta árgangi af þessum vínum, einfaldlega út af stöðu krónunnar í dag og lítillar eftirspurnar á dýrum vínum (sem eru nú fokdýr eftir gengishrunið) svo þetta eru kostakaup þrátt fyrir allt, keypt á eldgömlu gengi.

Færðu inn athugasemd

Filed under romano dal forno

Vínkeðjan: Eiríkur Stefán tekur Grüner Veltliner upp á sína arma

Upp á síðkastið höfum við spurt hvern nýjan bloggara sem tekur þátt í Vínkeðjunni hvort hann vill hvítt eða rautt en að öðru leyti er valið á víninu alfarið okkar.

Eiríkur Stefán óskaði þannig eftir hvítvíni og létum við hann fá hið austurríska Grüner Veltliner frá Sandhofer sem er í fyrsta skipti sem við látum það vín í keðjuna. Það kom því skemmtilega á óvart að Eiríku Stefán þekkti ekki bara vel til austurrískrar víngerðar heldur telur sjálfan höfund vínsins, Hubert, til góðfélaga sinna.

Þetta hljómar eins og úthugsað svindl en er bara ein af þessum skemmtilegu tilviljunum.

Eiríkur Stefán tekur Grüner Veltliner vel enda fyrirsögnin að blogginu eftirfarandi: 

„Austurrísk eðalblanda“.

Lestu hvað hann segir meira um Grüner Veltliner frá Sandhofer

Færðu inn athugasemd

Filed under austurríki, dómar, sandhofer, vínkeðjan