Category Archives: appiano

The Stump Jump GSM eitt af TOP 100 vínum árið 2009 að mati Wine Spectator

Nýr TOP 100 listi er kominn út hjá bandarísku útgáfunni Wine Spectator, fyrir árið 2009.

Við eigum þrjú vín á listanum, Fontodi Flaccianello 2006 (99 stig í 8. sæti) sem er væntanlegt á nýju ári til landsins, San Michele Appiano Pinot Grigio 2008 (90 stig í 70. sæti) sem hefur fengist hér þó ekki þessi árgangur, og The Stump Jump GSM 2008 frá d’Arenberg (90 stig í 82. sæti, við erum með 2007 í gangi núna).

Það er mjög eftirsóknarvert að komast á listann því hann getur haft góð áhrif á sölu og orðspor viðkomandi víngerða um allan heim.

Eins og bloggarinn hefur áður bent á er þessi árlegi listi mjög markaðsvæddur og takmarkaður en þó verður ekki framhjá því litið að þau vín sem komast á hann eru áhugaverð og góð, sum jafnvel frábær kaup og önnur hugsanlega framúrskarandi.

2 athugasemdir

Filed under appiano, d'arenberg, dómar, fontodi, wine spectator

Vínín okkar standa fyrir sínu í Mogganum

.

Það var stórfín umfjöllun um okkar vín í Morgunblaðinu síðasta föstudag.

„Vín sem standa fyrir sínu“ er yfirskrift greinarinnar og fjallar Steingrímur eingöngu um okkar vín að þessu sinni.

Eftirtalin vín standa fyrir sínu.

d’Arenberg The Laughing Magpie 200592 stig
d’Arenberg The Footbolt 200490 stig
Umani Ronchi Casal di Serra 200690 stig
San Michele Appiano Riesling Montiggl 200688 stig
San Michele Appiano Pinot Nero 2004 87 stig

Við erum ánægð, eins og alltaf.

    „Það er margt sem skiptir máli við víngerð og sama vínið getur verið mjög ólíkt á milli ára. Það er því ávallt forvitnilegt að sjá hvernig nýr árgangur plumar sig. Heldur vínið sínu, veldur það vonbrigðum eða nær nýr árgangur að toppa fyrri árgang. Að þessu sinni skoðu við nokkur vín frá Ástralíu og Ítalíu sem sum hver hafa verið til umfjöllunar áður en koma nú fílefld til leiks á ný með nýjum árgangi
     St. Michael-Eppan Riesling Montiggl 2006 er hvítvín frá Alto-Adige eða Suður-Týról á Norður-Ítalíu. Þurrt og frekar þungt með sítruslímónu og greipaldin – ásamt þurrum heybagga og steinefnum. Mikil fylling og þykkt með langan endi. Matarvín, ekki spurning, með t.d. laxi eða bleikju ásamt nýjum íslenskum kartöflum, smjöri og kannski smá steinselju ætti þetta að smella vel. 2.160 krónur. 88/100
     Frá sama framleiðanda kemur rauðvín úr þrúgunni Pinot Noir. St. Michael Eppan Pinot Nero 2004. Farið að sýna þroska, rauð skógarber og mild angan af kryddum á borð við negul og kanil. Svolítið haustlegt, jafnvel Búrgundarlegt, tannín hafa enn smá bit. 1.980 krónur. 87/100
     Casal di Serra Verdicchio dei Castelli di Jesi 2006 er góðkunningi síðunnar og ég er ekki frá því að þessi nýi árgangur sé einn sá besti sem hingað hefur ratað. Ferskur, skarpur og ágengur ávöxtur, ferskjur, ástaraldin og gul epli í nefi, í munni þétt, samþjappað og mikið með möndlukeim í bland við ávöxtinn ásamt votti af eik í fjarska. Þetta er vín sem nær því að vera jafnt aðgengilegt fyrir alla, sem nægilega flókið og fínlegt fyrir þá sem vilja „alvöru“ vín. Eitt og sér, með grilluðum fiski eða jafnvel ostum. Heldur leikandi stöðu sinni sem eitt af bestu hvítvínskaupunum í vínbúðunum. 1.590 krónur. 90/100
     Einnig eru komnir nýir árgangar af hinum frábæru rauðvínum ástralska framleiðandans D’Arenberg: Footbolt og Laughing Magpie. D’Arenberg var stofnað á fyrri hluta síðustu aldar í McLaren Vale, einu besta víngerðarsvæði Ástralíu, rétt utan við borgina Adelaide í Suður-Ástralíu. Vín þessa litla fjölskyldufyrirtækis hafa allt frá 1959 verið auðþekkjanleg á rauðu strikinu sem dregið er skáhallt niður flösikumiðann. Hér á landi höfum við getað notið þeirra í rúm tvö ár eða svo.
     D’Arenberg The Footbolt Shiraz 2005 [reyndar 2004] er berjamikill og þykkur Shiraz, fantavel gerður. Þarna eru dökkir og þroskaðir ávextir, sultaðar plómur en einnig krydd og dökkt súkkulaði í nefi. Í mnunni feitt og langt með þroskuðum og mjúkum tannínum. Vín sem fellur vel að íslensku lambakjöti. 1.790 krónur. 90/100
     D’Arenberg The Laughinhg Magpie Shiraz-Viognier 2005 er Ástrali fyrir vínunnendur með evrópskan smekk. Þrúgublandan er í stíl frönsku Cote Rotie-vínanna, þ.e. örlitlu magni af hinni hvítu og arómatísku þrúgu Viognier er blandað saman við Syrah/Shiraz. Dökk ber, bláber og kirsuber í bland við fjólur, lakkrís og vanillu úr eikinni. Vín með mikinn og heillandi karakter, langt frá staðalímynd ástralskra shiraz-vína sem allt of mörg vín á markaðnum hér keppast við að byggja upp. 2.100 krónur. 92/100 “ (Morgunblaðið 5.10.2007)
     

