Category Archives: castello di querceto

Betrumbætt Belja komin í Vínbúðirnar (er það virkilega hægt?)

beljan_hvit_minniBetrumbætt Belja er komin í Vínbúðirnar.

Sú hvíta var farin að þreskjast heldur mikið svo okkur var hætt að lítast á blikuna. Við lýstum þessu vandamáli við framleiðandann og pöntuðum nýja áfyllingu sem er að skila sér í Vínbúðirnar þessa dagana.

Árgangur er sá sami (2008) en betra og ferskara hvítvíni hefur verið bætt á spenana í heimahögum Beljunnar í eikarlundinum í Toskana.

Hún er öll orðin huggulegri.

Rauða er hins vegar óbreytt enda hefur hún bara batnað frá átöppun fyrir rúmu ári síðan. 2008 árgangur er reyndar alveg að klárast og öðru hvoru megin við áramótin mun 2009 taka við.

Færðu inn athugasemd

Filed under beljan, castello di querceto

Tveir hljóta titilinn Winery of the Year

Tveir af okkar vínbændum eru svo heppnir að hafa verið bestaðir af bandarísku vínpressunni Wine and Spirits. Tímaritið veitir 100 framleiðendum titilinn BEST WINERY OF THE YEAR sem þeim hefur þótt skara framúr árið 2010.

Bestunina hljóta Castello di Querceto í Toskana og hinn ástralski d’Arenberg.

Þetta er flott viðurkenning sem þessir góðu vínbændur eiga vel skilið og óskum við þeim innilega til hamingju!

Vel á minnst, Beljan vill koma því að að hún er fædd og uppalin hjá Castello di Querceto (sjá nánar).

Til upprifjunar birtum við í gamni mynd sem átti að prýða utanverðan botn Beljunnar.

beljan_botn

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, ítalía, castello di querceto, d'arenberg, dómar, vín, wine and spirits

Vínin yfir páskana

Eins og kemur fram í nýjasta bréfi Frú Laugu þá mælum við sérstaklega með rauðvíninu Cotes du Rhone 2006 frá Chateau de Montfaucon með páskalambinu. Þetta hefur þægilegan ilm, þéttan ávöxt og flotta byggingu. Látlaust vín í besta skilningi þessa orðs sem er við hæfi á þessum tíma yfirvegunar og innri friðar.

Önnur vín sem sýna sínar bestu hliðar í nærveru lambakjöts eru rauðvín úr Sangiovese þrúgunni eins og Chianti Classico 2007 frá Castello di Querceto, Chianti Classico 2006 frá Fontodi eða Montefalco Rosso 2005 frá Arnaldo Caprai.

Klassísk rauðvín sem falla ekki í skuggann af lambinu eða öfugt.

Í hvítu deildinni mælum við með einhverju svolítið þykku og höfugu til að standa í hárinu og t.d. humri og laxi en með ferskleika engu að síður, eins og t.d hið skemmtilega Chardonnay hvítvín The Stump Jump Lightly Wooded Chardonnay 2008 frá d’Arenberg nú eða madamman sjálf Comtesse Madaleine 2007 frá Chateau de Montfaucon.

Síðan má líka draga fram Beljuna en það vill svo til að þær eru einmitt úr þessum þrúgum sem mælt er með hér fyrir ofan, sú rauða úr Sangiovese og sú hvíta úr Chardonnay. Okkur finnst rauðvínið vera að vaxa með tímanum sem það hefur haft í maga beljunnur og hvítvínið fer að verða meira grípandi með hækkandi sól og vori.

Gleðilega páska!

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, d'arenberg, montfaucon

Alslemma í Gestgjafanum — Beljan „bestu kaupin“ og Gourgonnier „vín mánaðarins“

Gleðilegt nýtt ár!

Við þökkum öllum góðum vinum og vínum viðskiptin á árinu sem var að líða!

Gamla árið endaði vel því rétt við árslok skaust út einn Gestgjafi með góðum dómum um okkar vín.

Líklegast er þetta í fyrsta sinn, ef minnið er ekki farið að förlast, sem við eigum bæði VÍN MÁNAÐARINS og BESTU KAUPIN í einu og sama blaðinu.

Alslemma.

Áður hafði Mas de Gourgonnier 2003 fengið mjög fína umfjöllun í Gestgjafanum og í Morgunblaðinu en nú er það aftur á móti 2006 árgangur sem er til umfjöllunar og bætir um betur með nafnbótinni VÍN MÁNAÐARINS.

Beljan rauða er síðan rígmontin þessa dagana yfir titlinum BESTU KAUPIN í sama tölublaði og er staðráðin í því að verða vín mánaðarins einn góðan dag. Beljan hefur reyndar hækkað í verði síðan dómur féll en það er líklegast í lagi þar sem sú hækkun gekk eins og alda yfir öll vínbúðarvínin 1. janúar þar sem um skattahækkun var að ræða og afleiðingar hennar en ekki okkar eigin smørelse. Hún hækkar því í hlutfalli við önnur vín.

Þrjú freyðivin fá líka glimrandi umfjöllun í þessum nýjasta Gestgjafa:

Þar fer fremst Val D’Oca Prosecco Valdobbiadene með 4 1/2 glas sem þeim finnst „glæsilegt freyðivín“, þá Lini Pinot Spumante með 4 glös og loks Lini Lambrusco Labrusca Rosato með 3 1/2 glas.

Einnig fá tvö rauðvín, Querceto Chianti 2006 og Arnaldo Caprai Montefalco 2006, 4 glös hvort í sérstakri umfjöllun blaðsins um rauðvín með hreindýraköti.

En svona lítur öll dýrðin út:

BELJAN Rauðvín Toscana Igt Rosso 2008BESTU KAUPIN 3 1/2 glas
Það er ekki á hverjum degi sem allar upplýsingar á kassavíni eru á íslensku því yfirleitt er það frekar vín sem stórir framleiðendur setja í handhægar umbúðir til að lækka verðið. Eftirgrennslan leiddi í ljós að þetta vín, sem gengur undir nafninu „Beljan“ eins og myndin á kassanum bendir til, er sérframleitt fyrir Ísland hjá Castello di Querceto og þá undir upprunavottun IGT Toskana en ekki Chianti eins og flöskuvínin hans. Gæðin fara líka eftir því, þetta er sannkallað Toskana-vín, ferskt, fullt af kirsuberjum og með keim af leðri og sveit, stendur vel fyrir sínu en þarf kannski að þroskast dálítið – eftir smástund í glasinu er það mýkra og sýran minnkar. Kjörið að setja á karöflu og hafa á borði með blönduðum réttum, með góðum pítsum og risotto.
Verð: 5.490 kr.
Okkar álit: „Beljan“ er bara fínasta kassavín, með karakter og góður fulltrúi Toskana, leyfið henni bara aðeins að ná andanum! 

