Category Archives: áskorun

Tvíburarnir vilja vera áfram í Vínbúðunum

Öll vín sem hefja REYNSLU í Vínbúðunum hafa eitt ár til að komast í KJARNA þar sem þeim er tryggður staður í a.m.k. ár til viðbótar. Í kjarna fær vínið meiri dreifingu í fleiri Vínbúðir og ef vínið selst virkilega vel endar það út um allt land. Vínin í kjarna eru líka staðgreidd að hálfu ÁTVR við hverja pöntun en ekki fengin „að láni“ og síðan greidd eftir því hvað selst í hverjum mánuði eins og reynsluvínin.

Sem dæmi: ef ÁTVR pantar 60 flöskur af ákveðnu víni frá okkur og eingöngu þrjár seljast í mánuðinum greiðir ÁTVR aðeins þessar þrjár flöskur. Ef sama magn yrði pantað af kjarnavíni yrði það staðgreitt innan tveggja vikna óháð sölu í Vínbúðunum.

Það er því eftir nokkru að sækjast.

Í hverjum mánuði fáum við framlegðarskýrslu frá ÁTVR þar sem við getum séð hvernig öll vörunúmer í Vínbúðunum eru að standa sig, okkar og annarra. Við sjáum m.a. hvaða vín fara í kjarna, getum séð hversu margir mánuðir eru eftir af reynslu-árinu og hveru mikið vantar upp á í „framlegð“ til þess að komast í kjarnann. Vín sem nær ekki í kjarnann dettur úr sölu og þarf þá að bíða utan Vínbúða í heilt ár eftir að eiga möguleika á endurkomu á reynslulistann ef viðkomandi vínkaupmaður kýs að reyna aftur.

Í augum ÁTVR setur vínkaupmaður vín í reynslusölu með það fyrir augum að koma því í kjarna og velur vín til landsins sem eiga þennan möguleika.

Við erum svolítið óþæg hvað þetta varðar og erum alltaf að setja þarna inn alls konar ósöluvænleg og skrítin vín sem eygja aldrei raunverulegan möguleika á þessari stöðuhækkun úr reynslu í kjarna. Þeir sem þetta lesa vita af hverju það er svo við sleppum langloku um tilgang og ástríður okkar að þessu sinni. Okkar vín eru því alltaf að detta úr sölu og dvelja því gjarnan ekki lengur en árið í Vínbúðunum – og á meðan finnum við einhver önnur ný og ómöguleg vín til að setja í staðinn.

Við getum bara ekkert að þessu gert.

Reyndar hefur svokallaður SÉRLISTI Vínbúðanna komið okkur til hjálpar því þar veljast inn vín til hliðar við þetta sjálfvirka kerfi sem við vorum að lýsa, vín sem er valin af fagmönnum Vínbúðanna. Þetta eru einu vínin í Vínbúðunum sem eru valin inn af gæðum og í þeim tilgangi að auka fjölbreyttni í hillum Vínbúðanna svo landinn drekki nú ekki bara Chardonnay og kassavín út í eitt. ÁTVR auglýsir eftir umsóknum á sérlistann u.þ.b. tvisvar á ári og er tekið tillit til gæða, verðs og þarfar m.a. og samkeppni um hvert sæti.

Nú er þessi póstur orðinn alltof langur og komið að raunverulegri ástæðu hans (ef einhver er ennþá að lesa).

Tvíburavínin Little James rautt og Little James hvítt, frá Chateau Saint Cosme í Rónarhéraði Frakklands, vantar ekki mikið upp á til að komast úr reynslu í kjarna. Reynsluárið rennur út 31. maí og þurfa viðskiptavinir Vínbúðanna að versla 25 flöskur af hvoru víni í hverri viku héðan í frá og út maí til að það takist. Hljómar ekkert svo rosalega mikið en þarf samt átak til.

Öll hjálp vel þegin.

