Monthly Archives: mars 2010

Vínin yfir páskana

Eins og kemur fram í nýjasta bréfi Frú Laugu þá mælum við sérstaklega með rauðvíninu Cotes du Rhone 2006 frá Chateau de Montfaucon með páskalambinu. Þetta hefur þægilegan ilm, þéttan ávöxt og flotta byggingu. Látlaust vín í besta skilningi þessa orðs sem er við hæfi á þessum tíma yfirvegunar og innri friðar.

Önnur vín sem sýna sínar bestu hliðar í nærveru lambakjöts eru rauðvín úr Sangiovese þrúgunni eins og Chianti Classico 2007 frá Castello di Querceto, Chianti Classico 2006 frá Fontodi eða Montefalco Rosso 2005 frá Arnaldo Caprai.

Klassísk rauðvín sem falla ekki í skuggann af lambinu eða öfugt.

Í hvítu deildinni mælum við með einhverju svolítið þykku og höfugu til að standa í hárinu og t.d. humri og laxi en með ferskleika engu að síður, eins og t.d hið skemmtilega Chardonnay hvítvín The Stump Jump Lightly Wooded Chardonnay 2008 frá d’Arenberg nú eða madamman sjálf Comtesse Madaleine 2007 frá Chateau de Montfaucon.

Síðan má líka draga fram Beljuna en það vill svo til að þær eru einmitt úr þessum þrúgum sem mælt er með hér fyrir ofan, sú rauða úr Sangiovese og sú hvíta úr Chardonnay. Okkur finnst rauðvínið vera að vaxa með tímanum sem það hefur haft í maga beljunnur og hvítvínið fer að verða meira grípandi með hækkandi sól og vori.

Gleðilega páska!

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, d'arenberg, montfaucon

Chablis á bónus verði

Í tilefni af því að ný sending er væntanleg frá Christian Moreau í Chablis fórum við yfir lagerstöðuna og fundum nokkur gler (6-18fl af hverri sort) af gömlum árgöngum frá þeim tíma sem Íslendingar voru ríkir og krónan sterk.

Reyndar finnst okkur þessi flottu hvítvín úr Chardonnay þrúgunni svo góð og við næstum tímum ekki að láta þau frá okkur en við getum nú ekki drukkið allt sjálf, jafnvel ekki með góðri hjálp – og við munum taka frá nokkrar flöskur handa okkur líka.

Vínin sem um ræðir eru þrjú og voru keypt þegar evran kostaði undir 100 krónum. Þau eru því frábær kaup í ljósi þess að ný sending verður leyst út á genginu 175 eða svo. Verðið er því mjög „2007“ og ættu unnendur ekta Chablis-vína að sperra eyrun.

Þetta eru vínin þrjú: Chablis 1er Cru Vaillon 2006Chablis Grand Cru Vaudesir 2004 og Chablis Grand Cru Les Clos „Hospices Les Clos“ 2004 – og mætti lýsa stílnum almennt svo að þau eru vel þurr, djúp fremur en breið, með dæmigerðum steinefnaeinkennum Chablis vína og þægilegum en ekki of sterkum eikarblæ, fáguð og í flottu jafnvægi.

Áhugasamir sendi okkur póst á vinogmatur@vinogmatur.is til að fá upplýsingar um lagerstöðu og hvernig maður ber sig við að sérpanta þau í Vínbúðunum.

Færðu inn athugasemd

Filed under christian moreau, tilboð

Vín mánaðarins í Gestgjafanum

Það var ánægjulegt þegar við vorum nýbúin að fjalla um dræma sölu góðvínanna þriggja frá Chateau Mourgeu du Gres í Vínbúðunum að Gestgjafinn tók eitt þeirra upp á arma sína. 

Litla rauðvínið Les Galets Rouges 2008 í hálfs líters flöskunni er Vín Mánaðarins með 4 1/2 glas. 

Góður dómur fyrir vín sem á allt gott skilið að okkar mati. „Ilmurinn er yndislegur“ segja þau en það eru engar ýkjur því fá vín í okkar herbúðum hafa eins mikinn og flottan ilm og ilmur er stór hluti góðs víns. 

Það er minnst á annað vín frá Vín og mat í blaðinu en Stump Jump Riesling fær sömuleiðis 4 1/2 glas en sá dómur miðast við hversu vel vínið paraðist með bláskel þar sem Riesling vín eru sérstaklega til umfjöllunar. 

Chateau Mourgues de Gres Les Galets Rouges 2008VÍN MÁNAÐARIKNS 4 1/2 glas
Í neðri hluta Rhone-dalsins er jarðvegurinn mjög grófur (þekktast í þeim efnum er Chateauneuf du Pape og nágrenni) og leirkenndur með sandsteini frá Ölpunum. Lofstslagið er oft mjög heitt þannig að vínviðurinn „þjáist“ en nær raka djúpt í berginu. Betri staðarþrúgurnar eins og syrah, grenache og mourvédre í góðum höndum gefa góð vín. AOC Costiéres de Nimes er á vesturbakka Rhone og tilheyrir Languedoc. Chateau Mourgues du Gres er lítið vínhús og leiðandi hvað varðar gæðaframleiðslu í þessu AOC og skorar alltaf mjög hátt hjá Robert Parker. Hér er syrah 75% og grenache, mourvédre og carignan 25% alls., vínið er geymt í ár á stáltanki til að varðveita ferskleikann. Þetta er ungt vín og þarf líklega að láta það bíða í glasinu í 10-15 mínútur en ilmurinn er yndislegur, afar hreinn ávöxtur (rauð og svört ber), hvítur pipar, kryddjurtir og engar ýkjur sem gefur strax til kynna að þetta margslungna vín sé í einstöku jafnvægi. Í munni er það fylgið sér, vínið er þétt, nokkuð af fíngerðum tannínum, mikið af ferskum, sólríkum, svörtum berjum, lakkrís og pipar – langt eftirragð. Matarvín, prófið með andarbringu, hreindýri, entrecote eða nautasteik með bearnaise.
Verð: 1.850 kr. (50cl)
Okkar álit: Frábært vín í einstaklega þægilegri flðskustærð fyrir 2 (50cl), margslungið og mikið matarvín. Ungt – betra eftir svolítinn tíma í glasinu.  “ (- Gestgjafinn 3. tbl. 2010)

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, dómar, Gestgjafinn, mourgues du gres