Monthly Archives: júlí 2009

Little James er Vín mánaðarins í Gestgjafanum

Bæði Little James vínin voru til umfjöllunar í nýjasta Gestgjafanum, Little James Blanc og Little James Rouge og bæði fá 4 glös af 5 auk þess sem hvítvínið hlýtur heiðursnafnbótina VÍN MÁNAÐARINS.

Engin spurning að þarna eru skemmtileg hvítvín á ferðinni með létt-flippuðum flöskumiðum, svona til að minna á að góðar víngerðir þurfa ekki alltaf að taka sig of alvarlega.

Um hvítvínið segja þau mæðgin, Dominique og Eymar, m.a. að þetta sé „frábær útkoma“ úr þeirri frumlegu þrúgnablöndu Sauvignon Blanc og Viognier.

Rauðvínið finnst þeim „smellpassa með grillkjöti“ svo nú er ekki eftir neinu að bíða en poppa einni upp með grillinu í kvöld.

Evran var 150 kr. þegar við keyptum vínin, þau eru því all góð kaup í því ljósi og til samanburðar við mörg önnur vín í hillum Vínbúðanna á svipuðu verðróli.

En gefum þeim mæðginum orðið:

„Little James Basket Press Blanc – 4 glös VÍN MÁNAÐARINS
Frá framleiðandanum Saine Cosme í Rónardalnum kemur þetta stórskemmtilega og forvitnilega hvítvín sem er blanda af sauvignon blanc – og viognier-þrúgum, hið fullkomna par og furðu vekur að reglur Rónardalsins leyfi ekki þessa blöndu. Vínið er opið og frísklegt í nefi með mikinn ávöxt viognier-þrúgunnar eins og t.d. sítrus, melónu, apríkósur og greipaldin sem blandast skemmtilega saman við grösuga og blómlega tóna sauvignon blanc. Í munni heldur það áfram á sömu braut með fínan ferskleika og suðrænan ávöxt. Gott jafnvægi er á milli ávaxtar og sýru, langt eftirbragð sem hangir á einkennum viognier-þrúgunnar og afskaplega matarvænt vín, mætti prófa það með alls konar skelfiski og laxi í sítrónukryddlegi.
Verð: 2.149 kr.
Okkar álit: Frumleg þrúgublanda en frábær útkoma. Árgangur kemur ekki fram en vínið er átappað 2008. Little James Basket Press Rouge – 4 glös
Rétt eins og hvítvínið (bestu kaupin) er þetta ansi forvitnilegt vín og í þetta skiptið er það blöndunin sem er forvitnileg. Árgangur vínsins er ekki tekinn fram, enda er þetta blanda af árgöngum og byggist blandan á hinu svokallaða solera-kerfi sem er notað aðallega í sérríframleiðslu. En vínið sjálft er með opinn og ávaxtaríkan ilm með slatta af svörtum og rauðum berjum, fjólum og steinefnum. Milt í munni með mikla fyllingu, þroskuð tannín og ferskleika til að halda jafnvæginu. Flott bygging og er að finna sömu þætti og var að finna í nefi. Langt eftirbragð sem einkennist aðallega af fjólum og dökkum berjum. Hörkuvín sem smallpassar með grillkjöti en einnig með villibráð.
Verð: 2.149 kr.
Okkar álit: Margslungið með mikinn karakter. Þétt og elegant. “ ( Gestgjafinn 9. tbl. 2009)

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, saint cosme

Frú Lauga í Fréttablaðinu

Sérblað um Beint frá Býli í Fréttablaðinu tók viðtal við okkur og birti í vikunni.

Það má lesa viðtalið hér

Það verður að viðurkennast að það er meiri en svolítill áhugi fyrir opnun búðarinnar sem gerir lokaaðdragandann ennþá meira spennandi og tilhlökkunina meiri.

Við getum ekki beðið en opnunardagur er settur 5. ágúst kl. 12.00, miðvikudaginn eftir Verslunarmannahelgi. Við staðfestum það vonandi í lok þessa mánaðar þegar leyfi til reksturs er komið í gegn.

Færðu inn athugasemd

Filed under bændamarkaðurinn

Vínkeðjan — Hallur Magnússon „að nánast bresta í ítölsku!“

Við létum Lambrusco frá Lini halda áfram í Vínkeðjunni og þá eru tveir bloggarar búnir að syngja um vínið.

Hallur Magnússon tók því vel, var ekki fyrr búinn að opna flöskuna fyrr en rann á hann ítalskur móður.

