Category Archives: chianti classico

Tom Cannavan fjallar um Chianti Classico framleiðendur

Gleðilega páska!

Það er við hæfi að fjalla í dag um rauðvín sem eru svo góð með lambakjöti, páskalambinu.

Reyndar látum við sjálf það eiga sig (það eru nú páskar) en gefum í staðinn Tom Cannavan, breska vínspekúlantinum, orðið.

Bloggarinn skoðar reglulega vefinn hans Tom www.wine-pages.com og þar er ný umfjöllun um Chianti Classico framleiðendur.

Lestu greinina hans Tom Cannavan

Það er skemmtilegt að tveir fyrstu Chianti Classico framleiðendurnir í röðinni eru einmitt okkar menn, Fontodi og Castello di Querceto. Hægt er að lesa jafnframt dóma um nokkur vína þeirra og eru þeir góðir, á bilinu 88 til 95 stig fyrir Fontodi vínin og 86 til 92 fyrir Querceto.

Chianti Classico svæðið er endalaust fallegt eins og myndin hér fyrir ofan sýnir, ekki amalegt að búa í því miðju og framleiða vín sér og öðrum til ánægju.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, dómar, fontodi

Vínkeðjan: „Stíft og snarpt“ — Sigurður Elvar bloggar um Chianti Classico frá Castello di Querceto

Vínkeðjan rataði á dögunum til mannsins með „lyktarskynið eins og íslenska bankakerfið.“, Sigurðs Elvars Þórólfssonar.

Sigurður bloggar um Chianti Classico 2007 frá Castello di Querceto og líkir því við sportbíl.

Kannski rauðan Ferrari?

Lestu bloggið hans Sigurðs um Chianti Classico 2007 frá Castello di Querceto

Okkur finnst sú líking hitta naglann á höfuðið. Hún fangar karakter vínsins betur en einhver analísa og upptalning á berjum og öðrum lífrænum eða ólífrænum eiginleikum sem finna mætti í víninu.

Þessi árgangur, 2007,  er nefnilega alveg nýr og vínið því ungt og ennþá svolítið „stíft og snarpt“ eins og Sigurður orðar það. Við mæltum því með umhellingu sem Sigurður fór samkviskusamlega eftir, til að leyfa því aðeins að opna sig. Þetta vín er svolítið eins og sportbílll eða flygill beint úr kassanum, á aðeins eftir að keyra og spila það til.

Eftir nokkra mánuði verður það tilbúnara. Eftir 1-2 ár fer það virkilega að blómstra.

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, chianti classico, dómar, vínkeðjan

Vín og matur: Vín með lambakjöti

Vín með lambalæri, vín með lambakótilettum, vín með lambalundum, vín með lambahrygg. Það skiptir ekki öllu máli hvaðan af lambinu kjötið er, vínið sem fer best með því er meira eða minna það sama.

Á þessu heimili er lambakjötið nefnilega alltaf meðhöndlað eins einfaldlega og mögulegt er, salt og pipar, í mesta lagi einhver fersk krydd til að nudda á kjötið, og nánast aldrei nein sósa. Íslenska lambakjötið er eiginlega of gott þegar það er upp á sitt besta til að vera að drekkja því í sósu. Maður vill að lambakjötið njóti sín, annars gæti maður alveg eins verið að nota soja“kjöt“. Þetta berum við svo gjarnan fram með fersku salati eða einhverju léttbrösuðu eins og pönnusteiktum gulrótum, sveppum og þess háttar. Það má alveg vera frumlegur í meðlætinu ef það skyggir ekki á aðalleikarann.

Lambakjötið er tiltölulega opið fyrir ýmsum gerðum vína, jafnvel sumum hvítvínum, en það er eitt svæði í veröldinni sem gerir rauðvín sem virðast fædd til þess að drekka með góðu lambakjöti.