Mas de Gourgonnier 2006VÍN MANAÐARINS 4 1/2 glas
Fyrir tveimur árum smökkuðum við 2003 árganginn og vorum einstaklega hrifin en urðum að leyfa víninu að jafna sig því árið á undan var það mjög lokað og næstum óaðgengilegt. Hér er Mas de Gourgonnier, eitt af þekktustu lífrænu víhúsum í Baux de Provence (heyrst hefur að það standi til að hafa heila AOC Baux de Provence lífrænt ræktaða sem væri einsdæmi), strax aðgengilegt og skemmtilega opið. Allar þrúgurnar sem leyfilegar eru finnast í vínnu: grenache, syrah, cinsault, carignan og mourvédre en það eru sennilega syrah og grenache sem skila mest eftir enda eru þær samanlagt yfir 50% af blönduninni. Anganin er mjög aðlaðandi, það er eins og að anda Provence-héraði að sér úr einu vínglasi og það heldur áfram í munni: vel þroskuð rauð og dökk ber, kryddjurtir og milt krydd, skógarbotn, ferskt og margslungið og langt eftirbragð – munnvatnið fer strax af stað og biður um jurtakryddað lambakjöt (helst af nýslátruðu en annað dugar!) eða safaríka nautasteik. Yndislegt vín með mikinn karakter.
Verð: 2.790 kr.
Okkar álit: Meistarar að verki með þetta lífræna vín, flugeldasýning frá Provence-héraði sem elskar lambið okkar og nautakjöt. Flott vín.

Val D’Oca Prosecco Valdobbiadene4 1/2 glas
Prosecco er „alvöru“ freyðivín Ítala og kemur frá Veneto á norður Ítalíu, þrúgan er … prosecco. Nokkrar tegundir hafa farið inn og út af lista Vínbúðanna, líklega ekki nógu þekkt vín nema af þeim sem hafa búið þar í landi. Prosecco-heitið bætir fyir þetta flókna nafn sem vínið, sem komst að fyrir stuttu í Vínbúðunum, ber en flaskan er falleg líka og auðvelt að þekkja hana! Og innihaldið samsvarar útlitinu: afar elegant, fíngert, örlítil sæta frá vel þroskuðum þrúgum, fínar loftbólur og mikið af þeim. Glæsilegt freyðivín sem sómir sér við ýmislegt, sem fordrykkur, með eftirréttunum (prófið me Panetone frá Sandholt bakaríi!) eða sem áramótafreyðvín.
Verð 2.490 kr.

Lini Pinot Spumante4 glös
Öðruvísi vín frá Lini 910, þessum rúmlega aldargamla framleiðanda frá Correggio rétt hjá Modena – hvítt í þetta sinn og úr pinot noire-þrúgunni. Þetta er ekki lengur Lambrusco þar sem þrúgurnar sem eru notaðar í þeim vínum eru algjörlega staðbundnar (60 tegundir hafa verið skráðar!) en framleiðsluaðferðin er eins: annað hvort „méthode tradionnelle“ eða „Charmat“ sem hentar vel hér. Það er mikill persónuleiki í þessu víni, góð fylling, mikið af blómum og gulum ávöxtum, t.d. melónum og perum, og það freyðir einstaklega vel, lengi og fallega. Eftirbragðið er líka langt og þar kemur vottur af sætu sem fylgir ávöxtunum. Góð sýra heldur víninu lifandi alla leið, athyglisvert vín og góður fordrykkur.
Verð: 2.590 kr.
Okkar álit: Forvitnilegt en verulega skemmtilegt, sérstaklega í fordrykk eða til að skála í á áramótum.

Lini Lambrusco Labrusca Rosato3 1/2 glas
Lambrusco verður alltaf dálítið sérstakt vín, freyðandi rautt, rosato eða hvítt, það á sér langa hefð í ítalskri víngerð og gæðin geta verið gríðarlega mismunandi. Við höfum þegar smakkað Lini 910 rautt sem hefur vott af sætu og gaf tóninn varðandi gæði – þetta rosato-vín er önnur útgáfa frá þessum virta framleiðanda. Það er svolítið feimið í nefi en við öndun koma fram rauð ber (jarðar-, rifs- og hindber). Vínið hefur góða fyllingu í munni, er ferskt og með vott af sætu, lofbólurnar eru þéttar og fíngerðar, tannín finnst aðeins en er flauelsmjúkt. Heilt á litið er þetta þurrt vín með góðum berjum, kannski erfitt að finna mat á móti en heyrst hefur að það gæti gengið með hamborgarhrygg.
Verð: 2.190 kr.
Okkar álit: Ferskt og þurrt, freyðandi rósavín, forvitnilegt en skemmtilegt og vel gert.“ (- Gestgjafinn 17. tbl 2009)

Færðu inn athugasemd

Filed under beljan, caprai, castello di querceto, dómar, Gestgjafinn, lini, mas de gourgonnier, valdoca

Bráðum verður beljunni hleypt út á tún

Þessa dagana erum við með ermar uppbrettar að leggja lokahönd á fyrsta kassavínið sem við flytjum inn.

Vanalega leggjum við ekki okkar hendur eða lokahendur á hönnun eða útlit vöru sem við flytjum inn ef endanskilið er samvinnuverkefnið með austurríska vínframleiðandanum Hubert Sandhofer og myndlistarmanninum Kristínu Gunnlaugsdóttur sem lánaði myndefni á vínflöskurnar hans Huberts.

Kassavínshugmyndinni laust niður einhvern tímann á síðasta ári og með hjálp góðra vina var henni hrint í framkvæmd og hún fullmótuð. Vínið fundum við síðan hjá vinum okkar í Toscana, Alessandro og Antoniettu, eftir að hafa smakkað okkur í gegnum nokkra mögulega kandídata.

Ferlið var ekki alveg áfallalaust, fyrsta útgáfan hlaut ekki náð hjá yfirmönnum ÁTVR og var hafnað en það var kannski bara allt í lagi því við höldum að endurbætt útgáfa hafi jafnvel heppnast betur. Um ævintýri beljunnar verður fjallað meira síðar.

Á mánudaginn fer lokahönnun til vina okkar í Toskana sem prenta fyrir okkur og tappa víninu sínu á. Ef allt gengur upp verður beljan mætt í Vínbúðirnar 1. júlí.

Þær verða reyndar tvær þessar elskur, rauð og hvít.

Að sjálfsögðu komnar á Facebook eins og allar beljur sem vilja vera smart.

Hliðarnar á kassanum verða sýndar hér innan skamms þegar algjörlega, 100%, ekki nokkur vafi leikur á að hún sé fullkláruð og helst komin út úr prentsmiðjunni. 

En svona lítur toppurinn og botninn á rauðvínsbeljunni út:

 

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, vínbúðirnar

Hástökkvari mánaðarins í Vínbúðunum

Í hverjum mánuði fáum við sprúttsalar yfirlit frá ÁTVR yfir sölu með útreiknaðri framlegð fyrir hvert og eitt vín. Listinn skiptist í tvennt, yfir vöru sem er í kjarna annars vegar og hins vegar vöru sem er til reynslu.

