Monthly Archives: september 2009

The Laughing Magpie í japanskri teiknimyndaseríu

Guðirnar hafa talað.

„Dreggjar guðanna“ er japönsk manga teiknimyndasería um ungan mann sem missir föður sinn, mikinn vínspekúlant og gagnrýnanda. Í erfðaskrá föðursins er sett af stað keppni milli mannsins og fósturbróðir hans um að finna 12 „guðdómleg“ vín veraldar.

Ég hef ekki séð þessa seríu og veit ekki hvort hún hefur verið þýdd á ensku (hefur verið þýdd á amk frönsku) en bíð spenntur eftir að komast yfir hana einhvern tímann.

Nú er ennþá meiri ástæða til því að í nýjasta heftinu ferðast ungi vínsmakkarinn til Ástralíu og smakkar The Laughing Magpie frá d’Arenberg við mikla ánægju.

Þetta er í fyrsta sinn sem ástralskt vín birtist á síðum teiknimyndahetjunnar því gamlir standardar úr evrópskri víngerð hafa ráðir þar ríkjum.

Sala á The Laughing Magpie rauk upp í kjölfarið, 2006 árgangur er uppseldur en við búum svo vel að eiga slatta af 2006 á lagernum okkar.

Smelltu til að lesa forsíðufrétt um birtinguna sem vakti mikla athygli í Ástralíu

Svona lítur þetta út á síðum „Dreggja guðanna“:

—————-

Plantað fyrir 210 árum, áströlsk vín eru afurð vinnu fólksins. Shizuk hefur fundið kandídat undir áströlskum himni.

SHIZUKU: Þetta Shiraz er virkilega gott. Ég bjóst ekki við miklu frá víni með skrúftappa.

ST’ÚLKA: Þetta vín hefur unnið mörg verðlaun, þetta er vín fyrir fólk með puttan á púlsinum. Það kemur frá svæði ekki langt frá sem heiti McLaren Vale. Þetta er d’Arenberg Laughing Magpie Shiraz Viognier 2006 árgangur.

SHIZUKU: Við skulum flytja þetta vín inn.

STÚLKA: Góð hugmynd. Það myndi kosta á milli 2000 og 3000 yen í Japan. Fyrir utan að leita að kandídötum þurfum við að finna vín til innflutnings líka.

SHIZUKU: Það er kryddað og barmafullt af orku og lífi. Bæði framandi en líka fyrir venjulegt fólk á sama tíma.

Ein athugasemd

Filed under ástralía, d'arenberg, dómar, fréttir

Uppskrift: Rauðrófurísotto með lerkisveppum frá Móðir jörð

Klukkan 18.00 í dag starði ég svangur en andlaus inn í ísskápinn.

Hvað í ósköpunum var hægt að gera í matinn?

Í ísskápinum voru rauðrófur og fennel frá Móðir Jörð og það rifjaðist upp fyrir mér að við áttum frosna lerkisveppi, sömuleiðis frá Móðir Jörð. Þá datt mér í hug að að prófa rísottó úr þessum afurðum en svepparísótto hefur löngum verið þjóðarréttur á N-Ítalíu þótt ekki sé ég viss um að rauðrófur hafi oft slysast þar með.

Ég skar rauðrófuna (1 stk) mjög smátt og lét malla ásamt brytjuðu fenneli (smá stubbur og „hár“) í slatta af ólífuolíu og smá rauðvíni í 10 mínútur. Þá fór einn bolli af arborio grjónum út í ásamt bolla af vatni. Soðið á vægum hita í opnum potti í 20 mínútur eða svo og vatni sífellt bætt við til að halda raka í grjónunum og svo þau brenni ekki (örugglega fara 6-8 bollar af vatni þegar upp er staðið). Þá fóru brytjaðir lerkisveppir út í (frosnir). Soðið í svona 10 mínútur í viðbót og vatni bætt á eins og þarf ásamt grænmetiskrafti frá Sollu (2-3 matskeiðar) og pipar. Þegar grjónin voru tilbúin (mjúk undir tönn en ekki ofsoðin heldur mátulega stinn) tók ég pottinn af pönnunni og bætti út í fullt af ferskri steinselju (gróft skorinni) og slatta af rifnum parmeggiano osti og smá smjörklípu.

Sniðugt að bera fram með því að dreifa vel úr á diskinum, fletja út.

Með þessu var sopið á restum gærdagsins, Bandol rauðvíni frá Tempier, en gott hvítvín frá S-Ítalíu eins og Falanghina frá Bisceglia eða rauðvín frá Piemonte héraði í N-Ítalíu eins og Dolcetto d’Alba frá Luciano Sandrone væri eðalgott.

Færðu inn athugasemd

Filed under bisceglia, frú lauga, móðir jörð vallanesi, tempier, uppskrift, vín

1. september — Dagur Beljunnar

Það er komið að því.

Frá og með deginum í dag er Beljan loksins komin á meðal sinna líka, í hillur Vínbúðanna.

1. september er Dagur Beljunnar.

Líklegast hefur ekkert kassavín á Íslandi (og þótt víðar væri leitað) átt sér svo langan aðdraganda. Fyrir um ári síðan fengum við þá hugmynd að flytja inn kassavín með okkar eigin hönnun, okkar fyrsta kassavín. Ýmsir góðir aðilar komu að málinu en það var síðan í höndum hins skapgóða nágranna Beljunnar, hönnuðarins Einars Geirs Ingvarssonar, sem hún fékk á sig lokamynd auk þess sem góðvinur Beljunnar og fyrrum skólafélagi, sjálfur Ritstjórinn, kom með góð ráð. Rakel teiknaði sjálfa Beljuna.

Tja, amk. eins mikla lokamynd og okkur var unnt en ritdeilur við ítalska prentsmiði ullu því að við þurftum að gera nokkrar (reyndar ótrúlega margar) aðlagaðar útgáfur þar til allir voru sáttir.

Síðan var ÁTVR, hin ágæta stofnun, ekki par á því að við myndum skíra afurðina „Belju“, jafnvel þótt slíkt tungutak tíðkist gjarnan um kassavín hjá viðskiptavinum stofnunarinnar.

Jæja, við gátum sætt okkar við það líka enda nenntum við ekki að fara að puðrast lengur með málið – í prentun fór Beljan, jafnvel þótt hún kæmi nú fram undir dulnefni og héti einfaldlega (á yfirborðinu) hinu siðprúða nafni „Rauðvín – Toscana“ og „Hvítvín – Toscana“ eftir því í hvaða lit hún er.

Þannig að sagan sú hlaut loksins góðan endi, að því sem við teljum.

En vín snúast ekki bara um útlit, jafnvel ekki kassavín. Eftir að hafa smakkað okkur í gegnum ófá sýnishorn frá ófáum framleiðendum fundum við það sem við vorum að leita að á Ítalíu og þangað hélt Beljan snemmsumars. Á Ítalíu var henni vel tekið af hjónunum Alessandro og Antoniettu (sjá myndir) sem hugsuðu vel um hana í allt sumar og voru síðan svo elskuleg að fylla á spenana hennar með þeirra eigin góða víni (sjá myndir).

Beljan fæst núna í Heiðrúnu, Kringlunni og Skútuvogi. Sú hvíta kostar 5.998 kr. og sú rauða 6.298 kr..

Beljan er líka á Facebook — svo nú væri gaman að heyra hvað fólki finnst um sjálft vínið.

Ein athugasemd

Filed under beljan