Category Archives: Chateau du Lascaux

Wine Spectator Top 100 2010 — Flaccianello trompast aftur

ws100Bandaríska víntímaritið Wine Spectator var að gefa út hinn árlega TOP 100 lista yfir vín ársins 2010.

Listinn er ekki skipaður 100 einkunnahæstu eða „bestu“ vínum ársins heldur eru þáttaðir inn hlutir eins og verð og aðgengi víns.

M.ö.o. listi yfir framúrskarandi vín að mati blaðsins, hvernig sem á það er litið.

Í fyrra var eitt af okkar vínum í svokölluðum Top 10 hluta listans, Flaccianello 2006 frá Fontodi. Þær 120 flöskur sem við fengum af þessu víni voru fljótar að fara en eingöngu var hægt að kaupa það með sérpöntun í gegnum ÁTVR (þeas. vínið fékkst ekki í hillum Vínbúðanna).

Nú hefur hið merkilega gerst að 2007 árgangur af Flaccianello nær líka inn á listann í ár en ekki hefur það gerst oft að sama vínið geri það tvö ár í röð. Reyndar er þetta í þriðja sinn sem Flaccianello kemst á Top 10 listan tímaritsins síðasta áratug sem er einstakt. 2007 árgangur kemur hingað til lands á næsta ári.

Til hamingju Giovanni Manetti og fjölskylda!

Við eigum reyndar fleiri vín á Top 100 listanum eða framleiðendur sem við flytjum inn eða höfum flutt inn. Fyrir utan Flaccianello 2007, sem er í 8. sæti listans, má finna Chateau Flaugergues Cuvee Sommeliere 2007 í 50. sæti, Christian Moreau Chablis Les Clos 2008 í 59. sæti, d’Arenberg The Stump Jump 2008 í 63. sæti, Chateau de Lascaux Languedoc 2008 í 85. sæti, Chateau Saint Cosme Cotes de Rhone 2008 í 88. sæti og Domaine Tempier Bandol Rose 2009 í 99. sæti.

3 athugasemdir

Filed under Chateau du Lascaux, christian moreau, d'arenberg, fontodi, saint cosme, tempier, verðlaun/viðurkenningar, wine spectator

Lascaux 2004 er Smart Buy í nýjasta Wine Spectator

Febrúarhefti Wine Spectator víntímaritsins kemur út innan skamms.

Þar fær Chateau du Lascaux 2004 89 stig og titilinn „Smart Buy“.

Við flytjum líka inn hið mjög svo góða Pic Saint Loup 2003 frá sama framleiðanda. Það eru jafnvel enn smartari kaup því aðeins 150 krónur skilja vínin að í verði (1.600 vs. 1.750 kr.) en munurinn er meiri að gæðum. Pic Saint Loup er bæði bragðfyllra og heilsteyptara vín.

Bæði vínin eru óeikuð, þroskuð í sementstönkum til að viðhalda spriklandi karakter frekar en löðra hann í eik.

Mmmm… best að taka eina Lascaux 2004 upp í kveld, þ.e.a.s. núna. Er reyndar djúpsteiktur smokkfiskur í matinn og brakandi hvítvín hentaði kannski betur enda Lascaux þurrt í munni þótt það sé aðeins sætt í nefi. En það er 7 stiga gaddur úti og manni veitir ekki af allri þeirri hlýju sem næst í.

CHATEAU DU LASCAUX COTEAUX DU LANGUEDOC 200489/100 „Smart Buy“
There’s an intense rush of bright cherry and berry flavors in this crisp, well-structured, medium-bodied red. Asian spice and iron notes are well-focused on the tight, tannic finish. Drink now through 2010.“ (Wine Spectator) 

[… var að ljúka matnum og passaði vínið mun betur með smokkfisknum en ég hafði reiknað með, eiginlega smellpassaði það en þó mæli ég með því svölu, svona 13-14°C. Rauðvín eins og þetta er greinilega upplagt með svona feitum fiskrétti, það klýfur fituna og heldur máltíðinni ferskri …]

4 athugasemdir

Filed under Chateau du Lascaux, dómar, verðlaun/viðurkenningar, wine spectator

Gestgjafinn fjallar um Pic Saint Loup 2004 og Orobio Rioja 2004

.