     

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, d'arenberg, dómar, morgunblaðið, umani ronchi

Uppskrift af kræklingum

Það er svona á mörkunum að hægt sé að kalla þennan rétt „uppskrift“, svo einfaldur er hann.

Þetta er meira svona leið til að koma hráefninu á diskinn í sem bestu formi.

Og þó, það er nú hvítvín í þessu.

Mikið hvítvín.

Ég keypti kíló af íslenskum kræklingi hjá Víni og Skel á Laugaveginum í gær og reiddi það fram í forrétt um kvöldið ásamt hinu vinsæla hvítvíni frá Appiano á N-Ítalíu St. Valentin Sauvignon Blanc 2005. Þurrt hvítvín og óeikað fer best með skelfiski. Ég hef leitað að skelfiski lengi en hvergi fundið og því er þetta framtak hjá þeim Vín og Skel mönnum lofsvert en á hverjum laugardegi í sumar verður hægt að kaupa ferskan krækling og ýmislegt fleira í portinu hjá þeim.

Líklegast er best að finna sem einfaldasta aðferð til að matreiða kræklinginn svo hann njóti sín sem best og virkaði þessi hér fyrir neðan afbragðs vel – ég fann hana í bókinni The Best Recipe:

1/2 flaska af þurru hvítvíni (notuðum Mas Nicot)
1 desilíter saxaður skallottulaukur
3 söxuð hvítlauksrif
1 lárviðarlauf
1 kíló kræklingur
2 msk smjör
1 desilíter söxuð steinselja

ATH! Það á aðeins að nota lokaðar skeljar og henda þeim sem eru þegar opnaðar. Þegar kræklingurinn soðnar opnast allar skeljar, þeim sem ekki gera það má henda.

Hvítvín, skallottulaukur, hvítlaukur og lárviðarlauf sett í pott og suðu náð upp. Soðið létt í 3 mínútur. Hitinn aukinn og kræklingurinn settur út í. Soðinn í 5-6 mínútur og hrært öðru hvoru í til að soðið dreifist vel yfir fiskinn. Kræklingurinn fjarlægður með sleif úr pottinum og settur í skál. Smjöri bætt út í soðið, síðan steinselju og öllu saman hellt yfir kræklinginn.

Gott að bera fram með ristuðu brauði til að dýfa í sósuna.

4 athugasemdir

Filed under appiano, matur, uppskrift

Tvö ítölsk rauðvín fá fína umfjöllun í Gestgjafanum

.

Við höfum verið dugleg að koma sýnishornum til Gestgjafans. Það virkar þannir að við gefum þeim eina flösku af hverri tegund sem fjalla á um. Af henni er tekin mynd og hún síðan smökkuð og dæmd af þeim góðu mæðginum Dominique og Eymari.

Í nýjasta Gestgjafanum fjalla þau um  tvö ítölsk rauðvín frá okkur, Vitiano 2005 frá Falesco og Pinot Nero 2004 frá San Michele Appiano (St. Michael Eppan á þýsku á miðanum því víngerðin er svo norðarlega á Ítalíu).

