Monthly Archives: maí 2009

Uppskrift: Risotto og risottobollur

Risotto er einn af uppáhaldsréttum fjölskyldunnar, matarmikill og bragðmikill, en samt léttur og góður í maga.

Hér er grunnuppskrift af risotto en hægt er að bæta hverju því sem hugurinn girnist við í uppskriftina undir lokin, svo sem humri, rækjum, sveppum af ýmsu tagi, eða jafnvel léttsteiktum rauðrófum (sem gera fallega bleikt risotto) eða kampavínssoðnum jarðarberjum fyrir sumarlegt jarðarberjarisotto.

3-500 g Arborio hrísgrjón (þetta eru hin einu sönnu risottogrjón og ekki viðeigandi að nota staðgengla)
Einn góður gulur laukur, smátt saxaður
Góð ólífuolía (kaldpressuð jómfrúarolía – maður þarf nú varla að taka það fram í dag)
Kjúklingasoð (nóg af því – heimagert er best en hægt að notast við keypt, athugið að gott er að nota dagsgamla súpuafganga sem soð, sér í lagi kjötsúpu eða kjúklingasúpu eða tæra grænmetissúpu (stærri bitar eru síaðir frá súpunni)).
Um 1 dl. nýrifinn parmeggiano reggiano eða grana padano ostur
Ferskur svartur pipar úr kvörn

Best er að nota góðan, þungan pott. Ólífuolíu er skvett vel yfir botninn á pottinum og smátt söxuðum lauknum skellt út í. Laukurinn er látinn gyllast (alls ekki brúnast eða brenna).
Þá er arborio grjónum bætt í og þau rétt látin gyllast í olíunni og lauknum (ekki of lengi).
Þá er soðinu bætt í, um hálfu glasi í einu og hrært vel (athugið að hafa ekki of mikinn hita). Haldið er áfram að bæta soðinu í af og til þar til grjónin eru soðin (þá eru þau mjúk að utan með örlítið stökkari kjarna innst – besti mælikvarðinn er að smakka af og til þar til þessu stigi er náð).
Nú er potturinn tekinn að af hellunni og rifinn parmeggiano/grana hrærður saman við. Þá er ferskur svartur pipar mulinn yfir (vel af honum).

Risotto er einnig mjög gott daginn eftir. Það má vel borða kalt sem meðlæti með öðrum mat, eða búa til úr því bollur og steikja á pönnu:

Risottobollur daginn eftir:
Kalt risotto
Mozzarella ostur (ef vill)
Hvítt hveiti
3 hrærð egg
Brauðmylsna

Mótaðar eru risottobollur utan um litlar mozzarellakúlur,  svo kældar í ísskáp í nokkra stund (einnig má búa til gegnheilar risottobollur).
Bollunum er svo velt upp úr hveiti, síðan upp úr eggjahræru og síðast upp úr brauðmylsnu og þær steiktar á pönnu í ólífuolíu þar til þær eru gylltar að lit.

Buon appetito

Val á víni fer eftir því hverju er bætt til viðbótur við uppskriftina út í risotto-ið. Ef uppskriftin er einföld eins og hér fyrir ofan þá gengur bæði rautt og hvítt, eitthvað einfalt og gott eins og Montepulciano d’Abruzzo eða Verdicchio frá Umani Ronchi.

Ein athugasemd

Filed under umani ronchi, uppskrift

Vínkeðjan: Tómasi finnst Lambrusco frá Lini svalandi í vorsólinni

Nýr hlekkur er kominn í Vínkeðjuna.

Við ákváðum að breyta til og færa bloggaranum Tómasi Meyer Lambrusco frá Lini frekar en „hefðbundnara“ rauðvín eða hvítvín.

Fólk hefur ýmsar hugmyndir um Lambrusco, oft byggðar á sætum og djúskenndum minningum um eitthvað frekar einfalt og ómerkilegt og ekki beinlínis fjölhæft matarvín.

En „Meyerinn“ lætur það ekki rugla sig í ríminu.

Hann drakk Lambrusco frá Lini í vorsólinni með steik, bearnaise sósu og kartöflubátum og fannst vínið smellpassa við.

