Monthly Archives: ágúst 2009

Vínótekið smakkar á Bisceglia, Little James og Stump Jump

Steingrímur Sigurgeirsson hefur verið iðinn við kolann síðan hann stofnaði vefsíðuna Vínótek. Ekki bara við birtingu víndóma heldur hefur hver girnileg uppskriftin birst þar líka á fætur annarri. Það helsta af síðunni er síðan tilkynnt nánar um á Facebook síðu Vínóteksins.

Steingrímur kíkti í Frú Laugu á dögunum og birti þá þessa umfjölllun í kjölfarið.

Við sendum honum síðan sýnishorn af nokkrum nýjum vínum, eina flösku af hverri sort, nokkuð sem við höfum oft gert í gegnum árin þegar Steingrímur skrifaði (og skrifar enn) um vín og mat fyrir Morgunblaðið.

Hann hefur nú þegar tekið þau flest til umfjöllunar og er yfir höfuð ánægður með gæðin, ekki síst Bisceglia vínin frá Suður-Ítalíu.

Bisceglia Aglianico del Vulture4 stjörnur + „hrífur mann með frá fyrsta dropa“ (lesa meira á Vínótekinu)
Bisceglia Falanghina4 stjörnur „hreinlega dúndurgott“ (lesa meira)
d’Arenberg Stump Jump GSM3 stjörnur „aðgengilegt og þægilegt“ (lesa meira)
Saint Cosme Little James (hvítt)4 stjörnur „einstaklega aðlaðandi hvítvín“ (lesa meira)
Saint Cosme Little James (rautt)3 stjörnur „alvöru Rhone-einkennum“ (lesa meira)

Takk fyrir það.

Færðu inn athugasemd

Filed under bisceglia, d'arenberg, dómar, saint cosme, vínótek

Uppskrift: Síðusteik af Korngrís frá Laxárdal

Endurvöktum sunnudagsmatinn í gær með góðri hádegissteik, kartöflum, sultu og grænmeti og ís á eftir.

Svolítið léttvín flaut með svo ekkert minna þurfti en léttan blund til að núllstill kerfið á eftir.

Steikin var svokölluð síðusteik af Korngrís frá Laxárdal en korngrísirnir þar á bæ borða ekki bara nánast eingöngu íslenskt fóður heldur er fóðrið af hollustu sort. Bændurnir rækta bygg og kaupa af bændum í nágrenninu og gefa síðan grísunum sínum það að borða.

Heilbrigður lífsstíll svínanna skillar sér greinilega í gæðakjöti því síðusteikin sem við elduðum í gær var afar góð.

Kryddblandan er búin til svona:

Blönduð piparkorn léttristuð á pönnu og mulin. Bætt út í salti, sykri og fersku, fínskornu rósmarín. Kryddblöndunni nuddað á steikina og mikið af henni, kjötmegin (þ.e.a.s. ekki fitumegin þótt það væri eflaust í lagi) og meðfram hliðunum.

Ofninn hitaður í 250°C eða svo. Steikin sett í eldfast mót eða á litla plötu með fituhliðina upp og undir er sett skúffa með vatni. Þannig ristast hliðin sem snýr upp og verður brún og falleg en kjötið fyrir neðan verður mjúklega soðið og safaríkt. Líklegast dugir um klukkutími í steikingu.

Þegar steikin er tilbúin er hún látin bíða svolitla stund og allur safinn sem af henni lekur settur í skál og notaður sem sósa því ljúffeng kryddblandan er mestöll þar.

Steikingin heppnaðist mjög vel og kjötið hitti í mark meðal viðstaddra. Bárum fram með soðnum, lífrænum kartöflum frá Engi og grænkáli frá Engi sömuleiðis sem og frá Vallanesi (Móðir Jörð) sem við gufusuðum. Smjör og salt fór yfir kartöflurnar, salt, edik og ólífuolía (hóflega) yfir salatið. Rabarbíu-sultur frá Löngumýri.