Svona lítur það út:

FALESCO VITIANO 20054 glös
Enn og aftur erum við með vín frá Falesco í Umbria á smökkunarborði okkar og er það alltaf sönn ánægja. Það er alveg á hreinu að Falesco er með skemmtilegri framleiðendum Ítalíu því að allt sem við höfum smakkað þaðan er einstaklega vel gert – og á góðu verði. Hér er blanda af sangiovese, merlot og cabernet sauvignon sem skilar sér í ilmríku víni með ilmi af kirsuberjum, blómum, súkkulaði og lakkrís. Þetta er bragðmikið vín og vottar fyrir kirsuberjum, tóbaki, svörtu súkkulaði og kryddi. Langt og gott eftirbragð en víninu þarf að umhella til að það njóti sín í botn. Prófið það með steiktu kjöti, ofnsteiktu lamba- eða nautakjöti eða pörusteik. Verð 1.590 kr. – Góð kaup.

Okkar álit: Vín sem kallar á mat, frá virtum framleiðanda – mjög ungt enn en lofar jafngóðu og 2004 sem var afar góður árgangur. Þarf að umhella.

ST. MICHAEL EPPAN [San Michele Appiano] PINOT NERO 20043 1/2 glas
Á Norður-Ítalíu er að finna svæði, Alto Adige, sem er enn mikið undir týrólskum áhrifum þar sem þýska og ítalska eru notaðar jöfnum höndum – til dæmis á flöskumiðunum. Þar er að finna ágæta vínrækt og er San Michele Appiano (eða Skt. Michael Eppan!) ein af þeim virtustu. Hérna erum við með pinot nero frá þeim sem er enn ungt að árum. Það er svolítið lokað í byrjun en opnast hægt og rólega á jarðarber, milt krydd, súkkulaði og skógarbotn. Eins og áður sagði er vínið enn svolítið ungt og kemur það best fram á tungunni. Frekar skörp tannín fela ávöxtinn svoítið en þar á bak við er samt að finna rauðan ávöxt, krydd og sveppi. Þetta er vín sem þarf greinilega að láta liggja í nokkur ár en þeir sem eru óþolinmóðir geta umhellt því. Hafið það með önd eða eðalkjúklingi með trufflum! Verð 1.890 kr. – Góð kaup

Okkar álit: Fíngert og ekta pinot nero frá mjög vönduðum framleiðanda . Þarf annaðhvort að umhella því eða láta það liggja en þetta er frábært vín með góðum, vönduðum kjötréttum.“ (Gestgjafinn 5. tbl. 2007)

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, dómar, falesco, Gestgjafinn

Vinitaly 2007 – Diskóbúlla í Dólómítunum

Dagur 2, 27. mars.

7.00 á fætur.

8.00 inn í rútu.

10.00 mætt á Sellaronda skíðasvæðið í Dólómítunum. Veðrið var rjómagott, færið var fyrirtak og umhverfið óviðjafnanlegt. Ekki svo mikið af fólki og því engin bið í lyftur. Eiginlega er ekki hægt að biðja um meira þótt bloggarinn hafði ekki stigið á skíði í 15 ár. Rakel fór hins vegar í hópgöngu á snjóblöðkum þar til við hittumst í hádeginu.

13.30 matur á Rifugio Comici sem af öllum ólíklegum veitingastöðum er Miðjarðarhafs-fiskistaður í miðri skíðabrekku. Fiskurinn er hins vegar veiddur af ættingja fjölskyldunnar sem á staðinn og sóttur daglega niður á strönd svo hann sé alltaf ferskur og góður. George Clooney er víst fastagestur þarna. O jæja, staðurinn var amk. virkilega góður, þrír fiskréttir og síðan eftiréttur og drukkin með rauðvínið Pinot Nero 2005 og hvítvínið Schulthauser Pinot Bianco 2006 frá afmælisbarninu að sjálfsögðu, San Michele Appiano.

Þá var skíðað niður að rútunum með fullan maga af mat og víni og ekið af stað. Við stoppuðum til að hitta hóp gesta sem höfðu valið erfiðari skíðaleið (svo erfiða að tveir ameríkanar týndust í dágóðan tíma) og allir fengu Alpahatta merkta víngerðinni. Þarna stigum við upp í skíðalyftu, 6-8 í hverja, og hífðumst upp í 2.200 metra hæð þar sem beið okkar heitt rauðvín, meiri matur og … diskódans!