Þarna sjáum við hvernig okkar vín koma út í samanburði við önnur og hvað vantar upp á til að reynsluvín komist í kjarna eða hversu mikil hætta er á því að kjarnavín dettur úr sölu. M.ö.o. mjög gagnlegur listi sem við getum skoðað í gegnum sérstakan birgjavef, sem og aðrar fréttir og skýrslur.

Í ný-útsendum lista yfir apríl mánuð síðastliðinn kom okkur skemmtilega á óvart að sjá að hástökkvari mánaðarins í flokki reynsluvína er Chianti frá Querceto sem tókst á einum mánuði að slengjast hálfa leiðina í kjarna.

Og fyrstu 10 dagana í maí virðist sem ekkert lát sé á vinsældum vínsins og það lítur vel út með framtíð þess sem stendur. Allavegana erum við nógu bjartsýn til að hafa bókað síðustu 600 flöskurnar sem framleiðandinn átti hjá sér og reiknum með að taka 600 til viðbótar í sömu sendinga af nýjum árgangi, 2008.

Sú sending kemur eftir mánuð eða svo. Hún ætti reyndar að vera ansi skemmtileg og óvenju myndarleg fyrir okkar litla fyrirtæki því þar með í för verður fyrsta kassavínið okkar, rautt og hvítt, en meira um það síðar.

 

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, fréttir, vínbúðirnar

Tom Cannavan fjallar um Chianti Classico framleiðendur

Gleðilega páska!

Það er við hæfi að fjalla í dag um rauðvín sem eru svo góð með lambakjöti, páskalambinu.

Reyndar látum við sjálf það eiga sig (það eru nú páskar) en gefum í staðinn Tom Cannavan, breska vínspekúlantinum, orðið.

Bloggarinn skoðar reglulega vefinn hans Tom www.wine-pages.com og þar er ný umfjöllun um Chianti Classico framleiðendur.

Lestu greinina hans Tom Cannavan

Það er skemmtilegt að tveir fyrstu Chianti Classico framleiðendurnir í röðinni eru einmitt okkar menn, Fontodi og Castello di Querceto. Hægt er að lesa jafnframt dóma um nokkur vína þeirra og eru þeir góðir, á bilinu 88 til 95 stig fyrir Fontodi vínin og 86 til 92 fyrir Querceto.

Chianti Classico svæðið er endalaust fallegt eins og myndin hér fyrir ofan sýnir, ekki amalegt að búa í því miðju og framleiða vín sér og öðrum til ánægju.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, dómar, fontodi

Chianti frá Querceto er BESTU KAUPIN í Gestgjafanum

Við vorum að fá nýjan árgang af Chianti frá Castello di Querceto.

Það er liður í yfirstandandi átaki að flytja inn meira af kostakaupum.

Okkur fannst þetta vín alltaf skrambi gott en 2007 árgangur en án nokkurs vafa sá besti sem við höfum smakkað af víninu. Þetta er ljúft og löðurmannlegt vín en með snerpu og kraft fyrir gott lamb eða naut.

Var einhver að tala um páskalamb?

Vínið birtist víða á síðum nýjasta Gestgjafans sem var að koma út, fjórum sinnum að því er okkur sýnist. Á bls. 31 er stungið upp á því með lambaskönkum í tómatkjötsósu, á bls. 58 er mælt með því sem mjúku og „alhliða“ matarvíni í útskriftaveisluna og á bls. 107 fær það mjög góð ummæli sem hentugt rauðvín með lambalæri.

En það er á bls. 104 sem það slær í gegn. Á vínsíðum Dominique og Eymars fær það titilinn BESTU KAUPIN og 4 glös þar að auki.

Það er bara gott.

Chianti Castello di Querceto 20074 glös BESTU KAUPIN
Þessi litli en frábæri framleiðandi er einn af okkar uppáhaldsframleiðendum í Chianti sökum gestrisni, yndislegheita og að sjálfsögðu góðra vína. Hér erum við með „grunn“ Chianti-vínið þeirra sem er blanda af sangiovese, cannaiolo og trebbiano – sígilda blandan. Opinn og dæmigerður chianti-ilmur með kirsuberjum, leðri, sveitasælu og tóbaki. Einfaldur en hreinn og afar góður ilmur. Í munni er vínið milt með góðan ferskleika og fínlega tannín. Mikill og góður ávöxtur í munni með sömu þáttum og var að finna í nefi. Fínlegt og fágað vín með því besta sem einföld chianti-vín hafa upp á að bjóða. Drekkið með nautakjöti í fínlegri sveppasósu en má einnig njóta með lambakjöti.
Verð: 1.790 kr.
Okkar álit: Vín í góðu jafnvægi með flottan karakter. Fínlegt vín og frábær kaup.“ (- Gestgjafinn 4. tbl. 2009 )

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, dómar, Gestgjafinn

Vínkeðjan: „Stíft og snarpt“ — Sigurður Elvar bloggar um Chianti Classico frá Castello di Querceto

Vínkeðjan rataði á dögunum til mannsins með „lyktarskynið eins og íslenska bankakerfið.“, Sigurðs Elvars Þórólfssonar.

Sigurður bloggar um Chianti Classico 2007 frá Castello di Querceto og líkir því við sportbíl.

Kannski rauðan Ferrari?

Lestu bloggið hans Sigurðs um Chianti Classico 2007 frá Castello di Querceto

Okkur finnst sú líking hitta naglann á höfuðið. Hún fangar karakter vínsins betur en einhver analísa og upptalning á berjum og öðrum lífrænum eða ólífrænum eiginleikum sem finna mætti í víninu.

Þessi árgangur, 2007,  er nefnilega alveg nýr og vínið því ungt og ennþá svolítið „stíft og snarpt“ eins og Sigurður orðar það. Við mæltum því með umhellingu sem Sigurður fór samkviskusamlega eftir, til að leyfa því aðeins að opna sig. Þetta vín er svolítið eins og sportbílll eða flygill beint úr kassanum, á aðeins eftir að keyra og spila það til.

Eftir nokkra mánuði verður það tilbúnara. Eftir 1-2 ár fer það virkilega að blómstra.

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, chianti classico, dómar, vínkeðjan

Framboðstilkynning

… djók!

Undirritaður er ekki á leið í framboð.

Hann ætlar ekki í framboð heldur að auka framboð, á ódýru víni.

Smjattpattar fyrirtækisins hafa hist undanfarið á leynilegum stöðum víðsvegar í höfuðborginni við að skoða og smakka á sýnishornum frá hinum og þessum framleiðendum, aðallega nýjum framleiðendum.

Að sjálfsögðu mætum við kreppunni með mátulega kæruleysislegu brosi á vör (svona eins og James Bond er með þegar hann mætir erkióvini sínum) þ.e.a.s. við vanmetum hana ekki en erum viss um að sigrast á henni.