Lestu hvað Tómasi Meyer finnst um Lambrusco frá Lini

Hér er svo stutt ræða: Í gengisruglinu sem gengur yfir landið hefur vínið hækkað í 1.980 kr. með lægri álagningu samt sem áður af okkar hálfu en gildir um flest okkar önnur vín. Miðað við stöðuna í dag er það því á góðu verði. Einhverjum gæti þótt það hár verðmiði fyrir „bara Lambrusco“ en það er einmitt málið, þetta er ekki bara Lambrusco heldur fyrst og fremst vín sem á að taka á þess eigin forsendum og sem slíkt er það frísklegt og matarvænt gleðivín.

Tómas skorar á Hall Magnússon til að halda áfram með keðjuna.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, lini, vínkeðjan

Bráðum verður beljunni hleypt út á tún

Þessa dagana erum við með ermar uppbrettar að leggja lokahönd á fyrsta kassavínið sem við flytjum inn.

Vanalega leggjum við ekki okkar hendur eða lokahendur á hönnun eða útlit vöru sem við flytjum inn ef endanskilið er samvinnuverkefnið með austurríska vínframleiðandanum Hubert Sandhofer og myndlistarmanninum Kristínu Gunnlaugsdóttur sem lánaði myndefni á vínflöskurnar hans Huberts.

Kassavínshugmyndinni laust niður einhvern tímann á síðasta ári og með hjálp góðra vina var henni hrint í framkvæmd og hún fullmótuð. Vínið fundum við síðan hjá vinum okkar í Toscana, Alessandro og Antoniettu, eftir að hafa smakkað okkur í gegnum nokkra mögulega kandídata.

Ferlið var ekki alveg áfallalaust, fyrsta útgáfan hlaut ekki náð hjá yfirmönnum ÁTVR og var hafnað en það var kannski bara allt í lagi því við höldum að endurbætt útgáfa hafi jafnvel heppnast betur. Um ævintýri beljunnar verður fjallað meira síðar.

Á mánudaginn fer lokahönnun til vina okkar í Toskana sem prenta fyrir okkur og tappa víninu sínu á. Ef allt gengur upp verður beljan mætt í Vínbúðirnar 1. júlí.

Þær verða reyndar tvær þessar elskur, rauð og hvít.

Að sjálfsögðu komnar á Facebook eins og allar beljur sem vilja vera smart.

Hliðarnar á kassanum verða sýndar hér innan skamms þegar algjörlega, 100%, ekki nokkur vafi leikur á að hún sé fullkláruð og helst komin út úr prentsmiðjunni. 

En svona lítur toppurinn og botninn á rauðvínsbeljunni út:

 

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, vínbúðirnar

Póstlistahappdrætti: Olga Sigrún hlýtur vinninginn

Við erum búin að tilkynna það já bæði á facebook og í Vínpóstinum að áskrifendur að Vínpóstinum eru orðnir fleiri en 900.

Nú tilkynnum við það hér á blogginu svo það fari ekkert á milli mála en líka vegna þess að við vorum að fá staðfest svar frá vinningshafa og getum nú tilkynnt að vinningin hlýtur hún Olga Sigrún Olgeirsdóttir.

Við erum ekki búin að skipuleggja í sameiningu hvenær hún tekur vinninginn út en innan tíðar mu bloggarinn væntanlega fara heim til hennar og halda vínsmökkun með tilheyrandi snarli frá La Primavera fyrir Sigrúnu og félaga.

Í millitíðinni heldur áskrifendum áfram að fjölga og eru nú 927 talsins sem okkur þykir afskaplega vænt um.

Takk.

Happdrættið heldur áfram og næstur verður dregið þegar fjöldi áskrifenda nær 1000.

Færðu inn athugasemd

Filed under happdrætti, la primavera, vínpósturinn

Hástökkvari mánaðarins í Vínbúðunum

Í hverjum mánuði fáum við sprúttsalar yfirlit frá ÁTVR yfir sölu með útreiknaðri framlegð fyrir hvert og eitt vín. Listinn skiptist í tvennt, yfir vöru sem er í kjarna annars vegar og hins vegar vöru sem er til reynslu.