Diskóbúllan Club Moritzino er furðulegur fjallakofi sem eldar frábæran mat og spilar síðan dúndrandi danstónlist á milli rétta þar sem gestir eru hvattir til að standa upp á stólum og sleppa af sér beislinu. Það gekk eitthvað illa að fá Íslendinginn til að gefa sig allan í fjörið en á endanum var hann þó farinn að smella fingrum, – og gott ef ekki stíga nokkur úthugsuð spor. Stjórnendur San Michele Appiano víngerðarinnar fóru hins vegar hamförum á dansgólfinu og eiginlega má segja að stuðið á mannskapnum hafi verið skrambi gott.

Þegar matnum og djamminu lauk um 23.00 fóru allir í snjóbíla sem keyrðu okkur niður brekkuna að rútunum. Á miðri leið þurfti að gera neyðarstopp þar sem var farið að renna af einhverjum og allir fengu síðasta sopann af St. Valentin Pinot Nero 2004.

Að lokum hlykktust rúturnar af stað eftir svo bugðóttum vegum að manni fannst þeir fara í hringi þar til við komum á hótelið í Meranó tveimur tímum síðar.

Afmælisprógrammi var formlega lokið. Takk fyrir okkur, þetta var virkilega vel skipulagt, flott og skemmtilegt.

Það staðfestist líka að San Michele Appiano gerir einhver best gerðu vín á norðurhveli Ítalíuskagans, hin stílhreinu og tæru hvítvín með hið margverðlaunaða (13 sinnum hlotið hæstu einkunn 3 glös í Gambero Rosso)  St. Valentin Sauvignon Blanc í broddi fylkingar ásamt karaktermiklum rauðvínum, ekki síst St. Valentin Pinot Nero sem hlýtur að teljast með bestu vínum Ítalíu úr Pinot Noir þrúgunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, ferðalög, hótel, vínsýning, veitingastaðir

Vinitaly 2007 – Ljósasjóv undir berum himni

.

Dagur 1, 26. mars.

Flug  í Keflavík 7.20, millilending í Frankfurt og þaðan til Veróna 18.00.

Vinitaly vínsýningin í Veróna er stærst og elst allra vínsýninga. Ekki hissa kannski að hún skuli vera elst enda liggja allar rætur á endanum til Móður Ítalíu (og reyndar þaðan til Grikklands og Asíu en gleymum því) en að hún sé stærst kom mér á óvart þar sem ég taldi Bordeaux vera umfangsmeiri. Nóg um það.

En áður en sýningin hófst fórum við Rakel í afmæli til San Michele Appiano sem kenndur er við þorpið Appiano. Þótt ég hafi vanið mig á að nota ítalska heitið (eins og Gambero Rosso gerir) þá væri eiginlega réttara að nota þýskuna því hún virðist vera ráðandi tunga innan fyrirtækisins enda reka fyrirtækið menn með nöfn eins og Günther, Anton og Hanz.

Þeir hjá Appiano voru svo elskulegir að bjóða okkur flug og gistingu enda ekki á hverju ári sem menn verða 100 ára (þegar leið á partýið og menn urðu hressir voru þeir byrjaðir að lofa svona partýi á 5 til 10 ára fresti en ég held að kannski hafi það verið í hita leiksins…- aldrei að lofa þegar maður er í slíku stuði). Grazie mille!

Við Rakel lentum sem sagt 18.00 á Veróna flugvelli sem var skemmtilega sveitalegur miðað við gímaldið í Frankfurt, og brunuðum til Appiano á bílaleigubíl. Partýið var byrjað þegar við mættum en við komum akkúrat í forréttinn. Ekki er hægt að segja að við Rakel létum lítið fara fyrir okkur þegar við gengum inn í salinn þar sem allir voru sestir til borðs því dyrnar sem við þurftum að opna til að ganga inn voru svona 300 fermetrar að flatarmáli og Rakel í skjannahvítri kápu með 5 mánaða bumbu út í loftið og ég í skjærgrænum jakka með 34 ára gamla bumbu út í loftið.

Okkar var vísað til borðs hjá frændum okkar Norðmönnum og Finnum. Norðmenn voru ung vinaleg hjón sem við ræddum svolítið við í ferðinni og Finnar voru fremur þöglir á hinum enda borðsins. Ég hefði hvort sem er ekki heyrt neitt í þeim því tónlistin var hávær – talandi um tónlistina, hún var prýðisgóð og flutt af áhugamönnum sem allir störfuðu sem fréttamenn hjá RAI sjónvarpsstöðinni. Öllu hressari voru tékknesku fulltrúarnir sem einnig sátu við borðið, svo hressir að það þurfti reglulega að sussa á þegar þurfti að fá þögn í salinn. Anton, sem ég held að sé framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sat síðan á milli okkar og Tékkanna.