Við erum heppin að vera með lítið fyrirtæki sem getur verið sveigjanlegt eftir þörfum. Við blásum því til sóknar því stundum er sókn besta vörnin.

Ný vín væntanleg í framboð á okkar lista eru flest ódýr en uppfylla öll okkar skilyrði um að vera góð og spennandi. Nokkur hafa fengist hér áður, t.d. Chianti frá Castello di Querceto og Montepulciano d’Abruzzo frá Umani Ronchi sem bæði hefja sölu 1. apríl og einnig nýtt og ódýrt Verdicchio hvítvín frá Umani Ronchi. Svo eru nýir framleiðendur frá Rhone í S-Frakklandi á sjóndeildarhringnum, Chateau de Montfaucon og stórskemmtileg „Little James“ vín frá Domaine Saint Cosme. Ýmislegt fleira, freyðandi, s-ítalskt, jafnvel portúgalskt er á sjóndeildarhringnum.

Að ógleymdum kassavínsbeljum sem munu baula í fyrska skipti á okkar vegum með hækkandi sól, með rassinn upp í vindinn.

Munið svo að kjósa rétt.

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, umani ronchi, vangaveltur

Vín og matur: Vín með lambakjöti

Vín með lambalæri, vín með lambakótilettum, vín með lambalundum, vín með lambahrygg. Það skiptir ekki öllu máli hvaðan af lambinu kjötið er, vínið sem fer best með því er meira eða minna það sama.

Á þessu heimili er lambakjötið nefnilega alltaf meðhöndlað eins einfaldlega og mögulegt er, salt og pipar, í mesta lagi einhver fersk krydd til að nudda á kjötið, og nánast aldrei nein sósa. Íslenska lambakjötið er eiginlega of gott þegar það er upp á sitt besta til að vera að drekkja því í sósu. Maður vill að lambakjötið njóti sín, annars gæti maður alveg eins verið að nota soja“kjöt“. Þetta berum við svo gjarnan fram með fersku salati eða einhverju léttbrösuðu eins og pönnusteiktum gulrótum, sveppum og þess háttar. Það má alveg vera frumlegur í meðlætinu ef það skyggir ekki á aðalleikarann.

Lambakjötið er tiltölulega opið fyrir ýmsum gerðum vína, jafnvel sumum hvítvínum, en það er eitt svæði í veröldinni sem gerir rauðvín sem virðast fædd til þess að drekka með góðu lambakjöti.

Þessi vín heita einu nafni Chianti Classico eftir samnefndu svæði innan Toskana héraðsins á Ítalíu sem einu sinni hét bara Chianti en heitir í dag Chianti Classico, sem þýðir „hið upprunalega Chianti“. Hið upprunalega Chianti liggur á milli borganna Flórens og Siena. Aðeins rauðvín frá því svæði fá að kalla sig Chianti Classico en allt í kring fyrir utan það eru einnig framleidd Chianti vín ýmis konar sem þó fá ekki að kalla sig „Classico“.

Fyrir okkur eru Chianti Classico vínin hin erkitýpísku ítölsku rauðvín sem við unnum svo mikið. Þar liggur ástríða okkar fyrir vínum einna dýpst. Þegar best lætur finnur maður í þeim ilminn af sveitinni í Toskana og þau verða aldrei of þung heldur eru sígild matarvín. Það er eitthvað sem gerist þegar þessi vín eru pöruð með lambakjöti sem eldað hefur verið á þennan einfalda hátt sem lýst er hér fyrir ofan. Bæði lambakjötið og rauðvínið eru í essinu sínu.

Við höfum sannreynt þetta á öllum okkar Chianti Classico vínum. Þau sem eru fáanleg í Vínbúðunum sem stendur eru frá tveimur framleiðendum sem eru í u.þ.b. 15 mínútna fjarlægð hver frá öðrum. Fontodi gerir eingöngu lífræn vín og stundar sjálfsþurftarbúskap, Fontodi Chianti Classico er fágunin ein með lifandi karakter sem flytur okkur í einni svipan til þessa hjarta Ítalíu. Eikarkastalinn, Castello di Querceto, framleiðir breiða línu vína með sínum einkennandi stílhreina hússtíl sem við erum svo heilluð af. Castello di Querceto Chianti Classico gengur jafnvel enn lengra en nafni þess frá Fontodi í að fanga anda sveitarinnar og hefur léttari áferð á meðan stóri bróðir Castello di Querceto Chianti Classico Riserva er öllu meira og þykkara með burði til að standa í hárinu á nautasteikum sem lambasteikum.

Niðurstaða: við mælum með Chianti Classico rauðvínum með íslensku lambakjöti

Lokaorð: allir segi „mmmmmmeeee……“

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, fontodi, matur

Og enn af verðbreytingum…

Það er ekki annað hægt að segja en að starfsmenn Vínbúðanna hafi haft nóg að gera í verðmerkingum síðusta misserið.

Fyrst var það hver hækkunin á fætur annarri sem skall á þegar gengið féll og féll og vínkaupmenn þurftu að hækka söluverð í kjölfarið, síðan hækkun á áfengisgjaldi og loks breytingar á lögum er varða álagningu ÁTVR.

Þessari síðustu verðbreytingu var dembt á starfsmenn Vínbúðanna og landsmenn alla 22. desember. Skemmtilegur jólaglaðningur það. Nú er álagning á öll léttvín 18% og það sem er merkilegt við það er að það er ekki munur gerður á því hvort léttvínið fæst í kjarna eða reynslu. Áður var álagningin 13% fyrir fyrrnefnda flokkinn en 19% fyrir þann síðari.

Við höfum alltaf verið með nánast öll vínin okkar í reynslu, þ.e.a.s. í 19% flokkinum, sem hafa þar af leiðandi þurfti að etja kappi við 13% vínin en nú eru öll vín jöfn og kvörtum við svo sem ekki yfir því (þótt betra hefði verið ef sameiginlega prósentan hefði farið niður en ekki upp). Við höfum bara átt tvö vín í kjarna undanfarið, Arnaldo Caprai Grecante og Castello di Querceto Chianti Classico Riserva og hækkuðu þau tvö svolítið á meðan öll hin vínin okkar í Vínbúðunum lækkuðu um þetta prósentustig.

Nú þarf ég að fara að breyta verðunum á www.vinogmatur.is því þau eru flest úreld.

Já það er fjör.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, castello di querceto, fréttir, vínbúðirnar

Vernaccia di San Gimignano í Gestgjafanum

Vernaccia di San Gimignano er „eitt af þessum hvítvínum sem krydda upp á úrval hvítvína í Vínbúðunum“ segir í umfjöllun Gestgjafans frá því í apríl.  Hvítvíninu gefa þau Dominique og Eymar 3 1/2 glas sem er gott fyrir það sem við köllum fyrsta flokks hversdagsvín.

