Author Archives: Rakel

Uppskrift: Sunnudagskjúklingur

Í þessum rétti dregur kjúklingakjötið í sig keiminn úr bragðmiklu hráefninu. Mikilvægt er að elda réttinn í góðu, eldföstu leirmóti með loki. Ef þú átt ekki slíkt mæli ég hiklaust með því að þú fáir þér það – þú munt ekki verða fyrir vonbrigðum.

Þennan rétt er tilvalið að gera á sunnudögum, þó hann sé einfaldur fer nokkur tími í eldamennskuna (aðallega í ofninum en rétturinn er tvo klukkutíma í ofni) og því best að byrja um miðjan dag og svo er eitthvað svolítið sparilegt við flókinn og lokkandi ilminn sem breiðist úr eldhúsinu um allar vistarverur heimilisfólksins.

Kjúklingaleggir, um 1 kg. (stingdu beittum hnífi hér og þar djúpt ofan í kjötið til að það dragi meira bragð í sig)
2 vænar steinseljurætur, sneiddar.
1 gott spergilkálshöfuð, skorið niður
3 stórir, gulir laukar, skornir í stóra bita
1 stórt glas berjasafi  eða saft (helst bláberja, við geymum  og notum af einum uppáhalds morgundrykk fjölskyldunnar, sem samanstendur af frosnum berjum sem sett eru með köldu vatni í blender og sætt með svolitlu agave sýrópi – bráðholl vítamínsprengja sem allir í fjölskylunni elska).
Góð skvetta af soja sósu.
Góð skvetta af Sweet chili pineapple sósu
Vatnsskvetta.
Hvítvín – smá skvetta.
1 anísstjarna (heil)
3-4 hvítlauksrif, pressuð (skelltu bara hýðinu með í réttinn)
Nokkrir heilir negulnaglar
1/3 rifin múskathneta
Nokkur heil, hvít piparkorn
Nokkur heil, þurrkuð einiber
Sjávarsalt, ágætlega af því
Ferskur, svartur pipar úr kvörn, einnig ágætlega af honum

Ofninn er hitaður í 180-200°C (eftir því hversu heitur hann verður því það er staðreynd að ofnar eru ekki allir eins).
Ekki gleyma að stinga í kjúklingaleggina, það er lykilatriði til að rétturinn njóti sín sem best. Allt hráefnið er sett í gott eldfast leirmót (með loki) og blandað vel saman. Vökvinn á að vera nokkur en þó ekki að hylja meira en til hálfs. Ef þú átt ferskar kryddjurtir, svo sem rósmarín, garðablóðberg eða oreganó, skaltu endilega kasta þeim yfir í lokin (í heilum stilkum). Nú er lokið sett á og mótið sett inn í heitan ofninn í 2 klst. Afbragð er að bera fram með góðu og fersku salati með afhýddu epli, gefur ferskleika á móti kryddsinfóníu réttarins.

Mmmmmmmmmm buon appetito.

Það er svolítill pottréttsfílingur í þesum rétti svo kjarnríkt s-franskt vín er tilvalið, rautt eða hvítt. Bæði vínin frá Chateau Saint Cosme, Little James rautt og Little James hvítt henta prýðilega.

Færðu inn athugasemd

Filed under saint cosme, uppskrift

Uppskrift: Risotto og risottobollur

Risotto er einn af uppáhaldsréttum fjölskyldunnar, matarmikill og bragðmikill, en samt léttur og góður í maga.

Hér er grunnuppskrift af risotto en hægt er að bæta hverju því sem hugurinn girnist við í uppskriftina undir lokin, svo sem humri, rækjum, sveppum af ýmsu tagi, eða jafnvel léttsteiktum rauðrófum (sem gera fallega bleikt risotto) eða kampavínssoðnum jarðarberjum fyrir sumarlegt jarðarberjarisotto.

3-500 g Arborio hrísgrjón (þetta eru hin einu sönnu risottogrjón og ekki viðeigandi að nota staðgengla)
Einn góður gulur laukur, smátt saxaður
Góð ólífuolía (kaldpressuð jómfrúarolía – maður þarf nú varla að taka það fram í dag)
Kjúklingasoð (nóg af því – heimagert er best en hægt að notast við keypt, athugið að gott er að nota dagsgamla súpuafganga sem soð, sér í lagi kjötsúpu eða kjúklingasúpu eða tæra grænmetissúpu (stærri bitar eru síaðir frá súpunni)).
Um 1 dl. nýrifinn parmeggiano reggiano eða grana padano ostur
Ferskur svartur pipar úr kvörn

