Monthly Archives: júní 2009

Hvernig gengur? Dagur í lífi sprúttsala.

Hvaða spurning brennur helst á vörum fólks þessa dagana þegar efasemdir, áhyggjur og óöryggi einkenna þjóðfélagið?

Líklegast sú klassíska „Hvernig gengur?“ — spurning.

Þýðingin er aðeins þrungnari en hér áður. Nú má búast við á að sá sem svarar sé í alvarlegum fjárhagskröggum, atvinnulaus eða jafnvel gjaldþrota.

Við fáum þessa spurningu oft þessa dagana, mun oftar en áður. Hvernig gengur? Er fólk ennþá að kaupa vín?

Svarið  — jú, líklegast gengur bara vel. Allavegana höldum við að víninnflutningur sé í betri málum en margur annar innflutningurinn. Fólk er ennþá að drekka vín. Kunnum ekki almennilega skýringu á því en kannski vegna þess að fólk eyðir meira í gæða heimavið frekar en erlend ferðalög og spreðerí. Neyslan virðist ekki minni en hefur færst niður á við í verðflokkum þótt millidýr vín séu að seljast ágætlega ennþá.

Svo er ekki til neitt sem heitir „notuð vín“ eða „íslensk vín“ !

Nauðsynlegasta fararteskið þessa dagana sem endranær — tvöfaldur espresso —  nei ég meina, bjartsýni, skynsemi og gott skap.

Hvernig við bregðumst við lægðinni á ennþá eftir að koma í ljós. Dýrari vín eru færri hjá okkur en áður þótt eitthvað slæðist með. Átak í ódýrari vínum (þ.e.a.s. undir 2.000 kr !!!) hefur verið í gangi en var næstum rústað af tollahækkunum stjórnarinnar. Þá má alveg eins búast við nánari naflaskoðun á ennþá ódýrari vínum en Vín og matur verður að viðurkenna — okkur finnast bara svo góð vínin sem kosta aðeins lítið meira en gefa okkur mikið meira.

Færðu inn athugasemd

Filed under vangaveltur

M-ið í „Vín og matur”

Stundum erum við spurð: „Vín og matur — en hvar er allur maturinn?“

Svarið hingað til hefur alltaf verið eitthvað á þann veg að vínin væru í aðalhlutverki enn sem komið er en stundum þvældust með ólífuolíur, hunang, edik og súkkulaði sem við borðum mest allt sjálf.

Það er að breytast.

Við erum búin að leigja húsnæði að Laugalæk 6 við hliðina á 10-11 og opnum þar bændamarkað síðsumars.

Nafnið á verzlunina er komið, það verður tilkynnt í sérstökum tölvupósti sem fer í loftið um leið og hönnun lógós er frágengin, og að sjálfsögðu hér á blogginu og Facebook.

Við hlökkum endalaust mikið til þessa nýja verkefnis sem við höfum fóstrað með okkur í fleiri ár en hefur nú loksins tekið á sig rétta mynd.

Það verður ánægjulegt að hitta ykkur þar!

Fyrstu myndir komnar á Flickr

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir

Uppskrift: Sunnudagskjúklingur

Í þessum rétti dregur kjúklingakjötið í sig keiminn úr bragðmiklu hráefninu. Mikilvægt er að elda réttinn í góðu, eldföstu leirmóti með loki. Ef þú átt ekki slíkt mæli ég hiklaust með því að þú fáir þér það – þú munt ekki verða fyrir vonbrigðum.

Þennan rétt er tilvalið að gera á sunnudögum, þó hann sé einfaldur fer nokkur tími í eldamennskuna (aðallega í ofninum en rétturinn er tvo klukkutíma í ofni) og því best að byrja um miðjan dag og svo er eitthvað svolítið sparilegt við flókinn og lokkandi ilminn sem breiðist úr eldhúsinu um allar vistarverur heimilisfólksins.