Þarna sjáum við hvernig okkar vín koma út í samanburði við önnur og hvað vantar upp á til að reynsluvín komist í kjarna eða hversu mikil hætta er á því að kjarnavín dettur úr sölu. M.ö.o. mjög gagnlegur listi sem við getum skoðað í gegnum sérstakan birgjavef, sem og aðrar fréttir og skýrslur.

Í ný-útsendum lista yfir apríl mánuð síðastliðinn kom okkur skemmtilega á óvart að sjá að hástökkvari mánaðarins í flokki reynsluvína er Chianti frá Querceto sem tókst á einum mánuði að slengjast hálfa leiðina í kjarna.

Og fyrstu 10 dagana í maí virðist sem ekkert lát sé á vinsældum vínsins og það lítur vel út með framtíð þess sem stendur. Allavegana erum við nógu bjartsýn til að hafa bókað síðustu 600 flöskurnar sem framleiðandinn átti hjá sér og reiknum með að taka 600 til viðbótar í sömu sendinga af nýjum árgangi, 2008.

Sú sending kemur eftir mánuð eða svo. Hún ætti reyndar að vera ansi skemmtileg og óvenju myndarleg fyrir okkar litla fyrirtæki því þar með í för verður fyrsta kassavínið okkar, rautt og hvítt, en meira um það síðar.

 

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, fréttir, vínbúðirnar

Vín mánaðarins í Gestgjafanum — Chateau de Montfaucon Côtes du Rhône 2006

Grillblaðið góða frá Gestgjafanum var að detta inn um lúguna með góðar fréttir því rauðvínið okkar Côtes du Rhône 2006 frá Chateau de Montfaucon er valið Vín mánaðarins.

Þau mæðgin Dominique og Eymar hitta naglann á höfuðið þegar þau kalla vínið létt og kraftmikið því þetta er svona vín sem er all-bragðmikið en öllu er einhvern veginn pakkað í fágaðar umbúðir með áberandi mýkt.

Niðurstaðan er aðgengilegt vín sem enginn ætti að vera hræddur við að prófa.

montfaucon cdrhone á hlið 

Chateau de Montfaucon 2006 Côtes du Rhône4 glös VÍN MÁNAÐARINS
Chateau de Montfaucon stendur við versturbakka Rónarfljótsins nálægt bænum Chateauneuf-du-Pape sem þarf varla að kynna. Þetta vín er blanda af grenache, syrah, carignan og cinsault sem eru hinar klassísku Suður-Rónarþrúgur. Vínið er opið og ferskt með fínlegan kraft og er meðal annars að finna fjólu, krydd, kirsuber, bláber og vott af jarðvegi. Það er margslungið í munni með góðan ferskleika og fínleg tannín. Fullt af ávexti en þó ekki yfirgnæfandi, ásamt léttum kryddtónum. Frábært jafnvægi, langt eftirbragð og skemmtilega fínlegur en karfmikill karakter. Með öðrum orðum, afar skemmtilegt og aðengilegt vín. Drekkið með vönduðu grilkjöti eða sunnudagslambinu.
Verð: 2.190 kr.
Okkar álit: Léttur og þó kraftmikill Rónarbúi. Gott samspil mili þrúgnanna fjögurra og virkilega matarvænt. „  (- Gestgjafinn 6. tbl. 2009)

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, vín

Uppskrift: Lasagna hússins

Hefðbundið lasagna inniheldur ýmislegt góðgæti eins og ítalska salsiccia pylsu og ricotta sem því miður er vandfundið í búðum eða á borðum Íslendinga. Þessi uppskrift af lasagna hentar vel íslensku heimili, er einföld og ljúffeng.