Fyrir neðan birtist öll umfjöllunin:

Querceto Vernaccia di San Gimignano 20063 1/2 glas
Vernaccia er enn ein þrúgan sem fæstir hafa heyrt um en kemur úr þessu þrúgnahafi sem Ítalía hefur að geyma. Staðbundnar þrúgur gefa vínunum gildi, sem ansi margir víða um heim kunna að meta, og víngerðamenn nostra við þær til að fá það besta úr þeim. Hún er mjög afmörkuð við Toskana n.t.t. við San Gimignano, „Turnaborgina“ fallegu. Ilmurinn er ljúfur með hunangi, sítrónum, gulum ávöxtum og blómum á meðan áferðin er frekar fersk með svolitla stemmu aftast. Vínið er frekar stutt en samt sem áður mjög skemmtilegt og í fínu jafnvægi. Drekkið með léttu sjávarréttapasta eða sjávarréttagratíni.
Verð 1.390 kr.
Okkar álit: Einfalt en skemmtilegt. Eitt af þessum vínum sem krydda upp á úrval hvítvína í Vínbúðunum. “ – Gestgjafinn 4. tbl. 2008 

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, dómar, Gestgjafinn

Hlý orð í Gestgjafanum

Gestgjafinn birtir góð orð í okkar garð í nýjasta blaðinu (3. tbl. 2008).

Fyrst ber þar að nefna umfjöllun um Búrgúndarvínsmökkun sem við héldum á Vínbarnum og kynntum nokkur vín frá framleiðendum okkar þaðan.

Smelltu hér til að sjá myndir úr smakkinu
Smelltu hér til að lesa um heimsókn til Búrgúndarhéraðs síðasta haust

Takk fyrir hlýju orðin og hvatninguna.

„Frábær Búrgundí-vín hjá Arnari í Vín og mat

Arnar Bjarnason hjá Víni og mat er einn af hugsjónamönnum í vínheiminum á Íslandi. Hann flytur inn vín sem honum þykja góð og reynir að lifa af því. Hann hefur kynnt fyrir okkur mörg frábær vín frá Ítalíu, fór svo til Languedoc og fann þar afburða skemmtilega víngerðarmenn og nú er hann kominn til Búrgundí. Hann var með afraksturinn af leit sinni á Vínbarnum þar sem hann kynnti þessi vín. Vínin voru frá fjórum litlum en afar virtum framleiðendum, Lucien Le Moine, Jean Grivot og Vincent Girardin svo og frá Christian Moreau í Chablis (hann gerir eingöngu Premier Cru og Grand Cru-vín). Það er ekki á hverjum degi sem mönnum gefst færi á að smakka Premier og Grand Cru hér á landi, meðal annars Corton Charlemagne, Corton Bressandes, Charmes Chambertin, Chambolle Musigny og Clos des Vougeot. Arnar hefur fengið svolítinn kvóta af þeim vínum og ber að hrósa honum fyrir metnaðinum því þar sem menn stoppa og jafnvel snúa við og telja að markaðurinn sé ekki fyrir hendi heldur hann ótrauður áfram og færir okkur bestu vínin sem völ er á – og heldur okkur við efnið.“

Góð lýsing á Montefalco Rosso frá Arnaldo Caprai birtist siðan undir liðnum „Nýtt í reynslu“. Þau Dominique og Eymar gefa því 4 glös af 5.

Ég tek sérstaklega undir orð þeirra „mjög ítalskt“. Sum vín eru bara einhvern veginn þannig.

Montefalco Rosso 20054 glös
Þetta vín kemur úr smiðju Arnaldo Caprai sem er tvímælalaust sá framleiðandi í Umbria sem er að vekja hvað mesta athygli á heimsvísu. Vínið er blanda af sangiovese og sagrantino (þrúgan sem hann ræktaði úr gleymsku) þar sem sú fyrri er í miklum meirihluta. Það er opið í nefi með góðan ferskleika og er að finna kirsuber sangiovese-þrúgunnar ásamt kryddjurtum og kryddi. Áferðin er mjúk og þurr, tannín er vel þroskað og finna má margslungna tóna af kryddi, kirsuberjum, tóbaki og mold. Langt eftirbragð sem helst í kirsuberjunum og léttum eikartónum. Stórfínt vín með góða byggingu og í flottu jafnvægi. Drekkið með bragðmiklum og flóknum pastaréttum eða ekta ítölskum kjötréttum.
Verð 2.190 kr.
Okkar álit: Vín í háum gæðaflokki. Vel gert og mjög ítalskt en þarfnast umhellingar þar sem tannínið er ennþá svolítið þétt.“

Fleira gott um okkar vín kemur fram í blaðinu. T.d. eru fjögur ítölsk hvítvín pöruð með skemmtilegum rétti, „Smálúðurúllur með parmaskinku, basilíku og tómatsultu“ frá Jóa í Ostabúðinni og þeim gefnar einkunnir eftir því hversu vel þau eiga með réttinum. Við eigum þrjú af þessum hvítvínum, Grecante (4 1/2 glas), Casal di Serra (4 glös) og Vernaccia di San Gimignano (4 glös).

Svo mæla þau Dominique og Eymar með okkar vínum annars staðar í blaðinu. Með Frizzando frá Sandhofer mæla þau með „Túttí frúttí“ smárétti á bls. 40, Chateau du Flaugergues með „Lambalæri á la Provencal með ratatouille-grænmeti“ á bls. 45 og með Casal di Serra og Grecante með „Fenníkulegin lúða“ á bls. 65.

Ein athugasemd

Filed under búrgúnd, caprai, castello di querceto, christian moreau, dómar, Gestgjafinn, grivot, lucien le moine, sandhofer, ummæli, vín, vincent girardin

Vespa og vínkynning í dag 18.00 í Saltfélaginu

Það verður kynning á Vespa hjólum í dag 18.00 til 20.00 í Saltfélaginu og ætlar undirritaður að vera með létta vínkynningu á meðan á því stendur.

Í boði verða Chianti Classico frá Castello di Querceto, Montefalco frá Arnaldo Caprai, Grecante frá Arnaldo Caprai og Vernaccia di San Gimignano frá Castello di Querceto.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, castello di querceto, vínsmökkun

Áramótapartývín – freyðivínin okkar í Gestgjafanum

.

Góðan daginn, góðan daginn.

Hér var að berast Gestgjafi inn um lúgu með góðri umfjöllun um freyðivínin okkar tvö, Francois 1er frá Castello di Querceto sem fær 4 glös af 5 og Frizzando sem fær 3 1/2 glas.

Hið síðara er reyndar ekki fullgilt freyðivín þar sem það er svona léttfreyðandi hvítvín, en freyðandi er það vissulega og telst vera slíkt þar til annað er sannað.

Tvö vín til að njóta um áramótin, og næstu 364 daga þar á eftir.

