Category Archives: amedei

Endurfundir með Amedei

Frú Lauga ætlar að bjóða upp á Amedei súkkulaði fyrir jólin.

Líklegast eru um 2 ár síðan við fluttum síðast inn Amedei en vegna gengismála slepptum við því alveg fyrir síðustu jól.

Við ætlum að láta nægja þessi jól að selja Amedei í Frú Laugu svo við getum haldið verðinu niðri og temprað aðeins áhrif gengishrunsins.

Pöntun er lögð af stað og vonandi berst súkkulaði í hús um miðjan næsta mánuð. Þarna verða góðkunningjar, sumir í nýjum umbúðum, í bland við nokkrar skemmtilegar nýjungar. Konfekt látum við alveg eiga sig þótt það sé hrikalega gott og girnilegt – okkur finnst einfaldlega verðið of hátt eins og sakir standa og setjum kraftinn í hreina súkkulaðið í staðinn. Þó verða þarna einhverjar girnilegar fyllingar, súkkulaðikrem, hvítt súkkulaði með pistasíum … …

Frú Lauga elskar súkkulaði.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, frú lauga

Matarsíðan hans Júlla Júl

Hinn framtakssami Dalvíkingur Júlíus Júlíusson er búinn að stofna matarsíðu áhugamannsins, eins og hann kallar hana.

Mjög forvitnileg síða með uppskriftum og fróðleik um mat, skrifað á persónulegan hátt. Byrjunin lofar góðu.

Þar má t.d. finna þessa uppskrift að Steinbít á Ritzpúða. Uppskriftin mun jafnframt birtast í bók sem kemur út fyrir jólin og nefnist „Meistarinn og áhugamaðurinn“.

Júlíus hvetur þá sem sýsla með matvöru að senda sér hráefni sem hann ætlar að elda upp úr og fjalla siðan um reynsluna á vefnum og hefur matarteymi sér til aðstoðar en bætir við: „Allt er þetta til gamans gert og af einskærum áhuga fyrir mat, drykk og eldhúsinu almennt. Skrifin verða með jákvæðum en gagnrýnum formerkjum.“

Aldrei að vita nema við gaukum að honum Amedei súkkulaði fyrir jólin og sjá hvað fæðist úr því.

En talandi um Amedei súkkulaði og uppskriftir, hér er uppskrift að Cantucci smákökum sem við birtum fyrir jólin 2006.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, blogg, fiskur, matur, súkkulaði, uppskrift

Amedei súkkulaði vinnur Gullnu baunina á Chocolate Awards 2008 – aftur

Amedei súkkulaði er í sviðsljóðinu þessa dagana, bæði Gestgjafinn og Decanter fjalla um Amedei súkkulaði í nýjustu tölublöðunum.

Gestgjafinn er tileinkaður súkkulaði að þessu sinn. Þegar ég frétti að það stæði til lagði ég til við blaðið að haldið yrði smakk á dökku súkkulaði sem var tekið vel í. Amedei fær góða umsögn í blindsmakkinu (bls. 41, 4. tbl.) en ég skal viðurkenna að ég hefði viljið sjá það toppa þetta smakk.

Decanter fjallar aðallega um vín en í nýjast tölublaðinu (apríl) er tvær síður lagðar undir súkkulaði og er fókuserað sérstaklega á Amedei sem „model producer“. Þar kemur fram að síðan fyrirmyndarfyrirtæki eins og Amedei fór að framleiða súkkulaði í nánariasamstarfi við bændurna og greiða þeim hærra verð hefur gæðum fleygt fram. Greinarhöfundurinn, Fiona Beckett, endar greinina á að lýsa Chuao súkkulaði frá Amedei með „deep chocolatey aroma and flavour and an amazingly long finish.“ Í greininn er kakóekrum Amedei í Venezuela, Chuao og Porcelana, líkt við það besta sem gerist í heimi vínframleiðslu, eins og ofurvínið Petrus.