Á pönnu er kjötsósan undirbúin:

smávegis af góðri jómfrúarólífuolía
1 pk. nautahakk eða svínahakk (eða blandað) er steikt á pönnu.
2 dósir afhýddir tómatar
2 stórar gulrætur smátt skornar
2 sellerístilkar, smátt skornir
(má bæta öðru grænmeti í, s.s. blómkáli, spergilkáli, blaðlauk o.s.frv., jafnvel smátt skornu hvítkáli sem er svo afar hollt)
(Smátt skornir sólþurrkaðir tómatar gefa sósunni líka mjög góðan keim, ef þeir eru til í ísskápnum)
1 stór eða 2 litlir gulir laukar, smátt skornir
Góð handfylli af fersku garðablóðbergi (timian) eða góð matskeið til tvær af þurrkuðu
Sjávarsalt
Ferskur svartur pipar úr kvörn
(lífrænt grænmetissoð eftir smekk)
rauðvínsdreitill (skvett yfir)

Allt steikt saman á pönnu (kjötið fyrst og grænmeti, tómötum og kryddi bætt í), vatni bætt á pönnuna eftir þörfum. Láta malla í amk hálftíma.

Einföld útgáfa af bechamela sósu útbúin í potti:

50-70 g. íslenskt smjör eða smjörvi brætt í pottinum
Hveiti hrært saman við (2-3 msk, þannig að úr verði þykkur jafningur – hræra vel)
Nýmjólk er hellt yfir og hrært vel með þeytu (bætið nýmjólk í (gætið þess að hræra vel til að leysa upp kekki) þar til sósan er orðin eins og súrmjólk að þykkt og kekkjalaus)
A.m.k. hálf fersk múskathneta er rifin yfir með rifjárni (ég tók eftir því fyrir nokkru að múskathnetur fást á góðu verði, nokkur stykki saman í poka, í TIGER).
Passið að hafa ekki of mikinn hita á sósunni til að varna því að hún brenni við.

Fyrir samsetningu:

lasagna-plötur (þurrkaðar eða ferskar – við notumst nú barasta við þurrkaðar, nema við gerum þær fersku sjálf)
parmeggiano reggiano (eða grana padano) ostur (fæst stundum ódýrari í BÓNUS, þá kaupum við nokkur stykki)
ferskur svartur pipar úr kvörn.

Gott eldfast mót er tekið fram. Lasagna-plötur lagðar í botninn (brjótið plötur til að fylla í svæðið), kjötsósu er smurt yfir, bechamela sósa fer yfir kjötsósuna og yfir hana er rifinn parmeggiano eða grana og svörtum pipar dreift yfir. Þetta er endurtekið (lasagne, kjötsósa, bechamela, parmeggiano og svartur pipar) þar til eldfasta mótið er fullt – gætið þess að enda á góðri smurningu af bechamela sósunni efst en ekki setja parmeggiano yfir þar sem hann brennur auðveldlega.

Sett í 200°C heitan ofn (blástursofn) í 45-50 mín eða þar til sósan efst hefur dökknað og kraumar vel í réttinum.

Borið fram með fersku salati.

mmmmm… Buon appetito!

Best að drekka með Lambrusco því rétturinn og vínið koma frá sama svæði Ítalíu. Hvers vegna að breyta einhverju sem er fullkomið.

Færðu inn athugasemd

Filed under lini, matur, uppskrift

Finnið Waldo — landakort yfir vínframleiðendur

Höfum verið að dunda okkur við að búa til landakort á google map yfir þá framleiðendur sem við flytjum inn vín frá; landakort af Ítalíu, landakort af Frakklandi og landakort af Ástralíu.

Fyrir utan að hægt er að nálgast kortin á google höfum við líka sett kort yfir hvar viðkomandi vínframleiðanda er að finna beint inn á síðuna hans á http://www.vinogmatur.is (Frakkland er í vinnslu).

Erum líka búin að safna myndræmum á youtube sem hafa áhugaverðar upplýsingar um framleiðendurna okkar og sett litlar útgáfur af þeim jafnframt inn á framleiðendasíðurnar.

Hér má t.d. sjá dæmi á framleiðendasíðu hins ástralska d’Arenberg inn á vinogmatur.is

Svona lítur franska kortið annars út:

 
View Vínframleiðendur í Frakklandi in a larger map

Færðu inn athugasemd

Filed under furðufrétt, innflutningur