Castello di Querceto Francois 1er Brut4 glös
Freyðivín úr chardonnay frá Toskana, mjög fágað, léttur og mildr ilmur með gulum eplum og steinefnum, aðeins smjörkennt í munni, freyðir mjög fallega og lengi. Verð: 1.990 kr

Frizzando d’Villa Vinera 3 1/2 glas
Austurrískt freyðivín frá Sandhofer úr gruner veltliner, muscat og chardonnay, ilmríkt, ferskt og milt, mjög fíngert sem virkar hálf sætt, afar ljúft freyðivín. Verð: 1.790 kr. “ (Gestgjafinn 16. tbl. 2007)

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, dómar, Gestgjafinn, sandhofer

Hinn eini sanni Hátíðarvínlisti Íslands 2007

.

Neyðarlína Víns og matar hefur verið rauðglóandi undanfarna daga til að svara spurningum um vín með hátíðarmatnum. Til að létta á starfsfólki í símaveri höfum við ákveðið að taka hann saman aftur — Hátíðarvínlista Íslands 2007 [varist eftirlíkingar]:

Manstu ekki neitt þegar þú kemur í Vínbúðina? Smelltu hér til að prenta listann (pdf) og taktu hann með

Rjúpa: Ert þú einn af þeim heppnu sem fær að borða rjúpur þessi jól og hlærð að okkur hinum? Þá mælum við með hinu ástralska rauðvíni The Laughing Magpie sem kostar 2.100 kr. í flestum stærri Vínbúðum. Sá hlær best sem síðast hlær. (innsk. ritstj: umfram rjúpur eru vel þegnar í síma 693 7165).

Hreindýr: Með kröftugum mat þarf kröftug vín og fá vín eru kröftugri en rauðvínin úr Sagrantino þrúgunni frá Arnaldo Caprai. Sagrantino di Montefalco Collepiano fæst á sérlista í flestum stærri Vínbúðum og kostar 4.300 kr. Svaðalegt vín í silkihanska.

Hamborgarhryggur/Hangikjöt: Selta og reykur kallar á ferskt og ávaxtaríkt vín sem er ekki of þurrt né of eikað. Rauðvínið ástralska The Stump Jump úr GSM þrúgnablöndu eða samnefnt hvítvínið The Stump Jump eru spriklandi skemmtileg. Hið fyrra kostar aðeins 1.490 kr. og hið síðara 1.390 kr. yfir hátiðarnar í flestum stærri Vínbúðum.

KalkúnChateau de Flaugergues úr GSM þrúgnablöndunni frá S-Frakklandi hefur aðlaðandi ilm og mjúka áferð. Það kostar 1.750 kr. og fæst í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

Gæs/Önd: Þótt þessar fuglategundir séu ekki nákvæmlega eins (önnur segir „bra“ hin segir „kvak“) mælum við einu og sama víninu með þeim báðum. Litla „Barolo“-ið, Nebbiolo Langhe frá La Spinetta er þykkt og karaktermikið og fer lokkandi vel með fuglinum. Það kostar 2.690 kr. í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

Lambakjöt: Lífræna sveitaprinsessan Les Baux de Provence frá hinu fallega Provence héraði Frakklands smellpassar með lambakjötinu. Það fæst á sérlista og má finna í stærstu Vínbúðunum á 1.790 kr.

Nautakjöt: Nýi árgangurinn (2003) af Castello di Querceto Chianti Classico Riserva er bragðmikill og þéttur og mun auðveldlega taka nautakjötið í bóndabeygju. Það kostar 2.360 kr. í flestum stærri Vínbúðunum.

Kjúklingur: Létt rauðvín frá Chianti er málið með kjúlla litla. Querceto Chianti kostar 1.390 kr. í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

Lax: Casal di Serra frá Umani Ronchi er fjölhæft, ítalskt hvítvín og alls ekki bundið við laxinn þótt það falli einstaklega vel að honum. Það hefur þægilega angan og er aðgengilegt. Þroskað í bland við krydd og hvít blóm.- 1.590 kr. í flestum Vínbúðum.

Humar: Hvað með Chablis? Hvað með 1er Cru Chablis? Þá er málið að kippa Chablis 1er Cru Vaillon frá Domaine Christian Moreau sem fæst í Vínbúðunum Kringlunni og Heiðrúnu á 2.890 kr.

Aðrir forréttir og grænmetisréttir: Þessi flokkur er svolítið víður en að jafnaði hentar létt og brakandi ferskt hvítvín eins og Grecante í Úmbría á Ítalíu. Það er óeikað en hefur þroskaðan og þykkan ávöxt sem gælir við bragðlaukana. Kostar 1.690 kr. í flestum stærri Vínbúðunum yfir hátíðarnar. 

Fordrykkur: Það er ekki hægt að búa til hátíðarvínlista án freyðivíns. Frizzando frá Sandhofer er aðlaðandi, hálffreyðandi vín sem er unun að drekka fyrir mat – og jafnvel með honum líka. Það kostar 1.790 kr. í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

Eftirréttir: Heilaga sætvínið Vin santo frá Toskana sér til þess að allar máltíðir endi á amen. Það kostar 2.100 kr. á sérlista og fæst í stærstu Vínbúðunum.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, castello di querceto, christian moreau, d'arenberg, flaugergues, hátíðarvín, jól, la spinetta, mas de gourgonnier, matur, sandhofer, vínbúðirnar

Ítalskir kraftaboltar í Morgunblaðinu

.

Ítölsk vín eru í fyrirúmi í grein Steingríms í Morgunblaðinu í dag.

„Kraftaboltar“, nánar tiltekið.

Kannski á hann þó ekki við hvítvínið Vernaccia di San Gimignano 2006 sem verður seint talið meðal kraftabolta og líklegast heldur ekki freyðivínið Francois 1er sem bæði eru frá Castello di Querceto. Heldur er um að ræða enn eitt vínið frá framleiðandanum sem fjallað er um í þessari grein, Chianti Classico Riserva 2003, og sömuleiðis Chianti Classico 2005 frá Fontodi sem eru all vel vaxin vín — kröftug. Ánægðastur, af okkar vínum, er hann með Riservuna og gefur henni 92 stig sem er hörkufín einkunn.

     „Querceto Vernaccia di San Gimignano 2006 er athyglisvert hvítvín frá Toskana. Querceto er þekktast fyrir hin dásamlegu Chianti-vín sín (ekki síst Casetello-vínin) en hér er á ferðinni einfalt, þurrt og þægilegt hvítvín. Peruávöxtur og hvít blóm í einfaldri, nokkuð sýruríkri uppbyggingu. 1.390 krónur. 84/100
     Og fyrst minnst er á Castello-vínið er full ástæða til að kíkja á Riserva-útgáfuna af því: Castello di Querceto Riserva 2003. Flottur, karaktermikill og nær fullþroskaður Chianti Classico í hæsta gæðaflokki. hann er töluvert eikaður og reykur og sviðinn viður renna saman við þurran ávöxtinn, svört og rauð ber. Vínið er tannískt, þykkt og langt, og hefur þessa „aukavídd“ sem bestu Chianti-vínin hafa stundum, þótt árgangurinn sé ekki sá mesti. 2.350 krónur. 92/100
     Það er líka framleitt freyðivín í Querceto-kastala. Francoi 1er Brut er framleitt með kampavínsaðferðinni og slagar hátt í kampavín að gæðum. Það er ávaxtaríkt með geri og nýbökuðu brauðu í nefi. Freyðir vel og þægilega. 1.990 krónur. 88/100 
     Fontodi Chianti Classico 2005 opnar stíft, þurrt og tannískt með dökkum kirsuberjaávexti. Það opnar sig með svörtum trufflum, kaffi, púðursykri og kryddi, fantagott og drykkjarhæft nú þegar en ætti að ná hámarki eftir þrjú ár eða svo. 90/100“ (Mbl. Steingímur, 7.12.2007)

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, dómar, fontodi, morgunblaðið

Vín á tilboði yfir hátíðarnar

.