Kjúklingaleggir, um 1 kg. (stingdu beittum hnífi hér og þar djúpt ofan í kjötið til að það dragi meira bragð í sig)
2 vænar steinseljurætur, sneiddar.
1 gott spergilkálshöfuð, skorið niður
3 stórir, gulir laukar, skornir í stóra bita
1 stórt glas berjasafi  eða saft (helst bláberja, við geymum  og notum af einum uppáhalds morgundrykk fjölskyldunnar, sem samanstendur af frosnum berjum sem sett eru með köldu vatni í blender og sætt með svolitlu agave sýrópi – bráðholl vítamínsprengja sem allir í fjölskylunni elska).
Góð skvetta af soja sósu.
Góð skvetta af Sweet chili pineapple sósu
Vatnsskvetta.
Hvítvín – smá skvetta.
1 anísstjarna (heil)
3-4 hvítlauksrif, pressuð (skelltu bara hýðinu með í réttinn)
Nokkrir heilir negulnaglar
1/3 rifin múskathneta
Nokkur heil, hvít piparkorn
Nokkur heil, þurrkuð einiber
Sjávarsalt, ágætlega af því
Ferskur, svartur pipar úr kvörn, einnig ágætlega af honum

Ofninn er hitaður í 180-200°C (eftir því hversu heitur hann verður því það er staðreynd að ofnar eru ekki allir eins).
Ekki gleyma að stinga í kjúklingaleggina, það er lykilatriði til að rétturinn njóti sín sem best. Allt hráefnið er sett í gott eldfast leirmót (með loki) og blandað vel saman. Vökvinn á að vera nokkur en þó ekki að hylja meira en til hálfs. Ef þú átt ferskar kryddjurtir, svo sem rósmarín, garðablóðberg eða oreganó, skaltu endilega kasta þeim yfir í lokin (í heilum stilkum). Nú er lokið sett á og mótið sett inn í heitan ofninn í 2 klst. Afbragð er að bera fram með góðu og fersku salati með afhýddu epli, gefur ferskleika á móti kryddsinfóníu réttarins.

Mmmmmmmmmm buon appetito.

Það er svolítill pottréttsfílingur í þesum rétti svo kjarnríkt s-franskt vín er tilvalið, rautt eða hvítt. Bæði vínin frá Chateau Saint Cosme, Little James rautt og Little James hvítt henta prýðilega.

Færðu inn athugasemd

Filed under saint cosme, uppskrift

Gordon Ramsey eldar lambarúllu

Bloggarinn rakst á þetta myndefni á www.freisting.is sem sýnir Gordon Ramsey elda lambarúllu.

Hrikalega girnileg uppskrift sem verður að prófa fljótlega. Spurning hvaða vín væri best með þessum rétti þar sem apríkósurnar gefa sætleika og flækja aðeins valið en rauðvín eins og Little James frá Chateau Saint Cosme sem hafa einmitt svona þroskaðan ávöxt ættu að ganga vel með. Hvítvín, bragðmikið og svolítið feitt og öflugt eins og Comtess Madeleine frá Chateau de Montfaucon ætti líka að smellpassa.

Færðu inn athugasemd

Filed under gordon ramsay, uppskrift

Verðhækkanir í Vínbúðunum

Það hefur ekki farið framhjá neinum að verð á víni og öðru áfengi hefur hækkað. Ástæðan er margumrædd hækkun áfengisgjalds.

Þetta gerðist hratt. Við fengum föstudaginn til að breyta verðum til Vínbúðanna í samræmi við hækkunina og í dag tóku nýju verðin þegar gildi í búðunum.

Það var ekki hjá því komist að hækka verðin því að lagerinn okkar eins og hjá öðrum sprúttsölum er hýstur á frísvæði þar sem við greiðum áfengisgjöld og virðisauka jafnóðum og vara er leyst út og hún afgreidd til Vínbúðanna.

M.ö.o. frá og með fyrsta degi sem ríkisstjórnin ákvað að hækka gjaldið þurftum við að greiða meira en áður fyrir að leysa út af frísvæðinu.

Hækkun okkar vína er á bilinu 100 til 150 krónur á hverja flösku. Einhver vín hækka aðeins meira þar sem gengislækkun krónunnar er ennþá að skila sér í einstaka víni.

Ekki beint gleðifréttir.

Nú er bara að bíða og sjá hvað krónan gerir á næstunni. Vonandi styrkist hún og við getum farið að lækka einhver verð í staðinn fyrir að hækka.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, vínbúðirnar