Monthly Archives: maí 2010

Langamýri — Rabbarbarabarónar Íslands

Það var á sólríkum sunnudagsmorgni sem við renndum í hlað hjá Kjartani og Dorothee á Löngumýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Hér er ekki látinn duga hefðbundinn búskapur, þótt góður sé, heldur stigið skrefinu lengra í vöruþórun og framleiðslu. Það hófst fyrir nokkrum árum í góðu samstarfi með hönnunardeild Listaháskóla Íslands og afurðin var Rabarbía, gómsæt karmella úr Löngumýrar-rabbarbara í frumlegum og fallegum umbúðum.

Karmellan hefur fengist í Frú Laugu frá því við opnuðum dyrnar ásamt sultum og fíflasýrópi en Kjartan og Dorothee hafa líka sent okkur gærur, lambakjöt og sauðakjöt, landnámshænuegg og ristaðar möndlur fyrir jólin. Að ógleymdum rabbarbaranum sjálfum sem hefur komið til okkar bæði ferskur og frosinn. Lífrænn búskapur.

Heimsóknin þennan sunnudag var afar skemmtileg. Lamb fæddist í beinni, fjárhús voru rannsökuð, landnámshænur hvattar til að halda áfram að verpa fyrir Frú Laugu, klappað á kettlingum, gengið út í haga og borðuð kjötsúpa og rabbarbarapæ. Hér hljóta allar máltíðar að enda á rabbarbarapæ.

Ný sending af ferskum rabbarbara er væntanleg upp úr miðjum júní.

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga, vín

Hollar og mikilvægar ólífur í Frú Laugu

Ólífur eru mikilvægar.

Að horfa á þennan litla, bitra ávöxt er eins og hafa sögu mannkyns í hendi sér.

Egyptar, Grikkir, Rómverjar; Hómer, Biblían, Kóraninn; Aþena, Múhammeð, Tutankhamen; viður, lauf, ávöxtur, olía – fáar plöntur eiga eins langa og jákvæða sögu sem lækningarmáttur, næring eða boðberi dýrðar, visku og friðar.

Ólífur eru líka hollar.

Þær eru sjaldnast borðaðar beint af trénu heldur verkaðar í saltlausn eða olíum sem kemur af stað náttúrulegri gerjun sem breytir eiginleikum ólífunnar svo hún verður betri og hollari. Hollar ólífur eru m.a. taldar styrkja ónæmiskerfi, vernda DNA, minnka líkur á hjartasjúkdómum og svo mætti lengi telja.

Til þess að hámarka ferskleika, bragð og ekki síst hollustu er hins vegar mikilvægt að ólífurnar séu einmitt framleiddar á þennan náttúrulega hátt en ferlinu ekki flýtt eins og gjarnan er gert með vítissóda í iðnaðarframleiddum ólífum og ýmsum óþarfa aukefnum bætt þar samanvið.

Ólífurnar í Frú Laugu eru „markaðsferskar“ sem þýðir að þegar við höfum sett þær í dollur endast þær eingöngu í 2 vikur svo það þarf að nálgast þær og meðhöndla eins og hvert annað grænmeti.

En þær eru góðar og þær eru hollar.

Það skiptir öllu máli.

Fimm tegundir eru fáanlegar í Frú Laugu:

Dökkar Kalamata frá Grikklandi og dökkar Gaeta frá samnefnu svæði á S-Ítalíu, grænar Nocellara del Belice frá Sikiley, miðjarðarhafsblanda af nokkrum grænum og dökkum tegundum með smávegis rósmarín og loks stórar grænar með fyllingu (hvítlauk, papriku og sítrónu). Þær eru verkaðar í saltvatni þar sem ýmist er bætt við sólblómaolíu, vínediki eða náttúrulegum sýrum (mjólkursýru, sítrus, c-vítamíni).

100 grömm af ólífum kosta 290 krónur og höfum við sett þær í 200g dollur til að byrja sem greiðast eftir vigt.

Ólífur Ragnar Grímsson munu fást með haustinu

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga, heilsa, matur