Í jólablaði Gestgjafans er að finna tvö vín frá okkur sem bæði fá 3 1/2 glas.

Í útskýringu á einkunnagjöf liggur þessi einkunn á milli þeirrar sem kallast „Gott“ (þ.e. 3 glös) og „Mjög gott“ (þ.e. 4 glös) en kallast sjálf „Ágætt, vantar herslumuninn“ (þ.e. 3 1/2 glas). Þessi útskýring „vantar“ finnst mér svolítið neikvæð. 3 1/2 glas er góð einkunn og vín sem hana fá þarf ekki að líta á að „vanti“ eitthvað sérstaklega upp á. Vanti upp á hvað?  Sum vín ná fullkomnun á sinn hátt, fyrir sitt svæði og verðflokk og vantar því alls ekki neitt upp á neitt þótt þau verðskuldi ekki hærri einkunn en 3 1/2 glas. Þessi neikvæða útskýring rýrir þennan annars ágæta einkunnaflokk.

Svona lítur þetta út í Gestgjafanum:

5 – „Framúrskarandi“
4 1/2 – „Frábært“
4 – „Mjög gott“
3 1/2 – „Ágætt, vantar herslumuninn“
3 – „Gott“
2 – „Sæmilegt“

Ég sting upp á þessu:

5 – „Einstakt“
4 1/2 – „Framúrskarandi“
4 – „Frábært“
3 1/2 – „Mjög gott“
3 – „Gott“
2 – „Sæmilegt“

Eða þessu:

5 – „Í stuði með guði“
4 1/2 – „Gekt gott, sko, ég meina’ða“
4 – „Mjög gott fyrir kynlífið“
3 1/2 – „All gott, mjög áhugavert, fallegur miði“
3 – „Jú jú, bara fínt, en hvað er þetta á botninum?“
2 – „Kassavín“
1 – „Þetta er eins og lýsi“

Hér er svo umfjöllunin um vínin tvö:

CHATEAU LASCAUX PIC SAINT LOUP 20043 1/2 glas
Frakkar í suðri hafa verið að sækja í sig veðrið, eftir nokkurra ára lægð, og hafa ólátabelgirnir í Languedoc gert mjög góða hluti. Þetta vín er gott dæmi um það. Ferskur ávöxtur, fjólur, krydd og lítillát eik í nefi sem skapar mjög aðlaðandi heild. Í munni er áferðin létt með þægileg tannín og góðan ávöxt (svolítið falinn) og vottar fyrir beiskju í eftirbragðinu. Þetta er vín sem er enn of ungt og má alveg geyma það í u.þ.b. 2 ár í viðbót. Ætti að fara mjög vel með grilluðu kjöti og ragout.
Verð 1.750 kr. – Góð kaup.
Okkar álit: Vel gert vín, fágað og fíngert. Það þarf að umhella því eða geyma það til að það njóti sín til fulls. Mjög aðlaðandi og margslungið – hörkumatarvín

OROBIO 20043 1/2
Það er alltaf gaman þegar framleiðendur, eins og Artadi, taka upp á því að brjóta upp hefðir og gera óhefðbundin Rioja-vín eins og þetta. Fullt af sólberjum í ilmi ásamt eukalyptus, kryddi, ferskleika og sætuvotti. Ekki beint hinn hefðbundni Spánverji úr tempranillo. Það er ferskt og milt í munni með vott af sólberjum, kirsuberjum og pipar; góð fylling. Sniðugt vín fyrir forvitna og reyndar ljómandi gott fyrir alla hina lílka. Prófið þetta með tapaskjötréttum.
Verð 1.600 kr. – Góð kaup.
Okkar álit: Skemmtilegt dæmi um mjög óvanalegt vín frá Rioja. Ekki kaupa það sem Rioja-vín, heldur nýmóðins Spánverja og það kemur ykkur á óvart. “ (Gestjafinn, 12. tbl. 2006)

