Monthly Archives: apríl 2011

Besta rósavínið í Vínbúðunum — „líklegast“

gourgonnier_rose_litilMas de Gourgonnier rósavínið er VÍN MÁNAÐARINS í nýjasta Gestgjafanum.

„Líklegast besta rósavínið sem fæst í Vínbúðunum“ stendur þar skrifað.

Því miður munu ekki margir þora að prófa þessa bleiku fegurð.

Rósavín eru einfaldlega bara ekki „inni“ en sú hugmyndafræði byggir á einhverri gamalli þjóðsögu sem er kominn tími á að endurskrifa.

Vertu öðruvísi, drekktu rósavín.

Tja, amk. eina (þessa) til að prófa.

Mas de Gourgonnier rósavín4 1/2 glas VÍN MÁNAÐARINS.
Mas de Gourgonnier er eina vínhúsið frá Provence í Vínbúðum og hefur verið nánast alla tíð. Þetta er þekkt fjölskylduhús í St. Rémy de Provence sem hefur verið með lífrænt síðan 1975 (þannig að jarðvegurinn er með besta móti næringarríku) og framleiðir hefðbundin rauð-, hvít- og rósavín þó í mismunandi AOC. Rósavínið er AOC Baux de Provence eins og rauðvínið og þrúgurnar eru grenache, syrah, cinsault, carignan og mourvédre. Enda er vínið margslungið, með mikinn karakter, ilmandi af litlum, rauðum berjum, fíngert og virkilega aðlaðandi. Þetta er vandað vín, þurrt en ávaxtaríkt, alvöru matarvín sem hentar á sumrin með Miðjarðarhafsréttum en allt árið með austurlenskum mat eða grilluðum fiski og grænmeti. Rósavín er allt of vanmetið hér heima.
Okkar álit. Yndislegt, fágað og vandað matarvín – þar að auki lífrænt. Líklega besta rósavínið sem fæst í Vínbúðunum.
Verð: 2.980 kr.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, mas de gourgonnier

Sandrone á sínum stað

Bloggarinn er nú búinn að vera að flytja inn vín í 8 ár. Hann hefur rekist á margt áhugavert á þeim tíma og hluti af því hefur skilað sér í Vínbúðirnar. Sumt staldrar stutt við og þá tekur eitthvað annað spennandi við. Bloggarinn á jú stundum erfitt með sig þegar hann finnur eitthvað nýtt og spennandi sem hann bara verður að flytja til landsins. Svo er reyndar önnur ástæða fyrir því að hlutir staldra ekki lengi við í Vínbúðunum þótt bloggarinn vildi en stefna hans og ÁTVR fara einhverra hluta vegna ekki alltaf saman í þeim málum.

sandrone_cannubi_boschis_minniEn svo eru vín sem hafa aldrei farið neitt. Vín sem bloggarinn flytur inn aftur og aftur jafnvel þótt sölutölur og markmið Vínbúðanna séu ekkert endilega í takt við þessa konar þrjósku.

Sum vín eiga einfaldlega erindi.

Ekki það að við gætum nokkurn tímann flutt inn vínin hans Luciano Sandrone í miklu magni. Við fáum bara árlegan skammt sem Sandrone fjölskyldan ákveður og við getum aðeins fínstillt hann á hverju ári.

Og …

Hinn árlegi skammtur Sandrone var að detta inn. Hann er svipaður og í fyrra, 300 flöskur sem skiptast í 30 fl. Barolo Cannubi Boschis 2006, 30 fl. Barolo Le Vigne 2006, 120 fl. Barbera d’Alba 2008 og 120 fl. Dolcetto d’Alba 2009.

Af þessum vínum fást aðeins Dolcetto og Barbera í Vínbúðunum (Heiðrúnu, Kringlunni og Skútuvogi + Dolcetto líka í Borgartúni). Barolo vínin fást þar ekki og reyndar hefur Cannubi Boschis aldrei fengist í Vínbúðunum heldur aðeins með sérpöntun eins og nú.

Hvað er það sem veldur þessari þrjósku bloggarans að halda áfram að flytja inn vínin þrátt fyrir brösótt gengi í Vínbúðunum?