Helst ber að minnast á Chocolate Awards 2008 sem voru haldin í þriðja sinn í ár. Þar sigraði súkkulaði frá Amedei eina ferðina enn sem besta dökka súkkulaðið. Að þessu sinn kom það í hlut 63% súkkulaðisins frá Amedei að hljóta Gullnu baunina en jafnframt hlutu gullverðlaun Porcelana og Chuao auka þess sem silfur hlutu 66%, 70% og „9“ sem er með 75% kakó. Mjólkursúkkulaðið frá Amedei hlat silfur í sínum flokki.

Það er gott úrval af Amedei súkkulaði í Ostabúðinni á Skólavörðustíg og hjá Sandholt á Laugaveginu.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, decanter, Gestgjafinn, súkkulaði, verðlaun/viðurkenningar

Uppskriftir — Konfekt úr Amedei súkkulaði

.

Við Ingó mágur (og stórbakari) hittumst einn sunnudag ekki fyrir löngu og bjuggum til konfekt úr Amedei súkkulaði fyrir jólablað Fréttablaðsins. Tilgangurinn var að koma súkkulaðinu til skila á sem einfaldastan og bestan hátt í konfektmola og nota til þess hrein hráefni eins og grappa, sætvín og kaffi og lítið annað. Þessir molar eru snilld, þótt ég segi sjálfur frá, enda Ingó sem á mestan heiður af þeim.

Þetta er líka auðveldara en það virkar kannski út frá lestri greinarinnar en nauðsynlegt samt að vanda sig. 

Hér fyrir neðan er greinin nokkurn veginn eins og hún birtist í Fréttablaðinu en smelltu líka á flickr til að skoða myndir sem ég tók af konfektgerðinni og vídeó á youtube sem sýnir Ingó bakara tempra súkkulaðið sem við notuðum í molana á marmaraplötu:

Amedei – konfekt 4 tegundir (samtals um 100 konfektmolar)

Konfekthjúpur (skel)
1.5 kg 70% Amedei súkkulaði.

Súkkulaðið brætt rólega þar til hitastig þess nær 45/50°C. Þá er súkkulaðinu hellt á kalt marmaraborð (eða annan stein) og því velt um með spöðum þar til hitastigið fellur niður í u.þ.b. 27°C. Þessi aðferð er kölluð “temprun” og við það kristallast súkkulaðið og tekur á sig fallegan gljáa sem gerir það glansandi auk þess sem auðveldara verður að losa molana úr formunum og handfjatla þá. Þegar temprunarhitastiginu er náð er því hellt í formin sem nota skal.
Það er líka mikilvægt að formin séu “póleruð” með því að fara vandlega ofan í hvert mót með hreinni tusku. Súkkulaðinu er þá hellt í formin og þau slegin varlega í borðið til að ná loftbólum upp á yfirborðið, þá er umframsúkkulaði hellt úr formunum aftur í skálina. Mikilvægt er að fylla í öll form sem nota skal á meðan að súkkulaðið er við þetta kjörhitastig.
Þegar búið er að setja fyllingarnar í alla molana er hugsanlegt að það þurfi að tempra súkkulaðið upp á nýtt áður en því er hellt yfir formin til að loka molunum (setja á þá botninn). Formin er þá hrist aftur til að ná loftbólum og loks smurt vel yfir með spaða til að fjarlægja umframsúkkulaði og ná fram sléttum botnum.
Það er hægt að tempra súkkulaði án þess að hella því á marmara og er það gert með því að bæta út í brætt súkkulaðið afar fínt söxuðu súkkulaði (200g á móti hverju kiló af bræddu súkkulaði) og ná þannig fram snöggkælingu – en sú aðferð er ekki eins örugg.

Fyllingar

Caffé Ganache
200 ml. rjómi
20 g. nýmalað gæðakaffi
180 g 75% súkkulaði smátt saxað (notuðum 75% Amedei “9”)

Búinn til kaffirjómi með því að hita saman í potti rjóma og kaffi vandlega án þess að sjóða og síðan látið standa. Síað í gegnum grisju á meðan það er enn heitt. Þessum kaffirjóma (samtals um 75g) síðan hellt yfir smátt saxað súkkulaðið og hrært vandlega þar til áferðin er orðin slétt og fíngerð (emúlíserað). Fyllingunni síðan sprautað í súkkulaðihjúpuð konfektmótin og þeim lokað. Þegar konfektmolinn er laus úr forminu er upplagt að skreyta hann með kaffibaun.