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, Chateau du Lascaux, dómar, Gestgjafinn, vangaveltur

Fleiri suður-frönsk í Morgunblaðinu

Steingrímur gaf fjórum rauðvínum frá Chateau de Lascaux og Domaine d’Aupilhac fína dóma í Tímariti Morgunblaðinsins síðastliðinn sunnudag.

     „Suður-frönsk vín hafa verið nokkuð fyrirferðarmikil undanfarið. Enda ekki nema von. Eftir að hafa verið nær ósýnileg á íslenska markaðnum um langt skeið streyma inn spennandi vín frá bestu framleiðendum frönsku Miðjarðarhafssvæðanna. Suðursvæðin eru hvað mest spennandi víngerðarsvæði Frakklands í dag þar sem framsæknir framleiðendur hafa margir hverjir brett upp ermarnar og bjóða Nýjaheimsvínunum birginn á heimavelli — þ.e. með framleiðslu sólbakaðra vína á hagstæðu verði. Þau vín sem hér eru til umfjöllunar eru þó í dýrari kantinum enda um að ræða toppvín frá toppframleiðendum, sem framleidd eru í takmörkuðu magni.
     CHATEAU DE LASCAUX PIC SAINT-LOUP 2004 er skemmtilegt vín frá Suður-Frakklandi. Pic Saint Loup er með betri svæðum Languedoc þótt það sé ekki stórt, það nær til einna 13 þorpa en einungis 22 framleiðendur og þrjú vínsamlög framleiða undir Pic Saint-Loup nafninu. Jarðvegurinn er ríkur af kalksteini og ekrur Pic Saint-Loup eru nokku hátt yfir sjávarmáli, sem temprar af Miðjarðarhafsloftslagið. Lascaux er vínhús sem hefur yfir að ráða um 35 hektörum og er í eigu Jean-Benoit Cavalier. Rabarbarasulta, rifsber, sólber og sprittlegnar rúsínur (vínið er 14%) ásamt vanillu úr eik, syrah-þrúgan algjörlega ríkjandi í nefinu, ávöxturinn sætur og þægilegur í munni ásamt mildum tannínum og þægilegum kryddkeim. Langt í lokin. 1750 krónur. 18/20
     Annað vín frá sama framleiðanda er CHATEAU DE LASCAUX COTEAUX DU LANGUEDOC 2004. Sæt ber, krækiber, bláber, sólber í áfengum, sætum hjúp. Ágæt lengd og þéttleiki í munni, ávöxturinn sætur og þægilegur. 1.600 krónur. 17/20
     DOMAINE D’AUPILHAC 2003 er rauðvín frá Montpeyroux-svæðinu í héraðinu Coteaux du Languedoc í Suður-Frakklandi. Montpeyroux hefur ekki enn eigin „appelation“ innan Languedoc en helstu framleiðendur svæðisins heyja hetjulega baráttu fyrir því með Sylvain Fadat, eiganda Domaine d’Aupilhac, í fararbroddi. Þetta er rauðvín úr einum fimm Miðjarðarhafsþrúgum (Mourvédre, Carignan, Syrah, Cinsault og Grenache). Sólbökuð rauð og svört ber í nefi, heit og krydduð, allt að því sultuð með vott af karamellu og sveskjum. Kryddmikið og langt í munni og þar kemur líka dýpt vínsins fyllilega í ljós. Ávöxturinn þéttur og að því er virðist endalaus í bragðinu. 2.200 krónur. 18/20
     DOMAINE D’AUPILHAC LOU MASET 2004 er blanda úr sömu þrúgum nema Mourvédre sem átti 30% í fyrra víninu. Heitur ávöxtur með ríkjandi svörtum berjum, bjartur og aðgengilegur með góðri lengd í munni. 1.600 krónur. 17/20“ (Tímarit Morgunblaðsins 30.07.2006, Steingrímur Sigurgeirsson)