Það fer ekki framhjá neinum sem rétt svo rekur nefið inn í dyragættina á vínheimi Piemonte héraðsins og hinna rómuðu Barolo-vína að Luciano Sandrone er einn sá allra hæst skrifaði. Mígrútur af víndómum liggja því til staðfestingar, eiginlega eru þeir orðnir svo fastur liður að bloggarinn nennir varla lengur að minnast á þá á hverju ári.

En þeir eru ekki sjálfsagður hlutur.

sandrone_barolo_le_vigne_minniLuciano Sandrone, bróðirinn Luca og dóttirin Barbara vinna hörðum höndum að því að búa til vín sem skara fram úr. Ekki bara fyrir stærð og kraft þótt þetta séu engir ræflar heldur vegna hinnar sérstöku fágunar og fegurðar sem einkennir stíl hússins, ár eftir ár.

Bloggarinn getur því ekki hætt að flytja þau inn.

En svona aðeins til að leyfa erlendu vínpressunni að botna þennan póst — hér eru nýjustu víndómarnir:

Barolo Cannubi Boschis 2006
Wine Advocate 97 stig „seductive, round and sweet“
aðrir dómar

Barolo Le Vigne 2006
Wine Advocate 96 stig „balance is impeccable“
aðrir dómar

Barbera d’Alba 2008
Wine Advocate 90 stig „beautifully pointed, focused wine“
aðrir dómar

Dolcetto d’Alba 2009
Wine Advocate 88 stig „powerful, structured wine“
aðrir dómar

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, luciano sandrone

Íslenska geitin leitar eftir stuðningi — Stofnfundur um Geitafjársetur Íslands á Háafelli

Í vetur fengum við fyrstu sendingu frá Jóhönnu á Háafelli, geitaís.Vonandi er það upphafið af frekara samstarfi því Frú lauga vill gjarnan bjóða upp á geitakjöt ofl. geitaafurðir frá Háafelli í framtíðinni.

Nú stendur til að blása til sóknar og stofna Geitafjársetur á Háafelli til að styðja við Jóhönnu og geiturnar hennar.

Fundurinn er á morgun, 19. apríl, kl. 17.30 í Friðarhúsinu á Njálsgötu 87.

Okkur barst þessi texti frá stuðningsaðila og birtum hann hér með leyfi:

„… Hið íslenska geitfjársetur. Það á að vera staðsett að Háafelli í Hvítársíðu og mun starfsemi þess einkum varða varðveislu og fjölbreyttni íslenska geitastofnsins. Hugmyndir eru uppi um að gera Háafell að búi þar sem fólk geti komið og skoðað íslensku geitina í mikilli nálægð sem og að koma þar fyrir aðstöðu til framleiðslu afurða. Þessi hugmynd hefur nú þegar fengið stuðning frá samtökunum Beint frá býli og munu þau samtök taka þátt í stofnun félagsins.

Í dag stendur vá fyrir dyrum þessa bús og ekki er langt í að Jóhanna missi það ef ekkert verður að gert. Áhugaleysi stjórnvalda í gegnum tíðina hefur gert það að verkum að samkeppni við aðrar afurðir sem njóta niðurgreiðslu eru nánast ómögulegar og því er illa fyrir stofninum komið.

Starfsemi félagsins mun ganga út á að ráðast í endurbætur á húsakostum og reisa við búið ferðamannaaðstöðu með eldhúsi til þess að möguleiki sé á því að það standi undir sér fjárhagslega og í leið að tryggja viðhald geitastofnsins til framtíðar.

Í dag eru um 600 geitur eftir á Íslandi og eru í kringum 150 staddar á Háafelli, þar af eru um 20 kollóttar en Jóhanna tók það upp á sitt einsdæmi fyrir nokkrum árum að bjarga þeirri grein stofnsins. Voru fjórar kollóttar geitur eftir þá. Jóhanna hefur einnig passað vel upp á ræktun stofnsins og notast hún við þónokkra hafra við sæðingu.

Aðferðir við fjáröflun og fleira: Geitfjársetur mun beita sér fyrir geitfjárrækt á nokkra vegu. Ein leiðin er þrýstingur á stjórnvöld, önnur er söfnun fjárs frá almenningi og fyrirtækjum og sú þriðja er rekstur geitfjárseturs.“

Allir áhugasamir geta tekið þátt.

Færðu inn athugasemd

Filed under vín