Það er varla hægt að finna meira lifandi og hressileg vín í okkar röðum eins og flöskumiðinn gefur til kynna. Þau fara þó ekki út af sporinu í taumlausri gleði – þrátt fyrir allt þá eru þetta BARA venjuleg og góð frönsk léttvín með svona smá suðrænum samba.

Little James rautt og Little James hvítt kosta bæði 2.289 kr. í Vínbúðunum sem við leyfum okkur að kalla af mikilli hógværð ÞRUSUKAUP.

Takk fyrir hjálpina.

Færðu inn athugasemd

Filed under áskorun, saint cosme, vínbúðirnar

Lambrusco ÁSKORUN — frítt balsamik edik frá LINI í póstkassann

Ef við tökum saman öll ítölsku vínin (sjö talsins) sem byrjuðu í Vínbúðunum sumarið 2008 (lestu meira) og leggjum þau í mat sem byggist á praktískum viðmiðunum, eins og fágæti víns miðað við flóru Vínbúðanna, auk slatta af eigin væntumþykju — stendur eitt vín upp úr sem við viljum sérstaklega halda inni og koma í kjarna.

Lambrusco frá Lini.

Lambrusco frá Lini er nefnilega afar skemmtilegt vín sem má ekki dæma út frá slælegu orðspori „lambrusco“ vína. Það býr nefnilega yfir miklum karakter, er þurrt matarvín og freyðandi að hætti kampavína sem færir okkur birtu og gleði.

Því efnum við til áskorunar.

Keyptu 3 flöskur af Lambrusco frá Lini og sendu okkur myndskilaboð (6937165) eða fax (5347175) af kassakvittun. Hún þarf að vera læsileg og nafn og heimilisfang þarf að fylgja með.

Í staðinn sendum við þér flösku (250ml) af ekta, eðal Modena balsamik ediki frá sama framleiðanda, Lini, en eins og kannski sumir hafa áttað sig á þá koma Lambrusco vín og balsamik edik frá sama svæði Ítalíu.

Til að koma Lambrusco frá Lini í kjarna þurfum við að selja 30 flöskur á viku næstu þrjá mánuði. Það hljómar kannski ekki svo ýkja mikið en er reyndar slatti því það fóru bara 7 flöskur í síðustu viku.

Flaskan kostar 1.980 kr. og einhver gæti sagt „Bíddu nú við… á lambrusco ekki að vera ódýrt?“. Svarið er einfalt, þetta er bara gott VÍN! Það eru einmitt svona vín sem við föllum svo oft fyrir, vín sem eru ekki alltaf augljós eða í miðju massasölunnar, vín sem eru einstök út fyrir sig.

Svo minnum við á að vínið var valið Bestu Kaupin í Gestgjafanum (lestu meira) og fékk 91 stig af 100 í Morgunblaðinu (lestu meira) sem kallaði það „lítið djásn“.

Fæst í Vínbúðunum Heiðrúnu, Kringlunni og Skútuvogi.

Færðu inn athugasemd

Filed under áskorun, ítalía, lini

Hjálp óskast við að koma Flaugergues í kjarna

.

Það þurfa aðeins að seljast nokkrir tugir flaska í Vínbúðunum af rauðvíninu Chateau de Flaugergues frá S-Frakklandi til þess að það komist í kjarna Vínbúðanna.

Ef það nær þeim áfanga er vera þessa í Vínbúðunum a.m.k. ár héðan í frá tryggð auk þess sem vínið fær dreyfingu í fleiri Vínbúðir.

Við getum það með þinni hjálp.

Ég get ekki drukkið svona mikið óstuddur.

Það væri gaman ef þeir sem hafa unað þessu víni fram að þessu og þeir sem vilja prófa eitt af skemmtilegri vínum sem hafa rekið hingað frá ströndum S-Frakklands hjálpi því að ná áfanganum góða með því að skunda í Vínbúðina í Kringlunni eða Heiðrúnu og kaupa flösku(r).

Chateau de Flaugergues [sjató dö flausjarg] kostar 1.750 kr.

Takk fyrir hjálpina.

Færðu inn athugasemd

Filed under áskorun, flaugergues, frakkland, vínbúðirnar