Eins og vanalega fengum við að tilnefna nokkur vín á sérstakan hátíðarvínlista Vínbúðanna sem gildir til áramóta.

Við tilnefndum 5 reynsluvín og fást þau þá ekki bara í Kringlunni og Heiðrúnu næstu vikurnar heldur líka í Smáralind, Eiðistorgi, Skeifunni, Hafnarfirði og á Akureyri.

Með svolitlum afslætti meira að segja.

Þetta eru vínin, tilboðsverðin og í sviga er matarflokkurinn sem þau þykja henta best með.

Castello di Querceto Chianti Classico Riserva – 2.350 kr. (m. lamba- og nautakjöti)
Arnaldo Caprai Belvedere – 1.590 kr. (m. ljósu kjöti)
Arnaldo Caprai Grecante – 1.690 kr. (m. fiski)
d’Arenberg The Stump Jump rautt – 1.490 kr. (m. ljósu kjöti)
d’Arenberg The Stump Jump hvítt – 1.390 kr. (m. fiski)

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, castello di querceto, d'arenberg, tilboð, vínbúðirnar

Tvær vínsmakkanir í dag

Bloggarinn verður að skenkja í glös við tvö tækifæri í dag.

Hið fyrra er við opnun myndlistarsýningar Kristínar Gunnlaugsdóttur í Turpentine galleríinu í Ingólfsstræti þar sem boðið verður upp á hið skemmtilega Frizzando frá Sandhofer.

Það síðara verður í hléi á tónleikum í Neskirkju undir yfirskriftinni „Vín og ljúfir tónar“. Bloggarinn mun ekki syngja við þetta tilefni. Það munu hins vegar Vernaccia di San Gimignano, Stump JumpBelvedere og Chateau de Flaugergues gera.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, castello di querceto, d'arenberg, flaugergues, myndlist, sandhofer, tónlist, vínsmökkun

Wine Spectator Top 100 2007

.

Wine Spectator var að gefa út Top 100 listann sinn.

Við eigum þrjú vín á listanum, The Hermit Crab 2006, Flaccianello 2004 og Tempier Bandol Migua 2004 sem við höfum reyndar ekki flutt inn þótt við vinnum með framleiðandanum.

Við áttum eitt vín á listanum í fyrra, The Struie 2004 frá Torbreck (lestu bloggið).

Önnur vín sem við eigum og hafa náð nýlega á listann eru t.d.  Chateau de Flaugergues, Bandol frá Tempier (ekki Migua) og Chianti Classico Riserva frá Castello di Querceto (tvisvar).

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, d'arenberg, dómar, flaugergues, tempier, torbreck, wine spectator

Vin santo í Vogue

Þá er það staðfest.

Vin santo (lestu meira um fyrirbærið á blogginu), hið þurrsæta hugleiðsluvín frá Toskana, er orðið hipp og kúl.

Vogue Men var nefnilega að fjalla um það.

Lestu greinina í Vogue Men

Við höfum þrjú Vin santo en ekkert þeirra fæst sem stendur í Vínbújðunum. Það má hins vegar sérpanta þau með því að senda mér línu og arnar@vinogmatur.is. Þau eru Rietine, Fontodi og Castello di Querceto — hið fyrsta þurrast, það næsta sætast og það síðast í miðjunni.

Vin santo eru einhver sjaldgæfustu vín sem fyrirfinnast. Þú heyrðir það ekki frá mér.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, fontodi, rietine

Kjarnavínin okkar — uppfærður listi

.

Við eigum ennþá fimm vín í kjarna Vínbúðanna sem þýðir að þau fást víðar heldur en bara í Heiðrúnu og Kringlunni.

Dreifingin er þó mis mikil. Ég myndi ekki treysta á að þú fyndir þau á Djúpavogi.

Chianti Classico frá Fontodi hefur selst best okkar vína undanfarið en Casal di Serra, eina hvítvínið af þessum fimm, á sér tryggan aðdáendahóp. Annað Chianti Classico frá öðrum framleiðanda, Castello di Querceto, hefur gengið nokkuð vel og síðan eru tvö rauðvín frá hinum stórskemmtilega d’Arenberg, The Footbolt og The Laughing Magpie.

Að öðru leyti fást vínin okkar eingöngu í Heiðrúnu og Kringlunni.

Undantekningin eru stöku sérlistavín (skoðaðu listann) og ákveðin vín sem fá tímabundið aukna dreifingu á þemadögum Vínbúðanna.

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, d'arenberg, fontodi, umani ronchi, vínbúðirnar

Querceto Chianti 2005 í Mogganum

.

Querceto Chianti fær 86 stig í Mogganum um helgina.

„[U]ngur, matvænn Chianti“ segir Steingrímur.

Querceto Chianti 2005 er einfaldur og ódýr Chianti frá hinum stórgóða framleiðanda Castello di Querceto sem er þekktast fyrir Chianti Classico vín sín. Þrúgurnar í þetta vín koma þó ekki nema að hluta frá ekrum fyrirtækisins af ekrum þess í kringum Greve og hlýtur því hina einfaldari skilgreiningu „Chianti“ án viðbótarinnar „Classico“. Þetta er ungur, matvænn Chianti með kirsuberjum, smá glussa og kryddi í nefi. Ágætlega sýrumikið og mjúkt í munni. 1.390 krónur. 86/100.“ (Mbl.)

Vitlaust mynd birtist í greininni, í staðinn fyrir Chianti er mynd af Chianti Classico víni framleiðandans Castello di Querceto.

Querceto Chianti 2005 kostar 1.390 kr. og fæst í Heiðrúnu og Kringlunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, dómar, morgunblaðið

Uppskrift – Sítrónukjúklingur með pönnusteiktum kúrbít

Ítalskar uppskriftabækur eru oft mis-„ítalskar“ þegar rýnt er í kjölinn en bókin Florence frá Williams Sonoma fyrirtækinu í Bandaríkjunum er mjög ekta. Hún fjallar um matargerð í Flórens með tilheyrandi uppskriftum og flottum myndum.

Mælum með henni.