Kvöldið leið þannig að hver rétturinn var reiddur fram af öðrum undir vaskri stjórn Michelin-stjörnu kokks sem ég náði ekki hvað heitir og með réttinum var borið fram vín frá víngerðinni sem víngerðarmaðurinn Hanz Terzer kynnti jafnóðum. Þetta voru eðalvín öll sem eitt, allt frá hinum ljúfa Riesling Montiggl 2006 til hins heillandi Pinot Nero St. Valentin 2004, nú eða sætvínsins Comtess í endann sem var eðal. Skemmtilegt var að smakka 1998 árgang af Pinot Grigio St. Valentin sem sýndi hversu vel vínið getur þroskast, verulega áhugavert, og ekki síður skemmtilegt var að smakka sérstakt hátíðarvín úr Chardonnay, Pinot Grigio og Pinot Bianco sem er hið fyrsta þar sem þeir blanda nokkrum þrúgum saman (aðeins framleiddar um 200 flöskur). Ótrúlegt miðaða við að víngerðin gerir um 30 ólík vín en þau eru öll sem eitt úr sinni þrúgu hvert.

Áður en rúllað var upp á hótel (Hótel Steigenberger er í 30km fjarlægð í bænum Merano) vorum öllum húrrað út í garð þar sem var framið ljósasjóv á stóran húsvegg víngerðarinnar. Það var gott veður, allir voru hressir – þetta var svona létt Cinema Paradiso stemning. Og borið var fram Gewurztraminer St. Valentin 2006 undir öllu saman. Ljósasjóvið sýndi upphaf víngerðarinnar en líka stutta senu frá landi hvers fulltrúa (gestir voru nær eingöngu innflutningsaðilar um allan heim) og fengum við að sjá Flugleiðavél, gamla báta, íslenska fánann og fleira undir söng Bjarkar þegar kom að Íslandi. Skemmtilegt nokk. Einna flottast fannst mér samt þegar orginal teikningnum víngerðarinnar var varpað á húsið í réttum hlutföllum, það var kúl.

Komið á hótel á miðnætti, framundan skíðadagur í Dólómítunum.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, ferðalög, matur, vínsýning, vínsmökkun

Lagt af stað á Vinitaly

.

Jæja, þá er komið að því.

Vinitaly vínsýningin í Veróna hefst á fimmtudaginn.

Við Rakel leggjum reyndar í hann eldsnemma í fyrramálið, fljúgum til Frankfurt og þaðan samdægurs til Veróna. Lending í Veróna 18.00, bílaleigubíll sóttur með hraði og síðan brunað beint í norður þar til við komum ti San Michelel Appiano, framleiðandans okkar í Alto Adige héraði, sem býður okkar í 100 ára afmælisveislu.

Afmælisveislan stendur í tvo sólahringa, á þriðjudeginum er öllum boðið á skíði og mat um kvöldið. Á miðvikudeginum keyrum við aftur til Veróna þar sem við ætlum að vera mætt um hádegi, borða og njóta borgarinnar.

Þetta er nú einu sinni borg elskendanna.

Á fimmtudeginum opnar vínsýningin en við ætlum bara að eyða þar fyrri hluta dags og leyfa okkur að skoða borgina betur eftir hádegið. Þennan morgum hittum við Fontodi, Castello di Querceto og Umani Ronchi, höfum svona klukkutíma í hvert stopp. Rakel fer á föstudagsmorgun og þá tekur við þriggja daga stím hjá mér. Ég mun aðallega heimsækja þá framleiðendur sem við flytjum þegar inn og taka m.a. stöðuna á nýju árgöngunum en hef líka mælt mér mót við nokkra aðra spennandi framleiðendur.

Þetta verður smakk og meira smakk. Öllum vínum verður hins vegar spýtt í dall, annars brennur maður út mjög fljótt — ég lærði það af reynslunni.

Vonandi get ég eitthvað bloggað á meðan á ferðalaginu stendur en ég ætla síðan að fjalla betur ferðina þegar ég er kominn aftur heim.

Arrivederci!

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, castello di querceto, ferðalög, fontodi, umani ronchi, vínsýning