Monthly Archives: október 2009

Endurfundir með Amedei

Frú Lauga ætlar að bjóða upp á Amedei súkkulaði fyrir jólin.

Líklegast eru um 2 ár síðan við fluttum síðast inn Amedei en vegna gengismála slepptum við því alveg fyrir síðustu jól.

Við ætlum að láta nægja þessi jól að selja Amedei í Frú Laugu svo við getum haldið verðinu niðri og temprað aðeins áhrif gengishrunsins.

Pöntun er lögð af stað og vonandi berst súkkulaði í hús um miðjan næsta mánuð. Þarna verða góðkunningjar, sumir í nýjum umbúðum, í bland við nokkrar skemmtilegar nýjungar. Konfekt látum við alveg eiga sig þótt það sé hrikalega gott og girnilegt – okkur finnst einfaldlega verðið of hátt eins og sakir standa og setjum kraftinn í hreina súkkulaðið í staðinn. Þó verða þarna einhverjar girnilegar fyllingar, súkkulaðikrem, hvítt súkkulaði með pistasíum … …

Frú Lauga elskar súkkulaði.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, frú lauga

d’Arenberg minnir á sig

stump jump gsm minniÞegar kemur að upplýsingastreymi frá framleiðendum til okkar í höfuðstöðvum Víns og matar – þá má eiginlega skipta hópnum í tvennt; d’Arenberg og allir hinir.

Flestir framleiðendur senda okkur annað veifið póst með nýjum dómum og tilheyrandi fréttum en d’Arenberg er sér á báti. Í hverjum mánuði sendir d’Arenberg fréttabréf auk þess að dúndra ýmsum póstum þess á milli. Vefsíða d’Arenbergs er líka framúrskarandi.

Okkur leiðast ekki þessir tíðu skeytasendingar; d’Arenberg hússtíllinn sem nær frá vínum til mannlegra samskipta einkennist af húmor og hispursleysi.

Í önnum síðustu vikna höfum við ekki haft undan að segja frá sigrum framleiðandans á vínsviðinu, ekki síst á bandarískum vettvangi, en nú skulu lesendur og þá sérstaklega unnendur d’Arenberg vína uppfærðir.

Líklegast ber hæst viðurkenning sem d’Arenberg hlaut í bandaríska víntímaritinu Wine and Spirits sem ein af víngerðum ársins, Winery of the Year, en slíkur titill fellur til þeirra sem hafa jafna og breiða línu af fyrirmyndar vínum (sjá umfjöllun og dóma blaðsins um d’Arenberg).

Þá tók Gary nokkur Vaynerchuk The Footbolt 2006 til umfjöllunar (fæst í Vínbúðunum) í sjónvarpsbloggi sínu Wine Library TV en væntanlega er ekkert efni sem fjallar um vín með eins mikið áhorf sem stendur og hefur Gary vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og víðar. The Footbolt fær góða umfjöllun í þættinum en d’Arenberg víngerðin sjálf fær mikið lof (sjá myndræmu).

Gary bætti um betur og birtist í sjónvarpsþættinum The Today Show með þrjú vín sem áttu að sýna fólki nýjar hliðar á vínupplifun og var eitt þeiirra Riesling hvítvín frá d’Arenberg (sjá myndræmu). Við flytjum það reyndar ekki inn en bjóðum upp á annað Riesling, The Stump Jump Riesling, sem er ekki síður spennandi.

En til Ástralíu – James Halliday gefur d’Arenberg fullt hús stiga í bók sinni Australian Wine Companion og velur sem „Outstanding Winery“ sjötta árið í röð. James þessi er sérfræðingur í áströlskum vínum. (sjá dóma og umfjöllun hér).

d’Arenberg hefur líka tekið höndum saman með nokkrum þekktum víngerðum í Ástralíu og stofnað verkefnið First Families. Að baki þess standa víngerðir sem framleiða framúrskarandi vín og eiga það sameiginlegt að hafa verið í eigu sömu fjölskyldu í marga ættliði – verkefni sem er ætlað að auka meðvitund almennings um sögu, menningu og gæði ástralskrar vínframleiðslu.

Þá ber að nefna sérstaklega vín sem fæst hér í Vínbúðunum á góðu verði sem hefur fengið fína pressu um víða veröld, rauðvínið The Stump Jump GSM (sjá dómana) sem einn kallar svo viðeigandi „Just a damn good drink“.

Að ógleymdri framkomu The Laughing Magpie í japönsku manga teiknimyndaseríunni Dreggjar Guðanna sem var fjallað um hér á blogginu ekki fyrir löngu.

Þetta er aðeins brot.