Elduðum hinn ítalska rétt sítrónukjúkling um helgina og bárum fram með kúrbítssalatinu hér fyrir neðan. Við höfum einhvern tímann eldað sítrónukjúlla áður en hann var frekar dauflegur. Þessi heppnaðist hins vegar vel og held ég að þetta sé einhver besti heimalagaði kjúlli sem við höfum eldað og því ástæða til að blása þessa uppskrift upp hér á netinu.

Sítrónukjúklingur – Pollo arrosto al limone:

1 heill kjúklingur
2 msk olífuolía
salt og pipar
2 sítrónur

Ferskur kjúlli er fylltur með tveimur heilum sítrónum (notuðum límónur), makaður með ólífuolíu og saltaður og pipraður. Settur í eldfast mót sem hefur verið létt ólífuolíuborið og inn í 170°C ofn í klukkutíma og korter. Þegar soðið fer að drjúpa má moka því yfir kjúllann til að fá fallegri áferð en við slepptum því svo sem. Kjúllinn síðan tekinn út og soðið sett í lítinn pott ásamt 3 matskeiðum af vatni. Sítrónur skornar í tvennt og kreistar út í (varúð! – þær eru sjóðandi heitar og springa auðveldlega). Soðið í 2 mínútur þar til sósan þykknar aðeins. Hellt yfir kjúllann eða hann fyrst skorinn niður og síðan hellt yfir og borinn fram.

Við bárum sítrónukjúklinginn fram með öðrum rétti sem finnst í þessari ágætu bók, pönnusteiktum kúrbít. Átti vel saman.

Pönnusteiktur kúrbítur – Zucchini trifolati

1 stór kúrbítur eða 2 litlir
1 desílíter olífuolía
2 söxuð hvítlauksrif
2 msk söxuð steinselja
salt og pipar

Ólífuolían hituð á pönnu við meðahita og hvítlaukurinn settur út í í svona 2 mínútur (gætið að brenna ekki). Kúrbítur skorinn í teninga og settur á pönnuna í 15-20 mínútur. Þegar hann er tilbúinn er steinselju bætt út í og rétturinn borinn fram. Létt saltað og piprað.

Drukkum með hvítvínið Grecante frá Arnaldo Caprai en rauðvín eins og Chianti Classico frá Castello di Querceto væri líka gott.

Notið eingöngu extra vergine ólífuolíu – t.d. Fontodi sem fæst í Fylgifiskum Suðurlandsbraut eða Caprai sem fæst í Kokku á Laugaveginum.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, castello di querceto, fontodi, matur, uppskrift

CDQ fær 5 stjörnur í Decanter — þrisvar sinnum

.

Allt er þá er þrennt er.

Castello di Querceto gerir það gott í ágúst-hefti Decanter.

Þrjú vín fá fullt hús stiga, 5 stjörnur.

Ég man ekki eftir því að svo mörg vín frá einum og sama framleiðandanum hafi náð hæstu einkunn í sama Decanter blaðinu.

Ég bíð nú spenntur eftir að fá blaðið sent í pósti. Kýldi á ársáskrift í leiðinni.

Vínin þrjú sem fengu fimmstyrnið eru Chianti Classico 2005 (fæst núna í Vínbúðunum), Chianti Classico Riserva 2003 (fæst aftur í haust) og Chianti Classico Il Picchio Riserva 2003.

Ég er forvitinn að lesa hversu mörg önnur vín frá Toskana fá hæstu einkunn því ég geri ráð fyrir að hlutur Castello di Querceto sé ansi feitur.

Smelltu hér til að lesa dómana í fullri lengd á vefsíðu Castello di Querceto.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, dómar, decanter

Heimsókn frá Castello di Querceto gekk vel

.

Þá eru Alessandro og Antonietta frá Castello di Queceto flogin heim í kastalann sinn.

Heimsóknin gekk afskaplega vel og voru hjónin hin ánægðustu. Þau komu í mat til okkar á fimmtudagskvöldið og grillaði ég m.a. humar og hrefnu sem fór vel ofan í mannskapinn. Eitthvað var drukkið af góðu víni og grappatár að sjálfsögðu að lokum. Dominique var líka með okkur, hún var ansi dugleg að safna góðum mannskap í vínsmakkið.

Hjónin skelltu sér í rútuferðir á gullna hringinn og Snæfellsnes og borðuðu vel á veitingahúsum borgarinnar.

Vínsmakkið á La Primavera á laugardeginum heppnaðist síðan mjög vel. 30 manns mættu sem er metþátttaka og það á einum besta sólardegi sumarsins. Það var létt yfir þessu og góður andi sem þakka má fyrst og fremst góðum hópi gesta.

Á sunnudeginum var farið í Bláa lónið — sem var reyndar grænt — og snarlað í hádeginu.

Hér má kíkja á myndir frá heimsókninni

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, la primavera, vínskólinn, vínsmökkun

Heimsókn frá Castello di Querceto — Vínsmökkun á La Primavera

.

Alessandro og Antonietta, eigendur Castello di Querceto í Chianti Classico í Toskana, koma í heimsókn til Íslands í lok júní.

Við blásum til vínsmökkunar með þeim ljúfu hjónum á La Primavera laugardaginn 30. júní kl. 14.00.

8 tegundir verða smakkaðar og verða vínin sem fyrr borin fram með léttu nasli að hætti Leifs og Jónínu á La Primavera — í anda Toskana héraðsins.

Þáttökugjald er 3.500 kr.

Sendu okkur línu á vinogmatur@vinogmatur.is til að láta taka frá sæti.

Hlökkum til að sjá þig!

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, la primavera, vínsmökkun

Ný íslensk bloggsíða sem fjallar um vínin í Vínbúðunum

.

Steinar Þór Guðlaugsson fjallar um vínin í Vínbúðunum á nýrri bloggsíðu sinni.

Ég rakst á það rétt í þessu þegar ég var að þvælast eitthvað inni á Mbl.is og líst mjög vel á.

Meðal fyrstu færslanna eru þrjár vandaðar lýsingar um vín frá okkur og ekki spillir fyrir hversu jákvæðar þær eru í þeirra garð.

Lestu hvað Steinar Þór segir um The Hermit Crab 2004 frá d’Arenberg, Chianti Classico 2005 frá Castello di Querceto og Terre d’Argence 2004 frá Chateau Mourgues du Gres.

Færðu inn athugasemd

Filed under blogg, castello di querceto, d'arenberg, dómar, mourgues du gres, vín, vínbúðirnar

Ítalskir dagar – tvö vín á tilboði

.

Í Vínbúðunum standa nú yfir ítalskir dagar.

Við erum með tvö vín á afslætti í Vínbúðunum á meðan á dögunum stendur út maí, Vitiano hvítvínið kostar 1.490 kr. í stað 1.590 og Querceto Chianti kostar 1.290 kr. í stað 1.390.

Vitiano hvítvínið var að fá þessa fínu umfjöllun í Morgunblaðinu á föstudaginn auk þess að vera valið Bestu Kaupin nýlega í Gestgjafanum.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, falesco, tilboð, vínbúðirnar