Lestu allt bloggið hans Halls um Lambrusco frá Lini

Hallur mælir með víninu í sumarsólinni en líka til að þess að færa „sól í sinni“ á köldum vetrarkvöldum.

Hann viðurkennir að Lambrusco frá Lini sé fyrsta vínið sem honum dettur í hug að geti gengið með heitum blóðmör — og það tökum við undir því rannsóknarsvið fyrirtækisins hefur reynt það einu sinni við mjög góðan árangur.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, lini, vínkeðjan

Vínótek — nýr vínvefur fjallar um Lambrusco frá Lini

Steingrímur Sigurgeirsson — blaðamaður, Harvard maður, stjórnamálaspekúlant, matgormur og vínkall með meiru, hefur opnað nýjan vef sem fjallar um vín og meðlæti.

Þetta er fagnaðarefni því fáir eru jafn vel að sér í þessum fræðum enda hefur Steingrímur drukkið, borðað og skrifað fyrir Morgunblaðið í 20 ár.

Nýja vefsíðan ber nafnið Vínótek og er jafnframt hægt að gerast vinur á facebook eða skrifast á póstlista til að fá nýjustu fréttir, uppskriftir og víndóma.

Vefsíðan var ekki búin að vera lengi í sambandi þegar einn af okkar dátum datt inn á radarinn, Lambrusco frá Lini.

Steingrímur gefur því 4 stjörnur af 5 og kallar það m.a. „allt að því unaðslegt“.

Lestu umfjöllun um Lambrusco frá Lini á Vínótekinu

Það verður spennandi að fylgjast með þessari nýju og skemmtilegu síðu í framtíðinni.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, dómar, lini, vínótek

Tveir nýir framleiðendur í Vínbúðunum

Vín frá tveimur nýjum framleiðendum eru nýkomin í Vínbúðirnar.

Fyrst ber að nefna Bisceglia sem hefur aðsetur í Basilicata-héraði á S-Ítalíu og gerir vín þaðan en einnig frá nágrannahéruðum. Þannig er Primitivo 2007 rauðvínið frá Puglia og Falanghina 2008 hvítvínið frá Campania á meðan rauðvínið Aglianico del Vulture 2006 kemur frá heimahögunum Basilicata.

Þessi vín eru tvímælalaust góð kaup og framleidd með lífrænum ræktunaraðferðum.

Þau fást í Vínbúðunum Heiðrúnu, Kringlunni og Skútuvogi.

Hinn framleiðandinn Quintas de Melgaço er staðsettur í Portúgal, okkar fyrsti þar í landi. Frá honum kemur Vinho Verde Terra Antiga hvítvín. Þetta frísklega hvítvín fæst í 10 stærstu Vínbúðunum á Reykjavíkursvæðinu.

Heilmikið af nýjum vínum hafa verið og munu bætast í sarpinn næstu vikur.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, bisceglia, portúgal, Quintas de Melgaço, vínbúðirnar

Ljósmyndir úr ferðalagi um Ísland komnar á vefinn

Myndir úr hringferðinni um landið eru komnar á flickr.

Smelltu til að skoða

Ferðasagan verður að bíða betri tíma þar sem starfsfólk og vinir Víns og matar ehf eru upptekin við að mála og undirbúa Bændamarkaðinn sem opnar í haust.

En ljósmynd getur sagt meir en þúsund orð hvort sem — og við höfum sett þarna inn 69 stykki svo það gerir næstum heila skáldsögu.

Í einu orði sagt hins vegar var ferðin „ærleg!“ og við hlökkum til að verzla með afurðir landsins.

Færðu inn athugasemd

Filed under bændamarkaðurinn

Við erum hér ennþá!

Löng þögn á blogginu, vínpóstinum og öðrum rásum undanfarinn hálfan mánuð eða svo.

Ástæðan er ekki sú að við erum búin að leggja árar í bát heldur þvert á móti, allt of mikið að gera í ýmis konar stappi og stússi.

Kassavínsbeljan hefur tekið sinn toll (hún ætlar aldrei að komast á spenana blessunin), slatti af nýjum vínum sem á eftir að setja á vefinn og svo náttúrulega opnun verzlunar en það ku taka einhvern smávegis tíma að standsetja eitt stykki búð.

Vorum líka á ferðalagi um landið okkar fallega, 9 daga dagsskrá af heimsóknum til bænda um allt land sem allir hafa tekið vel í að bjóða upp á vöru sína í búðinni okkar.

Meira síðar, miklu meira.

2 athugasemdir

Filed under vín