Best er að nota góðan, þungan pott. Ólífuolíu er skvett vel yfir botninn á pottinum og smátt söxuðum lauknum skellt út í. Laukurinn er látinn gyllast (alls ekki brúnast eða brenna).
Þá er arborio grjónum bætt í og þau rétt látin gyllast í olíunni og lauknum (ekki of lengi).
Þá er soðinu bætt í, um hálfu glasi í einu og hrært vel (athugið að hafa ekki of mikinn hita). Haldið er áfram að bæta soðinu í af og til þar til grjónin eru soðin (þá eru þau mjúk að utan með örlítið stökkari kjarna innst – besti mælikvarðinn er að smakka af og til þar til þessu stigi er náð).
Nú er potturinn tekinn að af hellunni og rifinn parmeggiano/grana hrærður saman við. Þá er ferskur svartur pipar mulinn yfir (vel af honum).

Risotto er einnig mjög gott daginn eftir. Það má vel borða kalt sem meðlæti með öðrum mat, eða búa til úr því bollur og steikja á pönnu:

Risottobollur daginn eftir:
Kalt risotto
Mozzarella ostur (ef vill)
Hvítt hveiti
3 hrærð egg
Brauðmylsna

Mótaðar eru risottobollur utan um litlar mozzarellakúlur,  svo kældar í ísskáp í nokkra stund (einnig má búa til gegnheilar risottobollur).
Bollunum er svo velt upp úr hveiti, síðan upp úr eggjahræru og síðast upp úr brauðmylsnu og þær steiktar á pönnu í ólífuolíu þar til þær eru gylltar að lit.

Buon appetito

Val á víni fer eftir því hverju er bætt til viðbótur við uppskriftina út í risotto-ið. Ef uppskriftin er einföld eins og hér fyrir ofan þá gengur bæði rautt og hvítt, eitthvað einfalt og gott eins og Montepulciano d’Abruzzo eða Verdicchio frá Umani Ronchi.

Ein athugasemd

Filed under umani ronchi, uppskrift

Uppskrift: Lax með spergilkáli og baunamauki

Hversdagsmatur þarf ekki að vera hversdagslegur. Þessi hversdagsréttur er svo sparilegur að hann má vel hafa spari líka. Hann uppfyllir allar kröfur upptekinna, barnmargra fjölskyldna, hann er afar einfaldur og fljótlegur, næringarríkur og ljúffengur. Hann er sérstaklega gott að gera þegar nýtt, ferskt og næringarríkt spergilkál (brokkólí) er á boðstólnum og að sjálfsögðu er best að nota ferskan og góðan lax.
 
Lax:
Laxaflak (roð- og beinhreinsað)
Rifið ferskt engifer (athugið að engifer er gott að geyma í frysti og rífa frosið niður með fínu rifjárni eftir hentugleika – þannig geymist það von og viti og er alltaf ferskt)
sítrónusafi úr 1/2 sítrónu
svartur pipar úr kvörn
sjávarsalt
 
Laxaflakið er sett í ofnfast mót. Ofan á það er dreift rifnu engiferi, sítrónusafa, svörtum pipar úr kvörn og sjávarsalti. Sett inn í 200°C ofn í 20 mín.
 
Spergilkál:
Soðið í vatni með smávegis salti.
 
Baunamauk:
1 dós organic bean mix (eða kjúklingabaunir eða aðrar baunir að eigin vali)
1 stórt hvítlauksrif (eða tvö minni)
sítrónusafi úr 1/2 sítrónu
1 msk rjómi
 
Öllu blandað saman og maukað í matvinnsluvél.
 
Oft er gaman að setja matinn smekklega á diskana áður en borið er á borð. Fallegt er að setja skammt af þessum rétti á hvern disk, laxabita, spergilkál og svolítið af baunamauki á hvern disk og bera svo á borð við kertaljós. Þá líður heimilisfólkinu líka svolítið eins og það sé á veitingahúsi. Af hverju ekki að hafa svolítið gaman af matarlistinni fyrir matarlystina.
 
Buon appetito.

Það væri tilvalið að prófa rósavínið Rosando frá Hubert Sandhofer með þessum rétti.

Færðu inn athugasemd

Filed under fiskur, matur, sandhofer, uppskrift

Uppskrift: Cannelloni með spínati og ricotta

Það er mín skoðun (Rakel) að  matargerð á ekki að vera flókin, það sem skiptir mestu er gott hráefni, hollusta og einfaldleiki. Fátt er betra en rjúkandi cannelloni fyllt með heilnæmu spínati og ricotta osti. Hvað þá að eiga kalt cannelloni frá því í gær inni í ísskáp mmmm.  Þessi réttur er ótrúlega fljótlegur og auðveldur þó að hann sýnist annað þegar hann er borinn á borð.