Við höfum ítrekað ósk okkar að fá hingað til lands Chester Osborn, eiganda og víngerðarmann d’Arenberg, og eru ágætar líkur að það gerist næsta vor.

Þangað til heldur d’Arenberg áfram að minna á sig með reglulegum skeytasendingum.

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, dómar

Hvað er að gerast?

Það hefur ekiki heyrst mikið í okkur undanfarið hérna á blogginu þar sem kraftarnir okkar beinast svolítið að Frú Laugu þessa dagana og svo verður eitthvað áfram.

Frúin er annars við góða heilsu!

Sprúttsalan hefur þó ekki legið niðri á meðan. Við höfum t.d. boðið upp á vínsmökkun á hverjum föstudegi í Frú Laugu kl. 16.00 fyrir gesti og gangandi.

Og það eru mörg ný vín væntanleg þrátt fyrir Kreppu Gömlu en þannig var það á sumardögum að ÁTVR blés til samkeppni um vín á svokallaðan sérlista (sérstakur listi til að þétta úrval Vínbúðanna þar sem upp á skortir) og sendum við inn slatta af vínum frá okkar framleiðendum.

Fyrir valinu urðu all mörg vín af þeim sem við sendum inn en ekki er víst að öll rati endanlega í hillurnar þar sem við þurfum að hugsa um að flutningar og annað borgi sig þegar stærri myndin er skoðuð. Þau vín sem birtast hér þó örugglega, eru reyndar lögð af stað til landsins, eru ein fjögur ný vín frá hinum suður-ítalska Bisceglia, þrjú ný frá Lambrusco-framleiðandanum Lini, þrír rauðvínsboltar frá Saint Cosme í S-Frakklandi (þ.á.m. Chateauneuf-du-Pape) og tvö freyðivín frá nýjum Prosecco framleiðanda Val d’Oca. Þar fyrir utan hafa flust á sérlistann vín sem þegar voru til í Vínbúðunum frá t.d. Hubert Sandhofer, d’Arenberg og fleirum.

Við segjum frá þessu öllu betur þegar veigarnar berast til landsins.

Færðu inn athugasemd

Filed under bisceglia, d'arenberg, fréttir, frú lauga, lini, saint cosme, sandhofer, val d'oca

„Loksins, loksins“ — Terra Antiga Vinho Verde Bestu kaupin í Gestgjafanum

Terra_Antiga minniGestgjafinn hefur tekið til umfjöllunar nokkur af nýju vínunum okkar í síðustu tveimur tölublöðum og ekki annað að segja að útkoman sé góð.

Áströlsku stubbavínin The Stump Jump GSM og The Stump Jump Chardonnay fá bæði 4 glös og sömu sögu er að segja af Aglianico del Vulture frá Bisceglia. Hvítvínið Falanghina frá sama framleiðanda fær 3 1/2 glas.

Bestu dómana í þessum glaða hópi fær þó líklegast Vinho Verde Terra Antiga, 4 glös og nafnbótina „Bestu kaupin“.

Svona lítur þetta út:

Vinho Verde Terra Antiga 20084 glös BESTU KAUPIN
Loksins, loksins fáum við til okkar á smakkborðið Vinho Verde og það líka almennilegt eintak. Vinho Verde er merkilegt fyrirbæri sem væri hægt að gera góða grein um en í stuttu máli þá er þetta vín sem kemur frá norvesturhluta Portúgals og eru hvítvínin gerð úr þrúgunni albarino, eða alvarinho eins og hún kallast á portúgölsku. Vínið er brakandi ferskt og eru svo mikið sumar í því að liggur við að sólin fari að skína þegar maður opnar flöskuna. Ilmurinn er opinn og eins og áður sagði afar ferskur og er þar að finna græn epli peru, sítrus, vínber, greip og melónu. Einstaklega aðlaðandi ilmur svo ekki meira sé sagt. Í munni er það léttfreyðandi og ofboðslega ferskt. Létt fylling og sömu þættir og í nefi, jafnvægi er gott þó svo að ferskleikinn sé allsráðandi og einfaldleikinn er í fyrirrúmi. Drekkið með sjávarréttasalati eða með íslenskum kræklingi.
Verð: 1.789 kr.
Okkar álit: Brakandi ferskt, einfalt og algjör gullmoli. Synd að sumarið sé að enda því hér er á ferðinni 100% sumarvín. 