Þessi vín heita einu nafni Chianti Classico eftir samnefndu svæði innan Toskana héraðsins á Ítalíu sem einu sinni hét bara Chianti en heitir í dag Chianti Classico, sem þýðir „hið upprunalega Chianti“. Hið upprunalega Chianti liggur á milli borganna Flórens og Siena. Aðeins rauðvín frá því svæði fá að kalla sig Chianti Classico en allt í kring fyrir utan það eru einnig framleidd Chianti vín ýmis konar sem þó fá ekki að kalla sig „Classico“.

Fyrir okkur eru Chianti Classico vínin hin erkitýpísku ítölsku rauðvín sem við unnum svo mikið. Þar liggur ástríða okkar fyrir vínum einna dýpst. Þegar best lætur finnur maður í þeim ilminn af sveitinni í Toskana og þau verða aldrei of þung heldur eru sígild matarvín. Það er eitthvað sem gerist þegar þessi vín eru pöruð með lambakjöti sem eldað hefur verið á þennan einfalda hátt sem lýst er hér fyrir ofan. Bæði lambakjötið og rauðvínið eru í essinu sínu.

Við höfum sannreynt þetta á öllum okkar Chianti Classico vínum. Þau sem eru fáanleg í Vínbúðunum sem stendur eru frá tveimur framleiðendum sem eru í u.þ.b. 15 mínútna fjarlægð hver frá öðrum. Fontodi gerir eingöngu lífræn vín og stundar sjálfsþurftarbúskap, Fontodi Chianti Classico er fágunin ein með lifandi karakter sem flytur okkur í einni svipan til þessa hjarta Ítalíu. Eikarkastalinn, Castello di Querceto, framleiðir breiða línu vína með sínum einkennandi stílhreina hússtíl sem við erum svo heilluð af. Castello di Querceto Chianti Classico gengur jafnvel enn lengra en nafni þess frá Fontodi í að fanga anda sveitarinnar og hefur léttari áferð á meðan stóri bróðir Castello di Querceto Chianti Classico Riserva er öllu meira og þykkara með burði til að standa í hárinu á nautasteikum sem lambasteikum.

Niðurstaða: við mælum með Chianti Classico rauðvínum með íslensku lambakjöti

Lokaorð: allir segi „mmmmmmeeee……“

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, fontodi, matur

Querceto Chianti 2005 í Mogganum

.

Querceto Chianti fær 86 stig í Mogganum um helgina.

„[U]ngur, matvænn Chianti“ segir Steingrímur.

Querceto Chianti 2005 er einfaldur og ódýr Chianti frá hinum stórgóða framleiðanda Castello di Querceto sem er þekktast fyrir Chianti Classico vín sín. Þrúgurnar í þetta vín koma þó ekki nema að hluta frá ekrum fyrirtækisins af ekrum þess í kringum Greve og hlýtur því hina einfaldari skilgreiningu „Chianti“ án viðbótarinnar „Classico“. Þetta er ungur, matvænn Chianti með kirsuberjum, smá glussa og kryddi í nefi. Ágætlega sýrumikið og mjúkt í munni. 1.390 krónur. 86/100.“ (Mbl.)

Vitlaust mynd birtist í greininni, í staðinn fyrir Chianti er mynd af Chianti Classico víni framleiðandans Castello di Querceto.

Querceto Chianti 2005 kostar 1.390 kr. og fæst í Heiðrúnu og Kringlunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, dómar, morgunblaðið

Heimsókn frá Castello di Querceto gekk vel

.

Þá eru Alessandro og Antonietta frá Castello di Queceto flogin heim í kastalann sinn.

Heimsóknin gekk afskaplega vel og voru hjónin hin ánægðustu. Þau komu í mat til okkar á fimmtudagskvöldið og grillaði ég m.a. humar og hrefnu sem fór vel ofan í mannskapinn. Eitthvað var drukkið af góðu víni og grappatár að sjálfsögðu að lokum. Dominique var líka með okkur, hún var ansi dugleg að safna góðum mannskap í vínsmakkið.

Hjónin skelltu sér í rútuferðir á gullna hringinn og Snæfellsnes og borðuðu vel á veitingahúsum borgarinnar.