Í cannelloni geri ég annað hvort sjálf ferskt pasta eða nota lasagnaplötur, sem er náttúrulega minni fyrirhöfn þó að ég sé á þeirri skoðun að pastagerð sé eitt það skemmtilegasta sem fjölskyldan getur aðhafst saman, allir geta hjálpað. Segi nánar frá pastagerð seinna, nú er komið að cannelloni.

Ef þú notar ferskt pasta, býrðu til plötur á stærð við lasagnaplötur og sýður þær þar til þær eru al dente.

Ef þú notar lasagnaplötur sýður þú þær skv. leiðbeiningum á pakka (ég geri yfirleitt ráð fyrir 3 á mann – þó er betra að sjóða fleiri en færri, einhverjar geta rifnað, svo er svo gott að gera of mikið og eiga til daginn eftir). Gerðu ráð fyrr 16-20 plötum í þessa uppskrift. Ég hef komið mér upp góðri aðferð til að koma í veg fyrir að plöturnar límist saman við suðu. Þú notar stóran pott og fyllir hann vel af vatni. Skvettir dálitlu af ólífuolíu út í vatnið og sýður lasagnaplöturnar. Af og til stjakarðu þeim varlega í sundur með trésleif. Þegar suðu er lokið tekurðu pottinn og hellir vatninu af og setur kalt vatn ofan í. Svo losarðu þær plötur sem loða saman varlega í sundur með fingrunum ofan í vatninu áður en þú tekur þær upp. Lasagnaplötunum er raðað á smjörpappír og þær látnar standa aðeins.

Athugið að ég er þeirrar skoðunar að þú eigir að fylgja tilfinningunni og skynfærunum í matargerð, ekki bókstafnum :-) Ég fer því frjálslega með öll fyrirmæli og mælieiningar, hér eru þó mælieiningar til viðmiðs.

Fylling:

1 og ½ poki ferskt spínat (steikt í dálítilli ólífuolíu á pönnu)
350 g ricotta (eða kotasæla, ath að hella vökva sem oft myndast ofan á af áður en notað)
100 g parmeggiano reggiano, grana padano eða pecorino romano
(svolítið af myntu, ef þú átt hana til, ekki nauðsynlegt)
sjávarsalt og nýmalaður, svartur pipar
Steikt spínatið og allt hitt er sett í matvinnsluvél og maukað saman í þéttan, en léttan massa.

Bechamela sósa:

600 ml nýmjólk
55 g smjör
40 g hveiti
2 sneiðar af lauk (gulur laukur)
1 lárviðarlauf
handfylli af steinselju (smátt skorið)
6 heil svört piparkorn
150 ml hvítvín
sjávarsalt og nýmalaður, svartur pipar

Þú bræðir smjörið í potti og hrærir hveitið út í. Hellir svo mjólkinni hægt yfir og hrærir stöðugt í (athugaðu að hitinn sé ekki of hár svo að ekki brenni við). Bætir svo öllu hinu við og hrærir létt í. Lætur malla á mjög vægum hita í nokkra stund.

Nú seturðu rönd af fyllingunni langsum fyrir miðju á hverja lasagnaplötu og lokar svo fyrir þannig að þú ert komin með langa, fyllta rúllu. Svo snýrðu rúllunni við (samskeytin niður).

 Þú hellir nú helmingnum af bechamela sósunni í stórt eldfast mót (eða ofnskúffu) og raðar rúllunum (með samskeytin niður) hlið við hlið þar til fatið er fullt (eða rúllurnar búnar). Hellir svo afgangnum af bechamela sósunni yfir og stráir parmeggiano, grana eða pecorino  yfir. Svo fer þetta inn í heitan ofn (200° C í 15 mínútur).

Best að bera fram eitt og sér á eftir fersku salati.

Buon appetito.

(Nota bene: spínat er án vafa með hollari fæðu. Það er sneisafullt af vítamínum og er einn besti K-vítamíngjafinn (sem sumir telja vanmetið vítamín). Það er jafnframt ríkt af D-vítamíni, kalki, magnesíum og járni).

Drukkum með Poggio dei Gelsi frá Falesco sem smellpassaði.

Færðu inn athugasemd

Filed under falesco, matur, pasta, uppskrift