Vin Santo
300 g persipan (hægt að nota marsipan)
  60 g sykur
  60 g flórsykur
100 g Vin santo sætvín

Hrært saman í sprautuhæfan massa og síðan sprautað í hjúpuð konfektmótin og lokað fyrir.

Pistaccio
150 g ósaltað smjör
  60 g flórsykur
300 g Amedei mjólkursúkkulaði brætt
100 ml. Vin santo sætvín
  60 g ósaltaðar/malaðar pistasíuhnetur

Öllu hrært saman vandlega saman (emúlíserað). Sprautað í hjúpuð konfektmótin og lokað fyrir.

Grappa
270 g 70% Amedei súkkulaði (notuðum einnarekru Amedei Chuao)
140 g ósaltað smjör
  45 g flórsykur
  35 g Grappa (eða ef til vill aðeins meira…)

Súkkulaðið brætt í u.þ.b. 45°C, smjörið sett í bitum út í súkkulaðið ásamt flórsykrinum, hrært í þar til smjörið bráðnar. Grappanu bætt út í og hrært þar til allt er slétt og fínt. Sprautað í hjúpuð konfektmótin og lokað fyrir.

Eitthvað gott til að sötra á með (vín)

Líklegast er gott freyðivín það besta sem hægt er að njóta með súkkulaði og konfekti. Francois 1er (1.990 kr) frá Castello di Querceto er gott freyðivín sem liggur einhvers staðar stíl, gæðum og verði á milli einfalds prosecco freyðivíns og kampavíns. Frizzando (1.790 kr) freyðivínið frá Sandhofer í Austurríki er glettilega gott með súkkulaði Frá Querceto koma einni vínin sem við notuðum í sjálft konfektið, grappa (4.110 kr) og Vin santo (2.100 kr) og eru þau afbragðsgóð til að njóta með sömuleiðis ef fólk er yfir höfuð hrifið af hinu sterka grappa eða sætvínum. Hjónin sem eiga Querceto nota einmitt sjálf grappað sitt til að setja í fyllingar þegar þau laga konfekt heima hjá sér. Rauðvín með súkkulaði eða góðu konfekti (ekki of sætu) getur verið afbragðsgóð blanda ekki síst í lok máltíðar þegar gott rauðvín er klárað yfir góðu súkkulaði. Þó er ekki hægt að segja að súkkulaðið dragi fram bestu eiginleika rauðvína heldur er það upplifunin sem telur. Þá myndi ég mæla með rauðvíni af betri gerðinni og sem er ekki of sýrumikið eða fínlegt heldur opið og ávaxtaríkt. Góð rauðvín með súkkulaði væru t.d. rauðvínin frá hinum ástralska d’Arenberg, Juveniles (2.390 kr) frá Torbreck sem er sömuleiðis ástralskt eða feitari rauðvín frá Ítalíu eins og Nebbiolo (2.690 kr) frá La Spinetta, Cumaró Riserva (2.590 kr) frá Umani Ronchi eða Santagostino (1.890 kr) frá Firriato. Þessi vín fást í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

(Amedei súkkulaði í 1kg plötum fæst í Sandholt bakaríi og í Ostabúðinni Skólavörðustíg)

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, ítalía, fréttablaðið, súkkulaði, uppskrift

Súkkulaði betra en koss

„There is no doubt that chocolate beats kissing hands down when it comes to providing a long-lasting body and brain buzz“ segir Dr. Lewis á vef BBC í dag.

Lestu alla fréttina þeirra

Það er vitnað í fréttina á mbl.is í dag.

Þau hafa væntanlega notað Amedei súkkulaði.

2 athugasemdir

Filed under amedei, fréttir, rannsóknir, súkkulaði

6 tegundir smakkaðar af 70% súkkulaði

.