D’Arenberg Stump Jump Chardonay 20084 glös
Vínin frá d’Arenberg hafa alltaf vakið hrifningu hjá okkur sökum góðra vína og frumlegheita í víngerð og hugunarhætti og er þetta vín engin undantekning þar. Það ber nafnið á gamalli uppfinningu sem var notuð til að ryðja landið í kringum McLaren-dalinn og gat vélin „stokkið“ yfir trjástubbana á eucalyptus-trjánum sem krökkt var af á svæðinu. Vínið er létteikað og með því er átt við að um fjórðungur af safanum er geymdur í notuðum eikartunnum í einhvern tíma. Opinn, óvenju ferskur og nett-ristaður ilmur af vanillu og kryddi en eftir stutta öndun ryðst suðrænn og ljúffengur ávöxtur fram og tekur völdin. Í munni er það skemmtilega frísklegt, miðað við Chardonnay frá Nýja heiminum, með þéttan ávöxt og góða fyllingu. Jafnvægið er til fyrirmyndar og endingin sömuleiðis. Pottþétt í alla staði enda frábær framleiðandi á ferð. Drekkið með grilluðum fiski ásamt blaðlauks- og sítrónurjómasósu.
Verð: 2.120 kr.
Okkar álit: Hér blandast saman örlæti ástralskra vína við fágun Chardonnay og er útkoman stórskemmtilegt vín, laust við dæmigerðar ástralskar ýkjur.

Bisceglia Falanghina 2008 3 1/2 glas
Hér er á ferðinni enn ein ítalska þrúgan sem fáir, ef einhverjir, hafa heyrt um – falanghina. Það er kannski ekki furða að hún sé lítið þekkt hér á landi þar sem hana er aðallega að finna á vínekrum Suður-Ítalíu og hafa vínumboðin ekki verið að sækja vín þangað í miklum mæli. En það virðist vera að breytast. Vínið er opið og tekur þétt ávaxtaveisla á móti manni í fyrstu með melónu, ferskju, apríkósu, banana og mangó. Unaðslegur kokteill og hægt er að staldra lengi við með nefið í glasinu. Í munni er vínið milt og ferskt með góða fyllingu og með allt annan karakter en í nefi. Ávpxturinn er miklu minni og er ákveðinn biturleiki sem fylgir víninu alla leið. Krefst matar og þá helst grillaðs fiskspjóts.
Verð: 2.120 kr.
Okkar álit: Ljúft í nefi og athyglisvert í munni. Afar vel gert en með klofinn „persónuleika“ og er vínið sér á báti.

Bisceglia Aglianico del Vulture 20064 glös
Aglianico er lítt þekkt þrúga hérlendis og er svo víðar. Þessi þrúga hefur það sem þarf til að framleiða gæðavín og koma bestu dæmin frá ekrum sem liggja í kringum fjallið Vulture, þ.e.a.s. DOC Aglianico del Vulture. Vínið er pínu feimið í byrjun en mildur piparilmur er það fyrsta sem tekur á móti manni. Fljótlega koma blómlegir tónar í ljós ásamt mildum ávexti. Við þyrlun sprettur upp margslunginn blómailmur og ávöxturinn fer að njóta sín betur með kirsuber í aðalhlutverki. Skemmtilega öðruvísi ilmur. Vínið er ávataríkt í munni með kryddaða áferð, fínleg tannín og góðan ferskleika. Pipar, kirsuber, blóm, kryddjurtir og eiginlega allt sem var að finna í nefi. Flott fylling. Langt eftirbragð sem hangir á þessum milda og kryddaða karakter. Matarvín sem væri skemmtilegt með réttum í anda osso bucco.
Verð: 2.189 kr.
Okkar álit: Sérstaklega vandað vín sem dregur fram það besta hjá þrúgunni, margslungið og matarvænt.

d’Arenberg Stump Jump GSM 20074 glös
The Stump Jump GSM (Rhone-blandan) er okkur ekki ókunnugt og höfum við smakkað nokkra árganga í gegnum tíðina. Hér erum við með nýjan árgang og er blandan 50% grenache, 29% shiraz og 21% mourvedre og kemur ávöxturinn frá McLaren-dalnum í Suður-Ástralíu. Vínið er opið og gjafmilt með þéttan en ferskan ávöxt, blóm, eucalyptus og piparinn er á sínum stað en þó fínlegri en vill oft gerast í svipuðum vínum. Við öndum verður ávöxturinn þykkari og bakaðri. Einfaldur en aðlaðandi ilmur. Mild og ávaxtarík áferð með nægan ferskleika til að viðhalda jafnvægi. Flott fylling og virkilega djúsí ávöxtur í bland við blómlega tóna og nettan pipar sem heldur sig í bakgrunninum. Nokkuð langt eftirbragð sem hangir á ávextinum. Drekkið með léttri villibráð og þá helst fuglakjöti.
Verð: 2.189 kr.
Okkar álit: Skemmtilegt vín í alla staði. Vel gert með flotta byggingu og skemmtilegan karakter.“

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, ítalía, bisceglia, d'arenberg, dómar, terra antiga