Vínsmakkið á La Primavera á laugardeginum heppnaðist síðan mjög vel. 30 manns mættu sem er metþátttaka og það á einum besta sólardegi sumarsins. Það var létt yfir þessu og góður andi sem þakka má fyrst og fremst góðum hópi gesta.

Á sunnudeginum var farið í Bláa lónið — sem var reyndar grænt — og snarlað í hádeginu.

Hér má kíkja á myndir frá heimsókninni

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, la primavera, vínskólinn, vínsmökkun

Heimsókn frá Castello di Querceto — Vínsmökkun á La Primavera

.

Alessandro og Antonietta, eigendur Castello di Querceto í Chianti Classico í Toskana, koma í heimsókn til Íslands í lok júní.

Við blásum til vínsmökkunar með þeim ljúfu hjónum á La Primavera laugardaginn 30. júní kl. 14.00.

8 tegundir verða smakkaðar og verða vínin sem fyrr borin fram með léttu nasli að hætti Leifs og Jónínu á La Primavera — í anda Toskana héraðsins.

Þáttökugjald er 3.500 kr.

Sendu okkur línu á vinogmatur@vinogmatur.is til að láta taka frá sæti.

Hlökkum til að sjá þig!

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, la primavera, vínsmökkun

Vínin okkar eru nú fáanleg á Vínbarnum

.

Loksins, verð ég að segja. Loksins eru vín frá okkur fáanleg á Vínbarnum.

Það hefur vakið lengi fyrir að setjast niður með Gunna Palla, eiganda Vínbarnsins, og ræða möguleikann á samstarfi en einhverra hluta vegna hafði ég ekki tekið af skarið og komið á fundi þar til núna í síðustu viku. Ástæðan er líklegast einfaldlega sú að ég er ekki þessi sölumaður.

Gunni Palli tók mér fádæma vel. Það kom mér á óvart hversu mörg vínanna hann hafði þegar prófað hérlendis eða erlendis. Hann er sannur vínkall hann Gunni Palli.

Eitt það skemmtilegasta við Vínbarinn, eins og alla góða vínbari, er að þar eru engir tveir dagar eins. Það er alltaf eitthvað nýtt í boði, stundum bara ein flaska af hinu eða þessu, jafnvel einhverju sem Gunni Palli hefur sjálfur keypt á ferðalagi í útlöndum, eða einhverju öldruðu eðalvíni. Ekki minnkar úrvalið við tilkomu Enomatic vélarinnar. Vínbarir eru einhver besta og skemmtilegast leið sem til er til þess að kynnast vínum og prófa sig áfram. Ekki velja alltaf það sem þú þekkir!

Gunni Palli valdi 13 ólíkar tegundir frá okkur. Af þeim eru 5 vín sem eingöngu fást á Vínbarnum sem stendur.

Ég mæli sérstaklega með glasi af hinu fágæta, þýska sætvíni Auslese 2002 frá Weingut Keller sem er í miklu uppáhaldi hjá þýsku vínútgáfunni Gault Milleau — og mér. Nú eða lögg af ástralska ofurboltanum Hillside Shiraz 2002 frá Kay Brothers sem fær 95 stig hjá Robert Parker

Þetta eru vínin 13:

Hvítvín:
Falesco Vitiano Bianco 2005
Umani Ronchi Casal di Serra 2005
Appiano Pinot Bianco 2004
Rauðvín:
Falesco Vitiano Rosso 2005
Umani Ronchi Jorio 2001

Fontodi Chianti Classico 2003
Sandrone Dolcetto d’Alba 2004
Casa de la Ermita 2001
Laderas de El Seque 2005
Artadi Vinas de Gain 2003

d’Arenberg The Custodian 2002
Kay Brothers Hillside Shiraz 2002
Sætvín:
Weingut Keller Auslese 2002

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, artadi, chianti classico, d'arenberg, El Seque, falesco, fontodi, kay brothers, keller, luciano sandrone, umani ronchi, vínbar, vínlisti, veitingastaðir