Kúbanskir vindlar, tómatstilkar, gufubað, pappír, þurrkaðir ávextir, sýra?

Blautir járnbrautarteinar?

Já, við erum að tala um súkkulaði. 6 ólík Amedei súkkulaði sem öll koma frá sitthvoru landinu og undir yfirskriftinni „I Cru“.

Ég gleymi því ekki þegar við Rakel smökkuðum „I Cru“ fyrst, þá áttuðum við okkur á því að það að smakka og upplifa súkkulaði gat kallað fram svipaða upplifun, vangaveltur og lýsingar eins og að smakka vín. Meira að segja nafnið „I Cru“ minnir á vín, sbr. premier cru og grand cru á Frakklandi. Við þefuðum af þeim, bitum í, smjöttuðum, fundum bragðið og eftirbragðið, töluðum um sýru og tannín, ferska og þurrkaða ávexti og ýmsa aðra eiginleika og heilluðumst að því hveru ólík 6 mismunandi tegundir af 70% súkkulaði frá sama framleiðanda gátu verið.

Við átum okkur í gegnum alla línuna í gærkveldi og þá fattaði ég að það var því kominn tími á að ég gerði netta smakkskýrslu um tegundirnar 6 sem ganga undir Nafninu „I Cru“.

Venezuela – Mjög gott jafnvægi í þessu súkkulaði, þ.e.a.s. enginn einn þáttur sem stendur út úr og gerir það óvenjulegt heldur er þetta frekar svona sitt lítið af hverju.

Granada – Fremur mildur ávöxtur undirstrikaður af ferskum sítrus. Áberandi rjómamjúkt.

Madagascar – Okkur hefur fundist þetta ávaxtaríkast af tegundunum sex, þurrkaðir ávextir í bland við ferska. Tvímælalaust eitt mest spennandi súkkulaðið í hópnum að okkar mati. Flókið.

Jamaica – Ásamt Trinidad er þetta sérstakasta súkkulaðið. Dimmt og lágtónað með blæ sem minnir á gufubað eða blautan við. Hrátt og svolítið villt.

Trinidad – Tóbak! Þegar maður finnur tóbaksilminn gleymir maður öllu öðru. Þetta eru kúbuvindlar í súkkulaðilíki.

Ecuador – Það súkkulaði sem hefur sterkastan kakókarakter, bæði hvað ilm og bragð varðar. Bragðmikið og stórt.

I Cru fást í gjafaösku hjá Kokku á Laugaveginum (12 stykki í pakka, tvö frá hverju landi) og í stykkjavís á kaffihúsum Kaffitárs.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, ítalía, matur, súkkulaði

Amedei súkkulaði á lækkuðu verði – Smakkpakki

Allt AMEDEI súkkulaði hefur lækkað eftir að virðisaukaskatturinn á súkkulaðið fór úr 24.5% í 7%.

AMEDEI Smakkpakkarnir sem við kynntum fyrir jólin í fyrra eru ekki fáanlegir sem stendur fyrir utan einn:

„Smakkpakki #6 – 2.800 kr.
Samanstendur (ath. ekki gjafapakkning) af 6 mismunandi súkkulaðiplötum. Tegundirnar eru eftirfarandi: Chuao (50g), Toscano 70% (100g), Toscano 66%(100g), Mjólkursúkkulaði (100g), Hvítt súkkulaði með pistasíuhnetum (100g) og 63% súkkulaði með ferskjum og apríkósum (50g).“

Áður 2.800 kr. – nú 2.400 kr. (heimsending innifalin)

Þeim sem hafa áhuga geta sent mér póst á vinogmatur@internet.is og lagt inn pöntun. Ef ég bæti gjafaöskju af Selezioni TOSCANO BLACK (12 5g. smástykki af 63%,66% og 70% súkkulaði) og gjafaöskju af Selezioni I CRU (12 5g. smástykki 70% frá 6 ólíkum löndum) þá kostar pakkinn 3.700 kr.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, súkkulaði, smakkpakki