Bingó!

Opnuðum lífrænt, hvítvín frá Provence í S-Frakklandi, Mas de Gourgonnier, sem passaði vel með enda steikin með sínum pipar og rósmarín í nokkuð s-frönskum anda.

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga, mas de gourgonnier, matur, uppskrift

Áhugaverð frétt á Sky um matvælaframleiðslu og öryggi

Bloggarinn sat í morgun með espressó bolla og fartölvu, svaraði tölvupósti og hlustaði lauslega á Sky fréttastöðina. Eins og alltaf þegar minnst er á mat sperrti hann eyrun þegar fjallað var um matvælaframleiðslu í Bretlandi og áskorun um að auka þyrfti þar í landi framleiðsluna, bæta gæðin og um leið minnka skaðlega áhrif hennar á umhverfið.

Áhyggjurnar stafa af því að eftir 40 ár mun eftirspurn eftir mat um heim allan hafa aukist um 70% að sögn fréttamanns.

Og þótt nægar birgðir séu í landinu tæki það ekki nema 20 daga fyrir eyjaskeggja að borða sig til síðasta brauðmola.

Fæðuöryggi er því áhyggjuefni þar í landi og efling nauðsynleg.

Matur, okkur nauðsynlegasta efni á eftir súrefni ætti að vera meira í forgrunni umræðu hér á Íslandi en hann gerir, í stjórnmálum, fjölmiðlum og meðal almennings.

Vonandi getum við séð Frú Laugu sem virkan þátttakanda í framtíðinni í að stuðla að og bæta gæði og framleiðslu íslensks hráefnis, aðgengi og eftirspurn. Það geta allir Íslendingar með því að velja gott, íslenskt hráefni.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, frú lauga, matur

Uppskrift: Grillaðar Jöklableikjur

Fyrsti maturinn sem við elduðum úr hráefni úr matarkistu Frú Laugu var framreiddur í gærkvöldi.

Jöklableikjurnar frá Hala í Suðursveit eru eðal hráefni, mátulega stórar og þykkar og alls ekki eins feitar eins og eldisfiskur er gjarn á að verða því Fjölnir og Þorbjörg á Hala sjá til þess að bleikjurnar haldi línunum með kraftmiklu sundi á meðan á ræktun stendur.

Það er varla hægt að kalla matreiðsluna okkar þetta kvöldið sem formlega „uppskrift“ því hún var svo einföld en við tókum fjögur Jöklableikjuflök og grilluðum með roðhliðina niður þar til fiskurinn var orðinn ljósbleikur í gegn með smávegis maldon salti. Þegar hann var tilbúinn settum við hann á disk og helltum bræddu smjöri með hvítlauk og fersku rósmarín sem við sóttum út á svalir.

Þessi matreiðsla hentar bleikjunni vel, ekki of mikið smjör, ekki of mikill hvítlaukur og hóflegt rósmarín. Við viljum að bragðið af bleikjunni njóti sín.

Bárum fram með sítrónu sem hver og einn kreisti yfir að vild.

Tíndum salat og kartöflur í garðinum. Salatið var borið fram grænt með eingöngu balsamik ediki og virkaði ótrúlega vel svona ferskt. Kartöflurnar voru skornar í báta beint úr moldinni og inn í ofn með ólífuolíu hellt yfir og slatta af maldon salti. Pössuðum að hafa ekki kartöflurnar of lengi inni í ofni svo ferskleikinn myndi ekki glatast.

Mikið var þetta gott! Ekki spillti fyrir að nánast allt hráefni var sótt í forðabúr fjölskyldunnar.

Drukkum með nýtt hvítvín frá d’Arenberg sem gjörsamlega smellpassaði með, Stump Jump Chardonnay. Það verður kynnt síðar í Vínpóstinum en það hóf sölu 1. ágúst í Vínbúðunum.

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, frú lauga, Jöklableikjur, uppskrift