Færðu inn athugasemd

Filed under aupilhac, Chateau du Lascaux, dómar, frakkland, morgunblaðið

Þrír veitingastaðir í London: St. John, Matsuri og Zafferano

Í vor fórum við Rakel til London. Tilefnið var 10 ára brúðkaupsafmæli okkar. Við pöntuðum tvo veitingastaði fyrirfram, St. John í kvöldmat á föstudeginum og Zafferano í hádegi á sunnudeginum.

St. John er sérstakur veitingastaður, vægast sagt. Hvítur í hólf og gólf, eins og skurðstofa. Maturinn einfaldur og sveitalegur en vandaður á þann hátt sem hefur skotið staðnum á top 50 lista fyrir bestu veitingastaði veraldar að mati Restaurant Magazine. Hvort hann verðskuldi slíka tign læt ég ósagt en góður var hann og andrúmsloftið óþvingað og skemmtilegt. Hrár og lifandi staður. Við fengum okkur beinamerginn þeirra fræga, steikt svínseyru í fíflasalati, dúfu, sardínur o.fl. og drukkum með því hálfflösku af hvítvíninu frá Chateau Lascaux í Languedoc og síðar sitthvort glasið af betra hvítvíni sama framleiðanda. Við flytjum inn Lascaux (byrjar 1. júlí) og þegar ég sagði Stephan hjá Lascaux frá ferð okkar á staðinn sagði hann mér að hjá þeim væri í vinnslu nýtt rauðvín sem yrði vín hússins á St. John. Við mælum hiklaust með þessum frábæra stað og líka vínbarnum hinum megin við götuna fyrir fordrykk eða eftirdrykk. Á St. John er líka bakarí og flottur bar og annars staðar í borginni reka þeir annan veitingastað og vínbúð en öll vínin á vínlistanum má kaupa til að taka með sér á vínbúðarverði. Reikningurinn fyrir tvo var um 110 pund sem er mjög gott.

Myndir af St. John málsverðinum á flick.com

Laugardskvöldið höfðum við engan stað pantaðan fyrirfram og reyndist það þrautinni þyngri að fá borð. Rakel var í sushi-stuði og allir betri japanskir veitingastaðir virtust cupppantaðir. Concierge-inn á hótelinu fann borð á japönskum stað sem hann mælti með, Matsuri á High Holborn, og var hann afbragðsgóður. Frekar dýr. Mæli með djúpsteiktu grænmeti. Hvernig ná þeir grænmetinu svona fersku þótt búið sé að rúlla því upp úr raspi og síðan djúpsteikja?

Zafferano var Michelin-stjörnu staður ferðarinnar. Ítalskur, rétt við Harvey Nichols. Við vorum ekkert of svöng og pöntuðum bara tvo rétti. Ég fékk mér tómatasúpu með hráum túnfiski og síðan einfalt gnocchi með tómatsósu, klettasalati. Gnocchi-ið mitt var t.d. týpísk ítölsk matreiðsla, bara ótrúlega góð.  Þjónustan í sérflokki, þjónn á hverju strái, en ekki þvinguð og umgjörðin öll í háum klassa. Einhver besti espresso í bænum og glasið af Haaz Pinot Grigio var gott.

Allt veitingastaðir sem hægt er að mæla með. Reikningurinn var svipaður á þeim öllum, liðlega 100-120 pund fyrir tvo en taka verður í reikninginn að við Rakel fórum frekar pena leið í gegnum staðina þrjá. Zafferano býður upp á mesta spreðið enda vínlistinn einstaklega flottur með rauðvínið okkar Falesco Vitiano sem eitt af húsvínunum.

Færðu inn athugasemd

Filed under Chateau du Lascaux, falesco, london, veitingastaðir, zafferano